Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Fjögur mismunandi kínversk fjárkyn, tíbeskt fé, Hu fé, Tong fé, Svarta Turfan féð.
Fjögur mismunandi kínversk fjárkyn, tíbeskt fé, Hu fé, Tong fé, Svarta Turfan féð.
Mynd / gsejournal.biomedcent.com
Lesendarýni 2. febrúar 2023

Myndun sauðfárkynja, útlitseinkenni

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, sjálfstætt starfandi búvísindamaður.

Núna skulum við fara yfir yfirlitsgreinina sem ég kynnti ytri umgjörð fyrir í síðasta tölublaði. Í byrjun greinarinnar fjalla höfundarnir um að hin ýmsu fjárkyn séu undantekningarlítið aðgreind eftir útliti og þá fyrst og fremst eftir lit, hornum og dindli.

Hugum aðeins að því hvar íslenska féð stendur í svona samanburði við önnur fjárkyn. Við getum sagt að einkenni íslenska fjárins í svona samanburði er einkennaleysi þess. Íslenska féð tilheyrir norður-evrópsku stuttrófukynjunum. Það er um leið fjárflesta kynið af þeim kynstofni öllum. Það er tiltölulega samstætt með tilliti til dindilstærðar og -lengdar eftir að öll einkenni erlendu kynjanna sem blönduðust því íslenska hafa ræktast úr íslenska kyninu. Það heyrir til hreinna undantekninga að finna fjárkyn sem sýna viðlíka fjölbreytni í lit og litaafbrigðum og finnast hjá íslenska fénu. Hjá öðrum fjárkynjum er nánast allt fé annaðhvort hyrnt eða kollótt svo að ekki sé talað um ferhyrnt sem er fáséð.

Ólík kyn myndast eftir að fé var tamið

Höfundarnir segja að ólík kyn hafi myndast eftir að fé var tamið sem húsdýr, annaðhvort með náttúruvali eða markvissu vali, oftast með tilliti til þessara nefndu eiginleka og oft fleiri þátta. Þannig benda þeir á að fituhalafé hafi myndast sem aðlögun að erfiðu umhverfi og tímabundnum fóðurskorti. Þeir benda á að mjódindilsfé hafi síðar þótt hagfelldara með tilliti til fjölmargra þátta eins og hreyfingar, æxlunar og fóðurnýtingar m.a.

Horn voru áður vopn gegn rándýrum og skiptu máli í baráttu hrútanna um ærnar á fengtíma en nú þyki það kollótta hagkvæmara til að losna við hornnám til að forða öðru fé og hirðinum frá slysum.

Litir geta haft áhrif á aðlögun að umhverfi og sem vörn gegn sníkjudýrum. Gildi hvíta litarins hjá fjölmörgum ullarframleiðslukynjum blasir einnig við. Telja þeir síðan fjölda gena fyrir þessa eiginleika sem hafa verið greind. Runur af heitum slíkra gena verða ekki þuldar hér en áhugasömum sem vilja læra slík erlend nöfn vísað til greinarinnar sjálfrar sem finna má í fyrsta hluta greinaflokksins.

Þeir ljúka innganginum með að segja að þeir vænti þess að uppgötvun nýrra gena sem ráða svipfari útlitseiginleika sauðfjár muni styrkja ræktunaráætlanir og erfðabundnar aðgerðir til hraðari framfara í framleiðslu og velferð sauðfjárkynja í heiminum.

Blessaður dindillinn

Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar höfundar byrja að fjalla um erfða- og svipfarsform mismunandi eiginleika heldur ráðist á sjálfan dindilinn. Vafalítið er það að hluta til vegna þess að sumir höfundanna munu heimsþekktir vísindamenn í þessum göfuga líkamshluta sauðfjár.

Ég ætla að leyfa mér að fara mjög léttilega yfir þessi vísindi og losa lesendur undan nafnaþulum um tugi gena sem ráða vexti og mismunandi þroska þessa líffæris.

Höfundarnir segja að þau gen sem mest áhrif hafi séu þau sem stjórna því hvort kindurnar séu með fituhala eða mjódindilsfé. Þá séu gen sem ráða lengd dindilsins þýðingarmikil en það stjórnist bæði af fjölda rófuliða auk lögunar og stærð liðanna. Til viðbótar séu áreiðanlega fjöldi áhrifaminni gena sem hafi áhrif á lögun dindilsins sem enn eru að meira og minna leyti óþekkt og órannsökuð.

