Í könnun meðal framleiðenda á árinu 2019 kom fram að þeir telja sig vandalaust geta aukið framleiðslu sína um allt að 40%.
Í könnun meðal framleiðenda á árinu 2019 kom fram að þeir telja sig vandalaust geta aukið framleiðslu sína um allt að 40%.
Mynd / HKr
Fréttir 21. janúar 2021

Athugasemdir og áréttingar um efnistök og niðurstöður skýrslu um þróun tollverndar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hagsmunasamtök bænda og fyrirtækja í afurðavinnslu og sölu hafa sent Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra athuga­semdir og áréttingar um efnistök og niðurstöður skýrslu um þróun toll­verndar.

Tildrög bréfsins, sem var sent 16. nóvember síðastliðinn, var að þann 10. nóvember kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skýrslu um þróun tollverndar, sem unnin var af starfshópi sem skipaður var þann 10. júlí 2019.

Hagsmunasamtök bænda og fyrirtækja í afurðavinnslu telja að á skýrslunni séu slíkir meinbugir að óverjandi sé að nota hana án lagfæringa við opinbera stefnumörkun varðandi tolla­umhverfi landbúnaðarvara.

Rangfærslur og rangar ályktanir

Í bréfinu, sem má finna í heild sinni á heimasíðu Bændablaðsins, er fjallað um þau atriði sem eru áberandi ýmist röng eða ályktanir dregnar sem ekki standa efni til á grundvelli þeirra upplýsinga sem eru til staðar, eða sannleikurinn tekinn úr réttu samhengi.

Að mati sendanda eru tollamál og tollvernd mikilvæg þar sem þau hafa mikla þýðingu fyrir þróun og skilvirkni atvinnulífsins. Víða í skýrslunni er vikið að því að gögn hafi skort til að unnt væri að leggja mat á þau viðfangsefni sem tekin voru til skoðunar. Aldrei var leitað til aðila eins og SAM við vinnslu skýrslunnar, sem búa yfir fullkomnasta gagnagrunni landsins um framleiðslu og ráðstöfun mjólkur og mjólkur­afurða.

Niðurstaða bréfritara

Niðurstaða bréfritara er að skýrslan sé slíkum annmörkum háð að ekki sé hægt að leggja hana til grundvallar án lagfæringa við stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins. „Við munum í framhaldinu koma frekari athugasemdum á framfæri en okkur þótti brýnt að vekja athygli á því sem við teljum vera hvað alvarlegasta meinbugi á skýrslunni. Jafnframt teljum við nauðsynlegt að eiga frekari samskipti við þá sem fjalla um skýrsluna á vettvangi ráðuneytisins og um nýtingu hennar í framhaldinu.