Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Niðurstöður kynbótamats hrossa haustið 2023
Mynd / KollaGr
Á faglegum nótum 15. nóvember 2023

Niðurstöður kynbótamats hrossa haustið 2023

Höfundur: Elsa Albertsdóttir, hrossaræktaráðunautur hjá RML.

Nýr kynbótamatsútreikningur hefur verið settur inn í Upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFeng, fyrir alls 492.564 hross.

Fjöldi alþjóð­legra kynbótadóma (fullnaðardóma) sem lágu til grundvallar útreikningnum að þessu sinni var 36.160 og skiptist eftir löndum þannig: Ísland 22.379, Svíþjóð 4.459, Þýskaland 3.721, Danmörk 2.819, Noregur 1.279, Austurríki 387, Finnland 294, Holland 319, Bandaríkin 228, Kanada 117, Sviss 110, Bretland 39 og Færeyjar 9. Alls var tekið tillit til 1.027 arfgerðargreindra hrossa í útreikningum fyrir gangráðinn.

Elsa Albertsdóttir.

Kynbótamat fyrir ‚Stóðhestaval‘ og ‚Valparanir‘ hefur einnig verið uppfært. Þær upplýsingar eru ómetanlegar fyrir ræktendur þegar verið er að huga að næstu kynslóð hrossa.

Almennt um kynbótamatið

Aðferðin sem notuð er til að reikna út kynbótamat gengur jafnan undir heitinu BLUP (Best linear unbiased prediction) en þetta er gríðarlega umfangsmikil og öflug aðferð. BLUP gildin (þ.e. kynbótamatið) endurspegla erfðafræðilega getu hestanna, í samanburði við öll önnur hross innan stofnsins.

Kynbótamat dregur saman allar tiltækar tölulegar upplýsingar frá kynbótadómum allra hrossa í stofninum í heildarniðurstöðu sem endurspeglar gildi hrossa til framræktunar. Gildið ræðst af röðun hrossa út frá því hversu mikils er að vænta af viðkomandi hrossi og framlag þeirra til ræktunarstarfsins. Almennt er ekki ráðlegt að nota hross til undaneldis sem eru undir 100 í aðaleinkunn kynbótamats, þar sem þeirra framlag er líklegt til að vera í neikvæða átt, miðað við opinbert ræktunarmarkmið íslenska hestsins. Hross með 116 í aðaleinkunn kynbótamats, með 5 í staðalfrávik og 87% öryggi þýðir einfaldlega að hrossið hefur með 87% öryggi kynbótagildi milli 111 og 121 stig. Það er því sannarlega afbragðs undaneldisgripur og tilheyrir hópi u.þ.b. 15% efstu hrossa í hrossastofninum hvar sem er í heiminum

Ávallt er mikilvægt að gera sér grein fyrir öryggi kynbótamats gripa. Kynbótamat með öryggi undir 60% verður að túlkast með varúð. Öryggi byggir á magni upplýsinga (fjölda kynbótadóma skyldra einstaklinga) að baki útreikningum og er því hátt öryggi á kynbótamati hrossa sem eiga mörg sýnd afkvæmi. Kynbótamat þeirra endurspeglar vel gildi þeirra til framræktunar, þ.e. hverju þau skila til afkvæma sinna, miðað við opinbert ræktunarmarkmið fyrir íslenska hestinn.

Kynbótamatið er kvarðað út frá meðaltali hrossa fæddra á Íslandi síðustu 10 árin og var viðmiðunarhópurinn að þessu sinni því fæddur árin 2014–2023. Meðaltal kynbótamats allra eiginleika utan eins, er skorðað við 100 og hvert staðalfrávik eðlisfars eiginleika eru 10 stig. Nær öll hross í stofninum liggja því milli 70 og 130 stig með örfáum hrossum utan þeirrar spannar. Kynbótamat fyrir hæð á herðar er birt í sentimetrum og miðast þá við frávik frá meðalhæð þeirra hrossa sem mæld eru á þessu 10 ára tímabili. Sé t.d. gildi stóðhests +1.5 er spáð að hann gefi afkvæmi sem eru 1.5 sm hærri en meðalhrossið.

