Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023
Lesendarýni 22. september 2023

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar.

Í júní síðastliðnum samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sérstakar ráðstafanir til að bregðast við ójafnvægi á vínmarkaði víða innan ESB.

Erna Bjarnadóttir.

Þessar ráð­stafanir eru grundvallaðar á sameiginlegri landbúnaðar­stefnu ESB (e. Common Agri­cultural Policy, CAP). Samkvæmt gildandi áætlunum um stuðning við vínframleiðslu verður nú mögulegt fyrir aðildarríkin að gera ráðstafanir til að fjarlægja umfram vín af markaði. Með öðrum orðum að stýra framboðinu til að koma í veg fyrir verðfall á afurðunum. Einnig var heimilaður aukinn sveigjanleiki í framkvæmd vínstuðningsáætlana til að draga úr vínframleiðslu, svo sem aukinn sveigjanleika til að fjarlægja berjaþrúgur áður en þær eru fullþroskaðar til víngerðar, svokallað „græn uppskera“ eða „green harvesting“.

Hvað kallar á aukinn stuðning við vínrækt?

Í reglugerð ESB sem innleiðir þennan aukna stuðning kemur fram að víngeirinn hafi orðið fyrir barðinu á samdrætti í neyslu vegna mikilla hækkana á verði matvæla og drykkjarvara, sem auk góðrar uppskeru 2022 og afleiðingar markaðsörðugleika í kjölfar heimsfaraldursins hafa leitt til birgðasöfnunar.

Framleiðsla á víni Evrópu­sambandsins jókst um 4% á þessu ári miðað við árið áður en upphafsbirgðir voru 2% hærri miðað við meðaltal síðustu 5 ára. Samdráttur í vínneyslu á yfirstandandi markaðsári er áætlaður 7% á Ítalíu, 10% á Spáni, 15% í Frakklandi, 22% í Þýskalandi og 34% í Portúgal. Samhliða því hefur vínútflutningur ESB á tímabilinu janúar til apríl 2023 verið 8,5% minni en árið áður, sem stuðlar að því að birgðirnar aukast enn frekar.

Fyrrnefndar markaðsaðstæður hafa eins og fyrr segir leitt til sölusamdráttar fyrir vínræktendur og framleiðendur í ESB, lækkun markaðsverðs á víni og þar af leiðandi alvarlegt tekjutap, sérstaklega á ákveðnum svæðum sem helst verða fyrir barðinu á þessari þróun. Ástandið er þó breytilegt innan ESB. Mest hafa áhrifin verið á rauðvín og rósavín frá ákveðnum héruðum Frakklands, Spánar og Portúgals, en önnur vín og/eða aðildarríki gætu lent í svipuðum erfiðleikum á ákveðnum framleiðslusvæðum.

Inngrip framkvæmdastjórnarinnar nú

Ráðstafanirnar sem framkvæmda­stjórnin hefur samþykkt eiga að hjálpa greininni til að takast á við núverandi ójafnvægi á innri markaði ESB. Framkvæmdastjórn ESB segir að nauðsynlegt hafi verið að samþykkja tímabundnar markaðsráðstafanir til að koma í veg fyrir að óselda vínið hefði áhrif á allan innri markaðinn og auk þess sem framleiðendur gætu átt í erfiðleikum með nægjanlegt geymslurými fyrir nýja uppskeru, segir í tilkynningu framkvæmdastjórnar ESB.

Með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar verður heimilt til 15. október 2023 að eima vínið sem hefur mest áhrif á markaðskreppuna samkvæmt stuðningsáætlunum fyrir vín. Það er tekið af markaði og áfengið sem fæst má aðeins nota í öðrum tilgangi en matvælum til að forðast röskun á samkeppni.

Framkvæmdastjórnin veitti einnig aukinn sveigjanleika í framkvæmd og fjármögnun vínstuðningsáætlana fyrir fjárhagsárið 2023. Þetta mun gera aðildarríkjum kleift að laga ráðstafanir sínar betur að ástandi vínmarkaðarins á yfirstandandi ári og nýta betur „græna uppskeru“ til að koma í veg fyrir að birgðir safnist upp. Við núverandi aðstæður er styrkþegum vínstuðningsáætlana leyft að aðlaga fyrirhugaða starfsemi sína og í tilhlýðilega rökstuddum tilvikum að hrinda upprunalegum verkefnum sínum í framkvæmd aðeins að hluta. Samfjármögnunarhlutfall ESB á aðgerðum sem tengjast endurskipulagningu, grænni uppskeru, kynningu og fjárfestingum verður einnig hækkað úr 50% í 60%.

Nýr stuðningur skerðir ekki árlegan stuðning við vínrækt

Á vettvangi ESB er víngeirinn studdur með vínstuðningsáætlunum í vínframleiðslulöndum ESB. Þannig er árleg fjárhagsáætlun upp á 1.061 milljón evrur af sjóðum ESB tileinkuð stuðningi við fjárfestingu atvinnulífsins, nýsköpun, kynningu á vörum sínum, endurskipulagningu og tryggingu uppskeru þeirra. Samkvæmt núverandi CAP eru almennar vínstuðningsráðstafanir grundvallaðar á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni en stefnan gerir jafnframt ráð að framkvæmdastjórn ESB geti gripið til ráðstafana sem þessara þegar ójafnvægi myndast á mörkuðum. Þessi nýji og tímabundni stuðningur mun ekki hafa áhrif á annan almennan stuðning ESB við víngeirann og öllum núverandi styrkhæfum aðgerðum er því haldið áfram.

Mikilvægi vínræktar í ESB

Eins og hér kemur fram er stuðningur við vínrækt innan ESB hluti af sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, CAP. Vínrækt er enda mikilvæg atvinnugrein og hluti af menningu og landslagi á stórum svæðum í Evrópu. Í gamni og alvöru má því segja að hún sé eins konar „sauðfjárrækt“ þeirra.

Hér er greinilega gripið til markvissra aðgerða til að forða alvarlegum áhrifum á bændur á stórum svæðum innan sambandsins. Ljóst má vera að sumar af þeim ástæðum sem tilteknar eru í ákvörðun ESB um stuðning við vínbændur (og reyndar einnig aðra bændur) eiga að sönnu einnig við hér á landi.

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...