Græðlingar
Mynd / Skógræktarfélag Íslands
Leiðari 8. september 2023

Græðlingar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Skrifað stendur í einu fræðsluriti Skógræktarfélags Íslands að sá plöntuhluti sem notaður er til þess að rækta af nýja plöntu nefnist stiklingur. Stiklingur sem kominn er með rætur og blöð og þannig orðinn sjálfstæð planta nefnist græðlingur.

Hér í blaðinu er fjallað um tvo efnilega „græðlinga“ í íslenskri garðyrkjuflóru sem eru af gjörólíkum uppruna.

Annars vegar eru það hvítlauksbændur í Dölunum, hjón sem hafa á undanförnum árum undirbúið jarðveginn fyrir að hætta að vinna venjulega launavinnu og gera að einhverju leyti atvinnu úr áhugamálinu – sem er að rækta hvítlauk.

Þau hafa lagst í pælingar um forsendur vel heppnaðrar ræktunar á hvítlauk á Íslandi án tilbúins áburðar og notkunar eiturefna. Niðurstaðan er að það þarf að rækta jarðveginn, auðga hann og vernda – gera hann að mestu leyti sjálfbæran.

Þau komust að því að markaður var fyrir íslenskan hvítlauk við hliðina á þeim innflutta sem er að mestu leyti fluttur inn frá Kína í miklu magni. Þau eru þegar búin að selja alla uppskeru næsta árs í heildsölu, sem þau áætla að verði á bilinu sex til átta tonn.

Hvítlauksbændurnir voru studdir í gegnum undirbúningsferlið af sérstökum sjóðum sem hafa það hlutverk að hlúa að frumkvöðlastarfi sem þessu. Þau segja að án þessa stuðnings hefði verkefnið aldrei orðið að veruleika.

Hinn græðlingurinn mun þrífast í krafti fjármagnsins – stórhuga athafnamanna – og felst í tómataræktun til útflutnings. Ætlunin er að reisa risagarðyrkjustöð á iðnaðarsvæði í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem mun geta framleitt 56 tonn tómata dag hvern árið 2027 þegar stöðin verður að fullu risin. Það er margfalt það heildarmagn sem allir íslenskir tómataframleiðendur framleiða á hverjum degi. Verkefnið er enn á fjármögnunarstigi en samkvæmt framkvæmdastjóra þess gengur það ferli vel og engar beinar hindranir í sjónmáli. Líklegt er að örlög verkefnisins muni á endanum ráðast af markaðsforsendum íslensku tómatanna í erlendum verslunum.

Munu nægilega margir vilja greiða nógu hátt verð fyrir íslensku gæðavöruna, sem framleidd er með hreinu vatni og vistvænni orku? Fjárfestar veðja á að dæmið gangi upp.

Þetta eru dæmi af tveimur vænlegum græðlingum í íslenskri garðyrkju, en þeir hafa því miður ekki verið margir á síðustu árum. Það verður því miður að segjast eins og er að það hefur lengi ríkt stöðnun í greininni, einkum í útiræktun grænmetis.

Sömu tegundirnar hafa verið í framleiðslu ár eftir ár, fáar bætast við og hlutfall innlendrar framleiðslu á markaði hefur ekki breyst í grundvallaratriðum.

Nýliðun er lítil og garðyrkjubændum fjölgar mjög hægt. Þau sem eru áhugasöm um framtíðarstörf í greininni komast ekki yfir þá erfiðu hindrun sem fjárfesting í landi og garðyrkjustöð er.

Hér í blaðinu er einnig fréttaskýring um stöðu og horfur í kornræktinni. Hún hefur mikið verið til umræðu á undanförnum mánuðum eftir að matvælaráðherra tilkynnti í vor um tveggja milljarða stuðning við greinina á næstu fjórum árum. Það er góður og þarfur stuðningur í átt að fæðuöryggi á Íslandi. En garðyrkjan þarf líka aukinn stuðning til að svo geti orðið.

Samkvæmt tíðindum sem berast af yfirstandandi endurskoðun búvörusamninga, hafa garðyrkjubændur lítið komist áleiðis með sín hagsmunamál við samningaborðið.

Það er þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda um aukinn stuðning við íslenska grænmetisframleiðslu, sem hafa birst í ýmsum myndum á undanförnum misserum.

Græðlingar
Leiðari 8. september 2023

Græðlingar

Skrifað stendur í einu fræðsluriti Skógræktarfélags Íslands að sá plöntuhluti se...

Matvælastofnun
Leiðari 25. ágúst 2023

Matvælastofnun

Seglbúðir, litla sláturhúsið í Landbrotinu, hefur tilkynnt að ekki verði slátrað...

Slump
Leiðari 21. júlí 2023

Slump

Á dögunum sá ég mynd frá garðyrkjubónda sem sinnti kúrbítsplöntum í gróðurhúsi. ...

Upprunamerkingar á veitingastöðum
Leiðari 7. júlí 2023

Upprunamerkingar á veitingastöðum

Við aukna umfjöllun um upprunamerkingar matvæla á undanförnum mánuðum virðist ha...

Í orði og á borði
Leiðari 23. júní 2023

Í orði og á borði

Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR23) voru kynntar í vikunni, en þær leggj...

Riða
Leiðari 9. júní 2023

Riða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins eru heimsóttir bændur á fjórum bæjum, sem urðu f...

Fjársvelt neytendavernd
Leiðari 26. maí 2023

Fjársvelt neytendavernd

Reglugerð nr. 618/2017 fjallar um notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru o...

Hvað kostar tollvernd?
Leiðari 12. maí 2023

Hvað kostar tollvernd?

Tollvernd er margslungið og frekar óaðgengilegt fyrirbæri. Því er ekki skrítið a...