Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tónlistarmaðurinn Siggi Björns frá Flateyri, sem búsettur er í Berlín, er að koma með nýjan 12 laga geisladisk á markaðinn sem heitir Roll On.
Tónlistarmaðurinn Siggi Björns frá Flateyri, sem búsettur er í Berlín, er að koma með nýjan 12 laga geisladisk á markaðinn sem heitir Roll On.
Fólk 23. apríl 2021

Sonur Flateyrar væntanlegur frá Berlín með glænýja hljómplötu í farteskinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Tónlistarmaðurinn Sigurður Björnsson betur þekktur sem Siggi Björns frá Flateyri, er að koma með nýjan 12 laga geisladisk á markaðinn sem heitir Roll On og er hann væntanlegur úr framleiðslu í næstu viku. Þess má geta að Siggi og sambýliskona hans, Franziska Günther, höfðu á stefnuskránni að koma til Íslands í maí og fyrirhuga að halda eina 14 tónleika víða um land og þá síðustu 5. júní. Óljóst er hvort COVID-faraldurinn muni raska því plani. Að því búnu eru á dagskránni fjölmargir tónleikar á eynni Bornholm í Danmörku ef COVID leyfir.

Siggi Björns á langan feril að baki sem trúbador, en bakgrunnur hans liggur í lífinu í fiski, beitningu og sjómennsku á Flateyri. Það er því ekki skrítið að blús og skemmtilegir slagarar séu mjög áberandi í hans tónlist.

Hefur gefið út fjölda geisladiska

Hann hefur gert fjölmarga geisladiska sem notið hafa mikilli vinsælda, ekki síst meðal Vestfirðinga. Hann hefur líka troðið upp með öðrum, eins og hljómsveitinni Æfingu frá Flateyri, sem gaf út bráðskemmtilegan disk 2013 um 45 ára sögu sína. Hljómsveitin hélt svo m.a. afar vel heppnaða tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði á lokadaginn 11. maí (vertíðarlok) 2019.

Siggi að spila fyrir gesti á Bakkarøgeriet á Østre Sømarken á Bornholm í Danmörku.

Á Bornholm þekkja allir Íslendinginn Sigga Björns

Siggi hefur í fjölda ára spilað í Þýskalandi og Danmörku við miklar vinsældir ásamt Franzisku og ýmsum öðrum tón­listar­­mönnum, en þau eru búsett í Berlín ásamt Magnúsi Björnssyni, 13 ára syni Sigga. Sem dæmi má nefna að hann hefur í fjölda ára verið fastur gestur á eyjunni Bornholm í Danmörku í júní á hverju ári þar sem hann hefur gjarnan troðið upp á hinum vinsæla sjávarréttastað Bakkarøgeriet á Østre Sømarken. Er Siggi meira að segja kominn í ferðabæklinga fyrir Bornholm yfir það sem fólk verði að upplifa (must see) þegar það heimsækir eyjuna.

Siggi kom fyrst til Bornholm til að spila árið 1990 og er síðan búinn að spila þar á hverju sumri, eða í 30 ár. Þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn spilaði hann líka á Bornholm sumarið 2020, en heldur minna en venjulega þar sem aðgengi gesta var takmarkað.

Hefur hann svo sannarlega haft lag á að koma Dönum og gestum þeirra í sannkallað hörkustuð ár eftir ár, eins og sjá má á fjölmörgum myndböndum á YouTube. Þar þekkja allir þennan káta Íslending. Í því ljósi er óneitanlega dálítið umhugsunarvert að Siggi skuli ekki hafa fengið meiri spilun á íslenskum útvarpsstöðvum í gegnum tíðina en raun ber vitni.

Siggi segir að þau Franziska hafi ekkert verið að koma fram síðan í október. Þau settu þó saman þriggja laga sett fyrir hátíðina Stútung 2021 á Flateyri nú í vetur ásamt Magnúsi, sem spilar með þeim í tveim lögum. Af augljósum ástæðum út af COVID-19 faraldrinum var hátíðin send út á netinu að þessu sinni. Vegna forvitni og eftirspurnar þeirra sem ekki sáu þessa frábæru útsendingu frá Flateyri, ákváðu þau að setja sinn hluta af hátíðinni á netið á siggi-bjorns.com. Þó heimsfaraldur hafi komið í veg fyrir mikla spilamennsku, þá lætur Siggi ekki deigan síga.

Tóku upp 12 laga plötu

„Ég átti nokkur lög á lager og svo sömdum við Franziska nokkur í viðbót og tókum upp tólf af þessum lögum hér heima hjá mér. Ellefu af þessum lögum eru bara ég og gítarinn, reyndar spilar Magnús Björnsson, 13 ára sonur minn, á slagverk í þremur lögum og Franziska syngur með í „Lost At Sea“. Dóri Páls Fjallabróðir fékk eitt lagið, „Every Moment Has A Meaning“, til meðferðar og það endaði í fullri útsetningu þar sem hann spilar öll hljóðfæri nema trommur, það gerði Óskar Þormarsson. Það lag er ég búinn að senda inn í tölvuna hjá RÚV, veit reyndar ekki hvort þeir hafa spila það enn þá. Diskinn fæ ég í hendurnar í næstu viku, sennilega þann 19. apríl, en hann er kominn inn á alla netmiðla, Spotify, Napster o.s.frv. auk þess að hann er á heimasíðunni minni og hægt að sækja hann þangað.

