Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bláber eru ein af fáum náttúrulegum fæðum í heimi sem eru blá á litinn.
Bláber eru ein af fáum náttúrulegum fæðum í heimi sem eru blá á litinn.
Á faglegum nótum 11. september 2020

Bláber frá Ameríku

Höfundur: Vilmundur Hansen.

Berjaspretta hefur verið ágæt það sem af er hausti víðast á landinu en að þessu sinn er ekki ætlunin að fjalla um innlend ber þótt áhugaverð séu. Amerísk bláber njóta mikilla vinsælda hér og algeng í verslunum stóran hluta ársins. Ólíkt villtu íslensku blá­berjalyngi, sem er lágvaxið, vaxa amerísk bláber á runnum sem geta orðið allt að fjögurra metra háir. Bláber eru ein af fáum náttúrulegum fæðum í heimi sem eru blá á litinn.

Samkvæmt áætlun FAOSTAD, Tölfræðideild Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, voru ræktuð til framleiðslu um 596,813 tonn af bláberjum í heiminum árið 2017 og er þá bæði átt við ber sem komu af jarðlægum og runnakenndum plöntum. Þessar tölur eiga eingöngu við ber sem framleidd eru í atvinnuskyni og koma fram í opinnberri tölfræði. Fyrir utan það eru leyst til manneldis mikið magn villtra bláberja og bláberja sem ræktuð eru í heimagörðum sem hvergi koma fram.

Latneska tegundarheitið corymbosum vísar til þess að berin vaxa mörg saman í klasa.

Í tölum FAOSTAD segir að mest sé ræktað af bláberjum í Bandaríkjum Norður-Ameríku, 236.621 tonn. Kanada er í öðru sæti með 160,246 tonn, Perú í því þriðja með 52.301 tonn og síðan Mexíkó og Spánn, en bæði lönd framleiddu um 36.000 tonn árið 2017.

Ræktun á amerískum bláberjum hefur aukist jafnt og þétt í Kína undanfarin ár.

Bláber eru ekki flokkuð ein og sér heldur með öðrum berjum í innflutningstölum Hagstofunnar og því ekki hægt að sjá þar hversu mikið er flutt inn af þeim á ári. Innflutningur á þeim hefur þó án efa aukist talsvert undanfarin ár þar sem berin eru mun algengari í verslunum núna en fyrir nokkrum árum.

Ættkvíslin Vaccinium

Rúmlega 400 tegundir tilheyra ættkvíslinni Vaccinium sem er af lyngætt. Skyldleiki tegunda innan ættkvíslarinnar er flókinn og ekki alltaf ljós þar sem ólíkar tegundir geta hæglega æxlast saman og heldur ekki alltaf ljóst hvort um tegund, staðbrigði eða blendinga er að ræða. Auk þess sem til eru margir manngerðir blendingar og yrki.

Ólíkar tegundir finnast víða um heim en aðallega á norðurhveli, þó eru undantekningar á því og til tegundir innan ættkvíslarinnar sem vaxa á Madagaskar og teljast innlendar.

Tegundir innan ættkvíslarinnar eru jarðlægar eða runnar sem geta náð fjögurra metra hæð. Einstaka tegundir sem vaxa í hitabeltinu eru ásætur sem vinna vatn og næringu úr andrúmsloftinu en flestar lifa í sambýli með svepprótum.

Stönglar Vaccinium-tegunda eru yfirleitt trjákenndir, blöðin leðurkennd viðkomu, lítil egg- eða lensu­laga, dökk- eða blágræn og flestar tegundir með áberandi blaðæðum. Blómin oft litla bjöllur með löngum frævum og fræflum. Aldinið sem er ber myndast í blómbotninum og er hólfaskipt og með mörgum fræjum. Yfirleitt rauð eða blá.

Tegundum innan ættkvíslarinnar Vaccinium er skipt í lág- og hárunna. Íslenskt bláberjalyng er til dæmis lágvaxið en amerískir bláberjarunnar geta orðið allt að fjögurra metra háir. Vegna kynbóta og framræktunar eru ber af ræktuðum yrkjum töluvert stærri en ber af villtum tegundum.

Amerísk bláber

Algengasta tegundin af Vaccinium hárunna í ræktun er V. corymbosum, sem er harðgerður lauffellandi og breiðvaxinn runni sem getur náð tæplega fjögurra metra hæð en yfirleitt haldið í um eins og hálfs metra hæð í ræktun. Blöðin grænglansandi, egg- eða lensulaga, oddmjó og um fimm sentímetrar að lengd. Plantan er með trefjarót sem liggur fremur grunnt og rótaskot algeng. Hversu víðfeðm rótin er fer eftir þéttleika jarðvegsins en að öllu jöfnu liggja endaræturnar svipað langt frá miðju runnans og ystu blöð.

Blómin eru mörg saman í hnapp, hvít eða bleik, bjöllulaga, um tæpur sentímetri að lengd og myndast á annars árs sprotum. Plantan er ósjálffrjóvgandi og sjá hunangsflugur að mestu um frjóvgun hennar.

