Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Mikil er trú þín, Ragnar
Lesendarýni 22. febrúar 2024

Mikil er trú þín, Ragnar

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson, bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði.

Í Bændablaðinu þann 8. febrúar sl. birtist grein eftir Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði, sem bar heitið „Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt“.

Baldur Helgi Benjamínsson.

Vísar hann máli sínu til stuðnings til skýrslu eigin fyrirtækis frá 2016, sem Kaupfélag Skagfirðinga bað um og greiddi fyrir á sínum tíma. Þrátt fyrir nokkra leit á netinu hefur mér ekki tekist að hafa uppi á skýrslunni. Grein Ragnars snýst þó að mestu um aðfinnslur hans við ritstjórnargrein og vandaða og ítarlega fréttaskýringu Guðrúnar Huldu Pálsdóttur, ritstjóra Bændablaðsins, sem birt var í blaðinu þann 25. janúar sl. Nú er það rétt sem Ragnar heldur fram að kvótakerfi geta stuðlað að hagræðingu, í það minnsta ef allir sitja við sama borð varðandi fjármögnun kvótakaupa. Sú er þó víðs fjarri því að vera raunin, eins og sýnt hefur verið fram á hér á síðum blaðsins undanfarið.

Hver er staðan nú?

Ekki þarf að fjölyrða um stöðu nautgriparæktarinnar undanfarin misseri, svo ítarlega sem um hana hefur verið fjallað.

Bændasamtökin telja að á liðnu ári hafa greinina vantað um fjóra milljarða króna til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins metur það svo að kúabændur borgi að jafnaði um 18 krónur með hverjum framleiddum lítra.

Miðað við greiðslumark síðasta árs, 149,5 milljónir lítra, er tapið rúmir 2,7 milljarðar króna. Þá kom fram í skýrslu sk. ráðuneytisstjóranefndar um fjárhagsvanda landbúnaðarins frá því í nóvember sl. að launagreiðslugeta kúabænda hefði staðið í stað að nafnvirði frá 2016, á sama tíma og laun almennt hafa hækkað um nærri 50% og kaupmáttur almennings aukist gríðarlega.

Það má því ljóst vera að markmið búvörulaga um að „kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta“, eins og segir í d. lið 1. gr. laganna, hefur ekki gengið eftir á undanförnum árum. Þetta er raunveruleikinn eins og hann blasir við núna og því eðlilegt að spurt sé hvort kerfið sé jafn hagfellt og Ragnar vill vera láta.

Fjármagnsfrekt kerfi

Í veruleika dagsins í dag hefur takmarkaða þýðingu að velta fyrir sér stöðu bænda sem fengu greiðslumarkinu úthlutað fyrir mörgum áratugum (þetta byrjaði með búmarkinu 1979, sem byggði á framleiðslu áranna 1976–1978), þeir eru nær allir hættir búskap, margir látnir og ég hygg að fingur beggja handa dugi vel í að telja þann fjölda sem annað tveggja á ekki við um.

Til að átta sig á því um hvað málið snýst í raun og veru er best að taka dæmi úr raunveruleikanum. Allt frá því ég lauk námi fyrir rúmum 20 árum hef ég unnið ýmis gefandi störf í þágu nautgriparæktarinnar. Síðustu 5 ár hef ég staðið í búrekstri sem ég kaupi og byggi upp í áföngum. Ég á ekki greiðslumarkið á jörðinni og er það á árinu 2024 alls 317.738 lítrar.

Nú er það svo að fjárhagslegur bakhjarl Ragnars Árnasonar í hagrannsóknum hans á greiðslumarkskerfinu, Kaupfélag Skagfirðinga, hefur einnig látið til sín taka á markaði með greiðslumark, m.a. með því að bjóða útvöldum bændum óverðtryggð og vaxtalaus lán til að kaupa greiðslumark. Hefur þetta orðið til að halda verðinu langt ofan þess sem forsendur eru fyrir. Verðtryggð og vaxtareiknuð kvótalán félagsins eru líka veruleg. Niðurstaðan af þessu brölti öllu er sú að verð á greiðslumarki er í dag 300 kr/ltr., sem er auðvitað ekkert í neinu samræmi við afkomuna í greininni.

