Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Evrópskir bændur hafa margsinnis lýst andúð sinni á stjórn landbúnaðarmála innan ESB og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar CAP. Niðurlagning átatuga gamals kvótakerfis í mjólkurframleiðslu olli offramleiðslu og verðlækkunum  á mjólk sem vakti sérstaka reiði bænda sem helltu niður mjólk víða um Evrópu. Vandræðagangur ESB við að aðstoða bændur eftir að Rússar settu innflutningsbann á landbúnaðarafurðir bættu svo ekki skap bænda.
Evrópskir bændur hafa margsinnis lýst andúð sinni á stjórn landbúnaðarmála innan ESB og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar CAP. Niðurlagning átatuga gamals kvótakerfis í mjólkurframleiðslu olli offramleiðslu og verðlækkunum á mjólk sem vakti sérstaka reiði bænda sem helltu niður mjólk víða um Evrópu. Vandræðagangur ESB við að aðstoða bændur eftir að Rússar settu innflutningsbann á landbúnaðarafurðir bættu svo ekki skap bænda.
Fréttaskýring 27. september 2021

Gagnrýni á ESB fyrir ómarkvissa aðstoð við bændur í kjölfar innflutningsbanns Rússa

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Evrópusambandið gerði víðtækar ráðstafanir til að styðja við bændur við truflanir sem urðu á mjólkurmarkaði á árunum 2014-2016. Viðbrögð ESB við banni Rússa á innflutningi á mjólkurvörum voru skjót í kjölfar viðskiptabanns sem ESB og NATO ríki settu á Rússa vegna yfirtöku Rússa á Krímskaga. Viðbrögðin hafa hins vegar reynst vera ómarkviss.

Raunverulegar þarfir framleiðenda voru ekki metnar nægilega vel og aðstoð ekki veitt nægilega markvisst, að því er fram kemur í ­skýrslu Endurskoðunardómstóls Evrópu (European Court of Auditors - ECA) sem greint var frá fyrir skömmu á vefsíðu eureporter.

Vandinn hófst með niðurlagningu 30 ára kvótakerfis í mjólkurframleiðslu

Vandinn í ESB var í raun tvíþættur. Í fyrsta lagi varð gríðarleg offramleiðsla á mjólkurafurðum þegar kvótakerfi í mjólkurframleiðslu var endanlega aflagt 2015. Varað hafði verið við því að offramleiðsla yrði einmitt afleiðingin af því að leggja niður kvótakerfið sem verið hafði við lýði síðan 1984. Á það var ekki hlustað af hálfu stjórnvalda í Brussel. Kerfinu var komið á fót 2. apríl 1984 og var einmitt ætlað að sporna við offramleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum.

Byrjað var að draga kvótakerfið saman árið 2009 og síðan var það endanlega aflagt 2015. Þetta hafði gríðarleg áhrif í megin mjólkurframleiðslulöndunum innan ESB, þ.e. í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Póllandi, Ítalíu og á Írlandi. Bændur höfðu uppi hávær mótmæli, en án árangurs.

Viðskiptabann ESB og innflutningsbann Rússa virkaði sem olía á eld

Eftir að Evrópusambandið með stuðningi NATO-ríkja setti viðskiptabann á Rússa í kjölfar átaka í Úkraínu og yfirtöku Rússa á Krímskaga, settu Rússar innflutningsbann á evrópskar landbúnaðarvörur í ágúst 2014. Þetta bann hafði þau áhrif að landbúnaðarvörur fóru að hlaðast upp í Evrópu. Kom það ofan í áhrif vegna aukinnar mjólkurframleiðslu vegna niðurlagningar á mjólkurkvótakerfinu í ESB ríkjunum. Virkaði þetta sem olía á eld og varð veldisvöxtur í vanda evrópskra bænda sem að mati endurskoðenda var ekki tekið nægilega markvisst á að leysa. Eigi að síður er nú sagt að ESB hafi reynt að nýta þá reynslu sem það öðlaðist á árunum 2014-2016 til að bæta stjórnun sína á hugsanlegum framtíðaráföllum í mjólkurgeiranum.

Ekki brugðist markvisst við innflutningsbanni Rússa

Í upphafi árs 2010 juku bændur í sumum aðildarríkjum ESB verulega mjólkurframleiðslu sína og nýttu sér hærra verð sem náði hámarki í byrjun árs 2014. Í ágúst 2014 bannaði Rússland innflutning á mjólkurvörum frá aðildarríkjum til að bregðast við refsiaðgerðum ESB vegna stöðunnar í Úkraínu og á Krímskaga. Á sama tíma hægðist á útflutningi landbúnaðarafurða ESB til Kína.

