Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Land Rover árgerð 1976 sem var notaður sem landbúnaðartæki og farartæki. Hann settist ekki í helgan stein fyrr en sexhjól var keypt á bæinn árið 2021.
Land Rover árgerð 1976 sem var notaður sem landbúnaðartæki og farartæki. Hann settist ekki í helgan stein fyrr en sexhjól var keypt á bæinn árið 2021.
Mynd / ÁL
Líf og starf 28. september 2022

Land Rover með leikaraferil

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Hvammi í Hvítársíðu er Land Rover jeppi sem hefur öðlast frægð á síðustu árum eftir að hafa leikið hlutverk í Hross í oss.

Árið 1976 keypti Guðlaugur Torfason, þáverandi bóndi í Hvammi, bílinn nýjan og hefur hann verið í notkun þar æ síðan. Á þessum árum fór P. Stefánsson hf. með umboðið fyrir Land Rover og aðra bíla frá Leyland í Bretlandi. Bíllinn í Hvammi var keyptur þaðan og er að mestu leyti upprunalegur.

Núverandi eigandi bílsins er Torfi Guðlaugsson, sonur áðurnefnds Guðlaugs og núverandi bóndi í Hvammi. Hann man vel eftir því þegar bíllinn var keyptur á sínum tíma, en þetta var fjórði og síðasti Land Roverinn sem pabbi hans keypti.

P. Stefánsson hf. fór með umboðið fyrir Land Rover á þessum árum. Auglýsing sem birtist í Tímanum 27.3.1975. Mynd / Timarit.is
Lenti í veltu

Guðlaugur og Steinunn, kona hans, voru með bílinn á skrá fram á miðjan tíunda áratuginn þó aðrir bílar hafi verið í meiri notkun seinni árin. Fyrstu árin var hann helsta farartækið í daglegan akstur til og frá Varmalandi þar sem Guðlaugur var kennari. Einn vetrardag þegar bíllinn var tiltölulega nýr lenti hann í hálku og velti. Guðlaugur slasaðist ekki, en jeppinn var talsvert tjónaður eftir á. Land Roverinn var sendur í viðgerð á verkstæði á Bæ í Bæjarsveit þar sem hann náði fyrri styrk og útliti.

Hann var þó ekki einungis notaður sem farartæki þar sem hann var líka hugsaður sem landbúnaðartæki. Sumir Land Roverar komu til landsins útbúnir aflúrtaki sem var hægt að tengja við ýmis tæki, en það átti ekki við um þennan.

Öflugur dráttarklár

Lengi vel voru hjólamúgavélar tengdar aftur í hann – tvær saman í halarófu; stundum þrjár – og notaðar til að raka saman heyið. Hann var notaður til að dreifa áburði með gamaldags áburðardreifara sem var ekki drifskaftsknúinn. Einnig var til skítadreifari sem hægt var að draga með Land Rovernum og hentaði jeppinn vel í að slóðadraga.

Þar sem jeppinn var lengi eina fjórhjóladrifna landbúnaðartækið á bænum var hann nýttur í að draga heysátur að hlöðunni. „Mamma var alltaf í því að draga sáturnar á meðan við krakkarnir vorum í því að setja böndin utan um. Land Roverinn dró þær eftir jörðinni upp fyrir hlöðu þar sem þær fóru í heyblásarann. Engin önnur vél á bænum réði jafn vel við þetta,“ segir Torfi.

Þægilegasta landbúnaðartækið til 1999

Samkvæmt Torfa var Land Roverinn þægilegasta landbúnaðartækið á bænum þangað til að keyptur var nýr Valmet traktor árið 1999. „Svo gat maður haft með sér farþega og kjaftað í leiðinni,“ segir Torfi, en Land Roverinn var í notkun við heyskap fram á síðustu ár.

Á seinni árum hefur bíllinn verið notaður sem fjórhjól, eins og Torfi orðar það. „Svo fengum við okkur sexhjól í fyrra og þá má segja að hann hafi sest í helgan stein. Hann er þó reglulega ræstur og keyrður.“

Hvað varðar notkun á þjóðvegum segir Torfi að þessir Land Roverar séu barn síns tíma. „Þeir dönsuðu á veginum og voru frekar hastir. Enda voru þeir bara með blaðfjaðrir, enga gorma.“

Steinunn Anna Guðmundsdóttir, fyrrum húsfreyja í Hvammi, situr undir stýri við heyskap með tvær Bamford múgavélar í eftirdragi. Mynd tekin upp úr árinu 2000. Mynd / Aðsend

Benedikt Erlingsson óskaði eftir láni

Við undirbúning að myndinni Hross í oss kom Benedikt Erlingsson, leik- stjóri, að máli við Torfa og óskaði eftir bílnum að láni. Myndin var tekin upp að miklu leyti á bæjunum í kring og voru nokkrar senur skotnar á hlaðinu á Hvammi. Það hentaði því ágætlega að fá afnot af þessum jeppa þó Benedikt hafi upphaflega viljað bíl í öðrum lit.

