Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kóngakrabbi getur orðið risavaxið skrímsli. Mynd / Úr auglýsingariti fyrir Kirkenes/Trym Ivar Bergsmo.
Kóngakrabbi getur orðið risavaxið skrímsli. Mynd / Úr auglýsingariti fyrir Kirkenes/Trym Ivar Bergsmo.
Fréttaskýring 20. nóvember 2020

Auðlind eða umhverfisslys

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Kóngakrabbi er nýleg auðlind í Norður-Noregi ef auðlind skyldi kalla. Margir telja að tilkoma krabbans sé umhverfisslys. Krabbinn hefur skaðað lífríkið og truflað hefðbundnar veiðar. Á móti kemur að hann er eftirsóttur af matgæðingum og veiðar á honum skila umtalsverðum útflutningstekjum.

Kóngakrabbi er ein stærsta krabbategund í heimi. Aðal­heimkynni hans eru í norðanverðu Kyrrahafi og í Beringshafi. Hann veiðist við Alaska og enska heitið er „Red king crab“. Hann finnst einnig Kyrrahafsmegin við Rússland, nánar tiltekið við Kam­tsjatka­skagann. Á sjöunda áratug síðustu aldar ákváðu Rússar að flytja krabba frá Kamtsjatka yfir í Barentshafið og slepptu þeim í Murmanskfirði. Markmiðið var að skapa nýja sjávarauðlind við Murmansk.

Þetta tiltæki Rússanna dró aldeilis dilk á eftir sér. Krabbinn hélt sig ekki við Murmansk heldur dreifði sér smám saman vestur á bóginn yfir til Noregs og leitaði einnig austur með strönd Rússlands og út í Suður-Barentshaf.

Kóngakrabbi er mikið veiddur í gildrur, m.a. við hafísröndina við Alaska í norðanverðu Kyrrahafi. Mynd / deningsfooods.com.

Spillti netunum og truflaði veiðar

Fyrst varð vart við stöku krabba í norskri lögsögu á seinni hluta áttunda áratugarins og næstu árin á eftir lét hann sjá sig í sívaxandi mæli. Í byrjun tíunda áratugarins var kóngakrabbinn orðinn verulegt vandamál í Finnmörk, nyrsta fylki Noregs. Hann veiddist sem meðafli í þorskanet með tilheyrandi netatjóni og vandræðum við að greiða krabbann úr netunum. Krabbinn þótti hinn mesti ófögnuður og kvað svo rammt af ágengni hans að sjómenn sums staðar í Austur-Finnmörk gátu varla stundað veiðar á hefðbundnum slóðum.

Óvelkomið lostæti

Innrás krabbans olli miklu fjaðrafoki í norskum fjölmiðlum. Farið var hörðum orðum um risaskepnuna úr austri sem birtist eins og furðuvera úr framandi heimi. Stærstu krabbarnir við Noreg geta orðið 8 kíló að þyngd eða meir. Stærstu krabbar sem fundist hafa í heiminum eru um13 kíló. Þegar strekkt er á fótum stærstu krabbanna geta verið 2 metrar á milli klónna.

Sjómenn kröfðust þess að krabbanum yrði útrýmt og margir eru þeirrar skoðunar enn. Umhverfissinnar tóku í sama streng. Vísindamenn telja hins vegar flestir að skaðinn sé skeður. Krabbinn sé kominn til að vera. Ekki sé hægt að útrýma honum nema með þátttöku Rússa og þaðan sé ekki samvinnu að vænta í slíkt verkefni.

Fljótlega fóru menn að horfa til þess að kóngakrabbar eru eftirsóttar kræsingar sem sóma sér vel á bestu veisluborðum í heiminum. Þeir sáu pening í því að nýta krabbann enda selst hann á háu verði. Nú er svo komið að þessi óvelkomni ógnvaldur er orðinn verðmæt auðlind. Veiðar og vinnsla á honum styrkja stoðir atvinnulífs við sjávarsíðuna í Austur-Finnmörk þar sem víða eru brothættar byggðir.

