Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Saltkjöt og baunir, túkall
Matarkrókurinn 21. febrúar 2023

Saltkjöt og baunir, túkall

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Saltkjöt og baunir þekkja allir, einföld klassík úr okkar matarhefð sem allir þekkja og flestum þykir góður matur. Rétturinn krefst ekki flókins undirbúnings, en þarf að fá sinn tíma í suðu. En hvaðan kemur hefðin sem felst í saltkjötsneyslu á sprengidag sem núna er nýliðinn?

Sprengidagur er síðasti dagur fyrir lönguföstu sem hefst á öskudegi, sjö vikum fyrir páska. Þessi tími átti að vera syndugum til íhugunar og góðrar breytni, auk föstunnar að sjálfsögðu, sem á Íslandi takmarkaðist yfirleitt við kjötmeti en gat einnig náð til fiskvöru og mjólkurafurða. Ef langt var gengið hljóðaði mataræðið upp á vatn og brauð.

Í Evrópu tíðkuðust, og tíðkast enn þar og víða í heiminum, sérstakar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, miklar útihátíðir og skemmtanir. Föstuinngangur fer saman við vorkomu á suðlægari slóðum og þar hafa heiðin hátíðahöld örugglega haft áhrif sem síðan hafa borist til norðlægari landa. Dagarnir fyrir upphaf föstu voru líka hefðbundnir uppgjörsdagar skatta víða í Evrópu, sem gjarnan voru greiddir í búfénaði og matvælum. Hjá aðalsmönnum hefur því verið til ógrynni matar á þessum tíma sem helst þurfti að nýta sem fyrst vegna bágra aðstæðna til matvælageymslu. Heldra fólk gerði því vel við sig í mat á þessum tíma, og kirkjunnar menn og aðrar stéttir létu sitt ekki eftir liggja.

Strjálbýli og veðurfar hafa að öllum líkindum komið í veg fyrir að útihátíðahöld næðu fótfestu á Íslandi á þessum árstíma en skemmtunin haldist innan veggja heimilanna, búanna. Eins og venjan á sprengidag gefur til kynna, saltkjöt og baunir í mál, hefur eitthvað verið gert til að breyta til í mataræði við upphaf föstu hér á landi.

Þó ekki hafi tekist að rekja sögu þessara hefða langt aftur í tímann, má gera ráð fyrir að siðbreyting frá katólskum sið hafi haft mikil áhrif á hvernig menn höguðu sér á lönguföstu og við upphaf hennar.

Lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar sprengidagurinn fer að nálgast en er einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið, til dæmis skemmtiatriði. (Heimildir: Vísindavefurinn.)

Saltkjöt & baunir 6 skammtar
  • 3 kg saltkjöt
  • 3 l vatn
  • 2 msk. olía
  • 2 laukar, saxaðir
  • 3 beikonsneiðar, saxaðar
  • 300 g gular baunir, lagðar í kalt vatn yfir nótt, síðan er vatnið sigtað frá
  • 2 l vatn

Skolið kjötið og setjið í pott með 3 l af vatni og sjóðið við vægan hita í minnst 70 mín. Hitið olíu í öðrum potti og svitið lauk og beikon á meðalhita í 3 mín. Bætið baunum og 2 l af vatni í og sjóðið á rólegum hita í 30- 40 mín. Hrærið í pottinum reglulega. Bætið þá 1-2 kjötbitum í súpupottinn og sjóðið í 30 mín í viðbót. Þegar kjötið er orðið meyrt og baunirnar mjúkar er hún borin fram, sumir vilja mauka hana fínt í matvinnsluvél eða töfrasprota. Smakkið til með pipar. Berið súpuna fram með kjötinu ásamt soðnum kartöflum, rófum og gulrótum.

Plokkfiskur með blaðlauk - fyrir 4-6 manns
Matarkrókurinn 29. mars 2023

Plokkfiskur með blaðlauk - fyrir 4-6 manns

Einfalt og gott velja margir í hversdagsmatinn. Hvernig væri að rifja upp gamla ...

Hversdagslegur kjúklingur
Matarkrókurinn 15. mars 2023

Hversdagslegur kjúklingur

Í tilefni af því að alifuglarækt er búin að slá við sauðkindinni sem mest framle...

Saltkjöt og baunir, túkall
Matarkrókurinn 21. febrúar 2023

Saltkjöt og baunir, túkall

Saltkjöt og baunir þekkja allir, einföld klassík úr okkar matarhefð sem allir þe...

Ostakakan sem aldrei sefur
Matarkrókurinn 16. febrúar 2023

Ostakakan sem aldrei sefur

Fermingarnar nálgast óðfluga og þá þarf að baka. En það þarf ekki allt að vera m...

Vannýtt hráefni úr hafinu
Matarkrókurinn 2. febrúar 2023

Vannýtt hráefni úr hafinu

Öll gætum við sennilega aukið fiskneyslu okkar, en hún hefur mikið dregist saman...

Afgangakássa
Matarkrókurinn 19. janúar 2023

Afgangakássa

Jólin eru búin og ískaldur veruleikinn tekinn aftur við. Það þýðir megrun og lík...

Hátíð matarhefða
Matarkrókurinn 22. desember 2022

Hátíð matarhefða

Sjálft jólahaldið og undirbúningur þess er nú fram undan og aðventan nýhafin. Sj...

Jólaglögg & lussekatter
Matarkrókurinn 20. desember 2022

Jólaglögg & lussekatter

Um miðjan desember árið 1955 komust fyrst á síður blaðanna fregnir af drykknum j...