Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem stýrir viðskiptum og þróun hjá Pure North Recycling í Hveragerði og Sigurður Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem stýrir viðskiptum og þróun hjá Pure North Recycling í Hveragerði og Sigurður Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Mynd / HKr.
Líf og starf 9. febrúar 2021

Íslenskur landbúnaður sagður í kjörstöðu til að endurvinna plast sem til fellur í greininni

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sigurður Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri plastendur­vinnslunnar Pure North Recycling í Hveragerði, segir íslenskan landbúnað nú vera í kjörstöðu með að ná endurnýtingu á öllu plasti sem til fellur í greininni. Þannig geti okkar landbúnaður orðið til fyrirmyndar með einstakri stöðu á heimsvísu.

„Til mikils er að vinna því um 2.000 tonn af heyrúlluplasti fellur til í íslenskum landbúnaði á hverju ári og við viljum aðstoða bændur við að skila því í endurvinnslu.“

Svona verður fyrrverandi mislitt rúllubaggaplast af túnum bænda þegar það hefur farið í gegnum vinnsluferli Pure North Recycling og er orðið að hráefni í nýtt rúllubaggaplast eða aðrar iðnvörur.

Íslenskur landbúnaður verði sjálfbær í plastnotkun

„Við erum búin að þróa nýjar aðferðir til að endurvinna þetta plast og getum nú auðveldlega ráðið við það verkefni. Þetta er mjög spennandi því við erum nú í aðstöðu til að tryggja í góðri samvinnu við bændur, að landbúnaður á Íslandi verði fyrsti landbúnaðargeirinn í heiminum sem verður sjálfbær hvað varðar notkun á plasti,“ segir Sigurður.

Geta tekið við allt að 200 tonnum á mánuði

„Fyrirtækið gengur mjög vel og við erum nú komin á fullt skrið með endurvinnslu á rúllubaggaplasti frá bændum. Við getum tekið á móti um 150 til 200 tonnum af rúlluplasti til vinnslu á mánuði og nú vantar okkur einungis mun meira hráefni til vinnslu. Síðan erum við búin að ganga frá samningum við aðila sem vinna úr hráefninu sem við framleiðum úr rúlluplastinu og öðru plasti sem til fellur.“

Biðla til bænda um skil á rúllubaggaplasti

Sigurður segir að Pure North Recycling biðli nú til bænda um að skila rúlluplastinu til sín í endurvinnslu. Þá sé æskilegt að bændur flokki í sundur hvítt og mislitt plast, því hráefnið úr hvíta plastinu er verðmeira í endursölu. Þá er líka æskilegt að bændur skili plastinu í þessum tveimur flokkum sæmilega hreinu, það spari mikla vinnu í vinnsluferlinu og geri afurðina verðmætari.

Vottun skilað fyrir fækkun kolefnisspora

Sigurður segir að í undirbúningi sé samningur við Bændasamtök Íslands um skil á plasti sem til fellur í íslenskum landbúnaði. Þar sé ekkert því til fyrirstöðu að plast sé upprunamerkt þeim bæ sem skilar því inn og á móti skili Pure North Recycling viðkomandi bæ vottun um frádráttarbært kolefnisspor fyrir hvert tonn sem skilað er. Jafnframt verði spennandi að fylgjast með þeim árangri sem atvinnugreinin nái sem heild í lækkun kolefnisspors með skilum á plastinu.

Hann telur borðleggjandi að sams konar samningar verði gerðir við sveitarfélög í landinu um skil á plasti til endurvinnslu.
Til að auðvelda bændum skil á plasti hefur Pure North Recycling unnið að því að finna lausnir til að gera flokkun á hverjum stað auðveldari og jafnframt valkosti í leiðum til flutnings á plastinu til Hveragerðis. Þá hefur fyrirtækið einnig verið að leita eftir notuðum fiskikörum til að útvega bændum til að safna plastinu í. Þá er Pure North Recycling með til sölu litlar pressur sem bændur geta keypt til að bagga plast og minnka þar með umfang þess verulega. Þessar pressur má líka nota til að bagga ýmis önnur efni, t.d. ull eða pappír.
Sigurður leggur því áherslu á að sem flestar leiðir standi opnar fyrir bændur til að skila frá sér plastinu í endurvinnslu.

