Mynd/HLJ Toyota Corolla Hybrid.
Fræðsluhornið 21. nóvember 2019

Sparneytinn Toyota Corolla Hybrid

Hjörtur L. Jónsson - liklegur@internet.is
Toyota Corolla var fyrst fram­leiddur 1966 og var þá með 1077cc vél sem átti að skila 60 hestöflum. Á þessum rúmu fimmtíu árum hefur bíllinn eðlilega tekið miklum breytingum og á síðasta ári voru seldir nálægt ein milljón bíla sem bera nafnið Toyota Corolla og er nú orðin Hybrid bíll sem hefur rafmagnsvél og bensínvél sem vinna saman. 
 
Fyrir skemmstu fór ég í Toyota Kauptúni og fékk nýjasta Corolla bílinn í stuttan prufuakstur.
 
Þessi skjámynd er góð ril að læra á bílinn sé verið að spara eldsneyti.
 
Vélbúnaðurinn flókinn en virkar fínt
 
Bíllinn sem prófaður var heitir Toyota Corolla Hybrid Active og er sjálfskiptur með 122 hestafla 1798 cc bensínvél. Hún hleður rafmagni í akstri inn á rafgeyma fyrir rafmagnsmótorinn og einnig er hleðslan tengd inn á bremsurnar sem hleður líka á rafhlöðurnar þegar maður bremsar.
 
Þegar bílnum er ekið mjúklega, á jafnsléttu og niður í móti slekkur bensínvélin á sér og við tekur rafmagnsmótorinn og viðheldur hraða og fyrir vikið sparast eldsneyti og útblástur er aðeins minni í þessum bíl en hefðbundnum bílum. 
 
Á meðan ég ók bílnum fannst mér skrítið að fylgjast með snúningshraðamæli vélarinnar alltaf af og til vera að detta á núll þegar bensínvélin tók við og hélt uppi ökuhraðanum sem ég var á.
 
Góður kraftur í vél sem hægt er að stilla á þrjá vegu
 
Margir bílar eru með valmöguleika á að stilla vélina á mismunandi kraft og oftast eru stillingarnar þrjár, Eco, Normal og Sport (oft munar um 10% á hverri stillingu). 
 
Að keyra bíl í Eco-stillingunni í innanbæjarakstri finnst mér ekki skemmtilegt. Ef valmöguleikarnir eru þrír eins og í þessum bíl þá nota ég almennt kraftmesti stillinguna þar sem umferð er mest. Normal og sparakstursstillingarnar nota ég oftar í langkeyrslum og það gerði ég í þessum bíl. Margir hugsa um að keyra þannig að eyða sem minnstu eldsneyti og til að gera það í þessum bíl er hægt að stilla aksturstölvuskjámyndina á súlurit sem er í boði og fylgjast þar með eyðslunni. Þetta súlurit fannst mér auðvelt að átta mig á og keyra samkvæmt því og sá þar vel mismuninn á eyðslu miðað við mismunandi aksturslag og kraftstillingu á vél.
 
Frekar lítið fótapláss fyrir farþega í aftursætum.
 
Prufuaksturinn var styttri en ég hafði hugsað mér
 
Fyrst var tekin innanbæjarrúntur í miðbæ Hafnarfjarðar og fannst mér eyðslan í þeim akstri vera full mikil (7,6 lítrar á hundraðið), en í utanbæjarakstri er eyðslan mjög lítil sérstaklega þegar ekið er á jöfnum hraða og rafmagn mótorinn hefur rafmagn er eyðslan engin á því augnabliki. 
 
Ég hafði hugsað mér að aka malarveginn frá Hafnafirði upp í Bláfjöll, en á 18 tommu felgunum sem búið var að setja undir bílinn í stað 16 tommu voru dekkin að höggva svo mikið í holóttum malarveginum að ég þorði ekki að keyra veginn til enda. Ég óttaðist að höggva út úr hliðinni á dekkjunum og þar sem að ekkert varadekk var í bílnum ákvað ég að snúa við. 
 
Smásteinahljóðið upp undir bílinn frá grófum framdekkjunum var frekar mikið, en annars var bíllinn mjög stöðugur á malarvegi og fjöðrunin tók vel holurnar í malarveginum þrátt fyrir að nánast enga fjöðrun var að fá frá lágum 18 tommu dekkjunum. Á malbikinu eru þessi dekk æðisleg þar sem malbikið er gott og nýtt (sem er því miður ekki á mörgum stöðum). Heildaraksturinn hjá mér endaði í rúmum 80 km, og var meðalhraðinn 55 km, og samkvæmt aksturstölvunni hafði meðaleyðsla mín hafa verið 4,9 á hundraðið.
 
Mikið gott í bílnum og fáir mínusar
 
Í umferðinni finnst mér áberandi hvað margir Toyota bílar eru ljóslausir að aftan, en það þarf að kveikja ljósin til að fá afturljósin á (ekki nota Auto takkann þá er maður ekki löglegur í umferð). Geymsluplássið á milli framsætanna er fullstór og þrengir að þegar maður setur á sig öryggisbeltið og það vantar varadekk í bílinn, frekar þröngt rými fyrir farþega í aftursætunum, en þetta voru helstu mínusarnir sem ég sá.
 
Plúsarnir eru fleiri, kraftur fínn, góð framsæti, sparneytinn bíll, góð og velskiljanleg aksturstölva, stór bakkmyndavél, farangursrými gott. Verðið á Toyota Corolla Hybrid Active  sem prófaður var er 4.570.000.
 
Helstu mál og upplýsingar:
Lengd 4.370 mm
Hæð 1.435 mm
Breidd 1.790 mm
 

 

Erlent