Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bíll smáframleiðenda sem er á ferðinni allt árið fyrir utan janúar á Norðurlandi vestra og selur viðskiptavinum vörur beint frá bónda.
Bíll smáframleiðenda sem er á ferðinni allt árið fyrir utan janúar á Norðurlandi vestra og selur viðskiptavinum vörur beint frá bónda.
Líf og starf 18. október 2022

Auka verðmæti afurða í Vörusmiðjunni

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Árið 2016 hófst verkefni sem miðaði að því að koma upp frumkvöðlamiðstöð í tengslum við Sjávarlíftæknisetur BioPol ehf. á Skagaströnd.

Vörusmiðjan er vinnslurými til útleigu sem er sérsniðið fyrir frumkvöðla í matvælavinnslu til að taka fyrstu skref framleiðslu og þróunar á vörum sínum. Nú hefur smiðjan nýst frumkvöðlum um allt land sem vilja stunda þróunarstarf og stíga sín fyrstu skref í matvælaframleiðslu.

Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnastjóri Vörusmiðjunnar og Páll Friðriksson kjötiðnaðarmaður.

Verkefnið varð til þegar landshlutanefndin fyrir Norðvesturland úthlutaði fé til uppbyggingar á svæðinu. Á árinu 2017 kláruðust framkvæmdir við uppbyggingu Vörusmiðjunnar og hún var tekin í notkun um haustið en Þórhildur María Jónsdóttir matreiðslumeistari var ráðin verkefnisstjóri yfir smiðjunni. „Frá því að Vörusmiðjan tók til starfa í september 2017 hafa frumkvöðlar og smáframleiðendur nýtt rýmið til fjölbreyttrar framleiðslu. Helstu framleiðsluvörur hafa verið unnar úr kjötafurðum, þá helst geita-, lamba- og ærkjöti. Á hverju ári hafa framleiðendur bæst í hópinn og unnið með mjög fjölbreytt hráefni, s.s grænmeti, fisk, innmat, hákarl, folald og gæs. Unnið hefur verið með fleiri hráefni en það hefur verið á þróunarstigi s.s. með krabba, makríl, rauðmaga, grásleppu og þörunga. Fyrsta árið voru fimm framleiðendur en eru núna, rúmum fimm árum seinna, tæplega tuttugu,“ útskýrir Þórhildur.

Fjölbreytt námskeið í boði

Vörusmiðjan hefur mikið verið nýtt til námskeiðahalds í samstarfi við Farskóla Norðurlands vestra. Haldin hafa verið tvö stór „Beint frá býli“ 80 stunda námskeið fyrir bændur í Skagafirði, Austur-Húnavatnssýslu og Húnaþingi vestra.

Merete Rabølle á Hrauni á Skaga framleiðir vörur úr lamba- og ærkjöti ásamt því að reykja hangikjöt með gamla handbragðinu.

„Vörusmiðjan og Fræðslumiðstöð Vestfjarða fóru í samstarf um 80 stunda námskeið þar sem verklegi hlutinn af námskeiðinu var haldinn í Vörusmiðjunni og fræðslan fór fram á netinu. Síðustu ár hefur verið lagður þungi á dagsnámskeið, því þörfin fyrir verklega kennslu er mikil og hefur fjölbreytni þeirra námskeiða farið vaxandi og næsta vetur verða í boði á annan tug námskeiða sem við koma matvælavinnslu og eru til þess fallin að auka þekkingu og færni framleiðenda og/eða áhugamanna. Þátttakendur á þessum námskeiðum hafa komið alls staðar að af landinu,“ segir Þórhildur.

Smáframleiðendur rúnta um landið

Samtök Sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) skilgreindu í sóknaráætlun landshlutans sérstakt áhersluverkefni, Matvælasvæðið Norðurland vestra, þar sem samstarf Farskólans og Vörusmiðjunnar er styrkt. Einnig fékkst í gegnum þá styrkveitingu tækifæri til að koma af stað verkefninu „Smáframleiðendur á ferðinni“ fyrir tveimur árum.

