Ísafjarðarhöfn. / Mynd Hkr.
Ísafjarðarhöfn. / Mynd Hkr.
Mynd / Hörður Kristjánsson
Fréttaskýring 14. september

Enn fækkar skipum með kvóta

Höfundur: Guðjón Einarsson

Fiskiskipum sem fá úthlutað veiði­heimildum á Íslandsmiðum heldur áfram að fækka. Við upphaf nýs fiskveiðiárs hinn 1. september síðastliðinn var 421 skipi úthlutað kvóta sem er 45 skipum færra en ári áður. Þar af fækkaði smábátum um 40 og stærri skipum um 9, að undanskildum togurum sem fjölgaði um fjóra. Til samanburðar má nefna að fyrir 15 árum, eða árið 2005, fengu 1.111 skip og bátar úthlutað aflaheimildum á Íslandsmiðum.

Samkvæmt þessum tölum hefur fjöldi skipa með aflaheimildir skroppið saman um næstum tvo þriðju á aðeins einum og hálfum áratug. Þetta segir þó litla sögu um þróun afkastagetu flotans því stærstur hluti samdráttarins stafar af fækkun í smábátaflotanum. Fyrir 15 árum fengu 848 smábátar veiðiheimildir en nú eru þeir 290 talsins. Þar munar mestu um að sóknardagakerfið var slegið af og þær aflaheimildir söfnuðust á krókaaflamarksbáta með tilheyrandi heildarfækkun smábáta. Þá hefur hámarksstærð báta í krókaaflamarkskerfinu verið rýmkuð sem leitt hefur til sam­þjöppunar aflaheimilda í því kerfi í seinni tíð.

Stærri skipin

Á áðurnefndu 15 ára tímabili fækkaði skipum í öðrum útgerðarflokkum einnig mikið með samþjöppun veiðiheimilda. Þannig hefur togurunum fækkað úr 66 í 41 og í flokknum skip með aflamark (þ.e. önnur skip en togarar og smábátar) hefur fækkað um meira en helming eða úr 197 í 90.

Í þessari umfjöllun eru strandveiðarnar undanskildar enda er þar veitt úr heildarpotti. Margir kvótalausir bátar hafa leitað í það kerfi og því stunda mun fleiri bátar veiðar við Ísland en fyrrnefndar tölur gefa til kynna, þótt aflamöguleikar í strandveiðunum séu takmarkaðir.

Samdráttur í úthlutun

Fiskistofa úthlutaði 359.000 tonnum í þorskígildum að þessu sinni samanborið við 372.000 þorskígildistonn í fyrra. Samdrátturinn skýrist fyrst og fremst af minni þorskkvóta. Hann er nú 202.000 tonn eða 13. 000 tonnum minni en fyrir einu ári. Ýsukvótinn jókst hins vegar um 3.000 tonn og fer í rúm 35.000 tonn.

En hvernig skiptist kvótinn eftir skipastærð? Á vef Fiskistofu kemur fram að hlutur smærri báta (undir 15 metrum og undir 30 brúttótonnum) í heildarúthlutuninni í magni nemur tæplega 14% eða um 51 þúsund tonnum af 419.000 tonna heild. Hlutfallið er þó hærra þegar kemur að helstu tegundum sem smærri bátarnir veiða aðallega, eða 18% í þorski (37 þús. tonn), 15% í ýsu (5.500 tonn) og 39% í steinbít (2.900 tonn).

50 stærstu með 90% kvótans

Alls fengu 326 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað kvóta í upphafi þessa fiskveiðiárs og fækkaði um 20 milli ára, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Fimmtíu stærstu fyrirtækin fengu úthlutað 90,04% af heildarkvótanum samanborið við 88,9% fyrir einu ári. Sama þróun hefur átt sér stað í smábátakerfinu. Þar hafa 50 stærstu útgerðirnar undir höndum í kringum 90% af aflaheimildunum í því kerfi.

Brim er með hæstu úthlutunina eða 9,40% af heild í þorskígildum, síðan kemur Samherji með 6,88% og svo FISK-Seafood með 6,32%. Þetta eru sömu fyrirtækin og voru efst á listanum í fyrra. Fimm efstu útgerðirnar í ár eru handhafar 32% aflaheimildanna. Tíu efstu hafa 52% kvótans til ráðstöfunar. Tuttugu efstu eru með 73% aflaheimildanna undir höndum.

Þegar rennt er augum yfir listann yfir 20 kvótahæstu útgerðirnar sést að í sumum tilfellum eru sömu eigendur að fleiri en einu félagi. Þannig er Útgerðar­félag Akureyringa að fullu í eigu Samherja og Bergur-Huginn að fullu í eigu Síldarvinnslunnar. Þá má nefna að Útgerðarfélag Reykjavíkur og Ögurvík eru í eigu aðaleiganda Brims.

Kvótaþak

Samkvæmt núgildandi lögum má engin ein útgerð hafa meira en 12% heildarkvótans í þorskígildum til ráðstöfunar. Þetta er gert til þess að hamla gegn of mikilli samþjöppun aflaheimilda á fáar hendur. Fiskistofa skal hafa eftirlit með því að þessari reglu sé framfylgt. Margsinnis hefur verið á það bent að sum stærstu fyrirtækjanna hafi eignast stóran hlut í öðrum kvótaríkum útgerðum án þess að það hafi verið talinn ráðandi hlutur í túlkun laganna. Þar hefur tæplega helmings eignarhlutur Samherja í Síldarvinnslunni einkum verið nefndur sem dæmi. Því má halda því fram að samþjöppun aflaheimilda sé á vissan hátt meiri en tölur Fiskistofu um einstakar útgerðir gefa til kynna.

Sama á einnig við um samþjöppun aflaheimilda í smábátaflotanum vegna rúmrar túlkunar á því hverjir teljist tengdir aðilar og hverjir ekki. Lagafrumvarp sjávarútvegsráðherra til þess að skerpa á þessum þáttum var til umfjöllunar síðastliðinn vetur en var ekki afgreitt á því þingi.

Guðmundur í Nesi RE kvótahæstur

Samkvæmt úthlutun Fiskistofu er frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE í eigu Brims í Reykjavík það skip sem er með mestan kvóta að þessu sinni eða liðlega 14 þúsund þorskígildistonn. Frystitogarinn Sólberg ÓF í eigu Ramma á Ólafsfirði/Siglufirði, sem var kvótahæstur síðast, er nú í öðru sæti með 11 þúsund þíg-tonn. Í þriðja og fjórða sæti eru Samherjatogararnir Björgúlfur EA frá Dalvík (9.149 þíg-tonn) og Björg EA frá Akureyri (8.218 þíg-tonn).

Reykjavík kvótahæsta höfnin

Þegar heildarkvótanum er raðað eftir heimahöfnum skipa eru þrjár hafnir jafnan langefstar á lista en ekki alltaf í sömu röð. Að þessu sinni er Reykjavík kvótahæsta höfnin en skip skráð þar fá úthlutað tæplega 41 þúsund tonnum í þorskígildum eða 11,33% af heild. Grindavík kemur næst með 37 þúsund þíg-tonn eða 10,34% af heild. Vestmannaeyjar, sem voru efstar síðast, eru nú í þriðja sæti með 36.900 þíg-tonn eða 10,29%.

Ekki öll sagan sögð

Rétt er að vekja athygli á því að úthlutun Fiskistofu á aflaheimildum í upphafi fiskveiðiárs 1. september er ekki heildarúthlutun ársins. Kvóti sem Íslendingar fá, ýmist með samningum eða með einhliða ákvörðun okkar sjálfra úr fiskistofnum sem við deilum með öðrum þjóðum, kemur til úthlutunar síðar. Það á við um makríl, kolmunna og norsk-íslenska síld, svo og þorsk í Barentshafi. Þá bíður úthlutun loðnukvóta oft seinni tíma og stundum fleiri tegunda. Því kann heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðis hlutfall þeirra að breytast í kjölfar frekari úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið. Þetta á ekki hvað síst við um stórar uppsjávarútgerðir í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum.

