Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fljótsvegsstíflan.
Fljótsvegsstíflan.
Mynd / ÞÖÁ 2018
Á faglegum nótum 19. maí 2020

Áveitur í Vestur-Landeyjum fyrri hluta 20. aldar

Höfundur: Þorvaldur Örn Árnason
Snemma á 20. öld voru áveitur í tísku. Er Flóaáveitan þar frægust, en á árunum 1918–1927 voru grafnir miklir áveituskurðir og vatni úr Hvítá veitt á Flóann. Höfðu bændur tekið eftir því að gras spratt betur þar sem jökulár flæddu af og til yfir bakkana.
  
Vestur-Landeyingar, og þá ekki síst Álfhólabændur, létu sitt ekki eftir liggja. Er sú saga minna þekkt og skal nú bætt úr því. Byggt er á hljóðrituðum viðtölum sem höfundur tók 1995 við Ágúst Jónsson í Sigluvík (1910–1999). Ágúst var alinn upp í Álfhólum og bjó þar uns hann hóf búskap í Sigluvík 1935. Höfundur tók ljósmyndir af leifum stíflumannvirkja, aðallega stóru stíflunnar í Fljótsvegi suður af Álfhólum, sjá hér aftar. 
 
Fljótsvegsveitan í Álfhólum
 
Fljótsvegur er lítil á með upptök nálægt Þverá skammt austan við bæinn Hemlu  við Þjóðveg 1, og rennur niður V-Landeyjar og í Lónið milli Skipagerðis og Álfhólahjáleigu og þar út í sjó. Nafnið bendir til að þetta hafi einhvern tíma verið einn af ótal farvegum Markarfljóts þegar hluti af því rann af og til vestur með Fljótshlíð í Þverá. Efri hluta Fljótsvegarins hefur nú verið breytt í skurði en neðan til verður hann enn talsvert vatnsfall í vatnavöxtum.
 
Það hefur líklega verið árið 1918 að hlaðin var mikil stífla í Fljótsveginn við Álfhóla og gerð áveita. Vatni var veitt austur um Álfhóla-Eyju og þó aðallega vestur í lækinn Görn um handgrafinn skurð framan við Búðatóft, tóft eftir sjóbúðir Fljótshlíðinga og Hvolhreppinga frá því að sjóróðrar voru stundaðir frá Landeyjasandi. (Þessar tættur eru komnar syðst undir tún Álfhólahjáleigu). Áveitan var til þess að auka grasvöxt, einnig sléttaðist landið er ís lagðist yfir og pressaði niður þúfurnar þegar vatnið seig undan honum. Einnig var hlaðið í Görnina til að halda vatninu og veita því á stórt fremur sendið svæði í Álfhóla-Nesi. Svo var gerður annar skurður til að veita vatninu af landinu þegar kom að slætti. Hluti af áveituvatninu hefur verið jökulvatn úr Þverá, því hún rann á þessum tíma stundum í Fljótsveginn fyrir austan Hemlu.
 
Stíflan í Fljótsveginum gaf sig og var endurhlaðin. Ásgeir L. Jónsson kom að endurgerð stíflunnar, eins og lesa má í dagbók hans frá 12. júlí 1922. Þar er riss að stíflunni og málsetning, sjá myndir í lok þessa skjals.
 
Seinni áveituhleðslan fer úr Fljótsveginum árið 1928. Sú tímasetning er örugg því Bjarni Jónsson á Álfhólum, sem smíðað hafði botnloku í stífluna, deyr úr lungnabólgu á Þorláksmessu það ár. Hann hafði verið að smíða utan um stúlku í Ey nokkrum vikum áður og orðið kalt. Kistan utan um Bjarna var smíðuð úr timbri úr stokki hleðslunnar sem hann hafði smíðað. 
 
Skurður sem flutti áveituvatnið austur yfir Álfhóla-Eyju. Annar skurður flutti öllu meira vatn til vesturs. Mynd / ÞÖÁ 2018
 
Vatni veitt úr Þverá
 
Á árunum í kringum 1920 var jökulvatni veitt úr Þverá, u.þ.b. 2 km fyrir neðan brú á þjóðvegi 1. Því var veitt í rásir austur undir bæina Strönd og Strandarhjáleigu og þaðan niður alla mýri, m.a. í lækinn sem rann niður milli Álfhóla og Sleifar. Hlaðnar voru margar hleðslur þvert yfir lækinn til að halda vatninu og sjást þær víða enn. 
 
Garður og handgrafinn skurður sem mun hafa veitt áveituvatni af landinu í Nesinu í Álfhólum. Mynd / ÞÖÁ 2018
 
Sami skurður og garður, sunnar. Mynd / ÞÖÁ 2018
 
Handgrafnir voru tveir skurðir úr Þverá. Helgi Bjarnason á Forsæti (1889–1959) gróf fyrri skurðinn í akkorði (10 aurar á fermetra). Síðar gróf Valdimar Jónsson á Álfhólum (1891–1985) annan skurð úr ánni á heppilegri stað, með því að plægja með hestum 6–8 plógför og taka svo upp plógstrengina. Hleypt var á vatni úr Þverá um miðjan maí og lokað skömmu fyrir slátt. 
 
Í miklum flóðum þegar ís var að ryðja sig af Þverá mynduðust klakastíflur. Fór vatnið þá yfir bakkana niður fyrir Uxahrygg og komu miklir ísdrekar niður alla mýri. Með slíkum ísstíflum urðu Djúpós og Valalækur til og veittu miklu vatni bæði yfir Safamýri í Þykkvabæ og ytri hluta Vestur-Landeyja svo margir bæir fóru í eyði. Slík klakastífluflóð héldu áfram eftir að jökulvatnið var hætt að flæða í ánni eftir að gerðar voru stíflur frá Þórólfsfelli um Stóra-Dímon að gömlu Markarfljótsbrúnni þegar hún var byggð 1934.
 
Þegar kom fram undir miðja 20. öld sneru menn við blaðinu. Í stað þess að veita vatni á votlendið skyldi það þurrkað. Þá komu skurðgröfur til sögunnar og í stað handgrafinna áveituskurða komu vélgrafnir framræsluskurðir, og í stað áburðarefna úr áveituvatni kom tilbúinn áburður til sögunnar.
 
Þorvaldur Örn Árnason, 
byggt á frásögn Ágústs Jónssonar 1995.

Skylt efni: áveitur | Vestur-Landeyjar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...