Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
„Ég hlakka til að takast á við áskoranir greinarinnar og vil nýta tímann vel til að eiga gott samtal og vinna að faglegum málum greinarinnar,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður Landssambands kúabænda.
„Ég hlakka til að takast á við áskoranir greinarinnar og vil nýta tímann vel til að eiga gott samtal og vinna að faglegum málum greinarinnar,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður Landssambands kúabænda.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 24. nóvember 2020

„Hlakka til að takast á við áskoranir greinarinnar”

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Ég hlakka til að takast á við áskoranir greinarinnar og vil nýta tímann vel til að eiga gott samtal og vinna að faglegum málum greinarinnar, eins og að styrkja frekari þekkingu, rannsóknir og þróun. Við þurfum að taka vel utan um loftslagsmál greinarinnar, stuðla að bættri ímynd nautgriparæktarinnar, halda styrkleikum okkar á lofti og bæta merkingar matvæla til að auðvelda neytendum að velja okkar vörur,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður Landssambands kúabænda. 

Herdís Magna er 33 ára, bóndi á Egilsstaðabúinu og er af fimmtu kynslóð Egilsstaðabænda. 

Hún og eiginmaður hennar, Sigbjörn Þór Birgisson, eiga búið til helminga á móti foreldrum hennar, Vigdísi M. Svein-björnsdóttur og Gunnari Jóns-syni. Þau hjónin eiga tvo syni, Birni Hrafn, 5 ára og Pálmar Flóka, 2 ára.

Herdís Magna er yngst þriggja systkina, stúdent frá Mennta-skólanum á Akureyri og lauk síðar BSc. prófi frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólum. Þau Sigbjörn Þór fluttu aftur heim til Egilsstaða árið 2012 og hófu þá þegar að vinna sig inn í búskapinn hjá foreldrum hennar. Mjólkur- og nautakjötsframleiðsla er stunduð á Egilsstaðabúinu ásamt því að þar er rekin lítil heimavinnsla með mjólkurafurðir, en bróðir hennar, Baldur Gauti, og hans kona, Eyrún Hrefna, sjá að mestu leyti um hana.

Egilsstaðakýrnar.

Sama þróun í kúabúskap hér og á öðrum Norðurlöndum

Þróun í rekstri kúabúa hér á landi um langa hríð hefur verið í þá átt að búum hefur fækkað og þau stækkað. Svipuð þróun er upp á teningnum víðar, t.d. á öðrum Noðurlöndum. „Þrátt fyrir fækkun búa og mjólkurkúa hefur framleiðslan aukist jafnt og þétt, hún hefur haldist nær óbreytt undanfarin ár. Það má fyrst og fremst rekja til þess að búin hafa stækkað og nyt hækkað. Meðalbú framleiða nú um 275 þúsund lítra af mjólk á ári samanborið við um 115 þúsund lítra fyrir 20 árum,“ segir Herdís Magna. 

Hún bendir á að básafjós verði úreld árið 2035 og flestir sem hætt hafa í greininni búa við aðstöðu sem þarfnast töluverðra og kostnaðarsamra endurbóta eigi þau ekki að úreldast samkvæmt reglugerðum. 

Nokkur atriði í búvörusamningum séu hins vegar sérstaklega hugsuð til að styðja við minni bú. 

Hámark er á því hvað einstaka framleiðandi getur fengið háan hluta af stuðningsgreiðslum, hámark var sett á hlutfall hvers framleiðanda af heildargreiðslumarki hvers árs og gripagreiðslur trappast niður með fjölda kúa þannig að minni bú fá hlutfallslega hærri stuðningsgreiðslur.

Við endurskoðun var jafnræði meðal framleiðenda í kvótakaupum aukið þar sem komið var á hámarksverði auk þess sem hámark var sett á það magn sem hver aðili má kaupa á hverjum markaði með greiðslumark mjólkur.

Kvótakerfið ekki fullkomið en besta lausnin núna

Herdís Magna er nokkuð sátt við kvótafyrirkomulag í mjólkurframleiðslunni og telur meirihluta kúabænda vera sama sinnis. Vilji bænda hafi berlega komið í ljós þegar kosið var um það á sínum tíma, tæp 90% mjólkurframleiðenda vildu halda í kvótakerfið.  