Greiðslumark búsins míns samkvæmt þessum æfingum KS er því virði 95.321.400 kr. Ef ég færi nú og fjármagnaði þessa upphæð með lántöku í mínum viðskiptabanka, sem býður mér 12,55% óverðtryggða vexti til 25 ára (við lok lánstíma verð ég 75 ára gamall, ef guð lofar, eins og Ragnar Árnason er núna) með jöfnum afborgunum eins og algengast er, þá borga ég um eina milljón kr. á mánuði í vexti næstu misserin og árin.

Það lætur nærri að vera 20% af öllum tekjum búsins í hverjum mánuði og nærri því jafnhá upphæð og það greiðir í laun mánuð hvern. Það er því ljóst að ég mun ekki gera mikið annað á meðan en að borga þetta kvótalán, en eins og víða er fyrirliggjandi veruleg endurnýjunarþörf á framleiðsluaðstöðu. Ef ég verð ekki gjaldþrota í millitíðinni; vextir eru vissulega mjög háir núna en sagan kennir okkur að þeir geta orðið enn hærri á næsta aldarfjórðungi, munu svo framtíðar forsvarsmenn KS væntanlega standa við endann á þessum 25 ára svipugöngum með ígildi 95 milljónanna handa mér, til að afhenda kaleikinn til næstu kynslóðar.

Með þessum hætti nær félagið því markmiði sínu að tryggja sér eilífðaráskrift að opinberu stuðningsfé, eins og bent var á í ritstjórnargreininni 25. janúar. Það má vel vera að einhver hafi trú á þessari framtíðarsýn Ragnars og hans fjárhagslegu bakhjarla, en fyrir mér er hún fjarstæðukennt rugl sem ekki er á vetur setjandi og hefði átt að leggja af fyrir nærri áratug þegar gott tækifæri gafst.

Kerfi á endastöð

Bændablaðið 25. janúar 2024 sagði mikla sögu um stöðu nautgriparæktarinnar. Fyrir utan áðurnefnda fréttaskýringu um greiðslumarksviðskipti, fjallaði formaður Bændasamtakanna um niðurstöðu í endurskoðun búvörusamninga, þar sem niðurstaðan var sú að engir nýir fjármunir fást inn í samningana, þrátt fyrir að þörfin sé himinhrópandi.

Formaður kúabænda lætur hafa eftir sér á sama stað að tilfærsla á milli liða í samningunum myndi raska forsendum í tekjuflæði einstakra búa. Með öðrum orðum: landbúnaðurinn þarf meiri fjármuni, sem fást að mínu mati ekki vegna þess að geta og vilji greinarinnar til breytinga er enginn. Úr þeirri stöðu þarf hún að komast; kerfi sem svona er ástatt um er komið á endastöð.

Mikil uppsöfnuð fjárfestingaþörf

Pistill Guðmundar Jóhannessonar og Sigurðar Kristjánssonar, ráðgjafa hjá RML, um niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar 2023, var líka upplýsandi en þar segir m.a.:

„Víða er mikil fjárfestingarþörf í framleiðsluaðstöðu fyrir hendi sem færir manni heim sanninn um að einhverra sveita bíður ekki betri tíð með blóm í haga. Innan skamms kemur að því að þau fjós sem byggð voru um og upp úr aldamótunum síðustu þarfnast endurnýjunar til viðbótar við enn eldri aðstöðu sem er löngu úr sér gengin. Við þetta bætast svo auknar kröfur um aðbúnað og vinnuaðstöðu auk þess sem básafjós verða ólögleg frá og með 1. janúar 2034.“ Básafjósin verða reyndar ólögleg frá 1. janúar 2035, en það er bitamunur en ekki fjár í þessu samhengi.

