Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Keðjusagir eru viðsjárverðir gripir og alls ekki hættulausar.
Keðjusagir eru viðsjárverðir gripir og alls ekki hættulausar.
Á faglegum nótum 30. mars 2022

Orkuskipti í garðinum

Höfundur: Ingólfur Guðnason.

Nú er tími trjáa- og runna- klippinga og rétt að huga að þeim verkfærum sem notuð eru við umhirðu garðsins. Þeir sem eru langt gengnir í garðyrkjuáhuganum hafa sumir viðað að sér ýmiss konar tækjum og tólum sem auðvelda garðvinnuna, eða gera hana á einhvern hátt skemmtilegri.

Tækin þarf að fara yfir fyrir vorið, sjá til þess að verkfærin bíti vel, virki eins og til er ætlast og jafnvel endurnýja úr sér gengin tæki.

Rafmagn í stað bensíns

Flest vélknúin garðverkfæri ganga fyrir bensíni. Það er varasamt efni sem ætti ekki að geyma í skúrnum innan um annað dót. Sem betur fer eykst sífellt úrval tækja sem hægt er að knýja með rafmagni. Lengi hafa t.d. verið notaðar sláttuvélar og vélorf sem hægt er að stinga í samband við rafmagn. Þar er sjálf snúran eina vandamálið. En á undanförnum árum hefur bæst í flóruna mikið af tækjum, bæði smærri og stærri, sem ganga fyrir öflugum rafhlöðum sem eru bæði endingargóð og auðveld í notkun.

Grassláttur með hleðslu- sláttuvél er þægileg lausn

Flestir garðeigendur þurfa að slá gras í görðum sínum mörgum sinnum á hverju sumri. Fátt er leiðinlegt í garðyrkju en eitt af því leiðinlegasta er þegar sláttuvélin fer ekki í gang eins og til var ætlast, þegar til á að taka. Þá koma hleðslusláttuvélarnar eins og himnasending. Hægt er að fá fullkomlega nógu öflugar sláttuvélar og rafhlöðurnar endast vel, þær eru tiltölulega hljóðlátar og fara í gang eins og hugur manns.

Það sem þarf til er rafhlaða, kannski tvær, og hleðslutæki. Ein hleðsla dugar vel til að slá meðalstóran garð. Sláttuvélin safnar grasinu í kassa og auðvelt er að tæma hann í safnhauginn eða undir beðin. Þá er hægt að setja í garðinn slátturóbót sem vinnur á svipaðan hátt og ryksuguróbót og gerir mikið gagn.

Aðrir góðir kostir sem garðeigendur geta velt fyrir sér er léttur jarðvegstætari fyrir matjurtabeðin. Til eru tæki sem skipta má út á þann hátt að með fáum handtökum er hægt að breyta jarðvegstætaranum í limgerðisklippur, litla keðjusög, laufblásara, vélorf sem getur tekið bæði gras og grófara efni eins og lúpínuhálm, þétta sinutoppa og annan rudda sem þarf að fjarlægja.

Limgerðisklippur knúnar rafmagni eru sérlega hentug tæki sem eru í notkun bæði sumar og vetur.
Rafknúinn greinakurlari vinnur á smærri greinum og saxar þær vel. Einnig eru til rafknúnar bakdælur, kantskerar, háþrýstidælur og laufsóparar.

Keðjusögin er sér kapítuli

Rafhlöðudrifnar keðjusagir eru nógu öflug tæki til þess að fella með jafnvel stærri tré og sverar greinar, enginn garðeigandi þarf að búast við að þurfa að nota stærstu gerðir þeirra. Ef staðan er orðin sú að fella þurfi há eða krónumikil tré í garðinum ættu garðeigendur samt skilyrðislaust að leita til fagfólks í stað þess að ráðast á trén sjálf. Keðjusagir eru nefnilega viðsjárverðir gripir og alls ekki hættulausar.

Það er æskilegt að notendur keðjusaga hafi fengið leiðsögn fagfólks í meðhöndlun þeirra, og beri tilhlýðilega virðingu fyrir söginni. Þá er alltaf notaður sérhæfður öryggisbúnaður eins og keðjusagarskór/-stígvél, buxur með sagarvörn, hjálmur með heyrnarhlífum og andlitshlíf. Aldrei ætti maður að vinna einn með keðjusög. Þegar notandinn hefur komist upp á lag með að nota rafhlöðudrifna keðjusög er hann fær í flestar trjáfellingar nema þær stærri, grisjun ungra skógarteiga, hreinsun greina o.fl.

Rafhlöðuknúin tæki menga sáralítið og vinna starf sitt vel

Margir kostir fylgja tækjum af þessu tagi. Engin ástæða er til að geyma hálftóma bensínbrúsa mánuðum saman, bensínleifum úr vélum þarf ekki að farga, vélarnar eru tiltölulega hljóðlátar og ekki þarf að trekkja þær í gang, aðeins ýta á takka til að gangsetja þær. Þegar unnið er lengi með tækin finnst að titringur er minni en við notkun bensínknúinna tækja og bruni eldsneytis veldur hvorki höfuðverk né óþægindum í öndunarfærum. CO2-útblástur er úr sögunni að mestu og kolefnissporið hverfur. Þessi tæki geta því að langmestu leyti komið í stað eldri tækja.

Ef notuð eru tæki frá sama framleiðanda er hægt að nota sömu rafhlöðuna og hleðslutækið við þau öll, með tilheyrandi sparnaði. Engar snúrur flækjast fyrir sem gerir kost á að vinna ýmis verk í sumarhúsalóðinni sem ekki var hægt að gera með áður nema með ærnu erfiði.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...