Lék mikilvægt hlutverk

„Við notuðum þennan bíl í Hraunsási í Hálsasveit þegar Halldóra Geirharðsdóttir og Steinn Ármann Magnússon fylgjast með sveitinni,“ segir Sindri Páll Kjartansson, sem var fenginn í framleiðslu myndarinnar Hross í oss. Þar á hann við senu í upphafi myndarinnar þar sem þau sitja á húddi bílsins með kíki og njósna um nágranna sína.

Síðar í myndinni er atriði sem var tekið upp við Kolkuós í Skagafirði. Fyrir þá senu var bíllinn fluttur norður á vagni. Þar er Steinn Ármann látinn keyra bílinn á fullri ferð þar sem hann ætlar að verða sér úti um brennivín í skipi sem siglir frá landi.

Smurolía bjó til reykinn

Látið var líta út sem bíllinn hefði brætt úr sér á leiðinni sem varð til þess að karakter Steins Ármanns brá á það ráð að sundríða út í skipið. Aðspurður segir Sindri Páll aðferðina við að láta líta út fyrir að sjóði á bíl vera afar einfalda. „Það er bara að hella smá smurolíu á vélina og þá kemur reykur.“

Með því að hella smurolíu á vélina var hægt að láta líta út fyrir að bíllinn hefði brætt úr sér. Mynd / Skjáskot Benedikt Erlingsson og Bergsteinn Björgúlfsson.

Keyrði ekki mikið við tökur

Steinn Ármann Magnússon leikari hafði kynnst Land Roverum sem þessum áður en hann lék í myndinni Hross í oss. „Svo þurfti ég að þrælast á þessum í myndinni,“ segir hann en viðurkennir að hafa ekki fengið að keyra bílinn mikið.

„Það voru tekin nokkur skot til þess að ég sæist keyra bílinn, annars voru einhverjir „propsarar“ látnir um að keyra hann.“ Oft þegar teknar eru upp bílasenur fyrir kvikmyndir eru bílarnir dregnir þannig að leikararnir þykjast keyra. Það er gert til að dragi ekki sundur eða saman á milli bíls og myndavélar og svo leikararnir nái að einbeita sér að leiknum. Steinn Ármann segir að sú aðferð hafi verið nýtt í þessari mynd.

Aðspurður hvort kynnin af Land Rovernum við töku myndarinnar hafi vakið hjá honum nostalgíu segir Steinn Ármann svo ekki vera. „Ég er ekki mikill bílakarl, en það var mjög gaman að taka þátt í þessari mynd.“

Skylt efni: land rover

Sveitasælan sem hristi markaðinn
Líf og starf 2. desember 2022

Sveitasælan sem hristi markaðinn

Svíaríki er talið með stöðugri löndum í heiminum í dag. Ekki bara í efnahagslegu...

Heimasmíðuð leikföng, gjafa- og skrautmunir
Líf og starf 2. desember 2022

Heimasmíðuð leikföng, gjafa- og skrautmunir

Hvað er betra eða notalegra en að byrja jólaundirbúninginn á því að heimsækja jó...

Vinna með bilið milli manns og lands
Líf og starf 30. nóvember 2022

Vinna með bilið milli manns og lands

Ný námsbraut sem ber yfir­skriftina Land verður í boði í LungA skólanum á Seyðis...

Rafbók um landbúnað
Líf og starf 30. nóvember 2022

Rafbók um landbúnað

Á dögunum var gefin út rafbókin Landbúnaður liðinna tíma – búnaðarþættir úr Þing...

Lengi býr að fyrstu gerð
Líf og starf 29. nóvember 2022

Lengi býr að fyrstu gerð

Í síðustu tölublöðum Bændablaðsins hefur saga handverksbrugghúsa á Íslandi verið...

Heiðraðar á haustfundi
Líf og starf 29. nóvember 2022

Heiðraðar á haustfundi

Fjórar félagskonur í Kvenfélagi Þistilfjarðar voru á haustfundi félagsins gerðar...

Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
Líf og starf 29. nóvember 2022

Glaðlega leikur skugginn í sólskininu

Steinn Kárason garðyrkju- og umhverfishagfræðingur hefur sent frá sér skáldsögun...

Matreiðslunemar fylgdu nauti alla leið
Líf og starf 28. nóvember 2022

Matreiðslunemar fylgdu nauti alla leið

Íslenskt gæðanaut, verkefni á vegum Bændasamtaka Íslands, bauð nýverið tilvonand...