Plast er frábært efni svo lengi sem það er meðhöndlað rétt

Hann segir að viðhorf séu smám saman að breytast gagnvart plastinu og fólk að hverfa frá þeirri grjóthörðu neikvæðu andstöðu sem verið hefur. Plast sé frábært efni til ýmissa nota sem nútíma þjóðfélag komist vart hjá að nýta sér. Hins vegar þurfi fólk að vera meðvitaðra til hvaða hluta plastið er notað og hvernig það er meðhöndlað þegar það nýtist ekki lengur. Þá sé mikilvægt að safna öllu ónýttu plasti saman og koma því í endurvinnslu svo það fari ekki út í náttúruna. Telur Sigurður að þar geti bændur spilað stórt hlutverk sem leitt geti til bættrar ímyndar fyrir íslenskan landbúnað, bæði hvað varðar meðhöndlun á plasti og við að draga úr kolefnisspori vegna plastnotkunar.

„Í dag er enn verulegur hluti af plasti frá landbúnaði flutt utan til vinnslu eða brennslu í sorporkustöðvum. Þess má einnig geta að því miður hefur urðun á rúlluplasti aukist á s.l. árum. Þetta er þróun sem við verðum að snúa við.“

„Umhverfisvænsta plast í heimi“

„Við getum tryggt að allt það plast sem notað er í landbúnaði verði endurunnið hér á landi og lækkað kolefnisspor þess að sama skapi. Allt það plast sem notað verður í landbúnaði á Íslandi yrði þannig umhverfisvænsta plast í heimi og höfum við þegar látið gera lífsferilsgreiningu á þessu ferli. Það er því til mikils að vinna fyrir ásýnd landbúnaðarins og þau markmið sem búið er að setja í loftslagsmálum.“

Lykillinn að minnkun kolefnisspors felst í vinnsluaðferðinni

Sigurður segir að lykillinn að 80% minnkun kolefnisspors á plastinu sem hjá þeim er unnið felist í framleiðsluferli Pure North Recycling með nýtingu á jarðvarma, hreinu vatni og grænni raforku frá vatnsorkuverum. Sambærileg endurvinnslufyrirtæki úti í Evrópu og í öðrum löndum sem tekið hafa við úrgangsplasti frá Íslandi búi ekki svo vel. Víðast erlendis er raf- og hitaorka sem til þarf við endurvinnslu á plasti framleidd með kolum og eða olíu sem eykur á kolefnissporið en minnkar það ekki. Það skapar einstakt tækifæri á Íslandi.

Einstakt á heimsvísu og skilar 80% minna kolefnisspori við endurvinnslu á plasti

„Þetta er einstakt framleiðsluferli á heimsvísu og hefur aldrei verið gert áður með þessum hætti. Vinnsluaðferð Pure North Recycling er umhverfisvæn og byggir á íslensku hugviti auk nýtingar á jarðhita við þvott og þurrkun á plastinu. Markmið endurvinnslunnar er að plast verði aftur að plasti og að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor en engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna.

Þetta skilar sér í 80% minna kolefnisspori og síðan erum við með 40% minni vatnsnotkun og 35% minni orkunotkun á hvert framleitt tonn.

Þessum ávinningi getum við skilað aftur til bænda sem geta þá dregið hann frá í sínu kolefnis­bókhaldi.“

Sigurður segir að með endur­vinnslunni hér heima felist því margþættur ávinningur. Það er minni plastmengun í náttúrunni, minni kolefnislosun og um leið atvinnu­sköpun við endurvinnsluna. Til viðbótar við betri ímynd íslensks landbúnaðar.

Rafknúin baggapressa sem Pure North Recycling býður bændum og öðrum til kaups til að bagga og minnka umfang á plasti fyrir flutning til endurvinnslu. Mynd / HKr.

Skapar nú þegar vinnu fyrir 14 manns

Hjá Pure North Recycling í Hvera­gerði starfa nú 14 manns. Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Í endurvinnslunni er óhreinum plastúrgangi breytt í plastpallettur, eða eins konar perlur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis.

Plastmengun er alvarlegt umhverfis­vandamál af manna­völdum sem fer sívaxandi. Því er að mati stjórnenda Pure North Recycling mikilvægt að hver þjóð verði sjálfbær með sínu hringrásarhagkerfi og endurvinni sitt plast.

