Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Hefðarheiti hins sjálfstæða manns
Af vettvangi Bændasamtakana 25. janúar 2024

Hefðarheiti hins sjálfstæða manns

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Að aflokinni endurskoðun búvörusamninga sem fram fór á árinu 2023 eru það vonbrigði að ekki var vilji af hálfu samninganefndar ríkisins til að auka fjármuni við endurskoðunina.

Gunnar Þorgeirsson

Það kom fram strax á fyrsta fundi með samninganefnd ríkisins á vordögum síðasta árs. Það kom okkur reyndar ekki á óvart þar sem engar viðbætur fyrir árið 2024 var að finna í frumvarpi um fjárlög. Einnig blasti við að í fjármálaáætlun 2024 til 2028 var ekki að finna aukna fjármuni til landbúnaðarins. Bændasamtökin vöktu athygli á þessu á fundum með atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd strax á vordögum en undirtektirnar voru með dræmara móti.

Ekki má þó gera lítið úr þeim viðbótarframlögum
sem komu frá stjórnvöldum í desember og sem grundvölluðust á niðurstöðu ráðuneytisstjóra hópsins. Í sannleika sagt getum við ekki gert lítið úr þeim nærri 5,2 milljörðum króna sem stjórnvöld hafa komið til móts við okkur á síðastliðnum tveimur árum. Það er mikið afrek. Það má þó ekki líta fram hjá því og sitja með hendur í skauti með þá staðreynd að bændur landsins standa frammi fyrir miklum áskorunum og þær áskoranir hafa nú verið viðurkenndar. Það verður einnig að halda áfram að vekja athygli á þeim fjölmörgu atriðum sem má finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem varða atvinnugreinina í heild sinni og enn hefur ekki verið snert á. Eða ber að líta svo á að það séu svikin kosningaloforð?

Í grein sem skrifuð var af Gísla Sveinssyni alþingismanni og birtist í málgagni framleiðenda til lands og sjávar; Bóndanum, árið 1944, var tæpt á þeim veruleika sem bændur stóðu þá frammi fyrir. „Bóndi“ hafði verið hefðarheiti hins sjálfstæða manns en væri, líkt og nú, orðið ein af þeim stéttum sem nauðsyn þykir að aðgreina í okkar örsamfélagi. Hvort sem það er gert til þess að ala á sundrung hinna fjölbreyttu atvinnuhátta innan greinarinnar eða gagnvart öðrum stéttum. Ég er verulega hugsi yfir viðhorfum þar sem reynt er að ala á sundrung bænda, hvort sem er fyrir tilstuðlan utanaðkomandi áhrifa eða innan úr greininni sjálfri. Allt er þetta gert svo aðrir geti fleytt sér til áhrifa. Sameinuð erum við sterkari.

Staðreyndin er nefnilega sú að sameinuð Bændasamtök, þar sem allir bændur, óháð búgrein, eru félagsmenn, er eitt jákvæðasta framfaraskref sem orðið hefur á félagskerfi bænda og í hagsmunagæslu þeirra síðustu áratuga. Að samtökunum standa hátt í 2.500 félagsmenn, með 20 manna starfslið, þar af 6 manna ritstjórn Bændablaðsins, mest lesna blaðs landsins samkvæmt nýútkominni prentmiðlakönnun Gallup. Í hagsmunagæslunni, þurfa samtökin að vera bæði til sóknar og varnar. Samtökin þurfa einnig að stuðla að góðum samskiptum við ráðamenn, stjórnvöld og eftirlitsstofnanir, vera trúverðug og fagleg. Það var því ákveðin viðurkenning á þeim gögnum og greiningum sem unnin voru af starfsfólki samtakanna, að ráðuneytisstjórahópurinn tók undir og viðurkenndiþannvandasemgreininstendurframmifyrir. Enþaðernokkuð ljóst að mikið verk er fyrir höndum. Kerfið, fjármagnið og samningarnir eins og þeir gilda nú út árið 2026 er ekki að virka. Það á enginn frumframleiðandi að þurfa að greiða með sinni framleiðslu. Bændum ber skylda til þess að framleiða á innanlandsmarkað í þágu neytenda og stjórnvöldum ber skylda til að tryggja eðlilega afkomu bænda og starfsskilyrði greinarinnar.

Það er því vilji okkar að hefja nú þegar undirbúning að gerð nýrra samninga sem taka við núverandi samningi, en hann tæki þá gildi eigi síðar en 1. janúar 2027. Á næstu misserum er nauðsynlegt að bændur taki samtalið um hvernig við getum gert samning sem tekur á þeim vanda sem blasir við. Við þurfum að bera okkur saman við nágrannaþjóðir okkar og draga fram það besta. Það er engin lausn í því að líta eingöngu til Noregs, þar sem sú staða er uppi núna að umtalsverður skortur er á mjólk og eggjum. Þar í landi eru menn verulega hugsi hvað veldur og hvernig verður brugðist við. Hið fullkomna kerfi virðist því vera vandfundið.

Mikilvægt er á þessum tímapunkti að við komum til skila til hins almenna neytanda hvernig landbúnaðarafurðir verða til í hinni víðustu mynd. Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því að það tekur næstum 3 ár að ala upp naut og þar til steikin ratar á borð neytandans. Hvert er framleiðsluferli á eggi? Hvernig verða blómin til í íslensku umhverfi? Hvað þarf til svo tryggja megi páskalærið á borðum landsmanna? Framleiðsluferlarnir, ásamt þeim kostnaði og umfangi frumframleiðslu sem fylgir, þarf að upplýsa um og að bændur þessa lands eru reiðubúnir að leggja allt í sölurnar svo tryggja megi neytendum gæðavörur og samfélaginu fæðuöryggi.

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...