Aldinin geta verið frá hálfum í rúman einn og hálfan sentímetra í þvermál og eru lítillega flatvaxin og sæt á bragðið. Fær á sig fallega rauða, gula og appelsínugula haustliti.

Bláber lifa í sambýli með rótarsveppum sem hjálpa þeim við upptöku næringarefna úr jarðvegi. Samlífið er plöntunni svo mikilvægt að eftir að ræktun hennar hófst í Síle fór hún ekki að bera árangur fyrr en búið var að smita jarðveginn í kring með réttum rótarsveppum.

Uppruni og saga

Elsta þekkta eintak af Vaccinium tegund eru tvo steingerð fræ af útdauðri tegund sem komu upp með borkjarna úr borholu sem var verið að taka í Pólandi. Aldur fræjanna er áætlaður á bilinu 16 til 11 milljón ár.

Tegundin V. corymbosum finnst villt í austanverðu Kanada og meðfram austurströnd Bandaríkjanna Norður-Ameríku allt suður til Flórída og Texas. Tegundin hefur einnig gert sig heimakomna í náttúrunni víða í Evrópu, Japan og á Nýja-Sjálandi út frá ræktun.

Frumbyggjar Norður-Ameríku hafa nýtt berin frá ómunatíð og sama gerðu innflytjendur frá Evrópu og öðrum heimsálfum eftir komu þeirra til álfunnar. Talið er að innfæddir og fyrstu innflytjendurnir hafi ræktað berin til eigin nota en það var ekki fyrr en eftir miðja 19. öld að farið var að rækta plöntuna í einhverjum mæli til berjaframleiðslu.

Grasafræðingarnir Fredrerick Vernon Coville og Elizabeth White voru fyrst til að benda á nauðsyn súrs jarðvegs fyrir bláber og að plantan vær ekki sjálffrjóvgandi og saman tókst þeim með bættum ræktunaraðferðum að tvöfalda stærð berja í ræktun. Myndin er tekin árið 1916.

Áfeng bláberjasaft var hluti af matarskammti hermanna Norðurríkjanna í bandarísku borgarastyrjöldinni, 1861 til 1865. Á áttunda áratug 19. aldar var farið að sjóða niður bláber til að auka geymslu- og flutningsþol þeirra.

Árið 1908 hóf bandaríski grasafræðingurinn Frederick Vernon Coville, uppi 1867 til 1937, að rannsaka og gera tilraunir með ræktun bláberja í samvinnu við Elizabeth White, uppi 1871 til 1954. Coville var um tíma yfirgrasafræðingur Landbúnaðarstofnunar Banda­ríkjanna og stjórnandi þjóðar­trjásafns ríkjasambandsins. Auk þess að vera höfundur fjölda bóka um grasafræði og grasnytja indíána var Coville stjórnarformaður National Geographic Society í mörg ár. White var sérfræðingur í ræktun nytjaplanta og dóttir landeiganda sem ræktaði trönuber í stórum stíl.

Coville og White voru fyrst til að benda á nauðsyn súrs jarðvegs fyrir bláber og að plantan væri ekki sjálffrjóvgandi og saman tókst þeim með bættum ræktunaraðferðum að tvöfalda stærð berja í ræktun.

Sagan segir að liður í kynbótastarfi White hafi verið að biðja Indíána að færa sér öll ber sem þeim fannst óvenjulega stór og hún hafi einungis tekið fræ til ræktunar úr berjum sem ekki komust í gegnum giftingarhring hennar. Ef berin voru óvenju stór gerði hún sér ferð til að sækja græðlinga af runnunum sem þau uxu á.

Snemma á fjórða áratug síðustu aldar fylgi Stanley Johnson, uppi 1898 til 1969, prófessor í garðyrkju við Michigan Agricultural College í kjölfar Coville og White og hóf tilraunir með ræktun á bláberjum. Stór svæði í kringum Michigan-vatn þóttu ónothæf til ræktunar vegna þess að jarðvegurinn var ófrjósamur og súr. Jarðvegurinn hentaði því bláberjarunnum ágætlega og var Michigan-ríki lengi stærsti ræktandi bláberja í Banda­ríkjum Norður-Ameríku, eða þar til Washington-ríki tók fram úr því. Þrátt fyrir þetta er það borgin Hammonton í New Jersey sem ber heitið bláberjahöfuðborg heimsins og þar í borg er árleg bláberjahátíð. Samkvæmt hefð er 28. apríl bandaríski bláberjakökudagurinn og 11. júlí bláberjamúffudagurinn.

Afbrigði og yrki í ræktun skipta hundruðum. Þrátt fyrir að einhver munur sé á stærð og bragðgæðum ólíkra yrkja eru þau aðallega flokkuð eftir því hversu snemmsprottin þau eru. Dæmi um snemmsprottin yrki eru 'Duke', 'Patriot', 'Reka' og 'Spartan'. Miðlungsfljótsprottin yrki eru til dæmis 'Bluecrop', 'Blu-ray', 'KaBluey' og 'Northland'. Yrkin 'Aurora', 'Darrow' og 'Elliott' eru aftur á móti seinsprottin.

