Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Tökum þeim áskorunum sem að okkur er beint
Mynd / BBL
Skoðun 8. febrúar 2018

Tökum þeim áskorunum sem að okkur er beint

Höfundur: Guðný Helga Björnsdóttir
Loftslagsbreytingarnar eru stórt mál sem heimsbyggðin þarf að taka á, þar er litla Ísland ekki undanskilið. Okkur er tjáð að stærsti áhrifaþátturinn á Íslandi í kolefnismenguninni séu framræstar mýrar og með ákveðnum mælingum eru fundnir út stuðlar og tölur.
 
Guðný Helga Björnsdóttir.
Þegar verið er að meta losun vegna framræslu hér á landi er stuðst við losunartölur sem notaðar eru í Evrópu. Mér finnst það nú dálítið eins og við myndum meta mjólkurnyt kúnna okkar með stuðlum frá evrópskum kúm. T.d. Jersey-kýrnar eru ekki mikið stærri en íslensku kýrnar. 50 kýr í fjósi þar hljóta því að mjólka jafn mikið og 50 kýr í fjósi hér, en það er langt því frá að svo sé. Eða að 100 hektarar af túni hér á landi gefi jafn mikla uppskeru og 100 hektarar af túni í Danmörku. Það er svo margt sem hefur áhrif á losunina, veðurfar, gróðurfar, jarðvegsgerð og fleira, því er bráðnauðsynlegt að komast að því hver losun gróðurhúsalofttegunda er raunverulega úr framræstum mýrum hér á landi. 
 
Eins þarf að velta fyrir sér hvaða fleiri ráðum við getum beitt til að minnka kolefnisfótsporin. Þar horfi ég t.d. til innflutnings og útflutnings á landbúnaðarvörum. Það væri mun minni mengun af því að neyta innlendrar framleiðslu, fremur en að flytja inn og þurfa þá að flytja á móti út landbúnaðarafurðir sem ekki seljast vegna innfluttu varanna.
 
Hvernig vörur viljum við kaupa?
 
Talandi um innflutning landbúnaðarafurða. Hvernig vörur viljum við borða? Er okkur alveg sama, bara að þær næri okkur svo við getum haldið áfram lífsbaráttunni? Nei, ég held að við viljum vita hvernig varan er framleidd, við hvaða aðbúnað dýrin lifðu, eða hvernig sinnt var um plönturnar, hvernig fóður dýrin hafa fengið, hvort einhver sýklalyf og eiturefni voru notuð við framleiðsluna, hvernig aðbúnaður og launakjör starfsmannanna sem hirtu um dýrin og plönturnar var o.þ.h. Ódýrar innfluttar landbúnaðarvörur eru ekki framleiddar á sömu forsendum og íslenskar landbúnaðarvörur.
 
Verum stolt af okkar íslensku framleiðslu og höldum áfram að gera vel í framleiðslu landbúnaðarvara í hæsta gæðaflokki. Þó svo að að okkur sé sótt með innflutningi á landbúnaðarvörum þá eigum við ekki að þurfa að óttast þá samkeppni. Það er hins vegar áskorun og stórt verkefni framundan að koma innflytjendum og verslunarrekendum í skilning um að neytendur þurfa að hafa val. Neytendur eiga ekki bara að geta keypt ódýra innflutta vöru. Íslenska varan þarf líka að vera á boðstólum og sett fram af sanngirni af innflytjendum og verslunum. Að setja innflutta sveppi í sambærilegar pakkningar og íslenska gæða Flúðasveppi ber vott um einbeittan brotavilja innflytjanda og þá trú og vissu hans að neytendur vilji kaupa íslenska framleiðslu.
 
En matvörur er ekki bara hægt að fá í verslunum. Stórir matvörukaupendur eru veitingahús og mötuneyti. Þar þarf að vera hægt að tryggja að neytandinn viti uppruna matarins sem þar er að fá. 
 
Full þörf á matvælastefnu
 
Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki setja sér hinar ýmsu stefnur. Það ætti að vera metnaðarmál að mötuneyti að minnsta kosti ríkis og sveitarfélaga settu sér matvælastefnu, þar sem kæmi fram m.a. að markmiðið væri að kaupa innlenda framleiðslu eins og unnt er. 
 
Af þessum skrifum mínum má kannski skilja að ég haldi að allar erlendar matvörur séu afleitar. Það er langt frá því að ég telji það. Erlendis er mjög mikið af úrvals matvöru líkt og íslenskir bændur framleiða. Hins vegar, þegar búið er að flytja matvöru í þeim gæðaflokki til landsins okkar, þá er hún yfirleitt á sambærilegu verði og innlenda framleiðslan. Hvers vegna þá ekki að kaupa þá innlendu, styðja við íslenska framleiðslu og minnka kolefnisfótsporið?
 
Horfum opin fram á veginn
 
Fyrir nokkrum árum var nemandi í áburðarfræðitíma hjá Magnúsi Óskarssyni í Bændaskólanum á Hvanneyri. Til að ná eyrum nemendanna bryddaði sá snilldarkennari oft upp á öðru umræðuefni en þurri áburðarfræðinni. Í umræddum tíma var Magnús að ræða um félagsmál bænda og sagði eitthvað á þessa leið: „Krakkar! Þegar þið komið heim úr skólanum og verðið orðin bændur, þá er eins líklegt að flest ykkar fari inn í sveitarstjórnir og félagsmál bænda. Þið verðið jafnvel formenn og oddvitar.“ Það var ekki lítið sem þessum nemanda þótti fullyrðing kennarans fjarri lagi, allavega hvað hann sjálfan varðaði. Nú rúmum 25 árum seinna hefur umræddur nemandi setið í mörg ár í sveitarstjórn, verið oddviti, setið í stjórn Landssambands kúabænda í mörg ár og stjórn Bændasamtaka Íslands næstum því jafn mörg ár, verið varaformaður beggja félaga og komið víðar við í félagsmálum. 
 
Ástæðan fyrir að ég nefni þetta í þessum leiðara er sú að við eigum að horfa opin fram á veginn. Taka þeim áskorunum sem að okkur er beint. Eins eigum við að vera með opin augun gagnvart þeim í kringum okkur sem við viljum að sinni félagsmálum og gegni forystu fyrir okkur. Það er ekki sjálfgefið að viðkomandi aðilar hafi metnað eða sjálfstraust til að koma sér sjálfir áfram. Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér áfram til setu í stjórn BÍ og vil þakka kærlega fyrir þá reynslu sem ég hef fengið af þeim störfum, sem og öðrum í þágu bænda. Þetta er dálítið eins og að vera í tíma hjá Magnúsi Óskarssyni, þú veist ekkert alltaf hvar tíminn endar, þó hann byrji á áburðarfræði, en lærdómurinn ómetanlegur engu að síður.
Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...