Átta gull til Íslands
Íslenska landsliðið gekk klyfjað verðlaunum frá Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem lauk í gær í Danmörku. Íslendingar unnu til átta gullverðlauna, sjö silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna á mótinu, bæði í íþróttakeppni og í kynbótahluta mótsins. Talið er að um 9000 gestir hafi verið staddir á leikvanginum í Herning þegar mest var en keppendur komu frá 14 löndum.
Óvæntustu úrslit mótsins voru eflaust sigur Kristínar Lárusdóttur, bónda í Syðri-Fljótum, og Þokka frá Efstu-Grund, í firnasterkri töltkeppni. Jóhann R. Skúlason hefur unnið greinina á síðustu fjórum mótum, en lét sér nú linda 4.-5. sæti, með Sigurbirni Bárðarsyni. Kristín og Þokki komu óvænt inn í íslenska landsliðið, tveimur vikum fyrir mót, eftir að Sigurður Sigurðarson ákvað að draga sig úr liðinu.
Guðmundur Björgvinsson og Hrímnir frá Ósi urðu heimsmeistarar í fjórgangi eftir harða úrslitabaráttu við Nils Christian Larsen og Viktor frá Diisa.
Reynir Örn Pálmason og Greifi frá Holtsmúla urðu heimsmeistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum, en þann titil hlýtur sá keppandi sem reynist vera með hæstu meðaleinkunn úr forkeppni í fimmgangi og slaktaumatölti. Þeir Reynir og Greifi urðu í 2. sæti í úrslitum beggja flokka.
Þá varð hinn ungi Teitur Árnason og Tumi frá Borgarhóli hlutskarpastir í gæðingaskeiði og skaut þar sér eldri og reyndari knöpum ref fyrir rass. Þeir Teitur og Tumi bættu svo við bronsverðlaunum í 250 metra skeiði.
Styrmir Árnason vann til silfurverðlauna í 100 metra skeiði á hryssunni Neyslu vom Schloßberg og fyrrum heimsmeistarinn Bergþór Eggertsson á Lotus frá Aldenghoor fengu brons.
Ungu knapar íslenska landsliðsins stóðu sig einnig afar vel á mótinu. Jóhanna Margrét Snorradóttir á Stimpil frá Vatni hlaut silfurverðlaun eftir spennandi úrslit ungmenna í slaktaumatölti. Gústaf Ágeir Hinriksson og Geisli frá Svanavatni voru í 2. sæti í fimmgangi og Guðmunda Ellen Sigurðardóttir og Týr frá Skálatjörn hlutu brons í fjórgangi ungmenna.
Fjögur gull til kynbótahrossa
Í kynbótahluta mótsins voru 6 hross frá Íslandi sýnd. Fjögur hrossanna urðu efst í sínum flokki, en tvö þeirra hlutu silfurverðlaun.
Glóðafeykir frá Halakoti sigraði elsta flokk stóðhesta með 8,74 í aðaleinkunn, en hann hlaut 9,03 fyrir hæfileika. Glóðafeykir var, sem kunnugt er, gæðingur reiðkennarans Einars Öders Magnússonar, sem lést fyrr á árinu. Þeir félagar sigruðu m.a. B-flokk gæðinga á Landsmóti hestamanna í Reykjavík árið 2012. Knapi Glóðafeykis á Heimsmeistaramótinu var Daníel Jónsson.
Þá sigraði Kengála frá Neðri-Rauðalæk elsta flokk hryssna með einkunnina 8,53. Knapi á Kengálu var Agnar Snorri Stefánsson. Garún frá Árbæ hlaut hæstu aðaleinkunn 6 vetra hryssna, 8,62, en knapi hennar var Guðmundur Björgvinsson. Andvari frá Auðsholtshjáleigu hlaut hæstu einkuknn 5 vetra stóðhesta, 8,49. Knapi hans var Árni Björn Pálsson.
Ríkey frá Flekkudal var í 2. sæti í flokki 5 vetra hryssna með aðaleinkunnina 8,42 og Svaði frá Hólum hlaut næst hæstu einkunn 6 vetra stóðhesta, 8,63.