Kvótaáramót 1. september – hvers vegna?

Sú hefð að miða fiskveiðiárið við 1. september til 31. ágúst en ekki við almanaksárið er nú orðin bráðum 30 ára gömul. Þetta fyrirkomulag hefur ríkt frá haustinu 1991 að undangenginni umræðu á Fiskiþingi. Rökin fyrir því að miða kvótaúthlutun við 1. september voru aðallega þau að eðlilegt væri að láta fiskveiðiárið fylgja hefðbundnum gangi bolfiskveiða sem hefjast með haustvertíð, ná hámarki á vetrarvertíð og fjara svo út eftir hrygningu á vorin. Þótt veiðar hafi í seinni tíð dreifst í auknum mæli yfir allt árið er þetta enn veiðimynstrið að verulegu leyti. Auk þess þótti hentugt að búið væri að veiða megnið af botnfiskkvóta ársins þegar sumar gengi í garð og fiskvinnslufólk tæki sér sumarfrí. Ekki sakaði heldur að losna við að þurfa að hnýta alla enda saman við kvótauppgjör í kringum sjálfa jólahátíðina eins og áður var. Breytingin mæltist strax vel fyrir og engum hefur dottið í hug að færa fiskveiðiárið aftur til fyrra horfs.

Með ofurrafhlöður sem endast í 20 ár og sagðar duga í 2 milljónir kílómetra
Fréttaskýring 18. september

Með ofurrafhlöður sem endast í 20 ár og sagðar duga í 2 milljónir kílómetra

Þótt töluverður vöxtur hafi verið í framleiðslu og sölu á rafbílum í heiminum er...

Enn fækkar skipum með kvóta
Fréttaskýring 14. september

Enn fækkar skipum með kvóta

Fiskiskipum sem fá úthlutað veiði­heimildum á Íslandsmiðum heldur áfram að fækka...

Belgíska fyrirtækið Bolt segir að verið sé að blekkja neytendur
Fréttaskýring 24. ágúst

Belgíska fyrirtækið Bolt segir að verið sé að blekkja neytendur

Fimm ár eru nú liðin síðan Sveinn A. Sæland í garðyrkjustöðinni Espiflöt og fyrr...

Versti efnahagsskellurinn vegna COVID-19 á enn eftir að koma í ljós
Fréttaskýring 5. júlí

Versti efnahagsskellurinn vegna COVID-19 á enn eftir að koma í ljós

Heimsbyggðin er enn ekki farin að upplifa verstu efnahagslegu afleið­ingarnar af...

Staðan í hótelrekstri í Bandaríkjunum er sú langversta í sögunni
Fréttaskýring 4. júlí

Staðan í hótelrekstri í Bandaríkjunum er sú langversta í sögunni

Á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní reyndu forráðamenn þjóðarinnar að blá...

Setur fram þriggja billjóna dollara áætlun til að draga úr loftmengun
Fréttaskýring 3. júlí

Setur fram þriggja billjóna dollara áætlun til að draga úr loftmengun

Hrun í fjárfestingum í orkugeira heimsins í kjölfar COVID-19 hefur fengið sérfræ...

Kína er langöflugasta þjóð heims í framleiðslu á raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum
Fréttaskýring 1. júlí

Kína er langöflugasta þjóð heims í framleiðslu á raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum

Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) spáir nú 13% samdrætti frá 2019 í framleiðslu raf...

Kínverjar koma að byggingu fjölda kolaorkuvera víða um heim
Fréttaskýring 25. júní

Kínverjar koma að byggingu fjölda kolaorkuvera víða um heim

Kínverjar hafa verið í hraðri upp­byggingu í orkugeiranum heima ­fyrir á öllum s...