Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Dragör nýsmíðuð árið 1917, fjögurra mastra dönsk stálskúta með dísilvél.
Dragör nýsmíðuð árið 1917, fjögurra mastra dönsk stálskúta með dísilvél.
Mynd / Aðsend, höf. óþekktur
Lesendarýni 12. júní 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn

Höfundur: Páll Imsland, jarðfræðingur

Í Bændablaðinu miðvikudaginn 24.4. 2024 er viðtal við Jón Kristinsson umhverfisarkitekt um frumkvöðlastörf hans. Þar er tekið eitt dæmi sem verður mér ástæða til skrifa.

Þar er vitnað í hugmynd hans og Jónasar Elíassonar, fyrrum prófessors í verkfræði við HÍ, um aðferð við að hreinsa Landeyjahöfn af sandi, aðferð sem þeir telja að halda muni höfninni opinni og nægjanlegu dýpi fram af hafnarkjaftinum fyrir siglingar.

Þau orð sem hér verða lögð í belg lúta að vandræðunum við Landeyjahöfn en líta málið frá annarri hlið en yfirleitt hefur verið gert. Hver er sú náttúrufarslega þróun sem þarna er í gangi og skiptir sköpum fyrir notagildi og framtíð hafnarinnar? Það er sú meginspurning sem yfirleitt er litið fram hjá og látið eins og komi málinu ekki við. En hún gerir það náttúrlega í hæsta máta og strandjarðfræðileg þekking liggur fyrir sem útskýrir málið. Hafnir eru ekki eingöngu háðar sjólagi.

Ég hef nokkrum sinnum áður rætt opinberlega og ritað um vandamálin við Landeyjahöfn og ýmist fengið lof eða skítkast fyrir. Ég tek það fram að gefnu tilefni að ég er ekki andvígur Landeyjahöfn sem slíkri eða samgöngum á milli lands og eyja. Ég er aðeins að reyna að lýsa þeim náttúruöflum sem þarna eru að verki og þeirri náttúrufarsþróun sem þarna er í gangi og hafa verður í huga þegar svona mannvirki eru hönnuð, byggð og haldið við.

Þekking á náttúrufarsþróun á staðnum er undirstaða þess að menn geti áttað sig á því hver vandamálin við Landeyjahöfn eru og hvernig hægt er að bregðast við þeim og ætla ég hér að reyna einu sinni enn að upplýsa þetta mál að nokkru.

Hingað til hefur ekki verið beitt á Landeyjahöfn neinni strandjarðfræðilegri þekkingu og þess vegna hefur þar farið eins og farið hefur. Sneitt hefur verið hjá þekkingu sem skiptir máli við hönnun mannvirkisins og skiptir sköpum fyrir möguleika mannvirkisins til að koma að gagni til lengri tíma.

Þess vegna hafa aftur og aftur skapast þau vandræði sem frá upphafi hafa verið tengd höfninni. Ég vík hér eingöngu að þeirri strandjarðfræðilegu þekkingu sem skiptir sköpum og kemur upp um það, hvaða langtíma náttúrufarsleg þróun er í gangi við Landeyjasand, þróun sem skiptir öllu máli fyrir framtíð hafnarinnar. Strandjarðfræðin gefur fleiri upplýsingar um eðli ástandsins við höfnina og þau ferli sem þar eru að verki en ég tek aðeins eitt atriði fyrir hér, það sem segir einfaldasta sögu og gefur skýrasta mynd af þróuninni á staðnum. Fyrirhugað er að birta aðra grein í næsta blaði um annað aðalatriði í þessu máli, atriði sem hefur sömu langtímaáhrif.

Skýringarteikning af öldusveigju.

Landeyjahöfn var valinn staður þar sem hún er vegna þess að þar er lægsta ölduhæðin að jafnaði við Landeyjasand, eðlileg ráðstöfun, ef ekki kæmi fleira til. Og hvers vegna er lægsta ölduhæðin einmitt þarna? Jú, það er vegna þess hvar Vestmannaeyjar sjálfar eru. Þær skapa skjól og innan þess er ölduhæðin lægri en utan skjólsins. En þessu skjóli fylgir fleira. Í skjólinu er samsöfnunarstaður sets sem er á hreyfingu við ströndina. Setið er ekki á leiðinni í gegnum skjólið heldur inn í það. Eyjarnar tefja fyrir öldunni og sveigja hana í boga umhverfis sig. Það veldur því að upp á strönd Landeyjasands, þar sem suðlægar áttir skipta mestu máli, fellur yfirleitt skástæð alda, úr suðvestri vestan megin en úr suðaustri austan megin. Skástæð alda veldur setflutningi meðfram ströndinni og því safnast efni í Landeyjatanga úr báðum áttum. Efnisflutningur þar er ekki með- fram ströndinni í aðra áttina heldur úr báðum áttum að svokölluðum Landeyjatanga þar sem hann skagar lengst fram í sjóinn, þar sem höfninni var valinn staður.

