Salat þarf ekki að vera vont. Allavega ekki alvont.
Salat þarf ekki að vera vont. Allavega ekki alvont.
Mynd / Hari
Matarkrókurinn 31. ágúst 2023

Miðaldramanna-salat

Höfundur: Haraldur Jónasson

Árin færast hratt yfir og miðöldrunin gengur vel. En svo byrjar að smella í öllum liðum og líkurnar á því að geta lesið innihaldsupplýsingar gleraugnalaus eru hverfandi. Það þýðir að það er þýðingarlaust að þráast lengur við. Það þarf að borða meira salat.

Hingað til hefur fullkominn skammtur af grænmeti sennilega verið paprika og sveppir með pepperóníinu á pitsur og súrar gúrkur á hamborgara.

En nú er svo komið að það er bara ekki nóg og þá er eins gott að búa til salat fyrir snemmmiðaldra menn. Menn eins og mig.

Til að ferskmiðaldra maður eins og sá sem þetta skrifar geti borðað salat sem aðalrétt þarf tvennt eða sennilega þrennt, alla vega tvennt og hálft:

Sæmilega dressingu, smá prótein og þetta hálfa, pínulítið kolvetni – alla vega til að byrja með.

Salatið getur verið nokkurn veginn hvað sem er en ágætis grunnur er laufsalat eins og rósasalat, Romain, Grand, kínakál eða Iceberg. Grænkál er svo líka svakalega hollt svo ekki sé minnst á spínatið. Tómatar og radísur eru líka mjög góð viðbót við grunninn.

Svo má djassa salatið upp með því sem til er eða þykir sæmilegt á bragðið. Papríka, hvítkál, agúrka og allt þetta helsta er voða hollt og gott.

Siggi majónes

Trixið með salat fyrir byrjendur er að saxa það smátt. Þannig er enginn vandræðagangur með stór lauf og dressingin blandast vel í hvern munnbita.

Salatlífið verður bara miklu hentugra til átu og bara betra þegar smátt er skorið. Talandi um dressingu þá er ákjósanlegt að hún innihaldi svolitla fitu svo hún hjúpi kálið og svo smá sýru til að vega upp á móti fitunni. Klassískt kombo er ólífuolía, edik og sinnepssletta þeytt eða hrist saman. Sinnepið hjálpar olíunni og edikinu að hanga saman þrátt fyrir að vera beinlínis olía og vatn.

En í miðaldramanna-salati byggist dressingin í kringum gamla góða mæjónesið. Mæjónes er jú nokkurn veginn bara stöðug fitublanda.

Er þó fullþykkt til að fara beint út í kálið og líka pínu ógirnilegt. Það er því ákjósanlegt að þynna mæjónesið nokkuð. Mátulega súran þynni er hægt að finna í til dæmis límónusafa en einnig er hægt að nota safann af súrum gúrkum, ólífum eða einhverju öðru sýrðu góðgæti.

Smá salt og smá sinnep skaða heldur ekkert.

Búrgeisar

Til að fara ekki of bratt í salatliðið er gott að nýta það sem hinn snemmmiðaldra þekkir. Til dæmis með því að búa til salatskálar úr kunnuglegum réttum.

Það er hægt að gera taco-salat með alls konar salatblöðum, tómötum og avókadó. Toppað með dressingu byggðri á sýrðum rjóma í staðinn fyrir mæjónesunni. En hið fullkomna miðaldramanna-salat er þó auðvitað ostborgarasalat.

Svona förum við að:

Grilla eða steikja hamborgaraplatta, bræða yfir hann ost og láta taka sig á meðan salatið er undirbúið. Saxa niður salatblöð, lauk, tómata og góða súra gúrku.

Hræra saman mæjónesi og safanum af súru gúrkunum, sirka í hlutföllunnum einn partur mæjó á móti einum parti af súrsafa. Þá hálfum parti af góðu amerísku gulu sinnepi. Smá salt og pipar eftir smekk. Skera borgarann í kubba og hræra út í laufin.

Punkturinn yfir i-ið kemur svo með steiktum brauðteningum. Saxa franskbrauð eða jafnvel – hamborgarabrauð. Steikja brauðbitana upp úr klípu af smjöri við frekar miðlungshita.

Þegar teningarnir eru byrjaðir að brúnast og verða stökkir er svo hægt að léttsteikja nokkur sesamfræ fyrir þá sem vilja Big- mac gæði á salatið.

Skylt efni: salat

Steikt lamba rib-eye
Matarkrókurinn 14. september 2023

Steikt lamba rib-eye

Haustið er komið og með því göngur og réttir í sveitum landsins og meðfylgjandi ...

Miðaldramanna-salat
Matarkrókurinn 31. ágúst 2023

Miðaldramanna-salat

Árin færast hratt yfir og miðöldrunin gengur vel. En svo byrjar að smella í öllu...

Hamborgari
Matarkrókurinn 16. ágúst 2023

Hamborgari

Góður hamborgari á allar sínar vinsældir skilið, en er samt auðvitað bara hambor...

Stórsteikur á sumargrillið
Matarkrókurinn 18. júlí 2023

Stórsteikur á sumargrillið

Stundum, kannski eins og einu sinni yfir sumartímann, reynist löngunin í vel fit...

Grilluð harissa-kjúklingalæri
Matarkrókurinn 4. júlí 2023

Grilluð harissa-kjúklingalæri

Öllum þykir grillmatur góður, eða svona næstum því, og svo sannarlega grilla Ísl...

Grill/rigningarsumarið mikla
Matarkrókurinn 20. júní 2023

Grill/rigningarsumarið mikla

Það er kominn júní og það þýðir að, hvað sem tautar og raular, grilltímabilið er...

Hægeldaður lambabógur
Matarkrókurinn 6. júní 2023

Hægeldaður lambabógur

Þegar þetta er ritað lekur slyddan niður rúðuna og fátt minnir á vor, sumar og g...

Eggið og hænan
Matarkrókurinn 23. maí 2023

Eggið og hænan

Ég er áhugamaður um margt. Ég stunda hjólreiðar, ég tálga spýtur, fer á skíði, h...