Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bótaþegarnir
Lesendarýni 10. mars 2016

Bótaþegarnir

Höfundur: Kári Þorgrímsson bóndi, Garði Mývatnssveit
Snemma árs 2009 dæmdi Samkeppnisstofnun Bændasamtök Íslands til greiðslu sektar, 10 milljónir króna, vegna ólöglegs verðsamráðs bænda. Tilefnið var að á búnaðarþingi 2008 höfðu menn skipst á þeim almæltu tíðindum að í hinum stóra heimi færi verð búvara hækkandi. 
 
Og  þá datt auðvitað einhverjum í hug að segja að kannski gæti það líka gerst á Íslandi.
 
Til grundvallar dómnum lá sú grundaða niðurstaða að bændur væru fyrirtæki – ekki menn sem mættu tala saman um hvað sem væri. Síst af öllu um peningamál sín og lífskjör!
 
Skyldu forystumenn bænda sjá svo til að þeir ættu ekki slíkt samtal framvegis. Þeir ættu að framleiða hver í kapp við annan og gera það þegjandi.
 
Forseti ASÍ viðrar sömu sjónarmið nú um stundir; hann segist í forundran yfir forsætisráðherranum sem líki saman kjarasamningagerð launafólks og  búvörusamningagerð.  
 
Honum virðist Sigmundur leggja að jöfnu fólk (launafólk) og vörur. 
 
Í huga  Gylfa eru bændur vara, ekki menn.
 
Og Gylfi er alls ekki einn um þessa skoðun.  Véfréttin í Brussel er alveg sama sinnis og  þá þarf maður ekki frekari vitna við, alla vega ekki ef maður er krati.
 
Þá …
 
Frumkvöðlar samevrópskrar jafnaðarhugsunar á tuttugustu öld voru líka býsna sleipir í að flokka hafra frá hismi í mannkynsflórunni. 
 
Evrópusinninn H. Himmler fór á fjórða áratug aldarinnar í rannsóknarferð til Póllands. Í skýrslu til foringja síns lét hann í ljós þá skoðun að ekki mætti ofbjóða genísku vinnueðli pólsku þjóðarinnar með of mikilli uppfræðslu. Það gæti komið sér vel að þeir kynnu að pára nafnið sitt, en þarflaust að þeir kynnu að lesa. Þeim hentaði best að vinna mikið og hugsa fátt. Reyndar væru þeir svo heimskir að þeir væru bara eiginlega ekki menn heldur Pólverjar. 
 
Þeim sem kenna sig við jafnaðarstefnu hefur lengi verið ljóst að  jöfnuðurinn verður að takmarkast við menn af viðurkenndri tegund.
 
Frá stríðslokum hafa íbúar Vestur-Evrópu notið þeirra lífsgæða að éta nokkurn veginn ókeypis.
 
Fyrst var það gert með því að niðurgreiða verð matvöru á vinnslu eða sölustigi samhliða mikilli tæknivæðingu í framleiðslu. Sú aðferð reyndist hafa slæmar aukaverkanir auk þess að kosta full marga skattpeninga. Öllu betur reyndist að greiða þessa fjármuni beint í búreksturinn, ekki síst þar sem vinnsluiðnaðurinn var á fjárhagslegri ábyrgð bænda í gegn um samvinnufélög.  Auk þess er nægjusemi talin til dyggða hjá þeirri stétt.
 
Hér á landi var þessi breyting gerð í upphafi tíunda áratugarins með því að taka upp „beinar greiðslur“  til bænda í stað niðurgreiðslna af ýmsu tagi á heildsölu eða vinnslustigi búvara.
 
Með þessu fyrirkomulagi eru bændur einir gerðir ábyrgir fyrir matvöruverðinu því kaupmaðurinn er yfirleitt ekki talinn með. Ástæðan er sú að það er bóndinn sem með þessu móti er kominn í stöðu bótaþegans, ekki kaupmaðurinn. 
 
Þvert á móti. Hann stundar þá göfugu skylmingalist sem kallast „frjáls samkeppni“ …
 
Og nú …
 
Að vera bótaþegi er að tilheyra lægstu stéttinni. Stéttaskipting snýst ekki endilega um kjör eða tekjur. Hún snýst öllu meir um sjálfræði, valkosti, frelsi til að velja og ráða eigin lífi og  til að verjast drottnunartilburðum hinna  hærri stétta. Um virðingu og sjálfsmat.
 
Stétt bótaþega samanstendur af öllum þeim skara fólks sem vegna heilsubrests, fötlunar, öldrunar eða samfélagslegra aðstæðna af ýmsum toga er stutt til framfærslu af samfélaginu.  
 
Nafnið segir reyndar allt sem segja þarf um hugarfarið sem að baki býr: BótaÞEGI.
Endurgjaldið er alltaf það sama: Frelsi. 
 
Bændur hafa  í þessari stétt nokkra sérstöðu. Þeir eru fullvinnandi menn og fullfrískir. Þeim hefur hins vegar verið bannað að lifa af vinnu sinni, bannað að mynda félög með sér í því skyni eða ræða slíka hluti.  Fyrir það fá þeir greiddar bætur. Allt of háar auðvitað!
 
Til að viðhalda bótaþörfinni er skattheimtu beitt af mikilli nákvæmni til að hirða upp allar hugsanlegar  tekjur af framleiðslunni sjálfri.  Öflugar ríkisstofnanir hafa risið, rjáfurfullar af sérfræðingum.
Þær geta pantað regluverk að vild úr ráðuneytunum og rukkað bændur að viðlögðum hörmungum fyrir eftirlit og leyfisveitingar og við að uppfylla  reglur og  kröfur sem eru hafnar yfir allan áskilnað um tilgang.  
 
En framvegis
 
Bændur góðir!
Við eigum ekki heima á þessum stað! Við eigum ekki að þurfa að sitja undir svigurmælum ofaldra dekurbarna  Evrókratismans sem telja okkur ekki til manna. Við eigum ekki að vera leikföng og féþúfa sérfræðingastofnana eins og  MAST.  Við eigum að lifa af starfi okkar og framleiðslu og ekki að þurfa á neinum bótum að halda.
 
Það er ekki okkar sök ef neytendur í Evrópu eru ekki borgunarmenn fyrir mat sínum.
 
Við eigum að vera ríkir á bestu landbúnaðarsvæðunum og sæmilega haldnir á þeim verstu. 
Til þess  að svo verði verðum við að ná samstöðu yfir álfuna eða ef því er að skipta yfir alla jarðarkringluna um að brjóta á bak aftur þau ólög  sem beitt er gegn okkur.
 
Bændasamtök í hverju landi eiga að hafa afl til að birta lágmarksverð búvara og njóta til þess stuðning starfsbræðra sinna annars staðar.
 
Við íslenskir erum smæstir allra bænda. Það er vel við hæfi að frumkvæðið komi frá okkur.
Ég skora á Bændasamtökin að  hefja það verk. Fyrsta skrefið gæti verið kjaramálaráðstefna íslenskra bænda. Þar á eftir á Norðurlöndum.  Og svo koll af kolli. Bindumst samtökum um að keppa ekki hver við annan með undirverði á heimamörkuðum hver annars. 
 
Sé þetta ólöglegt er það enn  nauðsynlegra. Og þetta er hægt!
 
Í trausti þess ætla ég að samþykkja búvörusamningana og þarf ekki að lesa þá. 
 
Þeir eru sagðir vondir af mönnum sem ég veit af langri reynslu að á ekki að trúa.
 
Kári Þorgrímsson
bóndi, Garði Mývatnssveit
Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...