„Kvótakerfið er ekki endilega fullkomið en það er besta lausnin sem við höfum núna að mínu mati. Við getum haldið áfram að leita betri leiða en ég tel það ekki neinum til hagsbóta að stökkva á óígrundaðar hugmyndir að breytingum bara breytinganna vegna,“ segir hún.

Framleiðslugeta kúabúa hefur stóraukist á síðustu árum og er eftirspurn eftir greiðslumarki í samræmi við það. Framboðið er ekki eins mikið en tvær lausnir eru fyrir hendi til að auka framboð á því, annars vegar nefnir hún að framleiðendum fækki og hins vegar að hlutdeild íslenskra kúabænda á markaði aukist. „Við viljum forðast fyrri kostinn eftir fremsta megni og horfum frekar til sterkrar hagsmunabaráttu og aukinnar vöruþróunar.“

Saddir af umræðu um búvörusamning og kvótamál

Bændur höfðu komið sér saman um að fara fram á hámarksverð og að það yrði ekki hærra en sem næmi tvöföldu afurðastöðvaverði á hverjum tíma. „Það fékkst því miður ekki í gegn við endurskoðun búvörusamningsins. Það var mikil spenna á markaði þar sem eftirspurnin var mikil en hreyfingin engin. Ég tel að óvissa um fyrirkomulag hvers markaðar hafi haft mest áhrif á að lítil hreyfing var á greiðslumarki og það var mikilvægt að koma á vissu og hreyfingu á viðskiptin. Lendingin í samningum við ríkið var að koma á hámarksverði með greiðslumark mjólkur, það yrði þrefalt afurðastöðvarverð og það myndi gilda út árið 2023, þegar næsta endurskoðun mun eiga sér stað.  Við höfum séð jákvæða þróun á síðustu tveimur mörkuðum eftir að hámarksverð var fest í sessi og séð aukna hreyfingu á greiðslumarki,“ segir Herdís Magna og bætir við að hún hafi skynjað það á samtölum sínum við bændur undanfarið að flestir eru orðnir saddir af umræðu um búvörusamninga og kvótamál og vilja nýta tímann núna til að einbeita sér að öðrum mikilvægum málefnum greinarinnar.

Verndartollar landbúnaðarframleiðslunnar bitlausir

Eitt þeirra mála sem ofarlega hafa verið á baugi í umræðunni eru tollamálin og hefur Herdís Magna lýst þeirri skoðun sinni að hún vilji endurskoða tollasamning okkar við Evrópusambandið. Hún segir að íslensk nautgriparækt þurfi að búa við sanngjarnt starfsumhverfi og það hafi verið sér mikið kappsmál að vinna að bættri stöðu í tollamálum.

„Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða auðlind við búum yfir og hlúum að þeim verðmætum sem við eigum í innlendri matvælaframleiðslu en verndartollar landbúnaðarvöru eins og þeir eru í dag eru orðnir bitlausir,“ segir hún. Mikilvægt sé í það minnsta að endurskoða tollasamninginn og hafi fulltrúar síðasta aðalfundar LK samþykkt ályktun þar sem er farið fram á að stjórnvöld leiti allra leiða til að samningnum verði sagt upp.

„Forsendur samningsins eru brostnar eftir útgöngu Breta úr ESB og fækkun ferðamanna undanfarin ár. Helsti útflutningsmarkaður okkar hefur verið Bretland en innflutningur landbúnaðarvara kemur hins vegar að mestu leyti frá öðrum ESB-ríkjum.

