Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fróði 18-880 sækir hæst hlutfall gena sinna til ættfeðranna þriggja, eða um 26,6%.
Fróði 18-880 sækir hæst hlutfall gena sinna til ættfeðranna þriggja, eða um 26,6%.
Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir.
Lesendarýni 2. janúar 2023

Örfá brot tengd ættfærslum hjá kindum og kúm á Íslandi

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, sjálfstætt starfandi búvísindamaður.

Ég átti því láni að fagna að starfa mestan hluta starfsferils míns að kynbótum sauðfjár og nautgripa hér á landi.

Frá námi mínu þekkti ég að í flestum tilvikum var traust ættfærsla ræktunargripanna undirstaða þess að ná árangri. Þess vegna var mér frá byrjun kappsmál að ættfærsla gripanna væri eins góð og mögulegt var.

Til að geta skilið ræktunarsöguna var líka nauðsynlegt að styrkja ættargrunn þessara tegunda með skráningu eldri ætternisupplýsinga. Þess vegna fór ég að nota tíma á síðkvöldum og um helgar til að skrá slík gögn í ættargrunnana sem þá voru að byrja að byggjast upp hjá Búnaðarfélagi Íslands.

Eldri skýrslur nautgriparæktarfélaganna

Fyrst hófst ég handa í nautgripa­ræktinni. Þá voru allar eldri skýrslur nautgriparæktarfélaganna aðgengilegar í húsakynnum BÍ flokkaðar eftir nautgriparæktarfélögum. Í áranna rás gerði þetta okkur mögulegt að meta skyldleikaræktarþróun í stofninum og góðu heilli komu þar ekki fram hættumerki vegna skyldleikaræktar. Þetta gaf líka möguleika á að skoða hin einstöku áhrif Huppu 12 á Kluftum í stofninum sem eru nánast einstök í búfjárræktarsögu bæði hér á landi og erlendis.

Huppa frá Kluftum. Málverk eftir Halldór Pétursson.

Við fundum að erfðahlutdeild hennar í stofninum er yfir 8%, sem er gríðarhátt fyrir kú og væri raunar fyrir eitt einstakt naut líka.

Það eina sem bændum stóð til boða á þessum árum til að stýra skyldleikarækt kúnna var frekar þunglamalegt spjald með ábendingum um skyldleika sem Nautastöðin sendi bændum árlega og ég lét útbúa. Um aldamótin vann ég aðeins að tölvukerfi til þessara hluta. Það mál strandaði á að forriturum tókst aldrei að leysa aldamótavanda sem kom fram í forritinu. Þá var vinnsla skýrsluhaldsins í nautgriparækt ekki enn komin á netið og var því af ýmsum ástæðum ákveðið að leggja vinnu við verkefnið á hillurnar þá.

Nú hefur erfðatæknin tekið yfir í nautgriparæktinni og sum vandamálin eins og skyldleikarækt munu aukast. En þar gerast hlutirnir og mér nægir að reyna að fylgjast með því.

Læt staðar numið að rifja upp afskipti mín af málum tengd ættargrúski í nautgriparækt.

Gullnáma gamalla fjárbóka

Í sauðfjárrækt fór ég ekki að sinna þessum málum, að bæta við ættargrunninn eldri upplýsingum, fyrr en um aldamót. Þá hafði ég uppgötvað hve víða var að finna gullnámu gamalla fjárbóka. Ég fór því þá leið að fá þessar bækur lánaðar til skráninga. Á þennan hátt tókst mér í áranna rás að bæta í grunninn ótrúlegu magni eldri upplýsinga. Þær hafa styrkt yngri upplýsingar því að með að leggja saman eldri og yngri upplýsingar styrkja þær hvorar aðra til að skila traustum upplýsingum um skyldleika og skyldleikaþróun í fjárstofninum.

