Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal hefur skapað 34 störf í plássinu og verður starfsmönnum fjölgað um fimm vegna stækkunar verksmiðjunnar.
Starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal hefur skapað 34 störf í plássinu og verður starfsmönnum fjölgað um fimm vegna stækkunar verksmiðjunnar.
Mynd / HKr.
Líf og starf 12. október 2021

Afkastageta aukin um 40% og fullvinnsla eykst bæði á fóðurbætiefni og til manneldis

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Framkvæmdir hafa staðið yfir við stækkun verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. á Bíldudal á annað ár. Þar með hefur afkastageta verksmiðjunnar verið aukin um 40%. Verksmiðjan var með heimild upp á 85.000 tonna framleiðslu á ári, en sótt var um aukna heimild til stækkunar árið 2019 upp í 120.000 tonna framleiðslu.

Halldór Halldórsson forstjóri segir að með stækkuninni sé verið að bæta við afkastameiri þurrkara.

„Gamli þurrkarinn keyrir í gegnum vothreinsikerfi en nýi þurrkarinn keyrir í gegnum síukerfi. Þetta eru kerfin sem sjá til þess að ekki fari fínt ryk út í andrúmsloftið en starfsleyfi heimilar ekki meira en 20 mg/m3 í útblæstri. Við höfum staðist það undanfarin ár.

Með nýja þurrkaranum keyptum við hitaendurnýjunarkerfi og þannig náum við að endurnýta 300 kw með því að keyra útblásturinn frá þurrkaranum í gegnum þetta kerfi. Það virkar í raun eins og öfugur vatnskassi í bíl og nýtir heita loftið inn í þurrkarann aftur,“ segir Halldór.

Þá er líka verið að auka full­vinnslu hráefnisins á Bíldudal og taka í notkun kornunarverksmiðju, eða það sem kallað er „G-Plant“ (granulation plant).

„Við erum að fjárfesta þarna fyrir um 700 milljónir króna í nýjum þurrkara og nýrri kornunarverksmiðju til að auka afköst og fullvinnslu. Við erum búin að taka stækkunina í notkun en ætlum okkur að nýta tímann út þetta ár við að fínstilla vinnsluferlið í þurrkun og kornun.“

Halldór segir að Íslenska kalkþörungafélagið hafi áður verið að fullvinna fóður.

„Við vorum með kornunarverksmiðju sem gat framleitt 6.000 tonn ári, en þessi nýja verksmiðja á að geta afkastað 20 þúsund tonnum. Þá sjáum við fyrir okkur að í nýrri verksmiðju í Súðavík við Ísafjarðardjúp verði hægt að framleiða 60 þúsund tonn af tilbúnu kornuðu kalþörungafóðri á ári.“

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. Mynd / ÍK

Fullvinna kalkfóður á Bíldudal

Sagði Halldór að fullvinnslan byggðist á því að flutt er inn matarlím sem blandað er saman við fullunnið, þurrkað og malað kalkþörungaduft ásamt vatni. Í þennan lög er bætt örlitlu magnesíum þar sem innihald þess í náttúrulegum kalkþörungunum er 2,5% en kaupendur vilja hafa 5% magnesíuminnihald.

„Við blöndum þessu saman í vélum og þurrkum og kornum síðan í örsmáar kúlur sem eru minni en áburðarkúlurnar sem bændur þekkja vel. Þessi framleiðsla er mjög vinsæl meðal bænda úti um allan heim, því í svona kornaformi myndast ekki eins mikið ryk og þegar skepnum eru gefnir hefðbundnir kalkþörungarnir í duftformi. Þetta er auðvitað dýrara fóður, en að sama skapi þægilegra við að eiga. Við köllum þetta fóður rykfrítt með frjálsu flæði, eða „dust free and free flow“, segir Halldór.