Alls er reiknað kynbótamat fyrir 24 eiginleika sem flestir eru metnir á kynbótasýningum, þ.e. hæð á herðar; höfuð; háls, herðar og bógar; bak og lend; samræmi; fótagerð; réttleiki; hófar; prúðleiki; tölt; hægt tölt; brokk, skeið; greitt stökk; hægt stökk; samstarfsvilji; fegurð í reið; fet; Aðaleinkunn (AE); AE sköpulags; AE hæfileika; AE án skeiðs; AE hæfileika án skeiðs; og mætingu til kynbótadóms.

Leiðréttingar fyrir kerfisbundnum umhverfisáhrifum

Við útreikninga kynbótamats er tekið tillit til kerfisbundinna umhverfisþátta sem hafa áhrif á frammistöðu gripanna. Með því að leiðrétta fyrir þessum umhverfisþáttum eru dómarnir gerðir samanburðarhæfir milli einstaklinga innan stofnsins.

Leiðrétt er fyrir þremur þáttum en það er aldur og kyn einstaklings og sýningarárið þegar hross hlýtur sinn hæsta aldursleiðrétta dóm. Varðandi aldur og kyn þá eru t.d. stóðhestar kerfisbundið fyrri til en hryssur og hrossin verða kerfisbundið betri með auknum aldri. Þar sem dómstörfin þróast ár frá ári og samanburðarhópurinn verður sífellt betri, verður jafnframt til kerfisbundinn munur á niðurstöðum milli ára, þ.e. sýningarára.

Þróun á kynbótamati

Stöðugt er verið að vinna að því að bæta kerfið þannig að það þjóni tilgangi sínum sem allra best og með sem öruggustum hætti. Talsverðar breytingar voru gerðar á kynbótamatinu árið 2020 og 2022 [sjá 8. tbl. Bændablaðsins 2020]. Breytingarnar höfðu þau áhrif að mikil aukning varð í fjölda þeirra hryssna sem hlutu afkvæmaverðlaun. Haustið 2020 voru þær alls 31 talsins og haustið 2022 voru þær 20 talsins, samanborið við 5-9 hryssur á ári flest árin á undan. Viðmið þannig að hryssa nái heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi er að hún nái að lágmarki 116 stigum í aðaleinkunn kynbótamats eða aðaleinkunn án skeiðs og eigi að minnsta kosti 5 dæmd afkvæmi. Í ár eru það 11 hryssur sem hljóta viðurkenningu fyrir afkvæmi.

Alltaf þarf að rýna til gagns og jafnvel endurskoða gildandi viðmið en svo virðist sem kerfið sé að komast í visst jafnvægi. Þess ber að geta að samræming varð á veitingu viðurkenninga fyrir afkvæmahross árið 2019 innan aðildarlanda FEIF þannig að núna eru hvarvetna sömu viðmið. Viðurkenning á afkvæmahrossum ber að skoða sem mikinn heiður og afrek og endurspeglar sannarlega gildi hrossa til framræktunar.

Við síðustu breytingu á kynbótamatinu var hætt að leiðrétta fyrir því landi sem hrossið er sýnt í, en það hafði verið gert í áratugi á undan. Þrátt fyrir að enn séu marktæk áhrif sýningarlands, var ekki lengur talin þörf á að meðhöndla það sem kerfisbundinn umhverfisþátt, enda umhverfisaðstæður kynbótasýninga orðnar afar staðlaðar. Breytingar á kynbótamati einstakra hrossa voru hvað mestar hjá stóðhestum sem áttu mörg afkvæmi dæmd í sama landi. Einhverjir stóðhestar voru líklega ofmetnir í þáverandi kynbótamati í alþjóðlegum samanburði en aðrir að sama skapi vanmetnir. Þegar á heildina er litið varð ekki veruleg breyting á röðun hrossa sem sýnd eru í sama landi en breytingar urðu á alþjóðlegri röðun.

Framtíðin er björt

Hér að neðan má sjá töflu yfir þau 20 hross, stóðhesta og hryssur, sem hæst eru í kynbótamati haustið 2023, raðað eftir aðaleinkunn kynbótamats. Öll hrossin eiga foreldra með eigin dóm. Öll hrossin eru dæmd að undanskildum fjórum sem eru 3 vetra og yngri. Þau hross hafa eðlilega mat með lægsta öryggið, önnur hafa hátt öryggi eða yfir 80%. Afkvæmadæmdu hestarnir tveir, Álfaklettur og Skýr, eru með mat með afar hátt öryggi enda hafa þeir sannað sig sem afbragðs undaneldishestar og hlotið viðkenningu fyrir það. Þrjú hross eru erlent fædd og aðeins 4 stóðhestar eru á listanum. Athugið að öll þessi hross á listanum hafa yfir 130 stig í kynbótamati og eru þau í hópi 182 hrossa með þann árangur. Samtímis ber að hafa í huga að kynbótamatið er reiknað fyrir tæplega 500.000 einstaklinga svo þessir úrvalsgripir sem birtast hér telja til 0,004% stofnsins.

