Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Einn mest mengandi iðnaður heims
Fréttir 13. júlí 2017

Einn mest mengandi iðnaður heims

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Vissir þú að um 90 prósent af öllu sem þú kaupir kemur til landsins með skipaflutningum? Vegna stærðar skipanna og gríðarlegs magns eldsneytis sem þau brenna eru skip sá iðnaður í heiminum sem mengar einna mest. Þannig losa sautján stærstu gámaflutningaskip heimsins meiri brennistein út í andrúmsloftið árlega en allir bílar í heiminum. Eitt skemmtiferðaskip mengar jafnmiklu sóti út í andrúmsloftið daglega eins og ein milljón bíla.

Þetta eru sláandi staðreyndir og má sjá og heyra af þeim í nýlegri heimildarmynd Bernice Notenboom og Söruh Robertson, Sea Blind.

Skipaflutningar færa okkur matvæli, fatnað, bíla og önnur raftæki ásamt mörgu fleiru. Það má því segja að þeir séu risastórt tannhjól alþjóðaverslunar því án skipaflutninga væri engin hnattvæðing. Vegna stærðar skipanna og þeirrar staðreyndar að skipaiðnaðurinn hefur leyfi til að brenna skítugasta eldsneyti í heiminum þá er þetta sá iðnaður í heiminum í dag sem mengar einna mest. Þessum staðreyndum um skipaflutninga heimsins eru gerð góð skil í heimildarmyndinni Sea Blind, sem var frumsýnd í Rotterdam í janúar árið 2016.

„Sem neytendur erum við orðin vön ódýrum vörum sem eru fljótar að komast á áfangastað alls staðar að úr heiminum. Við erum blinduð á sjóinn (Sea Blind) og fyrir þeim alvarlegu afleiðingum sem þessir skipaflutningar hafa á heiminn okkar. Þetta var ein af ástæðum þess að við réðumst í að gera þessa heimildarmynd,“ segir Sarah Robertson, annar leikstjóri myndarinnar.

Verða að breyta áherslum

Kvikmyndin hefur verið sýnd um allan heim, á loftslagsráðstefnum, hjá Evrópuþinginu, UNESCO, Alþjóðasiglingamálastofnuninni og í nokkrum höfnum, svo fátt eitt sé nefnt, eins og í Rotterdam og Amsterdam.

„Við vorum um sjö mánuði að gera myndina og það krafðist mikillar rannsóknarvinnu. Þetta viðfangsefni var nýtt fyrir okkur svo við gengum inn í þetta verkefni sem nýliðar en það er oft og tíðum gott þegar þarf að segja flóknar sögur því þá hefur maður hreina grundvallarnálgun fyrir viðfangsefninu. Það hafa margir komið til okkar og sent okkur skilaboð eftir myndina og er fólk gáttað á því að það hafi aldrei heyrt um þessa þætti sem koma fram í myndinni, þannig að áhorfendur hafa verið verulega hissa og tekið þessum nýju upplýsingum fagnandi,“ útskýrir Sarah og segir jafnframt:

„Flest viðtölin sem við áttum við forsvarsmenn stóru skipa­félag­anna voru gerð í góðri samvinnu. Sumir voru harðari í horn að taka en aðrir en við fengum mjög frambærilega einstaklinga í viðtöl á endanum. Skipa­iðn­aður­inn í Evrópu er meðvitaður um að þeir þurfa að vera gagnsærri og menga minna, það er að segja, þeir verða að breyta áherslum og flest stórfyrirtækin samþykkja það. Þegar við höfum sýnt myndina í stórum höfnum, eins og í Rotterdam, þá er það í góðri samvinnu við aðila þar og oft og tíðum skapast málefnalegar umræður um hvernig sé hægt að breyta þessu ástandi sem ríkir í dag. Hið sama er ekki hægt að segja um Norður-Ameríku þar sem hagsmunaðilar eru ekki eins áhugasamir um að vinna að þessu málefni í sameiningu.“

Enn  hraðara bráðnunarferli

Svört kolefni sem einnig er kallað sót er kastað út í andrúmsloftið í miklu magni vegna þess að skipaflutningar heimsins ganga á þungri, skítugri olíu. Þetta er ódýrasta og skítugasta olían sem hægt er að fá.

