Samtalið
Af vettvangi Bændasamtakana 9. febrúar 2024

Samtalið

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, frambjóðandi til formennsku í Bændasamtökunum.

Mér þykir vænt um að hafa víða fengið góðar viðtökur við framboði mínu til formennsku í Bændasamtökunum. Ég veit að þær byggjast á trausti sem til mín er borið og fyrir það er ég þakklátur.

Trausti Hjálmarsson.

Framboðsfrestur til formanns rennur út þann 22. febrúar og rafræn kosning hefst viku og einum degi síðar, þann 1. mars, enda ber febrúar „tvenna fjórtán“ þetta árið. Dagana 14. og 15. mars á Búnaðarþingi er svo kosið um aðra stjórnarmenn í samtökunum. Ég er ekki í vafa um að þar verði valinn maður í hverju rúmi.

Ég geri mér grein fyrir því að nýkjörinni stjórn Bændasamtakanna verður ekki til setunnar boðið að kosningum loknum. Hagstæðir vindar blása um þessar mundir með okkur úr ýmsum áttum og grípa þarf tækifærin á meðan þau gefast. Í fyrsta lagi hefur okkur tekist að opna augu og eyru stjórnvalda fyrir vandamálum okkar og tækifærum. Það eitt og sér er kærkomið tilefni til bjartsýni.

Við erum einnig að upplifa sterka vitundarvakningu um nauðsynlega sjálfbærni í matvælaframleiðslu þjóðarinnar. Og við finnum stöðugt sterkara ákall heimsbyggðarinnar um heilnæmi matvæla og ræktun þeirra og framleiðslu með vistvænum búskaparháttum. Í þeim efnum eru íslenskir bændur án nokkurs vafa í allra fremstu röð. Til viðbótar hefur stóraukin fjölgun landsmanna og stöðugt vaxandi ferðamannastraumur stækkað innanlandsmarkaðinn svo um munar. Þjóðin er einhuga í jákvæðri afstöðu sinni til landbúnaðar í landinu. Það er líka ánægjulegt hvað sjá má mörg nýleg dæmi um góðan skilning stjórnvalda á aðstæðum okkar. Skýrsla Byggðastofnunar fyrir um tveimur árum var afdráttarlaus, spretthópur matvælaráðherra var það líka og ráðuneytisstjórahópurinn varð svo kannski endanlega til þess undir lok síðasta árs að opna augu og eyru stjórnvalda.

Engum dylst að við þurfum frekari verðleiðréttingar fyrir afurðir okkar í mörgum búgreinum. Óhugsandi er að velta slíkum hækkunum að fullu út í verðlagið til neytenda. En það eru ýmsar aðrar leiðir færar og þá ekki síst með aukinni hagræðingu. Það er t.d. galið að ausa 1–2 milljörðum króna á ári út um gluggann af því að ekki fást heimildir til sameininga og verkaskiptingar hjá afurðastöðvum í kjötiðnaði. Á þeim vettvangi blasir stærðarhagkvæmnin við og hana eigum við auðvitað að nýta út í ystu æsar. Í þessu sambandi er líka rétt að hafa það í huga að landbúnaður fær hvergi þrifist í heiminum án opinbers stuðnings til þess að greiða fólki aðgang að afurðunum á viðráðanlegu verði.

Nýlegar fréttir um fyrirhugaða fjárfestingu í tómataræktun eru dæmigerðar fyrir þau tækifæri sem fólgin eru í hinum íslensku kjöraðstæðum fyrir matvælaframleiðslu. Fjárfesting upp á ríflega 20 milljarða króna í 27 hektar stóru gróðurhúsi og áform um u.þ.b. tíföldun núverandi tómataræktunar á Íslandi, getur vart byggst á öðru en alþjóðlegum markaðstækifærum vegna hreinleika vatnsins, jarðvarma og „grænu“ rafmagni. Því víðar sem hróður íslenskra matvæla spyrst út, því betra fyrir okkur öll.

Engum vafa er undirorpið að enginn ræðst í fjárfestingu af þessu tagi án þess að hafa reiknað dæmið til fulls. Og um leið og vörn er snúið í sókn í íslenskum landbúnaði verður áreiðanlega unnt að fá jákvæða niðurstöðu úr fleiri reikningsdæmum sem lúta að þróunar- og nýsköpunarfærum í ýmsum búgreinum. Í þeim efnum eiga Bændasamtökin að vera hvetjandi alla daga ársins og blása bændum bjartsýni í brjóst.

Brýnasta verkefnið sem blasir við forystu Bændasamtakanna, og þar af leiðandi formanni þeirra, er að efla samstarf á milli ólíkra búgreina, samstarf við hin fjölmörgu fyrirtæki sem tengjast landbúnaðinum og samstarf við stjórnvöld um stöðugleika í umgjörð búreksturs og svigrúm til greiðslu mannsæmandi launa í honum. Rétt eins og trúin flytur fjöll er ég sannfærður um að gott samtal okkar við velunnara í öllum kimum samfélagsins getur orðið landbúnaðinum mikil lyftistöng.

Nái ég kjöri til formennsku er ég sannfærður um að seta mín á formannsstóli geti laðað fram allt það besta í því fólki sem bændur velja sér til forystu. Samtalið og samstarfið innan stjórnar og við starfsfólk Bændasamtakanna verður þar í öndvegi og vonandi aflvaki margra góðra verka.

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda
Lesendarýni 28. febrúar 2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, ...

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB
Lesendarýni 28. febrúar 2024

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB

Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann l...

Mikil er trú þín, Ragnar
Lesendarýni 22. febrúar 2024

Mikil er trú þín, Ragnar

Í Bændablaðinu þann 8. febrúar sl. birtist grein eftir Ragnar Árnason, prófessor...

Gerist ekkert hjá VG?
Lesendarýni 20. febrúar 2024

Gerist ekkert hjá VG?

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áf...

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!
Lesendarýni 19. febrúar 2024

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!

Nú þurfum við ekki lengur að aka á negldum vetrardekkjum til að tryggja öryggi o...

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt
Lesendarýni 16. febrúar 2024

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 2016, kom ég að því verki ásamt öðrum að gera...

Eru auðlindir Íslands til sölu?
Lesendarýni 14. febrúar 2024

Eru auðlindir Íslands til sölu?

„Ef virkjað verður meira mun rafmagnið seljast upp. Það verður alltaf umfram eft...

Stefna ungra bænda mörkuð
Lesendarýni 13. febrúar 2024

Stefna ungra bænda mörkuð

Aðalfundur Samtaka ungra bænda (SUB) var haldinn þann 13. janúar síðastliðinn á ...