Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Valgerður Andrésdóttir sameindaerfðafræðingur flytur erindi sitt um sögu mæði-visnurannsókna á Íslandi, á 70 ára afmælisfagnaði Keldna á dögunum.
Valgerður Andrésdóttir sameindaerfðafræðingur flytur erindi sitt um sögu mæði-visnurannsókna á Íslandi, á 70 ára afmælisfagnaði Keldna á dögunum.
Mynd / smh
Líf og starf 13. desember 2018

Merkilegt rannsóknarstarf á mæði-visnuveirunni

Höfundur: smh
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fagnar 70 ára starfsafmæli á árinu. Af því tilefni var haldinn afmælisfagnaður þann 22. nóvember í húsakynnum stöðvarinnar að Keldnavegi 3. Valgerður Andrésdóttir, sameinda­erfðafræðingur á Keldum, flutti fræðsluerindi um sögu mæði-visnurannsókna á Keldum síðustu 70 árin. Þar hefur verið safnað saman mestu upplýsingum í heimi, um þennan veirusjúkdóm í sauðfé, auk þess sem þar er talin vera besta aðstaðan til rannsókna á honum. 
 
Að sögn Valgerðar er mæði-visnusjúkdómurinn hæggengur; langur tími líður frá sýkingu og þar til sjúkdómseinkenni koma fram. „Þessi flokkur veira nefnist lentiveirur og tilheyrir HIV, eða alnæmisveiran, einnig þessum flokki. Raunar hafa rannsóknir á mæði-visnuveirunni nýst til skilnings á HIV og hafa rannsóknir á veiruvörnum gegn mæði-visnuveiru leitt í ljós nýja gerð veiruvarna sem geta nýst í baráttunni við HIV,“ segir Valgerður. 
 
Barst með karakúlkyni frá Þýskalandi 1933
 
„Mæði-visnuveira barst til landsins með innflutningi á fé af karakúlkyni árið 1933. Þetta var upp úr kreppunni miklu og var ætlunin að hefja skinnaframleiðslu, en skinn af nýfæddum lömbum af þessu kyni eru notuð í svokallaðan persneskan pels, sem var mikið í tísku.
 
Þetta fé kom úr vottaðri heilbrigðri hjörð á tilraunabúi í Þýskalandi og var haft í einangrun í tvo mánuði. Samt sem áður komu upp á næstu árum nokkrir sjúkdómar sem voru áður óþekktir hér á landi og mátti rekja til karakúlfjárins. Þeirra á meðal voru mæði sem er lungnabólga og visna sem er heilabólga. Veiran reyndist vera bráðsmitandi, en sjúkdómseinkenni komu ekki fram fyrr en eftir langan meðgöngutíma, eða 2–3 ár. Veiran hafði því dreifst á allstóru svæði áður en hún greindist. Fljótlega var svo komið að árleg afföll í sýktum hjörðum voru 20–30 prósent og gekk svo ár eftir ár – og leit út fyrir að sauðfjárbúskapur legðist af á stórum hluta landsins. Var þá farið út í harkalegan niðurskurð til þess að útrýma veirunni og það tókst að lokum. Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til þess að aðeins tveir innfluttir hrútar hafi verið sýktir, en áður en yfir lauk höfðu hundrað þúsund fjár drepist úr veikinni og 650 þúsund að auki verið skorin niður. Þessi barátta tók um 25 ár,“ segir Valgerður um sögu mæði-visnu og skaðann sem veiran olli hér á landi.
 
Nýtist sem módel fyrir HIV 
 
„Ég kom fyrst að Keldum í sumarstarf árið 1971, en hef unnið þar síðan 1985. Það voru stundaðar grunnrannsóknir á mæði-visnuveiru alveg frá upphafi. Á grundvelli þessara rannsókna setti Björn Sigurðsson, sem var fyrsti forstöðumaður Keldna, fram kenningar um hæggenga smitsjúkdóma sem vöktu heimsathygli. Veiran var fyrst einangruð og skilgreind á Keldum, og er alþjóðlegt heiti hennar maedi-visna virus. 
 
Rannsóknirnar beindust einkum að því að rannsaka eðli veirunnar og samskipti við hýsilinn auk meingerðar. Seinna tókst að klóna veiruna hér og var þá hægt að beita erfðatækni í frekari rannsóknum. Á síðustu árum hefur komið í ljós að mæði-visnuveiran nýtist sem módel fyrir HIV sem nú er mest rannsökuð af öllum veirum, en þó er langt frá því að öll kurl séu komin þar til grafar. Enn hefur hvorki tekist að finna bóluefni við veirunni né lækningu. 
 
Þeir sem sýkjast þurfa að taka lyf alla ævi til að halda veirunni í skefjum, en læknast aldrei. Enn er því þörf á rannsóknum á eðli þessara veira,“ segir Valgerður.
 
Merk saga mæði-visnurannsókna á Keldum
 
Valgerður segir að Keldur sé sá staður í heiminum  þar sem mest vitneskja er um þessar veirur og best aðstaða til að rannsaka þær. „Þar er gagnreynt kerfi til að rækta veiruna, mótefni hafa verið búin til í áranna rás gegn ýmsum hlutum hennar, og til er  safn sýna, frosinna og fixeraðra sem hægt er að taka upp áratugum seinna þegar nýjar aðferðir og nýjar spurningar vakna.“ 
 
Veiran útbreidd um allan heim
 
Að sögn Valgerðar er veiran mjög útbreidd í Evrópu – og raunar um allan heim. Óvarkárni varðandi innflutning á búvörum geti verið íslenskum landbúnaði skaðlegur. Hún kannaði nýverið hvort hún myndi finna veiruna í frönskum sauðaosti sem hún keypti í búð hér á landi. „Erfðaefni veirunnar fannst í ostinum, en gera má ráð fyrir að veiran hafi ekki verið lifandi, þar sem osturinn var gerilsneyddur. Mæði-visna er líklega eitt skýrasta dæmið sem við höfum um það hve næmt og berskjaldað íslenskt búfé getur verið fyrir sjúkdómum sem eru landlægir í öðrum löndum án þess að nokkuð sé eftir þeim sé tekið. Mæði-visnuveiran er landlæg í Evrópu, Ameríku, Asíu og Afríku og veldur litlum einkennum í erlendum fjárkynjum. Í Frakklandi, Spáni og Ítalíu eru 50–100 prósent hjarða sýktar. Ég held að það væri mjög óráðlegt að leyfa innflutning á hráu kindakjöti til Íslands frá þessum löndum, því eins og dæmin sanna þá þyrfti ekki nema ein kind að sýkjast til að valda ómældu tjóni.“ 
 
Afmælisgestir á bókasafni Tilraunarstöðvarinnar að Keldum.
Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...