Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Svava Hrönn Guðmundsdóttir, nýr formaður, á stofnfundi samtakanna.
Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Svava Hrönn Guðmundsdóttir, nýr formaður, á stofnfundi samtakanna.
Mynd / smh
Líf og starf 4. maí 2022

Vörur smáframleiðenda matvæla orðnar sýnilegri og aðgengilegri neytendum

Höfundur: smh

Lyfjafræðingurinn og sinneps­framleiðandinn Svava Hrönn Guðmundsdóttir er nýr formaður Samtaka smáframleiðenda matvæla. Hún framleiðir undir vörumerkinu SVAVA sinnep og hefur verið viðloðandi samtökin frá því að undirbúningsvinna að stofnun þeirra hófst um haustið 2019 og varaformaður frá stofnun þeirra í nóvember sama ár.

„Ég tel stöðu og horfur fyrir samtökin mjög góðar. Þau hafa náð miklum árangri á þeim rúmu tveimur árum sem þau hafa starfað og haft jákvæð áhrif á orðræðuna og þá mynd sem fólk hefur af smáframleiðendum. Félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt og eru nú að nálgast 200. Þetta er því orðinn stór, öflugur og fjölbreyttur hópur sem mark er tekið á. Tæpur helmingur er á lögbýlum, um fjórðungur á höfuðborgarsvæðinu og tæpur þriðjugur í bæjarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Svava, spurð um hvernig framtíðin blasi við henni.

Gott gengi á stuttum tíma

Hún segir að samtökin hafi notið velgengni þennan stutta starfstíma – í raun framar vonum. „Á þessum stutta tíma höfum við náð að auka samstarf og samtakamátt smáframleiðenda matvæla um land allt. Við höfum fengið styrki og gert samstarfssamninga í fjölbreytt verkefni. Við höfum stundað öfluga hagsmunagæslu, skrifað margar umsagnir og stuðlað að breytingum á regluverki og má þar helst nefna útgáfu reglugerðar um svokallaða heimaslátrun eða örslátrun.

Þá höfum við þróað nýjar söluleiðir með matvörukeðjunum, eins og Matarbúrið í Krónunni og Heimabyggð Nettó og Kjörbúðanna og stuðlað að því að vörur félagsmanna séu teknar inn í vöruval verslana. Við höfum samið um betri kjör við þá aðila sem smáframleiðendur matvæla eiga gjarnan viðskipti við og gerðum sem dæmi tímamótasamning við Eimskip/Flytjanda í fyrra. Einnig höfum við unnið að því að auka þekkingu félagsmanna með því að halda örnámskeið og stóðum að Matsjánni ásamt landshlutasamtökum sveitarfélaga sem var 14 vikna námskeið fyrir félagsmenn, styrkt af Matvælasjóði en RATA sá um verkefnisstjórn. Eins höfum við þróað verkfæri eins og skapalón fyrir gæðahandbók og fleira til að styðja félagsmenn.“

Góð samskipti við félagsmenn

Oddný Anna Björnsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri samtakanna frá stofnun og segir Svava að félagsmenn geti leitað til hennar hvenær sem er, ef þá vanti ráðgjöf eða stuðning. „Samtökin beita sér fyrir þeirra hönd ef við á. Allt kapp er lagt á að miðla gagnlegum upplýsingum til félagsmanna í gegnum póstlistann okkar og lokaða Facebook-hópinn sem margir aðilar hafa nýtt sér sem þurfa að ná til þeirra.

Svo leggjum við okkur fram um að deila því sem félagsmenn eru að gera, bæði með félagsmönnum og neytendum og skrifum greinar og komum fram í fjölmiðlum til að koma hagsmunamálum okkar félagsmanna á framfæri.

Þann 7.–8. apríl stóðu samtökin og landshlutasamtökin að vel heppnaðri uppskeruhátíð og matarmarkaði á Hótel Laugarbakka í tilefni loka Matsjárinnar. Það var mikið fagnaðarefni því þetta er í fyrsta sinn sem við höfum getað skipulagt slíkan viðburð vegna Covid.“

Einföldun regluverksins

Smáframleiðendur matvæla hafa gjarnan látið í sér heyra vegna þess að lög og reglur í kringum matvælaframleiðslu og -eftirlit virðist ekki gera ráð fyrir þeim sveigjanleika sem slíkir framleiðendur þurfa stundum á að halda til nýsköpunar og þróunar. „Já, einföldun regluverks er eitt af okkar helstu áherslumálum,“ segir Svava, spurð um hvort smáframleiðendur berjist enn að einhverju leyti við regluverkið.

„Við fórum þess á leit við matvælaráðherra á fundi okkar með honum í febrúar síðastliðnum að ráðuneytið fjármagni gerð skýrslu með tillögum að einföldun regluverks á sviði matvæla sem við myndum vilja verkstýra.