Geta endurunnið um 10 þúsund tonn af úrgangsplasti á ári

„Ný vinnslulína var sett upp hjá fyrirtækinu árið 2019 fyrir endurvinnslu á plastfilmum og var hún tekin í notkun 2020. Þar er um að ræða rúlluplast, plastpoka eins og utan af áburði, sekki, strekkifilmu og þolplast úr byggingariðnaði svo eitthvað sé nefnt. Til hliðar við hana er lína sem vinnur harðplast sem getur tekið plastbrúsa, bakka frá garðyrkjunni og matvælafyrirtækjum og fleira. Við eigum því að geta unnið samanlagt um 10.000 tonn af úrgangsplasti í verksmiðjunni á ári.“

Unnið að nýtingu hráefnisins í innlenda plastframleiðslu

Sigurður segir að hráefnið sem þeir framleiða hafi hingað til að mestu verið selt til framleiðslufyrirtækja erlendis. Nú séu fyrirtæki á Íslandi hins vegar að prófa sig áfram með að nýta þeirra hráefni.

„Það eru spennandi verkefni fram undan á þessu sviði og markmið okkar er að koma öllu okkar hráefni í vinnslu hér á landi og loka þannig hringrásinni. Það mun taka einhvern tíma en við erum þegar byrjuð að stíga skref í rétta átt hvað það varðar.“

Endurvinnsla á rúllubaggaplasti í Hveragerði skilar sér í 80% minna kolefnisspori en ef sama plast væri endurunnið í endurvinnslustöðvum úti í Evrópu, samkvæmt lífferlisgreiningu sem gerð var fyrir Pure North Recycling. Það þýðir um 1,52 tonna samdrátt í losun af CO2 af hverju tonni af rúllubaggaplasti sem fer í endurvinnslu. Mynd / HKr.

Geta tekið við öllu endur­vinnanlegu plasti á Íslandi

„Við getum endurunnið allt það plast sem til fellur á Íslandi og rúmlega það. Vandinn sem við höfum verið að glíma við eru hvatar í skilagjaldskerfinu sem hafa valdið því að verulegur hluti af plastinu hefur verið sendur óunninn úr landi með tilheyrandi kolefnisspori um leið og við missum virðiskeðjuna úr landi.“

Endurskoða þarf flutningsjöfnunargjaldið

Endurvinnslugjald sem innheimt hefur verið af plastumbúðum hérlendis hefur verið tvískipt. Annars vegar hefur verið gjald fyrir endurvinnsluna sjálfa og síðan gjald til flutningsjöfnunar.

„Við höfum verið að greiða þeim sem koma með plastið til okkar þessa flutningsjöfnun sem felst í greiðslu fyrir hvern ekinn kílómetra. Það gildir jafnt hvort sem um er að ræða bónda, sveitarfélag eða söfnunaraðila, þeir fá greitt fyrir flutninginn til okkar.“
Rætt hefur verið innan Úr­vinnslu­sjóðs um mögulegar breytingar á regluverki flutnings­jöfnunarþáttarins í endurvinnslu­gjaldinu. Engin afstaða hefur þó enn verið tekin til breytinga á kerfinu.

Þar hefur sá háttur verið á að miðað hefur verið við ákveðnar úrskipunarhafnir og flutningsjöfnun greidd miðað við ákveðna fjarlægð frá þeim höfnum. Því er enginn hvati í kerfinu til að koma plastinu alla leið að endurvinnslustöð á Íslandi. Þannig fá bændur í Eyjafirði t.d. ekkert flutningsjöfnunargjald fyrir að skila sínu plasti til útflutningshafnar á Akureyri. Hins vegar geta bændur í Ölfusi fengið flutningsjöfnunargjald miðað við akstur til Reykjavíkur þó plastinu sé skilað til endurvinnslu hjá Pure North Recycling í Hveragerði.

Sigurður segist hafa verið að vinna að því í nokkur ár að fá þessu breytt. Þær hugmyndir miða við að einu gildi hvar bændur eða aðrir sem þurfa að losa sig við plast til endurvinnslu eru staddir á landinu. Flutningsjöfnunargjaldið miðast þá bara við vegalengdina á endurvinnslustað. Bændur á Suðurlandi, Austurlandi, Norður­landi, Vestfjörðum og á Vesturlandi myndu því sitja við sama borð ef þeir vilja láta endurvinna sitt rúlluplast í Hveragerði. Þannig yrði enginn hvati lengur til að sigla með plast til útlanda til endurvinnslu eða brennslu.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...