„Bíll smáframleiðenda er á ferðinni allt árið um Norðurland vestra að undanskildum janúarmánuði. Á sumrin eru fleiri ferðir farnar og hátíðir og önnur bæjarfélög á landinu heimsótt. Neytendur hafa tekið vel í þessa þjónustu og nýta sér hana, enda er vöruúrvalið stórfenglegt í þessum bíl þar sem tæplega þrjátíu framleiðendur selja yfir 200 vörur. Í sumar var boðið upp á nýja þjónustu þar sem bíll smáframleiðenda þjónustaði litlar gjafavöruverslanir fyrir ferðamenn á Norðurlandi vestra um vörur frá smáframleiðendum. Í boði er fyrir smáframleiðendur, hvar sem er af landinu, að leigja bílinn frá einum degi upp í viku til að selja sínar vörur. Við vonum að þessari þjónustu verði vel tekið en ekki er komin mikil reynsla á hana.

Verkefnið „Smáframleiðendur á ferðinni“ er alltaf að auka þjónustuna og þróast og styður líka við netverslun Vörusmiðjunnar, en hægt er að fá vörur afhentar í bílnum samkvæmt leiðarkerfi,“ útskýrir Þórhildur og bætir við:

„Þessar sölugáttir fyrir smáframleiðendur hafa auðveldað til muna aðgengi neytenda að vörum þeirra. Á þann hátt hefur Vörusmiðjan gert vörur smáframleiðenda sýnilegri og hjálpað til við að koma á beinum tengslum milli framleiðanda og neytenda og byggt upp traust þeirra á milli. Vörusmiðjan hefur því átt stóran þátt í að efla og styðja smáframleiðendur og styrkt ímynd Norðurlands vestra m.t.t. þess sem svæðið hefur upp á að bjóða í matvælaframleiðslu.“

Úthaldið skiptir máli

Ný þjónusta í haust hjá Vörusmiðjunni er þurrkskápur og gerð kennslumyndbanda í úrbeiningu og hlutun á lambaskrokk, þetta er liður í að halda áfram að bæta þjónustu okkar við smáframleiðendur.

Hildur Magnúsdóttir, Embla Dóra Björnsdóttir og Rakel Sturlu- dóttir hjá Pure Natura hafa nýtt sér aðstöðu Vörusmiðjunnar.

„Frá því að Vörusmiðjan hóf starfsemi sína hefur orðið umtalsverð vakning á svæðinu hvað varðar heimavinnslu matvæla. Ásókn hefur aukist jafnt og þétt og síðustu haust hefur Vörusmiðjan verið fullnýtt alla virka daga og einnig sumar helgar fram að jólum; í raun er þörf á annarri smiðju á þessum háannatíma. Mest er um að ræða bændur úr Skagafirði og Húnavatnssýslum sem sjá tækifæri í að auka verðmæti afurða sinna. Síðustu ár hafa gæsaveiðimenn sem verka sínar gæsir og framleiða fjölbreyttar vörur einnig bæst við. Síðast en ekki síst hefur samfélag smáframleiðenda í Vörusmiðjunni aukið samstarf og samstöðu framleiðenda á svæðinu; framleiðendur standa t.d. sameiginlega að matarmörkuðum og jólapökkum,“ segir Þórhildur og bætir við:

„Það eru litlu sigrarnir og úthaldið sem skiptir máli. Það er stór ákvörðun að fara í framleiðslu á matvælum og smáframleiðendur gera það af heilindum. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hversu stóran þátt Vörusmiðja BioPol á í breyttu landslagi í matvælaframleiðslu smáframleiðenda á svæðinu á síðustu fimm árum.“

Okkar besti maður
Líf og starf 11. desember 2025

Okkar besti maður

Á næsta ári verða 300 ár liðin frá fæðingu Eggerts Ólafssonar. Þegar við svipleg...

Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum
Líf og starf 8. desember 2025

Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum

Íslensk blóm gleðja augað. Bæði afskorin blóm og pottaplöntur geta á einn eða an...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 8. desember 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn mun fljótlega upplifa einhvers konar deyfð og myndi helst kjósa að u...

Jólin eru að koma
Líf og starf 5. desember 2025

Jólin eru að koma

Nú fer að líða að hátíð ljóssins og jólasveinanna og því ekki seinna vænna að sk...

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f