Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Seljaminjar í Haukadal skráðar sumarið 2012. Sigrún Guðmundsdóttir á Kirkjubóli aðstoðar höfund við verkið.
Seljaminjar í Haukadal skráðar sumarið 2012. Sigrún Guðmundsdóttir á Kirkjubóli aðstoðar höfund við verkið.
Líf og starf 18. nóvember 2020

Sel og selstöður í Dýrafirði

Höfundur: Bjarni Guðmundsson

Fyrr á öldum tíðkaðist að hafa búfé í seli fjarri heimabæ, bæði til þess að hlífa heimalöndum við beit en ekki síður til þess að nýta kostamikil en fjarliggjandi beitilönd. Mjólkin var afurðin sem öllu skipti. Þess vegna er víða gengið fram á minjar um sel.

Í berjaferð í septemberbyrjun árið 1978 skoðaði ég selið frá Kirkjubóli í Dýrafirði betur en ég hafði gert í þeim mörgu ferðum sem ég hafði átt framhjá selinu á bernsku- og unglingsárum. Söguna má gera stutta: Úr þessari athugun varð dálítið ætlunarverk, sem nú er loks lokið, ríflega fjórum áratugum síðar. Sem hjáverk og tómstundaiðju tók ég það fyrir að ganga á sem flest þekkt sel við Dýrafjörð, mæla þau, mynda og athuga umhverfi þeirra, leita heimilda um selin og loks að taka saman rit um niðurstöðurnar. Aukaafurð verksins urðu útivera svo og líkamsrækt því allnokkrir göngukílómetrar hafa verið lagðir að baki. 

Árangur seljaathugana minna hefur nú verið birtur sem rit nr. 131 frá Landbúnaðarháskóla Íslands en stofnunin var svo vinsamleg að gefa verkið út þótt ég sé ekki lengur starfsmaður hennar. Ritið má finna í heild sinni á www.lbhi.is/rit_lbhi_1

Hér verður ekki sagt frá niðurstöðum, aðeins stiklað á fáeinum efnisatriðum:  Við Dýrafjörð töldust vera 43 jarðir skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1710. Mér telst til að einhverjar minjar um sel sé að finna á 36 þeirra, og á sumum jarðanna hafa  selin verið tvenn – og hugsanlega fleiri. Síðustu selin í Dýrafirði voru aflögð fyrir 130-140 árum svo munnlegar heimildir um þau voru orðnar mjög fáar. Að langstærstum hluta eru það því sjáanlegar tóftir og mannvirkjaleifar sem eru til vitnis um selin og seljabúskapinn. 

Leifar hlaðs – sauðabyrgis – og sennilega einnig sels á Birnustöðum, næstysta bæ við norðanverðan Dýrafjörð. 

Dýrfirsku selin liggja, með tveimur undantekningum, á framdölum; voru þannig útstöðvar frá heimabýlunum. Af staðsetningu þeirra má raunar greina glögga skiptingu gróðurlendis jarðanna í tvennt: húshaga  og selhaga. Að meðaltali hefur verið um 40 mín. gangur á selin. Tóftir seljanna, sem margar hverjar eru enn vel sýnilegar, bera með sér að mikið hefur verið borið í margar þeirra. Auk kvía og leifa af smalakofum virðast á sumum seljanna hafa verið einhvers konar hús til dvalar og starfa: viðlegustaðir um seljatímann (júlí – ágúst/sept.). Á öðrum seljum var sýnilega minna umleikis – að selin hafi nánast verið sem stekkir, enda sum aðeins stekkjarveg frá bæ. Bæði seljamannvirkin og heimildir gáfu til kynna að selmannvirkin hafi einnig verið notuð til búfjárhalds á öðrum tímum ársins, svo sem vegna haustbeitar sauðfjár, sauðabeitar á útmánuðum og umönnunar fjár á vorum. Það er líkleg skýring á því hve mikið hefur verið lagt í byggingu selhúsanna. 

Selið frá kirkjustaðnum Söndum, á Galtadal, virðist hafa verið þrískipt með eins konar bakhýsi; mjaltakvíin skammt undan.

Selin og selstöðurnar voru þannig liður í skipulegri landnýtingu, með verklagi sem átti sér meðal annars stoð í elstu lögum landsins. Í Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, voru skýr ákvæði um sel og selfarir. Búhátturinn sjálfur á sér eldfornar rætur, líklega allt aftur til tíma hjarðmennsku. Hann var og er vel þekktur í Noregi, á Bretlandseyjum og í Færeyjum, kominn til þessara svæða sunnan úr fjalllöndum Evrópu, þar sem hann þekkist enn. Landnámsbændur báru verkháttinn með sér, sem síðan hefur breyst og þróast margvíslega, allt eftir náttúrulegum aðstæðum í hverri sveit, sem og félagslegum skilyrðum einnig, svo sem mannafla og ábúðarháttum, auk árferðis.

En svo lagðist seljabúskapurinn af hérlendis, virðist raunar hafa risið og hnigið í aldanna rás. Um það vitna t.d. Fornuselin sem svo heita á nokkrum jörðum við Dýrafjörð. Hvað selin þar varðar virðist vinnuaflsskortur hafa valdið aflögn síðustu seljanna: Það fengust ekki selráðskonur eða smalar. Má vera að fólki hafi þótt starfinn í seljunum erfiður og einmanalegur, jafnvel þótt reynt væri að þyrpa sel nágrannabæja í seljaþorp, svo sem sjá má dæmi um í Keldudal og á Hjarðardal – að skapa selfólkinu sel-skap!

En svo breyttust nýtingarhættir sauðfjár. Fráfærum, mikilvægri forsendu seljabúskaparins, var hætt, kýrnar einar lögðu til mjólkina en ærnar fengu að annast lömbin sín ótruflaðar sumarlangt. Sel og stekkir urðu að hverfandi minjum. 

Bjarni Guðmundsson

Skylt efni: Sel | selstöður | Dýrafjörður

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk
Líf og starf 7. maí 2021

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk

„Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég fann það strax og ég byrjaði að fást vi...

Tuttugu lausnir keppa til úrslita í Ullarþoni
Líf og starf 6. maí 2021

Tuttugu lausnir keppa til úrslita í Ullarþoni

Sextán teymi, sem standa á bak við tuttugu lausnum tengdum ull með einum eða öðr...

Góður staður til að gera ekki neitt
Líf og starf 5. maí 2021

Góður staður til að gera ekki neitt

Sælureitur í sveit er heiti á verk­efni sem Stefán Tryggva- og Sigríðarson og In...

Krafa viðskiptavina um græna nálgun eykst sífellt
Líf og starf 4. maí 2021

Krafa viðskiptavina um græna nálgun eykst sífellt

„Við viljum standa fyrir eitthvað meira en að veita grundvallarþjónustu, svefnst...

Þróun vörumerkis er langhlaup
Líf og starf 3. maí 2021

Þróun vörumerkis er langhlaup

Þórhildur Laufey Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og grafískur hönnuður og s...

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig
Líf og starf 29. apríl 2021

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig

„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og bjó þar, þar til við fluttum í Hrútafjörðin...

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök
Líf og starf 23. apríl 2021

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök

Samkvæmt tölum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um framleiðslu og sölu á...

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til
Líf og starf 19. apríl 2021

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til

Fyrsti Evrópski ullardagurinn var haldinn á föstudaginn. Ísland var þátttakandi ...