Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Topiary
Skoðun 28. apríl 2017

Topiary

Höfundur: Vilmundur Hansen

Samkvæmt dagatali er komið sumar og því ekki seinna vænna en að garðeigendur drífi sig út í garð og ljúki því af að klippa limgerðið.

Samkvæmt fræðunum er ekkert því til fyrirstöðu að klippa limgerði á öllum árstímum en það fylgir því mikil hagræðing að klippa áður en runnarnir laufgast því laufleysið gerir fólki auðveldara að átta sig á lögun plantnanna og velja greinar sem á að fjarlægja.

Með því að klippa limgerði er vexti plantnanna stýrt, og kalsprotar fjarlægðir. Vaninn er að klippa þannig að limgerðið verði A-laga, breið neðst og mjókki upp. Sé þannig klippt nær birtan vel niður að neðstu greinunum, þær fá sól og ná að þroskast og dafna. Mjó limgerði gera alveg sama gagn og breið og eru yfirleitt hraustari. Æskileg breidd á limgerði er sextíu til áttatíu sentímetrar niðri við jörð en tuttugu til fjörutíu sentímetrar efst.

Ræktaðir skúlptúrar

Hvernig væri að breyta til í ár og klippa tré og runna í mismunandi form og kynjamyndir til að lífga upp á garðinn og fegra umhverfið? Margir garðeigendur eru enn sem komið er feimnir við að breyta út frá limgerðisforminu og brjóta það upp með kynjamyndum og krúsidúllum.

Formklipping trjáplantna á sér langa sögu þótt ekki sé vitað hver byrjaði fyrstur á þeirri iðju. Listin að forma plöntur í myndir er grein af sama meiði og þegar menn höggva skúlptúr í grjót. Ólíkt grjóti eru plöntur lifandi og síbreytilegar og myndin vex burt ef henni er ekki haldið við.

Sagnfræðingurinn Pliny yngri, sem var uppi rúmum hundrað árum fyrir fæðingu Krists, lýsti því í einu rita sinna að í görðum efnamanna væru mismunandi fígúrur og dýr sem klippt væru úr lifandi gróðri. Hann lýsir plöntum sem eru í laginu eins og bókstafir og eru upphafsstafir eigenda garðsins. Þessa hugmynd væri hægt að útfæra á skemmtilegan hátt í dag með því að klippa út húsnúmerið í limgerðið fyrir framan húsið.

Kynjamyndir

Plöntur sem henta til form­klippinga þurfa að vera fljótsprottnar, blaðsmáar, þéttar og þola klippingu. Erlendis eru ýmsar tegundir af sígrænum trjám og runnum sem henta vel til formunar en hér á landi er úrval þeirra takmarkað. Það er þó hugsanlegt að notast við kínalífvið, sýprusvið og buxusrunna við bestu skilyrði. Himalajaeinir er að öllum líkindum harðgerðasta sígræna plantan hér á landi sem hentar til formunar. Brekkuvíðir og aðrar laufsmáar plöntur, eins og toppar og kvistir, ættu einnig að henta vel.

Þeir sem ætla að forma plöntur í myndir þurfa að temja sér þolinmæði því það tekur yfirleitt nokkur ár að rækta upp góða mynd. Þegar réttu formi er náð þarf svo að sinna myndinni af alúð svo hún fari ekki út í órækt. Auðveldasta leiðin til að ná góðu formi er að kaupa litlar plöntur og setja yfir þær vírgrind eða vírnet sem búið er að forma. Greinarnar eru síðan klipptar þegar þær hafa vaxið um það bil tommu út fyrir möskvana, myndin er svo fullgerð þegar greinar og lauf hafa hulið grindina að fullu. 

Skylt efni: Trjáklippingar | topiary

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019
Skoðun 16. janúar 2023

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019

Árið 2022 var sögulegt, eftir tveggja ára baráttu við Covid-19 sjúkdóminn, sem e...

Biðin er ótæk
Skoðun 1. desember 2022

Biðin er ótæk

Nú liggur fyrir að þróun áburðarverðs á heimsmarkaðsverði hefur verið heldur á u...

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi
Skoðun 24. nóvember 2022

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi

Við undirritun EES-samningsins 1992 byggði samstarf ESB á ákveðnum sáttmálum.

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda
Skoðun 21. júní 2022

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að...

Traust og „chill“
Skoðun 20. júní 2022

Traust og „chill“

Það hlýtur að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sa...

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu
Skoðun 9. júní 2022

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu

Margt fellur með íslenskri kjötframleiðslu, landgæði, vatn, skilningur neytend...

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins
Skoðun 1. júní 2022

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins

Síðastliðinn áratug hafa áskoranir laxeldisgreinarinnar á Íslandi breyst að því ...

Nagandi afkomuótti
Skoðun 23. maí 2022

Nagandi afkomuótti

Öllum sem fylgjast með ástandi heimsmála og samfélagsins hlýtur að vera ljóst að...