Þær rannsóknir hafa verið gerðar á síðustu árum af nokkrum aðilum. Þær hafa allar sýnt að ekki sýnist ástæða til að óttast skyldleikaþróun í sauðfjárstofninum. Að auki hafa rannsóknir nemenda við LbhÍ, fyrst Ragnars Skúlasonar og síðan Unnar Jóhannsdóttur, rennt stoðum undir það sem ýmsir fjárbændur þekkja að ég hélt oft fram að skyldleikahnignun er hugsanlega hverfandi lítil hjá íslensku sauðfé. Þetta þarfnast samt frekari skoðunar á næstu árum.

Ákaflega jákvætt væri ef svo reyndist vegna þess að væg skyldleikarækt er að ýmsu leyti ákaflega jákvæð fylgi henni ekki hnignun. Þetta er atriði sem er breytilegt á milli búfjárkynja og á sér vafalítið skýringar í ræktunarsögunni.

Ég verð hér að nefna að það tókst meira að segja að byggja upp nægjanlega traustan grunn fyrir íslenska forystuféð til að skoða skyldleikaræktina. Þar varð að vísu leitað allra ráða til að afla ættarupplýsinganna sem tókst með nokkurra ára vinnu margra. Þar var staðfest að ræktendur þessa fjár hafði tekist meistaralega að tempra skyldleikarækt í þessu örkyni. Aðeins á tveim eða þrem búum þar sem ræktun hafði verið að öllu leyti lokuð innan búsins sáust uggvænlegar tölur. Í smákyni eins og þessu verður ákaflega mikilvægt að fylgjast með þróun. Þar verður að vakta skyldleikaræktina og skipulag sæðinga gegnir þar lykilhlutverki.

Þrír riðuverndarhrútanna eru hyrndir en þeir sækja allir talsvert undir meðaltali nýju hrútanna til ættfeðranna þriggja sem fjallað er um. Myndin sýnir Austra 20-892.

Duldir erfðagallar

Baráttan við dulda erfðagalla er dæmi þar sem ætternisupplýsingar eru ómetanlegar og hafa komið að miklu gagni. Bógkreppan er þar illvígasti gallinn í sauðfjárræktinni. Ætternisupplýsingarnar eru nauðsynlegar til að staðfesta hvaðan gallinn er kominn og í framhaldi þess að glöggva sig á vandanum á búinu komi meinsemdin þar fram. Eyþór Einarsson hefur frætt bændur rækilega um baráttuna við bógkreppuna og viðbrögð.

Stórfellda notkun Viðars 17-844

Ég var kominn til starfa þegar vandinn vegna notkunar Hyls 75­947 kom upp á Suðurlandi. Nú blasir við enn alvarlegri alda vandans eftir stórfellda notkun Viðars 17­844 um allt land en hann er staðfestur arfberi. Vonir eru að vísu bundnar við að hér komi erfðatæknin til liðs. Genið verði fundið og útbúið erfðapróf. Það er eina framtíðarlausnin til að slökkva þennan eld. Meðan óvissan ríkir er hins vegar algert ábyrgðarleysi að ætla að nota syni Viðars áfram í ræktuninni eins og ég heyri að sumir fjárbændur áforma. Það er eins og að hella olíu á eld sem er kviknaður. Við hrútana syni Viðars eru aðeins þrír valkostir. Í fyrsta lagi að slátra hrútnum sem er varanlegasta lausnin, að leyfa honum að lifa með von um erfðapróf fyrir næsta haust eða nota hrútinn aðeins til sláturlambaframleiðslu, þ.e. öllum lömbum sem fæðast að vori undan honum verði fargað næsta haust.

Fjórða möguleikann að nota hrútinn í ræktun búsins þetta árið verður að útiloka. Þetta á líka við um veturgamla syni hans því að þó að á síðasta vori hafi hrúturinn ekki gefið neitt lamb með gallann er það því miður engin prófun á því að hann beri ekki genið.

Notkun ætternisupplýsinga

Í lokin ætla ég að ræða aðeins eitt lítið dæmi um hvernig nota má ætternisupplýsingarnar til að skoða áhugaverða hluti.

