Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hollusta matvæla ræðst af heilbrigði jarðvegsins sem þau spretta úr
Lesendarýni 19. maí 2016

Hollusta matvæla ræðst af heilbrigði jarðvegsins sem þau spretta úr

Höfundur: Sandra B. Jónsdóttir
Jarðvegur er talinn búa yfir fjölbreyttara lífi en önnur vistkerfi heimsins, en þó er talið að aðeins 1% örvera sem þrífast við rótarsvæði plantna sé þekkt. Haft er eftir örverufræðingi að „við vitum meira um stjörnur himinsins en jarðveginn undir fótum okkar“. 
 
Þótt svo kunni að vera vitum við engu að síður að verndun örveruflórunnar ræður úrslitum um heilbrigði jarðvegsins. Líkja má jarðvegi við maga eða meltingarkerfi plöntunnar. Plöntur reiða sig á jarðvegsörverur sem brjóta niður næringarefni og veita þeim til plantna um rótarkerfin. Með líkum hætti byggjum við meltingu okkar á fjölbreyttu lífkerfi meltingarfæranna sem brýtur fæðuna svo líkaminn nái að taka til sín næringu. Heilbrigði þarmaflóru okkar er háð heilbrigði jarðvegsins sem fæða okkar sprettur úr.
Framtíð landbúnaðar er háð aukinni þekkingu okkar á þessum tengslum og mun því beinast að ræktunarkerfum sem leggja áherslu á frjósemi jarðvegsins, nokkuð sem lífrænn landbúnaður gerir í ríkum mæli. Lífrænar aðferðir byggja á sáðskiptum og notkun náttúrulegs áburðar og jurtaleifa til þess að auka magn lífrænna efna í jarðvegi. Slíkur jarðvegur hindrar eyðingu, eykur vatnsheldni, eykur kolefnisforða, og stuðlar að fjölbreyttri örveruflóru í þágu heilbrigðis plantna, dýra og manna.
 
Vaxandi ósjálfbærni hefðbundins landbúnaðar
 
Fjöldi vísinda og landbúnaðarsamfélaga í hinum þróaðri löndum viðurkenna það tjón sem eiturefni geta valdið á jarðvegi, nytjaplöntum og matvælum, en samt eykst eiturefnanotkun í nútíma fæðuframleiðslu. Einkum er það áberandi í Bandaríkjunum þar sem erfðabreyttar plöntur (sem eru sérhannaðar til ræktunar með eiturefnum) eru ræktaðar í stórum stíl. Dr Charles Benbrook birti á þessu ári rannsókn sem sýndi að notkun illgresiseyðisins glýfosats hefur fimmtán-faldast frá því að erfðabreyttar plöntur voru innleiddar árið 1996. Ofnotkun á glýfosati hefur stuðlað að ónæmi illgresis fyrir því, leitt af sér ofurillgresi sem nú plagar 29 ríki Bandaríkjanna. Bændur reyndu að hafa hemil á því með meiri glýfosatnotkun en urðu að lokum að það í bland við önnur og eitraðri varnarefni, t.d. 2,4-D eða dicamba. Glýfosat er orðið svo útbreytt í umhverfinu að vísindamenn eru að finna það í lofti, í vatni og jarðvegi, svo og í brjóstamjólk kvenna, þvagi og blóði (m.a. í blóði þungaðra kvenna og fóstra sem þær bera). Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) áformar nú að vakta matvæli með sýnatökum til að greina leifar af glýfosati, í kjölfar þess að krabbameinsdeild Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (IARC) lýsti því yfir að glýfosat væri líklega krabbameinsvaldur.
 
Bt-varnarefnið er annað eiturefni sem veldur vaxandi vandræðum. Ef það er notað í sínu náttúrulega formi og úðað á hefðbundnar plöntur er það óvirkt þar til skordýr innbyrða það. Bt-eitur sem splæst er í erfðabreyttar plöntur er hinsvegar til staðar í plöntum í mun meira mæli en það sem úðað er á plöntur, enda beinlínis stöðugt framleitt af plöntunni og skordýr fá það stöðugt í háum skömmtum. Þetta hefur stuðlað að ónæmi skordýra fyrir Bt á 3–5 árum og leitt af sér ofurskordýr. Þar sem Bt-plöntum mistekst að hafa hemil á skordýrum hafa bændur tekið að nota skaðleg eiturefni sem beitt er í jarðveg, t.d. lífæn fosföt eða pýrethoid. Fræfyrirtæki hafa einnig brugðist við með því að húða fræ með neonikótínum. En það eru mjög kröftug eiturefni sem virka á taugakerfi, og eru talin orsök dauða í froskum, fuglum, frjóberum (býflugum) og hjálplegum jarðvegsörverum. Líftækniiðnaðurinn fullyrti að Bt-plöntur væru öruggar til neyslu því Bt-leifar í matvælum væru spendýrum skaðlausar. En ritrýndar rannsóknir hafa sýnt að Bt-eitur skaðar frumur í mönnum og margar tilraunir sýna að það getur valdið tjóni á lifur, nýrum, milta, brisi og æxlunarfærum í karlkyns rottum og músum.
 
