Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.
Mynd / smh
Fréttir 13. nóvember 2020

Einföld greining á innan við klukkutíma á sýklalyfjaónæmum bakteríum

Höfundur: smh

Nýverið hlaut Landspítalinn níu milljóna króna styrk til að þróa hraðvirkari greiningarpróf fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur. Í dag eru slíkar greiningar tímafrekar og krefjast rannsóknar á sérstökum rannsóknarstofum. Vonast er til að hægt verði að stytta greiningarferilinn úr tveimur til þremur dögum niður í innan við klukkustund, auk þess sem hægt verður að greina sýnin utan rannsóknarstofa. 

Landspítalinn hlaut þennan styrk úr sýklalyfjaónæmis og súnusjóði sem nú úthlutar í fyrsta sinn. Matvælastofnun fékk einnig styrk úr sjóðnum til að hefja skimanir fyrir E.Coli og sýklalyfjaónæmum bakteríum í hráu grænmeti og kanna tilvist og tíðni þeirra í grænmeti sem er borðað hrátt.  

Matvælastofnun mun einnig halda áfram skimun á E.Coli í lömbum við slátrun, sem hefur staðið yfir frá árinu 2018. E. Colibakteríur geta borið gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum og eru líklegri til að vera fjölónæmar.

Greint í fóðri og matvælum áður en það fer á markað

 Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, segir að verkefni þeirra sé unnið í samstarfi við nýsköpunar og líftæknifyrirtækið ArcanaBio. Í fyrstu sé ætlunin að þróa próf sem greinir nær alónæmar bakteríur af sömu ætt og E. coli. Hann segir að stytting greiningartímans sé mjög mikilvæg. „Með því að prófið tekur svona stuttan tíma má til dæmis stytta þann tíma sem sjúklingar þurfa að vera í einangrun við komu frá sjúkrahúsum erlendis. Auk þess verða prófin ódýrari en þau hraðgreiningarpróf sem við notumst við núna og því væri hægt að prófa mun fleiri. Eins og er þurfum við að takmarka þann fjölda sem fer í þau hraðgreiningarpróf sem við notum í dag.

Svo væri hægt að þjálfa starfsmenn til að framkvæma prófin utan rannsóknastofa. Þannig mætti leita að sýklalyfjaónæmi í fóðri og matvælum áður en því væri dreift á markað,“ segir Karl um ávinninginn af því að þróa þessa greiningartækni. 

Verið að þróa sambærilegt próf til greininar á SARSCoV2

Að sögn Karls er búið að þróa þessa tækni erlendis til þess að greina SARSCoV2veiruna, en hann veit ekki til þess að það sé búið að þróa hana til að greina sýklalyfjaónæmisgen. Hjá Landspítalanum er líka verið að þróa prófið til greiningar á SARSCoV2veirunni.

 Þróunin byrjaði á þessu ári og vonast Karl til þess að frumgerð prófsins verði tilbúin á næsta ári. 

Sjóðurinn nýtur framlaga frá atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu í þrjú ár, með 30 milljóna framlög á ári.  Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. 

Hann var stofnaður í samræmi við aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og sameiginlegt átak sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Hann styrkir meðal annars, grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi, auk þess að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri.