Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ekki bara lífsstíll, en líka það
Mynd / Bbl
Lesendarýni 4. nóvember 2020

Ekki bara lífsstíll, en líka það

Höfundur: Steingrímur J. Sigfússon

Nokkurt fjaðrafok hefur orðið vegna þess að ráðherra landbúnaðarmála, Kristján Þór Júlíusson, missti það út úr sér á þingi að heyra mætti það í viðtölum eða á máli einhverra að það að stunda sauðfjárbúskap væri meira spurning um lífsstíl en afkomu. Alla vega efnislega eitthvað á þessa leið.

Séu slík ummæli sett í það neikvæða samhengi að þar með sé eðlilegt að sauðfjárbændur, eða bændur almennt, sætti sig við að búa við lakari lífskjör en aðrir er eðlilegt að slíkt veki uppnám. Fyrri fullyrðingin þarf ekki að vera röng né neikvæð þó tengingin við afkomu sé það.

Nú ætlar undirritaður ekki að reyna að lesa inn í hug ráherrans og hann svarar fyrir sig sjálfur. Er reyndar nokkuð viss um að hann er hafður fyrir rangri sök hvað það varðar að hann vilji ekki bændum vel. Ýmsir hafa haft á þessu miklar skoðanir og notað stór orð. Hefur það sinn gang. Það er ekki aðalatriði málsins. Heldur hitt; er eitthvað efnislegt og málefnalegt hér á ferð sem verðskuldar að viti bornar manneskjur í sæmilegu jafnvægi ræði það með rökum.

Lífsstíll og lífvænleg kjör

Mín sýn á þessa hluti er einföld og sótt í allnokkurn sjó reynslu og tengingar við samfélag bænda frá fyrstu meðvitundardögum. Það er vissulega lífsstíll, val sem betur fer í flestum tilvikum nú til dags, hvort þú yrkir óðal feðranna og mæðranna, eða kemur úr annarri átt og setur þig niður í sveit, og gerist bóndi.

það er ávísun á tiltekin lífsstíl, gerólíkt umhverfi borið saman við að kaupa sína fyrstu íbúð, t.d. á 3. hæð í blokk í Úlfarsárdal, finna sér vinnu og veðja allri sinni framtíð á þéttbýlið. En væntingarnar til lífsins eru væntanlega svipaðar hjá ungu fjölskyldunum tveimur, þeirri sem hefur búskap í sveit og hinnar sem flytur í blokkina. Það eru vonir um gott líf, afkomuöryggi, heilbrigt umhverfi fyrir börnin að alast upp í, að þau komi til með að eiga sín opnu tækifæri í lífinu til að gera það sem þau velja sér til handa.

En þarf að ræða um það, þarf að ætla einhverjum það, að við viljum ekki öll að þessar tvær fjölskyldur eigi sem jafnasta möguleika í lífinu? Hver býður sig fram?

Það breytir hins vegar ekki því að þær velja hvor sinn veg. Eiga þær ekki að geta gert það í fullri vissu þess að þær tilheyri sama samfélagi eftir sem áður? Þær verði hluti af mengi, hluti af samtaki manna, sem séu að róa í sömu átt?

Það sem undirrituðum líkar illa við upphlaup út af litlu sem engu af þessu tagi (hálfri klaufalegri setningu hjá Kristjáni Þór) er að það er vísasti vegur til að drepa niður alla vitræna umræðu um það sem máli skiptir.

Kjarni málsins 

Kjarni málsins er sá að ef við viljum að hér búi ein þjóð í einu landi, nær er að segja í nútímanum að hér sé eitt samfélag manna í einu landi, þá þurfa bæði lífskjör og aðstæður að vera það skyldar að ekki sé gjá í millum. Það er okkar stóra verkefni, að það að vera Íslendingur í skilningnum að búa á Íslandi, geri þig hluta af heild sem á saman. Sem finnur til sameiginlegrar ábyrgar og viðurkennir að okkur varðar hvert um annað. Hér má enn gera miklu betur þó margt hafi þokast í jöfnunarátt svo sem með ljósleiðaravæðingu, bættum vegasamgöngum, jöfnun flutningskostnaðar, nú niðurgreiðslum á flugförum o.s.frv.