Landeyjatangi er í myndun og náttúran er að vinna að því að mynda granda á milli lands og eyja, þannig grandar eru vel þekktir og ótalmargir, víða um heiminn, þar sem eyjar hafa eitt sinn verið undan ströndum.

Tökum hér sem dæmi Fjörurnar, setgrandanna sem umlykja Hornafjörð, Austurfjörur og Suðurfjörur. Báðir eru þeir grandar myndaðir við setflutning og tengja klappareyjuna Hvanney og fastalandið, annars vegar austan frá Stokksnesi undan Vestrahorni og hins vegar vestan frá Skinney á Mýrum. Útfallsstraumurinn úr lóninu sem skapast á bak við Fjörurnar heldur Hornafjarðarósi opnum austan undir Hvanney.

Dragör á strandstað á Bakkafjöru árið 1920 en þaðan fór hún ekki aftur. Mynd / Markús Auðunsson

Hvort þessi grandamyndun við Landeyjatanga hins vegar nær nokkru sinni að tengja Vestmannaeyjar og fastalandið er allt annað mál. Staðreyndin sem máli skiptir er sú að þetta ferli er að verki.

Einfaldasta og kannski skýrasta sönnun þess er fólgin í restunum af Dragör, danskri fjórmastra stálskútu sem strandaði á Landeyjatanga fyrir rúmum 100 árum, hinn 12. des. 1920. Hún fór aldrei aftur á flot og enn má sjá restar hennar í formi ryðgaðra stálplatna í sandinum norður af Landeyjahöfn. Ég mældi vegalengdina frá restum flaksins fram í sjó árið 2013 og það reyndist vera 465 metrar stystu leið, en hún er í fjöruna við austurhornið á Landeyjahöfn. Þetta jafnar sig út með um 5 metra vexti Landeyjatanga fram í hafið á ári hverju.

Þessi vöxtur er þó misjafn frá ári til árs eftir veður- og sjólagi. En hann er algjörlega óháður framburði Markarfljóts hvort sem er dagsdaglegum flutningi eða flutningi í hlaupum úr jökli eða eftir eldgos. Það er óendanlegt magn af sandi á ströndinni beggja vegna tangans og slíkar smáviðbætur sem svona hlaup færa fram eru nánast áhrifalausar.

Hugmynd þeirra Jóns og Jónasar um að hleypa sandinum fram úr höfninni sjálfri með eins konar klósettkassaáhrifum í formi uppistöðulóns að hafnarbaki sem hleypa megi úr stríðum straumi á lágsjávuðu er vissulega líkleg til að skila árangri með því að skola sandi út úr höfninni. En hvert fer hann? Jú, þegar straumskvettan skilar sér út úr hafnarkjaftinum fellur þessi stríði straumur og sandurinn sest þar til botns.

Svipað er að gerast utan við Hornafjarðarós. Þar ber útfallið um ósinn, sem er heldur vatnsmeira en innfallið, set til hafs en það safnast fyrir á Grynnslunum því þar fellur straumurinn.

Það þarf eitthvað annað og meira til að bera sandinn úr Landeyjahöfn á brott frá innsiglingunni en að hleypa stríðum skammtímastraumi út í höfnina. Aðeins ef hægt er að koma sandinum út í útfallsstrauminn um hliðið í útrifinu fram af Landeyjatanga eru líkur á því að hann berist að einhverju leyti burt. Um útrif og hlið og fleiri tengd fyrirbæri í strandlandslagi og strandferlum verður fjallað í framhaldsgreininni. Sú viðleitni sem fólgin er í hugmynd þeirra félaga mun hins vegar ekki koma í veg fyrir að Landeyjatangi haldi áfram að myndast. Hún mun því ekki lengja líftíma hafnarinnar eða gera hana neitt að ráði nothæfari en hún er.

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...