Karakúlblendingar

Þó að íslenska féð sé í dag samstætt um dindil þá er reynsla frá fyrri hluta síðustu aldar af erlendum kynjum sem voru skrautlegri um dindillögun og dindilstærð og -lengd.

Þetta var fé af Border Leicester (BL) kyni, Svarthöfða- og Cheviotfé en allt eru þetta langrófukyn nema Karakúlféð (K) sem var fituhalafé. Af Svarhöfðum og Cheviot fékkst aðeins reynsla sem fyrsta kynslóð blendingsfjár. Af BLblendingunum og Kblendingunum fékkst miklu meiri reynsla. Kblendingana með einkenni sá ég aldrei sjálfur en hafði spurnir af þeim á tveim stöðum.

Brynjólfur Sæmundsson sagði mér af afkomendum hrútsins fræga sem Matthías í Kaldrananesi sökkti í Húnaflóa sem þjóðfrægt varð og taldi sig hafa bjargað Vestfjörðum frá mæðiveikinni með því. Brynjólfur sagði að afkomendur hrútsins hefði verið til norður í Kaldrananeshreppi fram yfir 1970 þegar því síðasta hafði verið eytt af þessu fé.

Hitt var fé í Öræfum sem þar er líklega enn til og miklu víðar vegna þess að bændur þar sem sögðu mér af þessu sögðu að allir hrútar sem stöðvarnar sóttu þangað í sveit um aldamótin væru afkomendur kinda sem þeir mundu eftir að sýndu einkenni þessarar blöndunar. Því miður nær ættrakning mín á nokkrum bæjum í Öræfum aðeins aftur til um 1940, vantar um hálfan áratug til að fanga Karakúlhrútinn sem góðu heilli olli engum skaða. Bændur í Öræfum voru sennilega þeir einu sem sóttu um undanþágu frá lögum til að setja á blendingsgimbrar. Lögin um innflutning Karakúlfjárins bönnuðu slíkan ásetning blendingslamba nema með undanþágu sem mátti veita til þess samkvæmt þeim. Öræfingar hafa alltaf verið gætnir og löghlýðnir.

Heimildarmönnum mínum á þessum tveim stöðum bar alveg saman um það að síðustu einkenni gripa af þessari blöndun hefði mátt sjá hjá fé fæddu um 1960.

Ekki spurði ég hver þessi einkenni hefðu verið, gekk út frá því að það hefðu verið einhverjar leifar af fituhalanum fræga.

Border Leicester blendingar

Mesta reynslan fékkst af BL- blendingunum. Þegar fjárskiptin um miðja síðustu öld voru afstaðin þá voru leifar frá blöndun þess að finna á þrem stöðum á landinu. Hvað flest mun þetta fé og gleggst einkenni sem tilkomið var frá sæðingum sem Hjörtur Eldjárn stóð fyrir þegar fjárskipti misgengust austan og vestan Eyjafjarðar. Þá fann hann tvo afgamla BLhrúta í Svarfaðardal og flutti úr þeim sæði austur yfir fjörðinn í nýkomið fjárskiptafé í Grýtubakkahreppi, Svalbarðsströnd og hluta Öngulsstaðahrepps. Þessu blendingsfé var viðhaldið þarna á nokkrum búum.

Halldór Pálsson varaði bændur strax við að þetta fé muni hratt úrættast væri farið að framrækta blendingana skipulagslaust og fækkaði þessu fé hratt af þeim sökum vegna þess að flestir sem áttu þessa gripi leiddust út í slíka ræktun. Aðallega á tveim búum á Svalbarðsströnd, Brautarhóli og Sigluvík var þessu fé viðhaldið með skyldleikarækt þar sem áhersla var lögð á viðhald kyneinkenna.

Hjörðin í Sigluvík taldi á sjöunda áratugina nokkra tugi kinda og dreifðust hrútar frá henni aðeins innan varnarhólfsins þar sem nokkrir bændur vildu reyna slíka hrúta til sláturlambaframleiðslu eins og féð var í upphafi flutt inn til. Virðist sem fé af þessari æð hafi nú verið með öllu eytt líklega mest sökum fjárfækkunar á þessu svæði.

