Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Hvalshöfði
Bærinn okkar 5. september 2022

Hvalshöfði

Við kynnumst hér þeim eðalhjónum Hafdísi Brynju og Róberti, en þau búa á Hvalshöfða í Hrútafirði.

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Býli: Hvalshöfði í Hrútafirði.

Staðsett í sveit: Húnaþingi vestra.

Ábúendur: Róbert Júlíusson og Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): Við eigum 5 uppkomin börn og 8 barnabörn (allt strákar). Við erum með rúmlega 170 ær og venjulega 6 til 8 hrúta og allt eru þetta nú hálfgerð gæludýr. Við vorum lengi með tvo hunda en eftir að þau hurfu höfum við ekki fundið neinn til að fylla þeirra skarð enda leitun að heimskari og geðbetri hundi en hann Teitur okkar var.

Gerð bús og stærð jarðar? Sauðfjárbú, 670 ha að stærð.

Róbert Júlíusson

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum, skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Yfir vetrartímann, þegar féð er komið á hús fer Róbert í húsin um hálf átta en Hafdís fer í vinnuna í Grunnskóla Húnaþings vestra þar sem hún er umsjónarmaður námsvers.

Eftir gegningarnar fer Róbert í Skólabúðirnar á Reykjum þar sem hann er húsvörður. Um fjögurleytið förum við svo bæði til gegninga og gefum okkur góðan tíma í þetta.

Róbert er heldur vinsælli hjá dömunum þar sem hann sinnir félagslegum tengslum með krikaklóri og klappi auk þess sem hann tekur lagið fyrir þær meðan hann rakar yfir krærnar. Húsin eru gömul með trégrindagólfi sem vill safnast á, ef hey slæðist niður, en okkur finnst mikilvægt að hafa húsin snyrtileg fyrir bæði dýr og menn.

Frúin á nú líka sínar vinkonur þarna en stundum slettist aðeins upp á vinskapinn því hún sinnir leiðinlegu verkunum eins og bólusetningum og ormalyfsgjöf.

Krakkarnir okkar koma svo og hjálpa til í haustsmalamennskunum og Júlíus, næstelsti sonurinn, hefur ótrúlega gaman af því að moka út úr fjárhúsunum á haustin. Einnig hafa þeir bræður, hann og Þorsteinn, lagað girðingarnar á vorin, sem er þvílíkur munur.

Skemmtilegustu bústörfin er vafalaust sauðburðurinn, sérstaklega þegar vel gengur eins og í vor þrátt fyrir kalt vor. Og leiðinlegast er að senda gömlu ærnar í sláturhúsið.

Hér fyrir miðju má sjá dótturdóttur Gordjöss, hana Rögnu Ragnars.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Eftirminnilegasta atvikið er sennilega þegar Hafdís var einu sinni sem oftar að vatna fyrripart vetrar og leit niður fyrir sig í krónni og sá hreyfingu í kjallaranum. Við nánari athugun kom í ljós að þetta var kollótt kind sem líklega var búin að ralla þarna í að minnsta kosti viku ef ekki lengur – en einhvern tíma um það leyti þurfti að taka upp grind í gólfinu til að gera við og þó við vitum ekki hvernig það gerðist þá hefur blessunin farið þarna ofan í.

Hún var bara vel haldin því kjallarinn var tómur og það slæðist alltaf hey þarna niður, þannig að hún hafði færi á að labba á milli króa og éta slæðinginn. Kindin hlaut nafnið Gordjöss, vísun í lagið hans Páls Óskars, og varð langlíf afurðakind.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Vinsælasti maturinn? Í ísskápnum er alltaf til skyr, rjómi, smjörvi og ostur ... af því það er alltaf það sem Hafdísi dettur í hug að vanti ef hún skýst í búð eftir vinnu. Það hefur meira að segja komið fyrir að það sé vandræðalega mikið magn af þessum vörum fyrir tvær manneskjur. En uppáhaldsmaturinn er að sjálfsögðu íslenskt lambalæri og bara annað lambakjöt því það eiginlega getur ekki klikkað.

Uppáhaldstæki? Uppáhaldstækin eru nú bara þau sem virka skammlaust þegar þarf að nota þau!

Hvað er skemmtilegast að gera þegar ekki er verið að vinna? Efst á blaði samvera með krökkunum okkar og þeirra fjölskyldum. Það er líka gaman að ferðast þó við gerum of lítið af því. Svo er það bara oft þannig í sveitinni að skilin milli vinnu og frítíma eru óljós enda á lífið að vera leikur, er það ekki?

Hvítidalur 2
Bærinn okkar 28. nóvember 2022

Hvítidalur 2

Þau hjónin Þorbjörn Gerðar og Dögg Ingimundardóttir búa á Hvítadal 2 í Saurbæ og...

Bakki í Geiradal
Bærinn okkar 14. nóvember 2022

Bakki í Geiradal

Hjónin Árný og Baldvin fluttu á Bakka í Geiradal í Reykhólahreppi í maí árið 201...

Miðdalsgröf
Bærinn okkar 31. október 2022

Miðdalsgröf

Þau hjón, Steina Þorsteinsdóttir og Reynir Björnsson í Miðdalsgröf, Steingrímsfi...

Miðhús
Bærinn okkar 17. október 2022

Miðhús

Þau Barbara og Viðar frá Miðhúsum segja lesendum örlítið frá sjálfum sér

Kolbeinsá 1
Bærinn okkar 3. október 2022

Kolbeinsá 1

Hjónin Hannes Hilmarsson og Kristín Guðbjörg Jónsdóttir kaupa Kolbeinsá 1 ...

Hvalshöfði
Bærinn okkar 5. september 2022

Hvalshöfði

Við kynnumst hér þeim eðalhjónum Hafdísi Brynju og Róberti, en þau búa á H...

Birnustaðir Skeiðum
Bærinn okkar 9. ágúst 2022

Birnustaðir Skeiðum

Á bænum Birnustöðum á Skeiðum búa hjónin Jóna Þórunn Ragnarsdóttir og Ó...

Miðdalur
Bærinn okkar 18. júlí 2022

Miðdalur

Þau Ólöf Ósk Guðmundsdóttir og Hafþór Finnbogason fluttu í Miðdal og tóku...