Í suðurríkjum Bandaríkjanna hefur blendingur af V. corymbosum og V. darrowii gefið góða raun í ræktun.
Ræktun á amerískum bláberjum hófst í Evrópu um 1930.

Stjörnuber Andans mikla

Við þroska berjanna mynda bikar­blöð blómanna fimm arma stjörnu á efri enda þeirra. Samkvæmt þjóðtrú Indíána Norður-Ameríku er stjarnan tákn þess að hinn Mikli andi hafi fært þeim ber til að sefa hungur barna á harðindatímum. Aðrir segja að stjarnan líkist auga kanínu og þaðan er heiti á vinsælu yrki í ræktun, 'Rabbiteye', komið.

Indíánar nýttu plöntuna til lækninga. Te sem sagt var gott fyrir blóðið var soðið úr blöðum og rótum og bláberjasafi drukkinn til að stilla hósta. Safinn var og er enn notaður til að lita klæði og körfur.

Berin voru þurrkuð til geymslu og notuð til að bragðbæta mat, súpur og kássur. Muldum berjum var einnig nuddað í kjöt sem krydd áður en það var þurrkað til geymslu.

Nafnaspeki

Ættkvíslarheitið Vaccinium er mögulega dregið af gríska orðinu Hyacintos sem er heitið á spartneskri hetju og elskhuga guðsins Apollo. Tegundarheitið corymbosum vísar aftur á móti til þess að berin vaxi mörg saman í klasa.

Blómin eru hvítar bjöllur.

Á ameríku-ensku á plantan sér nokkur samheiti, eins og blue huckleberry, tall huckleberry, swamp huckleberry, high blueberry og swamp blueberry. Frakkar kalla hana og berin myrtille‎ og bleuet, Spánverjar arandano americano‎ en Finnar pensasmustikka. Í Svíþjóð er talað um amerikanskt blåbär‎ en í Danmörku amerikansk blåbær‎. ‎Á Íslandi kallast plantan amerísk bláberjaplanta eða einfaldlega bláber.

Nytjar

Amerísk bláber innihalda 14% kolvetni, 0,7% prótein, 0,3% fitu og 84% vatn. Í þeim er lítið af vítamínum og í 100 grömmum af berjunum eru um 57 kaloríur. Berin eru sæt á bragðið en missúr eftir afbrigðum, yrkjum og efna­samsetningu jarðvegsins sem þau vaxa í.

Bláberja er neytt ferskra eins og sér eða út á skyr og morgunkorn, úr þeim er búin til sulta og sósa og þau eru höfð í kökur og brauð. Auk þess sem úr þeim er bruggað bláberjavín.

Nauðsynlegt er að skola berin vel fyrir neyslu þar sem við ræktun þeirra er í flestum tilfellum notaður talsverður efnahernaður gegn óværu sem kann að sækja að plöntunum og aldinum þeirra.

Plantan er notuð sem puntplanta í görðum þar sem aðstæður henta og sem kerplanta.

Ræktun

Plantan dafnar best í rökum, en ekki blautum, og súrum jarðvegi með pH 4,5 til 5,5. Þolir ekki mikla köfnunarefnisgjöf. Klippa skal burt kal á hverju vori og gott er að fjarlægja gamlar greinar á nokkurra ára fresti til að örva nývöxt. Einnig er gott að nota hey sem þekju í beð umhverfis runnann.

Þar sem plantan er ekki sjálffrjóvgandi þarf tvö yrki sem frjóvgast saman til að myndi ber. Yfirleitt fjölgað með græðlingum.

Uppskera á amerískum bláberjum í stórræktun er að mestu vélvædd og eru berin annaðhvort hrist eða burstuð af runnunum í safnpoka og laufi og smágreinar blásnar burt fyrir pökkun.

Uppskera á amerískum bláberjum í stórræktun er að mestu vélvædd og eru berin annaðhvort hrist eða burstuð af runnunum.

Amerísk bláber á Íslandi

Í dálki í Mánudagsblaðinu árið 1978, sem kallast Úr einu í annað, segir að flestar matvöruverslanir hafi á boðstólum amerísk bláber, afar góð og furðulega billeg. Í framhaldinu segir svo: „Hótelin eru sein á sér að vanda og hafa þau ekki á boðstólum og veitir þó ekki af að auka fjölbreytnina þar.“

Áhugasamir ræktendur hafa reynt fyrir sér með ræktun amerískra bláberjaplantna hér í talsvert mörg ár og mörgum tekist það ágætlega. Plantan er almennt skálaplanta sem þrífst illa utandyra og gefur sjaldan ber úti þótt þar geti verið undantekningar á. Utandyra hentar plantan í potti eða ker yfir hásumarið sem setja má inn í kalt gróðurhús yfir veturinn.

Meðal yrkja sem reynd hafa verið eru 'Northland' sem gefur meðalstór og sæt ber og er líklega harðgerðasta yrkið hér, 'Earlyblue', sem myndar aldin snemma, og 'Reka', 'Patriot' og 'Toro' sem þroska berin á miðju sumri.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...