NorFor og fóðuráætlanagerð á Íslandi
NorFor er samnorrænt fóðurmatskerfi fyrir nautgripi sem Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Ísland standa að baki. Samstarfið hófst árið 2002 en NorFor var síðan tekið í notkun árið 2006. Kerfið byggir á rannsóknargögnum frá Norðurlöndunum. Bændasamtök Íslands höfðu umsjón með hlut Íslands í samstarfinu en svo hefur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) gert frá því það tók við því hlutverki við stofnun hennar árið 2013.
Í stjórn NorFor er einn fulltrúi frá hverju landi og sömuleiðis er hvert land með ábyrgðarmann fyrir rekstri, þróun og þjónustu notendaumhverfis hvers lands. Innan NorFor vinnur einnig faghópur þar sem fremstu vísindamenn Norðurlandanna í fóðurfræði nautgripa vinna saman að þróun kerfisins. Sömuleiðis er þróunarteymi sem sér um framkvæmdahluta þróunar kerfisins og innleiðingu á nýjungum.
Íslenskir útreikningar
NorFor reiknar orku- og próteinþarfir gripa, áætlar gróffóðurát og reiknar hve mikið kjarnfóður þarf til að uppfylla næringarþarfir gripanna miðað við tiltekið gróffóður. Fyrir mismunandi kúakyn eru mismunandi átgetulíkön sem byggð eru á rannsóknargögnum. Þegar reiknuð er áætlun fyrir íslenskar kýr er notast við reiknilíkan byggt á íslenskum gögnum fyrir átgetuna sem skilar nákvæmum útreikningum fyrir íslenska kúakynið.
Gott samstarf við fóðurfyrirtæki
Notagildi NorFor byggir á svokallaðri fóðurtöflu sem inniheldur stöðluð fóðurgildi á öllum helstu hráefnum sem notuð eru í fóður nautgripa. Heyefnagreiningar eru grunnurinn að fóðuráætlunum en einnig eru upplýsingar um kjarnfóðurtegundir sem eru á markaði, nauðsynlegar. RML hefur átt mjög gott samstarf við íslensk fóðurfyrirtæki og fengið uppskriftir kjarnfóðurtegunda og valið réttar hrávörur til að reikna NorFor-fóðurgildi fyrir kjarnfóðurtegundirnar. Þetta góða samstarf hefur skilað mikilvægum upplýsingum inn í NorFor og þar af leiðandi gert fóðuráætlanagerðina nákvæmari og í gæðaprófunum yfir Norðurlöndin hafa íslenskar kjarnfóðurtegundir komið mjög vel út. Flest fóðurfyrirtæki í landinu hafa einnig nýtt sér NorFor í sinni fóðurráðgjöf og því snertir NorFor mun fleiri bændur en bara þá sem fá ráðgjöf frá RML, sem er virkilega ánægjulegt.
Fóðuráætlanagerð
Fóðuráætlanir byggja á heyefnagreiningum hvers bús þar sem oftast er unnið eftir ákveðnu meðaltali út frá sýnum og heyforða. Oftast er ekkert svigrúm við val á heygerðum og þarf oftast að nota allt hey sem er til á hverju búi og því byggir áætlanagerðin frekar á að velja heppilegt kjarnfóður til að gefa með gróffóðrinu sem er til. Þegar áætlun er reiknuð eru hafðar til hliðsjónar niðurstöður tanksýna og afurðaskýrsluhald í Huppu. Út frá heyefnagreiningunum eru reiknaðar kjarnfóðurþarfir fyrsta kálfs kvígna annars vegar og eldri kúa hins vegar, eftir fyrirfram ákveðnum nytflokkum og stöðu á mjaltaskeiði. Einnig er hægt að reikna áætlun út frá nýjustu mjólkurskýrslu til að fá einstaklingsmiðaða útreikninga en sú áætlanagerð krefst meiri handstýringar á kjarnfóðurgjöfinni.
Gjafatækni
Sjálfvirkir kjarnfóðurbásar og mjaltaþjónar verða stöðugt algengari í íslenskum fjósum en þessi búnaður býður oftast upp á uppsetningu á svokölluðum fóðurtöflum og með þeim er hægt að færa áætlunina inn í kerfið og láta kerfið fóðra eftir áætluninni. Með aukinni tæknivæðingu getur þetta sparað kjarnfóður þar sem kerfið minnkar og eykur sjálfkrafa kjarnfóðurgjöfina eftir mjólkurframleiðslu hvers grips.
Umhverfismál
Líkur eru á því að NorFor muni í framtíðinni gegna lykilhlutverki í útreikningum á kolefnis- spori í tengslum við fóðrun. Hægt er að reikna áætlaða metanlosun gripanna út frá hvaða gróffóður og kjarnfóður þeir éta og er hægt að reikna fóðuráætlun út frá minnkaðri losun gróðurhúsalofttegunda. Sömuleiðis er nýlega búið að innleiða reikniformúlur sem áætla minni losun á metani við notkun íblöndunarefnanna Bovaer® og nítrats. Þar sem útskolun köfnunarefnis er vandamál er nauðsynlegt að reikna réttar próteinþarfir til að hámarka afurðir án þess að offóðra á próteini og tapa þá of miklu köfnunarefni með saur og þvagi.
RML
RML býður upp á faglega og óháða fóðurráðgjöf byggða á NorFor-útreikningum og afurðaskýrsluhaldinu í Huppu. Hjá RML starfa tveir fóðurfræðingar, undirritaður og Ditte Clausen, með mikla faglega þekkingu að auki er mikil reynsla í fóðurráðgjöf hjá fleiri starfsmönnum. Það hefur aukist hjá RML að útvíkka ráðgjöfina og tengja við fleiri þætti svo sem tækni, rekstur og jarðrækt. Má nefna að í sumar var boðið upp á nýjan ráðgjafarpakka sem kallaður var Sproti+ en þar kemur saman jarðrækt og fóðrun í heildrænni ráðgjöf, sem skilar af sér fóðuráætlun og áburðaráætlun ásamt sýnatökum og heimsóknum. Stabbi og Stæða eru síðan sjálfstæðir fóðurráðgjafarpakkar sem RML hefur boðið upp á lengi.
Grein þessi er hluti af blaðauka sem fylgdi með 20. tbl. Bændablaðsins að tilefni 10 ára afmælis Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.