Kalkþörungar sem dælt hefur verið upp af botni Arnarfjarðar. Mynd / HH

Kalk bæði í dýrafóður og til manneldis

Hann segir góðan markað fyrir þörunga í dýrafóður. Þá sé einnig stöðugur vöxtur á framleiðslu til manneldis.
„Við höfum verið með um 20% vöxt á ári í framleiðslu til manneldis og þar erum við komin í 4.500 tonn á ári.“

Aukið landrými

Unnið hefur verið að landfyllingu á Bíldudal í sumar og segir Halldór að Íslenska kalkþörungafélagið fái að nýta hluta af henni.
„Við erum því líka að stækka athafnasvæði okkar við verksmiðjuna á Bíldudal,“ segir Halldór.

Mikil innspýting fyrir atvinnulíf og samfélagið allt á Bíldudal

Þörungaverksmiðjan hefur verið mikil innspýting fyrir atvinnulíf og samfélagið allt á Bíldudal. Hefur hún dregið að fólk, bæði brottflutta Bílddælinga sem nýbúa, og það hefur kallað á húsbyggingar. Þá hefur fiskeldið í Arnarfirði einnig dregið að fjölda fólks til vinnu.

Reistu 8 íbúða einingahús frá Eistlandi á örskotstíma

Vegna húsnæðisskorts réðst Íslenska kalkþörungafélagið í bygg­ingu átta íbúða í tveggja hæða rað­húsi 2018 úr tilbúnum einingum sem keyptar voru frá Asko Haus í Eistlandi. Húsin komu í átta einingum og platan undir bygginguna kom líka í tilbúnum steineiningum. Þá bættust við fjórar einingar sem voru tröppur upp á efri hæð ásamt geymslum á bakhlið hússins. Góð reynsla er af húsum frá Asko Haus, en fyrirtækið hefur byggt yfir 100.000 fermetra af einingahúsum af ýmsum gerðum.

„Það tók okkur þrjá daga að hífa plötuna á tilbúinn grunninn og aðra þrjá daga að hífa þessar 12 einingar og setja saman. Síðan tók það 8 daga til viðbótar að tengja allar lagnir, en íbúðirnar komu fullbúnar með öllu til landsins.“ - Segir Halldór að kostnaðurinn við þessar íbúðir hafi verið nokkuð hagstæður.

Grænu byggingarnar á hafnarsvæðinu eru verksmiðjuhús Íslenska kalkþörungafélagsins. Mynd / HKr.

Allt starfsfólk með lögheimili á Bíldudal

„Þetta eru stúdíóíbúðir sem henta vel pörum með eitt barn. Ef fólk þarf eitthvað meira, þá er það líka búið að ákveða að eiga sína framtíð hér á Bíldudal. Það hefur reyndar verið eitthvað um slíkt. Við erum t.d. með ungt fólk frá Slóvakíu og Póllandi sem nú eru orðin hjón og eiga saman barn. Nú eru þau komin í leiguíbúð í blokkinni sem hér er.

Við höfum ekki ráðið neitt starfsfólk í gegnum starfsmannaleigur. Til okkar hefur komið fólk sem sest þá að til lengri eða skemmri tíma. Þá er allt okkar starfsfólk með lögheimili á Bíldudal og borgar því sína skatta og gjöld til samfélagsins.

Nú erum við með 34 í vinnu og bætum við fimm starfsmönnum út af stækkuninni.“

Vegna húsnæðisskorts réðst Íslenska kalkþörungafélagið í byggingu átta íbúða í tveggja hæða raðhúsi 2018 úr tilbúnum einingum sem keyptar voru frá Asko Haus í Eistlandi. Mynd / HKr.

Hafist verður handa nú í haust við undirbúning að byggingu nýrrar verksmiðju Íslenska kalþörungafélagsins á Langeyri við Álftafjörð. Þar hefur fengist leyfi til 30 ára að vinna 3,6 milljónir rúmmetra af dauðum kalkþörungum af tilteknum svæðum á botni Ísafjarðardjúps. Mynd / HKr.