Afdrifarík áhrif á botndýralíf

Kóngakrabbinn er skilgreindur sem framandi og ágeng tegund og ekki að ósekju. Rannsóknir norskra vísindamanna hafa leitt í ljós að krabbinn hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir botndýralíf á þeim svæðum þar sem hann hefur hreiðrað um sig í miklum mæli í langan tíma.

Samsetning botndýrategunda hefur meðal annars breyst af völdum hans. Tegundir eins og kræklingar og krossfiskar hafa horfið, að minnsta kosti stærstu einstaklingarnir, og lífmassi á sjávarbotni hefur minnkað. Einnig hafa orðið breytingar á gerð á botnseti sem veikir lífsmöguleika mikilvægra botndýra. Norskir fiskifræðingar benda á að hér sé lýst skammtímaáhrifum. Stóra spurningin sé hver áhrifin verði til langs tíma. Við þeirri spurningu hafi þeir engin góð svör.

Kóngakrabbar halda sig yfirleitt á talsverðu dýpi en á mökunartímanum koma þeir upp á grunnsævi. Þá er hægt að finna þá á þriggja metra dýpi en annars eru þeir vanalega á 150 til 350 metra dýpi eða meir.

Fjöldi skipa stundar krabbaveiðar

Veiðar á kóngakrabba í norskri lögsögu hófust nokkuð snemma en voru fremur litlar fyrst framan af. Eftir aldamótin tóku þær kipp. Mestur varð aflinn í Austur-Finnmörk rúm 2.600 tonn árið 2008 en hann hefur sveiflast eftir það, er mikið frá 1.000 tonnum upp í 2.000 tonn á ári.

Kóngakrabbinn er veiddur í gildrur aðallega inni í fjörðum og við ströndina meðfram Austur-Finnmörk. Veiðum á því svæði er stýrt með heildarkvóta. Fjöldi þeirra skipa sem taka þátt í þessum veiðum er breytilegur en síðustu árin hafa skipin verið í kringum 700 að tölu. Þá eru ótaldir bátar sem mega stundar frjálsar veiðar við Vestur- Finnmörk sem vikið verður nánar að hér á eftir.

Kvótinn hefur einnig verið breytilegur en er að meðaltali um 1.500 tonn af karlkröbbum á ári og um 50 tonn af kvenkröbbum. Skip og bátar hafa mismikinn kvóta en reynt hefur verið að umbuna þeim sjómönnum sem báru mestan skaða af krabbanum.

Um tuttugu fyrirtæki vinna krabbann og löndunarhafnir eru um 30.

Milljarða útflutningsverðmæti

Góður markaður eru fyrir kóngakrabba því veiðar við Alaska hafa lengi verið í mikilli lægð. Kóngakrabbi er önnur verðmætasta skelfisktegundin í útflutningi norskra sjávarafurða og kemur næst á eftir rækjunni. Útflutningur krabbans nam 2.000 tonnum árið 2019 að verðmæti 642 milljónir norskra króna (9,6 milljarðar íslenskra króna).
Til samanburðar má nefna að útflutningur á rækjuafurðum nam rúmum 16 þúsund tonnum árið 2019 að verðmæti 1,1 milljarður norskra króna (16,4 milljarðar íslenskra króna).

Síðustu ár hafa Norðmenn náð tökum á útflutningi á lifandi kóngakrabba sem eykur verðmæti hans verulega. Nú er svo komið að stærstur hluti krabbans er fluttur út lifandi. Megnið fer til Suður-Kóreu.

Kóngakrabbi er önnur verðmætasta skelfisktegundin í útflutningi norskra sjávarafurða og kemur næst á eftir rækjunni.

Eitt norskt krabbafyrirtæki náði þeim árangri að hreppa útflutningsverðlaun 2017 fyrir að flytja lifandi krabba til nafntoguðustu veitingastaða heims, þeirra á meðal er hið heimsfræga Noma veitingahús í Danmörku.