Sauðfjárbændur eða bændur yfirleitt, sjómenn og stöðumælaverðir eru alveg eins settir að þessu leyti. Það er líka pólski járnsmiðurinn sem kom til Íslands fyrir 25 árum síðan og konan frá Taílandi sem er búin að skúra á Landspítalanum í 18 ár. Komum okkur inn í nútímann og fögnum fjölmenningarlegu og fjölbreyttu samfélagi á Íslandi sem á að taka utan um alla.

Vonandi leiðir nauðsynleg víðsýni til viðurkenningar á því að landbúnaðurinn og sveitirnar, búsetan þar, eru hluti af kjarnanum. Hluti af því sem er Ísland. Það er eitthvað um spámenn sem samkvæmt eigin orðum vilja bændum og sveitunum vel, en hafa samt allt á hornum sér þegar núverandi starfsumhverfi landbúnaðarins er til umræðu. Það er að sjálfsögðu ekki hafið yfir gagnrýni. En ég veit ekki samt hvort ég á að óska okkur þess að þær, þeir og þau sem níða núverandi fyrirkomulag, en elska samt landbúnaðinn að eigin sögn, verði reynd af gerðum  sínum. Ég spyr gagnrýnendur um tillögur til úrbóta á móti? 

Eins og ástandið hvað sauðfjárbúskapinn varðar kemur mér fyrir sjónir er það ekki endilega framleiðslustýring og ríkisstuðningur í formi beingreiðslna sem er frumorsök vandans, nema þá í þeim skilningi að stuðningurinn sé ekki nógu ríkulegur. Það er hins vegar afurðaverðið til sauðfjárbænda, það sem þeir fá fyrir framleiðslu sína gegnum markaðinn, sem er neðan við allt velsæmi. Verðhrunið sem hér varð fyrir 3-4 árum og sáralítið hefur gengið að hífa til baka, á tímum bullandi uppgangs í hagkerfinu og aukins kaupmáttar eins og var þá, hefur aldrei verið útskýrt þannig að ég sætti mig við. Stjórnvöld eru að sjálfsögðu ekki undanskilin ábyrgð og gætu vel gert betur, en þar augljóslega er eitthvað mjög mikið að þegar kemur að verðlagningu og virðiskeðju í sauðfjárbúskap. Og, til að það sé nú sagt, ég misskiljist ekki og verði bitinn á barkann eins og Kristján Þór, þá er afkoma sauðfjárbænda algerlega óforsvaranleg og stórhættulegt ef ekki verður þar veruleg breyting á til hins betra og það fljótt. 

Framtíðarlandið

Framtíðarlandið er hins vegar spennandi og verðskuldar miklu meira en ódýrt dægurþras. Ísland hefur kjöraðstæður til að verða matvælastóriðjuland, velmegunarland. Ef við glutrum ekki niður því sem fámenni og einangrun, áður böl og næstum útrýmingarorsök þessar þjóðar, hafa skilið eftir handa okkur svo sem stórbrotna náttúru, landrými og auðlindir, í höndum fámennrar þjóðar, þá eru okkur allir vegir færir. Eða hvar á hnettinum annars staðar telja menn betra að búa, hvar annars staðar vænlegra að velja framtíð fyrir börnin sín?

Og, það þarf ekki að taka það fram, það gildir ósagt, að bændur og búseta í sveitum landsins er hluti af hinni sjálfbæru framtíð. Landbúnaðurinn er mikilvægari nú en nokkru sinni um leið og við setjum á okkur loftslags- og sjálfbærnigleraugun.

Steingrímur J. Sigfússon

Höf. er forseti Alþingis og fyrrv. ráðherra landbúnaðarmála nokkrum sinnum.

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...