Allir þessir þættir leiddu til ójafnvægis milli framboðs og eftirspurnar í öllum landbúnaðargreinum fram á mitt ár 2016. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB (CAP) á að vera með áætlanir til að draga úr áhrifum af slíkum orsökum. Þar á meðal auknar beingreiðslur til að koma á stöðugleika í tekjum bænda, aðgerðir á markaði sem kallast „öryggisnet“ til að styðja við verð með því að fjarlægja umframframleiðslu tímabundið af markaði og sérstakar ráðstafanir til að vinna gegn óróa á markaði.

Verður að undirbúa betur í framtíðinni

„Mjólkurframleiðsla er verulegur hluti af landbúnaðargeiranum í ESB og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ásamt aðildarríkjum, fóru í ákveðnar aðgerðir til að styðja við tekjur bænda á meðan markaðsröskunin 2014-2016 stóð yfir,“ sagði Nikolaos Milionis, hjá Endurskoðunardómstól Evrópu sem ber ábyrgð á skýrslunni. „Það verður að vera betur undirbúið í framtíðinni ef bregðast á betur við hugsanlegum kreppum í greininni.“

Skjót viðbrögð en mjög ómarkviss

Endurskoðendur komust að þeirri niðurstöðu að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi brugðist skjótt við rússneska banninu. Eftir að ESB hafði áætlað magn vegna samdráttar í útflutningi á smjöri, osti og öðrum mjólkurvörum, gaf það út fyrsta aðgerðarpakkann í lok árs 2014. Fól hann í sér fjárhagslegan stuðning við bændur í Eystrasaltslöndunum og Finnlandi sérstaklega, en þau lönd urðu orðið verst úti.

Endurskoðendurnir benda hins vegar á að framkvæmdastjórnin hafi tekið lengri tíma að bregðast við undirliggjandi ójafnvægi á markaði. Framkvæmdastjórnin veitti um 390 milljónum evra fyrir bændur sem vildu sjálfviljugir draga úr framleiðslu í öllum ríkjunum innan ESB. Margir bændur höfðu þá þegar skorið niður mjólkurframleiðslu áður en þessi aðstoð kom til framkvæmda og höfðu tekið á sig mikinn skell.

Sjóðstreymisvandi í landbúnaði var stórlega vanmetinn

Þrátt fyrir stöðugleikaáhrif af beingreiðslum sem nam um 35% hlutdeild af tekjum mjólkurbúa á árunum 2015 og 2016, stóðu mjólkurframleiðendur frammi fyrir sjóðstreymisvandamálum eftir skyndilega verðlækkun. Framkvæmdastjórnin leitaðist við að taka á þessu máli en hún mat þó ekki umfang sjóðstreymisörðugleika kúabúa. Endurskoðendur komust að þeirri niðurstöðu að tiltæk úrræði voru ekki í takti við raunverulegar þarfir og átti stóran þátt í vandanum sem skapaðist. Aðildarríkin studdu óvenjulegar aðgerðir sem voru einfaldar í framkvæmd og völdu að dreifa fjármunum víða án tillits til hvort það skilaði árangri.

Ekkert varð af myndun neyðarsjóðs

Til að fjármagna sérstakar aðgerðir sínar fyrir árin 2014-2016 íhugaði framkvæmdastjórnin að kalla eftir því að komið yrði á fót sérstökum „neyðarsjóði fyrir landbúnað“. Það var þó ekki gert.
Endurskoðendurnir segja að framkvæmdastjórnin hafi þó reynt að læra af þeim mistökum sem gerð voru til að vera betur undirbúin undir kreppur í framtíðinni, sem gætu m.a. stafað af heimsfaraldri. Framkvæmdastjórnin hefur sérstaklega lagt til vegna áætlunar CAP fyrir árin 2021-2027 að kanna hugsanleg áhrif varasjóðs fyrir kreppur með því að gera aðstoðina sveigjanlegri.

Hins vegar hefur það ekki metið nægilega áhrifin á það fyrirkomulag sem viðhaft er í hverju aðildarríkjanna fyrir sig, þó að þetta gæti hjálpað mjög til að koma í veg fyrir markaðstruflanir í framtíðinni, segja endurskoðendurnir. 

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...