Hryssurnar á listanum eiga engin dæmd afkvæmi. En almennt raðast hryssur ofar í kynbótamatinu ef þær eiga hlutfallslega mörg dæmd afkvæmi. Ástæða þessa er áhrif eiginleikans „mæting til dóms“ enda sá eiginleiki með talsvert mikið vægi þar sem hann er mjög arfgengur. Það er að líkindum viss skekkja milli kynjanna, og er ástæðan aðallega sú að kynjahlutfall afkvæma sem koma til dóms er skekkt enda vantar nánast alla gelta hesta. Þessi meinta skekkja mun leiðréttast um leið og gögn frá íþrótta- og gæðingakeppni verða tekin með í útreikninga kynbótamatsins enda margir geldingar og jafnvel stóðhestar sem koma þar fram en ekki í kynbótadómi. Með því að innleiða mætingu í dóm inn í kynbótamatið var dregið úr vægi lítilsháttar mismunar í aðaleinkunn inn í kynbótamatið, þar sem að bara það að mæta hefur mikið vægi. Þetta er kostur og ætti að einhverju leyti að vega upp á móti ef raunverulegt dómamisræmi er til staðar.

Þróun kynbótamatsins hefur gert það að verkum að skali kynbótamats hefur teygst í seinni tíð og fjöldi hrossa sem falla utan 70-130 stiga í aðaleinkunn hefur frekar aukist, ekki síst á Íslandi. Þetta er viss skekkja upp á við en ekki óraunhæf mynd.
Þetta helgast af tiltölulega góðri mætingu kynbótahrossa og afkvæma þeirra hérlendis og tiltölulega óöruggu mati hrossa neðst á skalanum þar sem engar upplýsingar eru að baki og þar af leiðandi öryggi matsins mjög lágt. Því er nefnilega þannig háttað að sama hversu gott kynbótamatskerfið verður, þá endurspeglar það þau gögn sem liggja til grundvallar og þar sem skortur er á gögnum takmarkast upplýsingar kerfisins.

Í nýbirtri grein í Bændablaðinu um Erfðaframför í íslenska hrossastofninum – Hvernig er dreifing einkunna á kynbótasýningum og í kynbótamati? er ljóst að íslensk hrossarækt stendur með miklum ágætum. Aukning á erfðaframförum eða ræktunarhraðinn hefur rúmlega þrefaldast síðan BLUP kynbótamatið var tekið í notkun. Öll umgjörð ræktunarstarfsins, sýninga, dómstarfa, gagnabanki Worldfengs og þekking dómara, sýnenda og ræktunarfólks hefur vaxið og batnað og hefur skilað sér í auknu öryggi matsins og auknum úrvalsstyrk.

Það er óyggjandi staðreynd að flestir íslenskir hrossaræktendur velja til undaneldis hross sem eru vel yfir meðaltali í kynbótamatinu og það er lykillinn að hinum öru erfðaframförum sem hafa náðst í stofninum á síðustu áratugum.

Það ber að fagna þeim góða árangri sem náðst hefur í ræktun hrossa á Íslandi. Hvort sem litið er til niðurstaðna kynbótamats eða þegar hross eru borin saman á alþjóðlegum grunni eins og á nýliðnu heimsmeistaramóti.

Það er hægt að horfa björtum augum til framtíðar ef áfram heldur eins og verið hefur. Með nýjum aðferðum þar sem erfðamengisúrvali byggðu á víðtæku DNA sýnatökum og greiningum verður bætt við hefðbundið kynbótamat, má búast við enn hraðari og öruggari framförum. Þarna gæti, og ætti, íslenski hesturinn að vera í fararbroddi meðal annarra hrossakynja.

Vonandi næst samtakamáttur til að efla nauðsynlegt rannsóknarstarf og þróun á þessu spennandi sviði

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...