Það sem ég gerði var að reikna erfðahlutdeild þriggja líklega hvað mestu ættfeðranna hjá hyrnda fénu í dag hjá öllum nýjum hyrndum hrútum á sæðingastöðvunum í vetur. Þessar tölur eru að vísu allar reiknaðar í höndunum þar sem ég hef ekki aðgengi að ætternisupplýsingum fyrir forritin sem ég þekki. Því er ekki hægt að útiloka smáskekkjur en þær eru þá allar til hækkunar á tölunum. Tölurnar sýna hlutfall gena (erfðahlutdeild) frá ættföðurnum sem um ræðir hjá viðkomandi hrúti. Hrútana kynni ég ekki. Ættfeður sem valdir voru eru þeir sem ég held áhrifaríkasta sem stendur en af áðurgreindum ástæðum gat ég ekki staðfest það með útreikningum. Ekki var leitað nema tíu kynslóðir til baka í ættartréð þó að dæmi væru um Kveik og Raft þar aftar hjá yngstu hrútunum. Áhrifin eru þá hins vegar orðin það lítil að þeim er sleppt.

Lítum aðeins á niðurstöður. Að jafnaði fá hrútarnir 15% genanna frá þessum þrem ættfeðrum. Talan getur hæst orðið 50% þar sem hin 50% koma frá mæðrum í ættartrénu. Þetta eru því mikil áhrif þrenningarinnar og ljóst að ekki er rúm fyrir aðra hrúta úr kynslóð þeirra með lík áhrif. Af ættfeðrunum er Kveikur áhrifaríkastur með um 6,5%, Raftur næstur með 4,8% og Grábotni 3,9%. Þetta er sú röð sem ég fyrirfram hafði reiknað með að yrði. Verulegur munur er á því hvernig áhrif ættfeðranna birtast. Kveikur og Raftur koma í notkun tveim árum fyrr en Grábotni. Félagana tvo er að finna í erfðamengi allra hrútanna en Grábotna aðeins hjá sumum en komi hann fram er hlutur hans oftar en ekki meiri en beggja hinna. Vafamál er því hvort nægjanlega langt er liðið frá notkun Grábotna til að hann eigi heima í svona samanburði.

Ekki verður lesið úr töflunni hvað mikil skyldleikarækt er farin að myndast frá þessum þrem köppum. Það gerist þegar þá er orðið að finna bæði á föður- og móðurgrein í ættartrénu. Það á við í flestum tilvikum fyrir Kveik og Raft en sjaldan fyrir Grábotna.

Til að skýra enn nánar hvað tölurnar í töflunni segja. Hæstu tölur eru um 12,5% en það svarar til áhrifa jafnt þeim að viðkomandi hrútur væri einn fjögurra langafa gripsins. Algengt er að sjá tölur nálægt 6,25% en það jafngildir því að viðkomandi ættfaðir væri einn átta hrúta á fjórða þrepi í ættartrénu. Reglan er að áhrifin helmingast við hvert þrep sem farið er aftar í ættartrénu.

Tölurnar sýna hlutfall gena, erfðahlutdeild, frá ættföðurnum sem um ræðir hjá viðkomandi hrúti.

Ég veit að flestir fjárbændur þekkja hlut þessara ættfeðra í sinni eigin hjörð. Vilji þeir forðast skyldleikarækt geta þeir litið á töfluna og forðast að panta sæði úr þeim hrútum sem hafa hæstu tölurnar hjá þeim ættföður sem þeir ætla áhrifaríkastan í eigin hjörð.

Notið FJÁRVÍS

Að síðustu. Notaðu nú FJÁRVÍS til að útbúa hliðstæða töflu fyrir eigið bú. Þú reiknar fyrir hrútana sem eru í notkun og velur sem ættfeður þá hrúta sem mikið var sett á fyrir 6-12 árum. Óþarfi er að skoða nema fyrstu fjóra ættliði (þá sem birtast í fyrsta ættartrénu), það fangar alla þá skyldleikarækt sem ástæða er til að taka tillit til. Góða skemmtun.

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...