„Sótið svífur um loftið í um það bil þrjár vikur en vegna þess að það fer einnig niður á jökla og snjóbreiður Norður- og Suðurpólsins þá endurspeglast sólarljósið ekki lengur og verður þess valdandi að bráðnunarferlið verður enn hraðar. Skipaiðnaðurinn er sá iðnaður í heiminum sem hefur mesta óstjórn, er leynilegastur og sá sem mengar mest. Stóra vandamálið í þessu öllu er að alþjóðahafsvæðin tilheyra öllum heiminum og löggjöfin er hæg og erfið því samstöðu þarf að ná um alla þætti hjá öllum 170 löndunum sem hlut eiga að máli,“ segir Sarah og bætir við:

„Markmið okkar er að hætt verði að nota óhreinasta eldsneyti í heiminum, svokallað HFO-eldsneyti. Í dag eru nokkrar herferðir í gangi gegn því og er myndin okkar bara eitt tæki í þeirri baráttu. Við teljum að Sea Blind hafi áhrif á iðnaðinn og þá er öðru markmiði náð og okkar mat eftir vinnslu myndarinnar er að iðnaðurinn sé mjög meðvitaður um að það verði að gera virðiskeðjuna gagnsærri og hreinni. Hægt og sígandi eru neytendur líka að verða meðvitaðri um það hlutverk sem þeir spila í  þessu stóra tannhjóli. Það sem þarf einnig að ná fram er að stóru birgjarnir verðir pressaðir til að höndla einungis með vörur sem ferðast á hreinu eldsneyti. Sea Blind er sérstæð mynd en það er full þörf á því líka að taka skemmtiferðaskipin fyrir og það er aldrei að vita nema það verði næsta verkefni.“

Opnun Norðurslóða

Í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun, á ráðstefnu sem haldin var í París árið 2015, féll löggjöf við flug- og skipaiðnaði niður á síðustu stundu og segja aðstandendur Sea Blind það hafa verið mikil vonbrigði.
„Alþjóðaskiparáðið fullyrti að þeir væru vel færir um að taka ábyrgð á því vandamáli sem að þeirra iðnaði sneri. Eftir gerð myndarinnar erum við þess fullvissar að það er ekki hægt að hafa þennan iðnað án eftirlits og ætlast til að þeir geti leyst loftslagsmálefni sín upp á eigin spýtur. Það er sláandi að sautján stærstu gámaflutningaskip heimsins menga meiri brennistein út í andrúmsloftið en allir bílar heimsins og valda alvarlegum heilsufarsvandamálum hjá fólki. Sótið sem kemur frá skipaiðnaðinum hraðar bráðnun íss á Grænlandi og áætla má þegar norðurslóðir opnast fyrir skipaflutninga að um 80 prósent af flutningum fari þar í gegn og þá veltir maður fyrir sér hvaða áhrif þetta muni hafa á heilsu fólks og Norðurslóðir,“ útskýrir Sarah og segir einnig:

„Sérfræðingar í dag telja að hægt sé að hægja á um 40 prósent af bráðnun á Norðurslóðum með því að banna skítugt eldsneyti en helmingur þess kemur frá skipaiðnaði. Þeir eru einnig sammála um að þetta sé besta tækifærið fyrir okkur til að hægja á bráðnun íss á Grænlandi og það gefur okkur tíma til að undirbúa okkur fyrir hinn nýja hlýja heim. Við vonum að myndin hafi einhver áhrif í þessari umræðu og að fólk almennt verði meðvitaðra sem neytendur og betri þátttakendur í sífellt breytilegum heimi.

Skylt efni: Flutningar | mengun

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...