Þetta er rifjað upp vegna þess að í kynningunni á skýrslunni sem Ragnar vitnar til og fram fór á útmánuðum 2016, rakti hann að samhliða kaupum á greiðslumarki kynni að þurfa að ráðast í aðrar fjárfestingar í t.d. framleiðsluaðstöðu. Var upphæðin 20 milljónir kr. nefnd í því samhengi. Man ég vel að sessunautar mínir á þessum fundi glottu út í annað yfir þessari tölu, sennilega gerði ég það líka. Enda hafi hún á þeim tíma verið fjarri raunveruleikanum, þá hefur hún nú yfirgefið hann með öllu.

Þeir bændur sem þurfa á komandi misserum að endurnýja framleiðsluaðstöðuna standa frammi fyrir fjárfestingu sem nemur að öllum líkindum tífaldri þessari tölu, að lágmarki. Mér er minnisstæð heimsókn í nýbyggt og glæsilegt fjós í Skagafirði á liðnu ári, þar sem einstaklega vel er haldið utan um alla hluti í búrekstrinum. Þar nam heildarkostnaðurinn við fjósbygginguna 213 milljónum kr. Það er í slíka hluti sem stuðningsgreiðslunum er ætlað að renna, ekki í lífeyrissjóð fyrrverandi bænda eða ávöxtun á sjóðum samvinnufélaga í blönduðum rekstri.

Listin að þegja

Undanfarin ár hefur það verið upplifun mín af Kaupfélagi Skagfirðinga, að þegar gagnrýni er beint að félaginu og starfsháttum þess, hefur stefna þess yfirleitt verið sú að svara litlu sem engu, þegja bara og bíða eftir að málið líði hjá. Ég hygg að sú aðferðafræði hefði verið betri en að etja prófessor emeritus Ragnari Árnasyni út á ritvöllinn til að svara umfjöllun og hugleiðingum Bændablaðsins um starfshætti þess þann 25. janúar sl.

Það væri líka mjög áhugaverð rannsókn fyrir þá sem kanna hin ýmsu svið mannlegs eðlis, að skoða hvers vegna forsvarsmenn KS berjast af öllu sínu afli fyrir áframhaldi kerfisins, helst til eilífðar, á sama tíma og þeir grafa af fullum krafti undan því með hinni stórkostlega óeðlilegu fyrirgreiðslu til greiðslumarkskaupa sem áður er nefnd.

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi stuðningskerfi er komið á þann stað að ekki er undir nokkrum kringumstæðum hægt að framlengja lífdaga þess þegar þar að kemur, 1. janúar 2027. Tölur um afkomu kúabænda sýna svart á hvítu hvernig sú vegferð hefur gengið með núverandi kerfi. Fráleitt er að hafna þeim tölum eða ætlast til þess að kúabændur sæki huggun í fræðilegar vangaveltur um að allt fari vel að lokum og ábatinn skili sér til lengri tíma. Kollegi Ragnars, John Maynard Ke ynes, sagði um slíkar vangaveltur: til lengri tíma litið erum við öll dauð;
(e. The long run is a misleading guide to current affairs. In the long run, we are all dead.)

Ríkið þarf að kaupa greiðslumarkskerfið af bændum fyrir tiltekna fjárhæð þannig að viðskipti með það heyri sögunni til. Stuðningskerfi framtíðar samanstandi í meginatriðum af óframseljanlegum stuðningsgreiðslum út á framleiðslu afurða, fjárfestingarstuðningi (sem þarf að auka verulega), jarðræktarstuðningi og framleiðslujafnvægi. Með því móti mætti ná markmiðum búvörulaganna og stuðla betur að eðlilegri afkomu fyrir þá mikilvægu vinnu að yrkja landið og skapa þannig fæðu fyrir land og lýð.

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...