Að semja um kíló á móti kílói líkt og var gert er fráleitt. Sem dæmi má nefna að á meðan ESB fær innflutningskvóta sem nemur 10% af ostamarkaðnum hérlendis fær Ísland aðgang að 0,009% af ostamarkaði ESB.“

Nautakjötsframleiðslan komin á bjargbrúnina

Bendir Herdís Magna á að margt fleira sé að þegar að tollamálum kemur og virðist pottur víða brotinn í tollaframkvæmd og -eftirliti. „Þessum málum verður að koma í lag. Þar liggur mikið undir fyrir bændur, neytendur, ríkið og þá innflutningsaðila sem sannanlega fara eftir settum reglum,“ segir hún. Tollamálin hafi mikil áhrif á greinina og vandi nautakjötsframleiðslunnar sé mjög aðkallandi. Fækkun ferðamanna og aukinn innflutningur á auknum tollkvótum og lægri aðflutningsgjöldum hafi komið kjötframleiðendum og afurðastöðvum þeirra í mjög erfiða stöðu. „Nautakjötsframleiðslan er komin á bjargbrúnina og ég óttast verulega um stöðu greinarinnar ef ekkert verður að gert.“

Auknar heimildir til samstarfs yrðu til bóta

Auk þess sem brýnt sé að endurskoða tollasamninginn við ESB og bæta eftirlit segir Herdís Magna greininni nauðsynlegt að frestað verði eða fallið frá útboði tollkvóta fyrir fyrri helming næsta árs. 

Önnur leið til að styrkja samkeppnisstöðu innlendra kjötafurðastöðva sé að veita greininni auknar heimildir til samstarfs og aukinnar hagræðingar. „Við höfum mjög gott fordæmi um það í mjólkurframleiðslunni og víða um heim eru sérreglur um samkeppni í landbúnaði. Það er vegna þess að stjórnvöldum á hverjum stað er ekki sama um innlenda matvælaframleiðslu. Markmið landbúnaðarstefnu eða stefnu um fæðuöryggi víkja þá samkeppnissjónarmiðum til hliðar þó að það sé hvergi án skilyrða. Þá þarf líka að horfa til þess að litla Ísland er peð í samanburði við önnur lönd og við þurfum að gera það sem við getum til að styrkja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innfluttum afurðum,“ segir hún.

Engir styrkir til landbúnaðar vegna kórónuveiruástandsins

Birgðasöfnun sé stór þáttur í vanda afurðastöðva vegna snöggra breytinga á eftirspurn og framleiðendur erlendis búi við svipaðan vanda en önnur ríki hafa brugðist við vegna heimsfaraldursins og veitt talsverða styrki til síns landbúnaðar, m.a. í formi styrkja til birgðasöfnunar. „Við þurfum að átta okkur á því hvað mikilvægt er að við styrkjum innlenda matvælaframleiðslu, það er full ástæða fyrir því að aðrar þjóðir verja sína matvælaframleiðslu og veita auknum fjárstyrkjum til landbúnaðarmála í ljósi ástandsins. Þetta skekkir svo enn frekar okkar samkeppnisstöðu á meðan íslenskur landbúnaður fær enga styrki vegna ástandsins sem hefur skapast af völdum kórónuveirunnar.“

Kúabændur á Héraði og fjörðum tóku þátt í Skógardeginum mikla 2019 og heilgrilluðu naut sem gestum og gangandi var boðið upp á. Ingibjörg Ásta Ingvarsdóttir er með Herdísi Mögnu á myndinni.

Dýrmætt að halda lífi í innlendri matvælaframleiðslu

Herdís Magna bendir á að Íslendingar búi yfir mikilli auðlind í innlendri matvælaframleiðslu og því þurfi að koma á framfæri.  Lyfjanotkun sé í algjöru lágmarki, aðgangur að hreinu drykkjarvatni  þykir nánast sjálfsagður og kröfurnar um aðbúnað bæði dýra og starfsfólks í matvælaframleiðslu séu mjög miklar hér á landi. Þar að auki, vilji menn horfa til loftslagsmála, þá sé kolefnisspor íslensks nautakjöts á pari við erlenda framleiðslu og liggur í neðri mörkum. Og þá þurfi ekki að flytja kjötið þvert og endilangt um hnöttinn.

„Það er okkur sem þjóð dýrmætt að halda lífinu í innlendri matvælaframleiðslu og þar með öllum þeim fjölda starfa sem til eru við framleiðslu matvæla, það er vænlegri kostur en að bæta fólki á atvinnuleysisskrá og treysta á innflutning með tilheyrandi útstreymi gjaldeyris,“ segir Herdís Magna.

10 myndir:

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...