Næsta skref er bygging annarrar verksmiðju við Ísafjarðardjúp

Halldór segir að félagið hafi heim­ild til að nýta kalþörunga af botni Arnarfjarðar til 2033. Þá hafi félagið 30 ára nýtingarleyfi í Ísafjarðar­djúpi frá og með mars 2021, eða fram í mars árið 2051. Fyrirhugað er að reisa verksmiðju á Langeyri í Álftafirði, skammt frá nýja þorpskjarnanum í Súðavík.

Íslenska kalkþörungafélagið fékk leyfi Orkustofnunar í mars til að vinna kalkþörungaset í Ísafjarðardjúpi. Áætlað er að verksmiðja fyrirtækisins taki til starfa síðla árs 2025. Miklar tafir urðu á leyfisveitingaferlinu og er fyrirhuguð gangsetning nú komin fimm árum fram yfir þann tíma sem upphaflega var áformað að reisa verksmiðjuna í Súðavík.

Leyfi Orkustofnunar er, eins og fyrr segir, til þrjátíu ára og veitir heimild til að taka 3,6 milljónir rúmmetra af dauðum kalkþörungum á tilteknum svæðum í Djúpinu.

Verksmiðjan í Súðavík á að vera álíka stór og kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal, eða með um 120 þúsund tonna framleiðslugetu á ári.

„Það er reiknað með að grjótvörn fyrir landfyllingu á innanverðri Langeyri verði boðin út í október næstkomandi. Við vonumst svo til að geta hafist handa við að byggja eftir tvö til þrjú ár,“ segir Halldór Halldórsson.

Orkuskortur og lélegar rafmagnslínur gætu skaðað uppbyggingu

Þó verksmiðjan verði reist á Súðavík á tilsettum tíma, þá blasir við annar vandi. Það er skortur á raforku á norðanverðum Vestfjörðum sem ekki er hægt að leysa í dag nema með keyrslu dísilvéla. Eins er flutningslína sem liggur frá Engidal í Skutulsfirði yfir í Álftafjörð orðin 60 ára gömul og flutningsgetan algerlega ófullnægjandi.

Segir Halldór að það sé einungis um eitt megawatt á lausu í Súðavík þegar raforkukerfið er í lagi, en það vanti 7 til 8 megawött fyrir verksmiðjuna.

Málið snýst því bæði um orkuskort og ónothæfar flutningslínur sem hvoru tveggja þarf að leysa úr á allra næstu árum ef tryggja á afhendingaröryggi fyrir aukna atvinnustarfsemi á svæðinu. Að öðrum kosti verða menn að stóla á reykspúandi staðbundnar dísilvélar.

Þó reist hafi verið varaaflsstöð í Bolungarvík 2015 með sex 1,8 MW dísilvélum sem skila samtals 10,8 megawöttum, þá dugar það ekki til. Flutningsgeta er einfaldlega ekki fyrir hendi til að koma stærstum hluta af því rafmagni til Súðavíkur. Eins yrði þá lítið varaafl eftir ef vandamál koma upp í raforkukerfi svæðisins.

Hugmyndir voru uppi um að efla flutningskerfið á Vestfjörðum og styrkja orkuframleiðsluna með nýrri vatnsaflsvirkjun í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum. Þau áform eru nú í fullkominni óvissu eftir miklar tafir sem urðu á þeirri framkvæmd, m.a. út af deilu um náttúruvernd.

Segir Halldór að ekki verði brugðist við þessari þörf fyrir nýrri og burðarmeiri rafmagnslínur verði verksmiðjan keyrð á gasi.

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“
Líf og starf 5. mars 2024

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Svövu Jakobsdóttur.

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar
Líf og starf 1. mars 2024

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar

Eins og áður hefur verið kynnt hafa alls 14 byggðarlög hérlendis tekið þátt í ve...

Fagleg og fræðandi afmælissýning
Líf og starf 26. febrúar 2024

Fagleg og fræðandi afmælissýning

Hálfrar aldar afmæli Félags tamningamanna var haldið hátíðlegt þann 17. febrúar ...