Önnur æð kom út af hreinkynja hrúti í Holti í Þistilfirði sem var notaður til sláturlambaframleiðslu en bændur í Holti seldu sveitungum sínum hálfblendingshrúta. Þegar Keldhverfingar keyptu fjárskiptafé haustið 1944 í Þistilfirði seldu Holtsbændur og sumir sveitungar þeirra talsvert af BLblendingum. Þetta fé varð þekktast á búum í Austurgarðahverfinu. Þaðan dreifðist þetta fé sem fjárskiptagimbrar í sveitir eins og Svarfaðardal og Gnúpverjahrepp. Þar úrkynjaðist þetta fé og hvarf fljótt.

Ég minnist þessara kollóttu stóru kinda með langan dindil sem komu ein eða tvær á marga bæi í Svarfaðardal. Þessar ær skiluðu oft vænum lömbum sem sælst var til að setja á en reyndist alveg vonlaust fé til framræktunar. Það sem ég hins vegar þekki að enn lifir af blöndun frá Skota í Holti er út af Grákolli í Laufási sem var BLblendingur.

Um og upp úr 1960 dreifðust margir gráir hrútar undan honum um flestar sveitir milli Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum. Af þessum meiði var eini hrútur á sæðingastöð sem ég tel mig geta rakið með fullri vissu ættir til BLfjár, Lagður 07-847. Þriðja æðin barst með BLhrútum að fjárbúinu á Rangá og dreifðust hrútar þaðan víða austanlands fyrir miðja síðustu öld. Pétur Jónsson á Egilsstöðum mun hafa skyldleikaræktað lengi og viðhaldið þannig manna lengst BLeinkennum í sínu fé. Hrútar frá honum dreifðust einkum í sveitum sunnan til austanlands. Þessa blöndun má enn finna þar á svæðinu.

Fimm ólíkar dindilgerðir séðar frá hlið. Mjó langrófa, stuttrófa, Langur fituhali, stuttur fitudindill og fiturass.

Hvernig héldust dindilseinkennin í íslenska fénu?

Þá er komið að dindillengdareinkennum BLblendinganna. Lentu þeir í óskipulegri framræktun hurfu þessi einkenni nánast alveg eftir fimm til sjö kynslóðir. Í hjörðum þar sem kyneinkennum var viðhaldið með skyldleikarækt hélst lengri dindill miklu lengur og sennilega lengst í fé ættuðu úr eða í hjörð Péturs á Egilsstöðum.

Í næsta hluta mun ég snúa mér að umfjöllun höfunda yfirlitsgreinarinnar þar sem þeir fara að fjalla um erfðir horna hjá sauðfé.

Skylt efni: Sauðfé

Velferð hrossa - seinni grein
Lesendarýni 28. mars 2023

Velferð hrossa - seinni grein

Í þessari grein verða tvö atriði skoðuð nánar sem tæpt var á í grein í þarsíðast...

Þess vegna eigum við að standa vörð um íslenska sauðfjárrækt
Lesendarýni 28. mars 2023

Þess vegna eigum við að standa vörð um íslenska sauðfjárrækt

Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússa í Úkraínu hefur kallað á endurskoðun á...

Raunveruleg staða nautgriparæktar
Lesendarýni 27. mars 2023

Raunveruleg staða nautgriparæktar

Staða nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi er grafalvarleg svo ekki meira sé sagt...

Nýtt upphaf – matvælaframleiðsla á breiðari grunni
Lesendarýni 27. mars 2023

Nýtt upphaf – matvælaframleiðsla á breiðari grunni

Nýverið var kynnt skýrsla um eflingu kornræktar sem ber heitið „Bleikir akrar: a...

Skráning, ræktun, fræðsla, þjálfun og keppni
Lesendarýni 21. mars 2023

Skráning, ræktun, fræðsla, þjálfun og keppni

Smalahundafélag Íslands (SFÍ) er félag áhugamanna um ræktun, þjálfun og notkun B...

Litaerfðir hjá sauðfé
Lesendarýni 20. mars 2023

Litaerfðir hjá sauðfé

Hér höldum við áfram flakki okkar um yfirlitsgreinina Genetics of the phenotypic...

Áhættumat erfðablöndunar útskýrt
Lesendarýni 17. mars 2023

Áhættumat erfðablöndunar útskýrt

Valdimar Ingi Gunnarsson fer mikinn í Bændablaðinu þann 17. febrúar 2023 í gagnr...

Er sannleikurinn sagna bestur?
Lesendarýni 16. mars 2023

Er sannleikurinn sagna bestur?

Í grein sem Tryggvi Felixson ritaði í Bændablaðið 23. febrúar sl. undir fyrirsög...