Veiðiráðgjöf byggð á jafnvægislist

Útbreiðsla og þéttleiki kóngakrabbans er mest við Austur-Finnmörk. Stefna norskra stjórnvalda er tvíþætt, annars vegar að nýta kóngakrabbann sem auðlind en um leið hefta frekari útbreiðslu hans. Ef krabbastofninn fengi til dæmis að ná stærð sem miðaðist við hámarksnýtingu og þéttleiki krabbans yrði of mikill er viðbúið að hann tæki á rás suður á bóginn.

Til að ná þessu markmiðum stjórnvalda er heildarkvóti aðeins settur á veiðar í Austur-Finnmörk en veiðar í Vestur-Finnmörk eru frjálsar og engar aflatakmarkanir þar. Línan á milli liggur við bæinn Nordkapp.

Norska hafrannsóknastofnunin hefur það verkefni að meta veiðistofninn og gefa ráð um árlegan kvóta. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 er að veiða megi 1.530 tonn við Austur-Finnmörk.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda þarf norska Hafró að stunda eins konar jafnvægislist í ráðgjöf sinni, þ.e. gera ráð fyrir hæfilegri „ofveiði“ ef svo má að orði komast en þó ekki meiri en svo að unnt sé að viðhalda tiltekinni stofnstærð sem gæti tryggt ábatasamar atvinnuveiðarnar.

Verður framrásin stöðvuð?

Ekki eru allir á einu máli um að þessi stefna dugi til að hefta frekari framrás krabbans. Árið 2016 fannst kóngakrabbi fyrir utan Tromsø sunnar en nokkru sinni fyrr að talið er. Bent er á að kóngakrabbinn geti lagt langar leiðir að baki í fæðuleit. Vitað er að merktir krabbar hafa farið um 13 kílómetra á dag, 175 kílómetra yfir mánuðinn og 426 kílómetra á einu ári.

Vísindamenn hjá Nofima, sem er sambærileg stofnun og MATÍS hér á landi, telja að það sé aðeins spurning um tíma, kannski tíu ár, hvenær krabbinn fari að veiðast við Þrændalög sem eru um miðbik Noregs. Þeir benda á að þótt kjörhitastig sjávar fyrir krabbann sé 3 gráður geti hann líka þrifist í 8 til 12 gráðu heitum sjó.
Tíminn einn getur leitt það í ljós hvort kóngakrabbinn láti staðar numið við Finnmörk eða skríði lengra fram til suðurs.

Grjótkrabbi, nýbúi við Ísland

Ekki er hægt að skiljast við kóngakrabbann án þess að nefna frænda hans grjótkrabbann sem er nýbúi við strendur Íslands. Sumt er líkt með tilkomu þeirra á framandi slóð en annað ekki.

Grjótkrabbinn fannst fyrst í Hvalfirði árið 2006. Náttúruleg heimkynni hans eru við Norður-Ameríku.Talið er að hann hafi borist hingað með lirfum í kjölvatni skipa.

Grjótkrabbinn dreifði sér fljótt frá suðvesturhorni landsins, norður fyrir land og lengra austur. Nú er svo komið að hann finnst við rúmlega 70% af strandlengjunni. Fyrir utan mikla útbreiðslu þá er þéttleiki hans víða mikill við Suðvesturland. Grjótkrabbi er framandi og ágeng tegund. Þar sem hann er þéttastur hefur hann rutt út vegi keppinautum í lífríkinu eins og bogkrabba og trjónukrabba. Áhyggjur eru af því að hann kunni að hafa töluverð áhrif á botndýralíf á grunnsævi við Ísland.

Grjótkrabbinn er fremur stór krabbi, þótt hann jafnist ekki á við kóngakrabbann, og er hann veiddur við Norður-Ameríku. Hér við land hafa verið gerðar tilraunir til að nýta hann og eru vonir bundnar við að krabbinn geti orðið ágæt búbót í íslenskum sjávarútvegi.

Undanfarin ár hefur krabbaveiðin verið sveiflukennd, fór mest í tæp 10 tonn árið 2019. Það met hefur þegar verið slegið í ár því aflinn var kominn í rúm 20 tonn í byrjun nóvember. Líklega er það merki um að grjótkrabbinn geti orði nýr verðmætur nytjastofn við Ísland.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...