Í nýlegri umsögn okkar um áherslur og verklag matvælaráðuneytisins við stefnumótun á sviði matvæla lögðum við áherslu á að regluverk hamli ekki framþróun og nýsköpun og að í EES-löggjöfinni sé lögð áhersla á sveigjanleika og meðalhóf gagnvart smáframleiðendum. Við hvöttum ráðuneytið til að sjá til þess að rafrænt eftirlit verði notað á markvissan hátt, enda geti það sparað mikinn tíma og kostnað. Eins að þeir sem munu vinna eftir reglugerðunum og leiðbeiningunum sem þeim oft fylgja komi að því að semja þær eins og var gert í örsláturhúsamálinu svokallaða, sem gafst vel.“

Úrskurðarhópur um álitamál

Svava segir að þau telji að ákjósanlegt fyrirkomulag, vegna álitamála um eftirlitsmál sem kunna að rísa, væri þannig að þeir framleiðendur sem væru ósammála túlkun eftirlitsmanns ættu að hafa tök á að leita til úrskurðarhóps ráðuneytisins. „Um eins konar áfrýjunarnefnd væri að ræða, sérfræðingahópur sem væri ótengdur eftirlitsaðilum. Við lögðum jafnframt áherslu á að eftirlitskerfið yrði einfaldað og samræmt, en í dag er eftirlitið bæði í höndum ríkisstofnana og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga á tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum.

Við teljum afar mikilvægt að eftirlitsaðilar annarra svæða geti ekki gert athugasemdir beint við framleiðendur eða viðskiptavini þeirra sem þegar eru komnir með leyfi frá eftirlitsaðila á sínu svæði. Heldur verði að taka þær upp á vettvangi heilbrigðiseftirlitsins.

Í dag er kerfið sett þannig upp að framleiðandi sem kominn er með leyfi getur lent í því að eftirlitsaðilar á hinum níu svæðunum geri ólíkar athugasemdir og jafnvel aðrir eftirlitsmenn innan sama svæðis.

Í umsögninni hvöttum við meðal annars til þess að regluverkið í kringum skelfisk- og þörungarækt verði endurskoðað sem í dag eru í raun „lög um bann við slíkri ræktun“ – eins og formaður Samtaka atvinnulífsins kallaði það í fréttum árið 2012.

Síðan þá hefur staðan einungis versnað og erfitt að nálgast innlendar afurðir vegna þessa „banns“.

Fjölgun félagsmanna

Svava segir að fyrir utan áherslurnar á breytingar á regluverkinu, fari starfsorkan næstu misserin í að halda áfram að vinna að því að styrkja og efla félagið með fjölgun félagsmanna. „Þá á ég til dæmis við aukaaðila sem eru þeir sem eru ekki smáframleiðendur sjálfir en styðja markmið samtakanna. Eins að umkringja okkur öflugu fólki með þekkingu og reynslu á sviði samtakanna í gegnum ráðgjafaráðið okkar og helstu samstarfsaðila.

Sinnep sem Svava framleiðir undir vörumerkinu SVAVA sinnep.
Mynd / Aðsend

Við munum halda áfram að sækja um styrki í mikilvæg verkefni og sinna þeim verkefnum sem eru viðvarandi og ég sagði frá áðan. Við höfum lagt til við ráðherra að í stjórn Matvælasjóðs sitji einnig fulltrúi matvælaframleiðenda frá SSFM og/eða Samtökum iðnaðarins, en í dag sitja þar eingöngu fulltrúar Bændasamtaka Íslands og SFS. Við lögðum einnig til við ráðherra að hann geri samning við samtökin um eflingu smáframleiðslu matvæla sem við teljum að geti skipt verulegum sköpum fyrir þróun smáframleiðslu matvæla hér á landi. Við erum samstarfsaðilar Matís í verkefni sem er styrkt af Matvælasjóði og gengur út á að búa til forrit sem gerir smáframleiðendum kleift að reikna út næringargildi, bæta hráefnum í ÍSGEM gagnagrunninn og útbúa vefbók með leiðbeiningum.

Við erum einnig að vinna að samstarfssamningi við Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi um matvælaverkefni á Suður­landi sem verður ýtt úr vör á næstunni.

Við hlökkum til Landbúnaðarsýningarinnar í haust en þar munum við vera með stóran bás ásamt félögum okkar í Beint frá býli þar sem hátt í fimmtíu félagsmenn munu geta kynnt vörur sínar yfir helgina. Matarbúrið í Krónunni mun halda áfram og við erum að þróa áfram Heimabyggð með Samkaup. Við munum halda áfram að semja um betri kjör fyrir okkar félagsmenn og finna leiðir til að auka þeirra þekkingu og færni.“

Sýnilegri og aðgengilegri vörur

Á síðustu misserum hafa vörur smáframleiðenda matvæla orðið sýnilegri og aðgengilegri í stór- mörkuðum landsins. „Samstarfsverkefni eins og Matar­búrið í Krónunni og Heimabyggð Samkaupa hafa aukið áhuga landsmanna á vörunum og stuðlað að því að fleiri verslanir hafa lyft þeim upp, hver á sinn hátt. Neytendur sýna þeim einnig sífellt meiri áhuga, bæði með því að kaupa beint af framleiðendum, til dæmis beint frá býli, og leita eftir slíkum vörum í verslunum sem sérhæfa sig í að selja slíkar vörur eins og Me&Mu, eða vekja sérstaka athygli á þeim eins og Krónan, Samkaup, Hagkaup, Fjarðarkaup og fleiri hafa gert,“ segir Svava að lokum.

Með henni í nýkjörinni stjórn eru varaformaðurinn Þröstur Heiðar Erlingsson, frá Birkihlíð Kjötvinnsla, gjaldkerinn Auður B. Ólafsdóttir frá Pönnukökuvagninum, ritarinn Einar Iceman frá Aldingróðri og meðstjórnandinn Hrefna Valdemars- dóttir frá Fiskvinnslunni Hrefnu.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...