Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ýmislegt leynist undir björgum Langaness en það er betra að fara varlega.
Ýmislegt leynist undir björgum Langaness en það er betra að fara varlega.
Fólk 16. apríl 2021

Norðausturhornið er fyrir mörgum ókannað land

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Norðausturhornið er fyrir mörgum ókannað land, en býður upp á ýmsa möguleika til gönguferða og þar er fjölbreytni mikil,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, formaður Ferðafélagsins Norðurslóðar. Félagið hefur boðið upp á gönguferðir um Langanes undanfarin ár en nú hafa ábúendur á Ytra Lóni á Langanesi þróað þær ferðir upp á hærra stig í samvinnu við Ferðafélagið og bætt við ýmsum gæðum.

Mirjam Blekkenhorst og Sverrir Möller hafa rekið ferðaþjónustu á Ytra Lóni í ríflega tvo áratugi. Hafa þau alla tíð boðið upp á útivist og gönguferðir auk þess að kynna búskapinn fyrir þeim ferðalöngum sem þess óska. Þá hafa þau lagt áherslu á kyrrð og frið sem einkennir Langanesið.

Ytra Lón stendur 14 kílómetra norðan við Þórshöfn, en þar er fjölbreytta þjónustu að finna.

Áð í birkihvammi við Stífluá á eyðibýlahring.

Mirjam segir að á komandi sumri verði í boði alls 6 skipulagðar gönguferðir um Langanes, frá byrjun júní og fram yfir miðjan ágúst. Sú fyrsta hefst þann 7. júní og síðasta ferðin sem í boði verður í sumar hefst 15. ágúst. Gönguferðirnar eru fjögurra daga og gist er í fimm nætur. Mirjam segir að í ferðunum sé áhersla lögð á að kynna menningu og sögu svæðisins. Gestir geta fylgst með búskapnum, en ábúendur hafa marga bolta á lofti auk þess að reka stórt sauðfjárbú með 460 vetrarfóðruðum kindum. Þar fer fram þjálfun smalahunda, trjárækt hefur verið stunduð um árabil og votlendi hefur verið endurheimt. Öllu þessu geta göngugarpar fengið að kynnast í sumar því farið er í heimsókn í fjárhúsið þar sem allt er skoðað í krók og kring og sagt frá ýmsu í nútímalegum búskap. Jafnvel verður hægt að sjá smalahundaþjálfun í gangi.

Ferðaþjónustan á Ytra Lóni hefur upp á 9 stúdióíbúðir að bjóða með baðherbergi og litlu eldhúsi sem vel rúmar 2 til 3 einstaklinga. Veitingasala er á staðnum og áhersla lögð á afurðir af býlinu. Þau Mirjam og Sverrir hafa boðið upp á fuglaskoðunar- og fræðsluferðir um Langanes á Land Rover jeppum og hafa þær notið vinsælda.

Séð yfir Kumblavík á austanverðu Langanesi. Þar var búið um aldaraðir.

Farið um gamlar kirkjuleiðir, eyðibýlahring og upp á Heiðarfjall

„Í sumar verða í boði nokkrar skipulagðar ferðir þar sem við leggjum ríka áherslu á að göngugarpar tengist náttúru Langaness, sögu þess og menningu,“ segir Halldóra, sem verður aðalgöngustjóri og sögumaður í ferðunum.

Í gönguferðunum er komið við í eyðiþorpinu Skálum, farið er um lífleg fuglabjörg, litið á rekaviðarhrannir og farið út á ysta odda Langaness. Ein stærsta súlubyggð landsins er svo barin augum í bakaleiðinni.

„Við göngum yfir grösug svæði meðfram tærri bergvatnsá og það er áð í birkilundi við lækjarnið, en einnig er gengið um fallegar fjörur sem eru fullar af lífi. Við þræðum gamlar kirkjuleiðir og tökum eyðibýlahring. Förum upp á Heiðarfjallið þar sem ratsjárstöð varnarliðsins stóð og skoðum ummerki um veru þess á svæðinu. Þá er sungið hástöfum í vitum sem verða á leið okkar og á kvöldin eru í boði dásamlegar kvöldvökur með sögum og fróðleik,“ segir Halldóra.

Meðal þess sem við sögu kemur á kvöldvökum eru prestar og prestsmaddömur, baráttukonur, sterkir menn og ísbirnir, tundurdufl, stríðsrekstur, skrímsli og Skálar, þorpið sem einu sinni var, en sögurnar sem sagðar eru á kvöldvökunum eru bæði úr nútíð og fortíð.
Síðdegis suma daga verður hægt að skjótast í sundlaugina á Þórshöfn, sem er bæði falleg og góð.

Allt innifalið

Gist er í fimm nætur í fallegum íbúðum á Ytra Lóni þar sem bæði er heitur pottur og kaldur. Þátttakendur greiða eitt verð og er innifalið í því gisting, morgunmatur, nesti og kvöldmatur, akstur, leiðsögn, aðgangseyrir og göngukort af svæðinu. Mirjam nefnir að í veitingasölu Ytra Lóns sé lögð áhersla á afurðir beint frá býli, gæðakjöt, silung úr lóninu, egg, rabarbara og sitthvað fleira, en síðasta kvöldið er slegið upp veislu þar sem þessar afurðir eru í öndvegi í bland við skemmtun með glensi og gamni. Þeim sem bóka ferðir fyrir 1. maí býðst 10% afsláttur en allar upplýsingar um gönguferðirnar má finna á vefsíðu Ytra Lóns, ytralon.is.

Góð gönguþjálfun

Halldóra segir að gönguferðirnar sem í boði verða frá Ytra Lóni í sumar byggi m.a. á þeim ferðum sem Ferðafélagið Norðurslóð hafi boðið upp á í nær áratug. „Það er komin góð reynsla á þessar ferðir sem nýtist vel við skiplag ferðanna frá Ytra Lóni og þátttakendur hafa verið ánægðir. Og við munum einnig eiga í samstarfi við fleiri sem stunda ferðaþjónustu á þessu svæði,“ segir hún. Erfiðleikastig ferðarinnar er mælt í tveimur skóm, en dagleiðir eru á bilinu frá 9 kílómetrum og upp í 16. Á köflum er gengið um óslétt land og þýfða móa, þannig að þátttakendur þurfa að vera í góðri gönguþjálfun.

Gengið í fallegri fjöru. Heiðarfjall og Eiðisskarð í baksýn.

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Fólk 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Fólk 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Fólk 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Fólk 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Fólk 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Fólk 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Fólk 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Fólk 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...