Diskurinn heitir „Roll On“. Það er lag sem ég gerði við texta eftir danskan vin minn, Esben „Langkniv“ Bøgh, sem hann samdi eitt sinn sem við vorum á ferðinni á Íslandi. Hann hafði keypt dansk/íslenska orðabók þar sem maður gat lært stuttar og gagnlegar setningar á íslensku. Ein sú fyrsta var: „Hvar er lestarstöðin?“

Sem Dana fannst honum oft langt á milli bæja, sérstaklega á Vestfjörðum, fjöllin og landslagið bauð oft upp á að hugmyndaflugið færi á ferð, ekki alltaf ljóst hvort maður sé að koma eða fara, fannst honum.“

Stapadraugurinn

„Við fórum að spá í alls konar aðrar víddir og ég sagði honum m.a. frá Stapadraugnum á Reykjanesi og að ég hafi ekki heyrt neitt nýtt um hann í mörg ár, kannski væri umferðin of hraðfara í dag, en hvað um það, lagið varð til.“

Sjóskaðar uppspretta lagasmíða

„Lagið „Lost At Sea“ sömdum við í febrúar eftir að hafa séð tónleika á netinu frá Hull, þar sem rifjað var upp þegar þrír togarar frá Hull fórust á nokkrum dögum við Ísland 1968. Þar var fókusinn á konurnar í Hull „The Headscarfs“ sem mótmæltu aðstæðum sjómanna og öryggismálum um borð breskra togara. Þær náðu að breyta mörgu til hins betra.

Þó lagið hafi útgangspunkt í þessu, þá er það fyrst og fremst mín upplifun sem púki vestan af Flateyri að á hverjum vetri fórust bátar með fjöldann allan af sjómönnum. Árið 1964 fórust bátarnir Mumminn og Sæfell frá Flateyri með sjö mönnum, Freyja frá Súðavík (mágur minn fórst þar) og svona var þetta einhvern veginn á hverjum vetri. Nóttin þegar Heiðrúnin frá Bolungarvík fórst í Ísafjarðardjúpi ásamt bresku togurunum Ross Cleveland og Notts County situr í manni,“ segir Siggi.

Siggi Björns, Franziska Günther og sonurinn Magnús Björnsson heima í stofu í Berlín að spila fyrir Stútung 2021, þorrablót Flateyringa, í gegnum netið.

Stelpurnar utan úr heimi dálítið ábyrgar fyrir tónlistarferlinum

„Síðan er lagið „Every Moment Has A Meaning.“ Það er um hvað fólk sem maður hittir, eða atvik, geta breytt miklu um hvert maður heldur í lífinu. Hér geri ég stelpurnar sem voru að koma frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Suður-Afríku, Englandi og hvaðan þær nú komu, til að vinna í frystihúsum landsins dálítið ábyrgar fyrir því að ég er tónlistarmaður og bý í Berlín í dag.

Þó maður hafi kannski ekki séð það þannig þegar þetta gekk á, þá komu þær með nýja strauma, hugmyndir og siði, opnuðu dyr í annan heim og breyttu lífi margra. Tóku með sér stráka út um allan heim, aðrir lögðust í flakk o.s.frv. Þannig byrjaði þetta allavega hjá mér, ég fór í heimsókn til Nýja-Sjálands og Ástralíu ... tók gítarinn með.

Þetta voru skemmtilegir tímar, þegar þorpin fylltust af ungum stelpum á hverju hausti,“ segir Siggi og hlær.

Hann segir að á umslaginu utan um nýja diskinn sé mynd af fígúru sem vinur hans, Matthias Masswig, gerði.

„Hann er með vinnustofu og gallerí hér í Berlín, svo veggfóðrið heima ... Kórónastemning,“ segir þessi glaðbeitti Flateyringur sem Þjóðverjar og Danir elska alveg hreint út af lífinu.

Siggi Björns með félögum sínum í hljómsveitinni Æfingu frá Flateyri á sviðinu í Bæjarbíói þann 11. maí 2019. Talið frá vinstri: Halldór Gunnar Pálsson, Árni Benediktsson, Jón Ingiberg Guðmundsson, Siggi Björns og Ásbjörn Þ. Björgvinsson.

Fyrirhuguð tónleikaferð Sigga Björns á Íslandi

 • Miðvikudagur, 12. maí kl. 20:00 - Café Rosenberg, Reykjavík
  - Siggi Björns, Franziska Günther og Svavar Knútur
 • Laugardagur, 15. maí kl. 20:00 - Skyrgerðin, Hveragerði
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Sunnudagur 16. maí kl. 20:00 - Fish House, Grindavík
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Þriðjudagur, 18. maí kl. 20:00 - Beituskúrinn, Neskaupstað
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Miðvikudagur 19. maí kl. 20:00 - Vogafjós, Mývatni
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Fimmtudag 20. maí kl. 20:00 - Kaffi Klara, Ólafsfirði
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Laugardagur 22. maí kl. 20:00 - Frystihúsið, Flatey
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Þriðjudagur 25. maí kl. 20:00 - FLAK, Patreksfirði
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Miðvikudagur 26. maí kl. 20:00 - Vegamót, Bíldudal
  - Siggi Björns &Franziska Günther
 • Fimmtudagur 27. maí kl. 20:00 - Vagninn, Flateyri
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Sunnudagur 30. maí kl. 20:00 - Einarshúsið, Bolungarvík
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Þriðjudagur, 1. júní kl. 20:00 - Kómedíuleikhúsið, Haukadal
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Föstudagur 4. Júní kl. 20:00 - Félagsheimilið, Súðavík
  - Siggi Björns & Franziska Günther
 • Laugardagur 5. júní - Kalksalt, 425 Flateyri
  - Siggi Björns & Franziska Günther

Skylt efni: Siggi Björns

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Fólk 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Fólk 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Fólk 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Fólk 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Fólk 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Fólk 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Fólk 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Fólk 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...