Stjórnvöld viðurkenna áhættuþætti í eiturefnum
 
Þótt eftirlitsaðilar austan hafs og vestan hafi sett ´öryggismörk´ fyrir leifar einstakra eiturefna í matvælum hafa engin slík mörk verið sett blöndu (kokteil) eiturefna. Þar á ofan eru eiturefni leyfð á grundvelli ´öryggismarka´  fyrir hið virka efni í þeim – ekki efnaformúluna í heild sinni. Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA) viðurkennir nú að 50% af aukefnum í eiturefnum séu talsvert áhættusöm og að blöndun þeirra við hin virku efni afurðanna geti leitt af sér gríðarlega eitraða blöndu. Framkvæmdastjórn ESB hefur einnig viðurkennt að hætta stafi af uppsöfnunaráhrifum eiturefna og eru vísbendingar um að hún muni í náinni framtíð hefja vöktun á eitrunaráhrifum hverrar eiturefnavöru í heild sinni. 
 
Lífræna leiðin
 
Lífrænn landbúnaður viðurkennir að fátt skiptir meira máli fyrir heilnæmi og öryggi matvæla en jarðvegurinn sem þau spretta úr. Reglur um lífræna framleiðslu miða að því að efla frjósemi jarðvegs, m.a. með því að banna notkun erfðabreyttra lífvera sem valda genamengun jarðvegsörvera. Lífrænar aðferðir hindra eyðingu jarðvegs m.a. með banni við notkun tilbúins áburðar, eiturefna, sýklalyfja og vaxtarhormóna. Örfá náttúruleg eiturefni má nota í lífrænni ræktun en eingöngu í neyðartilvikum og með sérstakri undanþágu sem vottunaraðili veitir. Uppbygging og viðhald vistkerfis jarðvegsins er grundvöllur sjálfbærs landbúnaðar – grunnlögmál sem lífrænar aðferðir byggja á, en hefðbundinn og erfðabreyttur landbúnaður gera í vaxndi mæli ekki. Tvær nýjar rannsóknir, sem kynntar eru í römmum með þessari grein, eru enn ein staðfesting þess að lífrænar aðferðir geta í senn brauðfætt heiminn og tryggt sjálfbæra framtíð landbúnað í heiminum.
 
Rannsókn sem birt var 2016 sýndi að lífrænar mjólkurvörur innihalda 50% meira af Omega-3 fitusýrum og 40% meira af CLA-fitusýru og að þær hafa hærri gildi af járni, E-vítamíni og nokkrum karótínum í samanburði við hefðbundnar mjólkurvörur. Hún sýndi einnig að lífrænt kjöt inniheldur 50% meira af Omega-3 og hefur lægri gildi af tveimur mettuðum fitusýrum sem taldar eru tengjast hjartasjúkdómum. 
  1. Carlo Leifert et al. Higher PUFA and omega-3 PUFA, CLA, a-tocopherol and iron, but lower iodine and selenium concentrations in organic bovine milk: A systematic literature review and meta- and redundancy analysis. British Journal of Nutrition, February 2016.
  2. Carlo Leifert et al. Composition differences between organic and conventional meat; a systematic literature review and meta-analysis. British Journal of Nutrition, February 2016
Bandarísk rannsókn, sem tveir landbúnaðarhagfræðingar við Washington State University birtu í febrúar 2016, sýndi að lífrænar aðferðir skila efnahagslegum og  umhverfislegum ávinningi og framleiðniaukningu. Í þurrkatíð getur lífræn uppskera reynst meiri en hefðbundin, en við venjuleg skilyrði er hún oft litlu minni eða jafnvel ekki nema 8%. Bændur í lífrænni ræktun fá 32% hærra verð fyrir vöruna; sala lífrænna afurða í heiminum hefur 5-faldast á 15 árum (1999-2013) og spáð er að hún tvöfaldist fram til 2018. Lífrænn jarðvegur bindur meira kolefni. Lífrænar aðferðir viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika, nota minni orku og koma í veg fyrir efnamengun. 
  1. John P. Reganold and Jonahan M. Watchter, Organic Agriculture in the 21st Century, Nature Plants 2, February 2016
 
Sandra B. Jónsdóttir
sjálfstæður ráðgjafi.
 
Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...