Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Danskar Holstein-kýr eru með þeim afurðamestu í heimi.
Danskar Holstein-kýr eru með þeim afurðamestu í heimi.
Mynd / SnS
Á faglegum nótum 9. nóvember 2023

Íslensku kýrnar hálfdrættingar danskra stallsystra

Höfundur: Snorri Snorrason

NMSM samtökin, sem eru samstarfsvettvangur Norðurlandanna um ýmis málefni sem snerta mjólkurframleiðslu, taka reglulega saman margvíslegar áhugaverðar upplýsingar sem tengjast þróun mjólkurframleiðslu Norðurlandanna.

Helstu upplýsingar má sjá hér í meðfylgjandi töflu en gögnin miða við stöðu hvers lands í árslok. Þar kemur m.a. fram að innvegin mjólkurframleiðsla Norðurlandanna árið 2022 var alls 12,2 milljarðar kílóa. Eftir nokkuð reglulega aukningu mjólkurframleiðslunnar síðustu árin, hefur hún nú staðið nokkuð í stað og raunar dregist aðeins saman frá metárinu 2020, þegar NMSM tók síðast saman tölur um mjólkurframleiðslu Norðurlandanna, en það ár fór hún í 12,4 milljarða kílóa. Kúabú landanna voru 16.814 talsins í árslok 2022, sem er fækkun um 10,7% frá árinu 2020 þegar þau voru 18.833.

Byggt á samantekt tæknihóps NMSM. Þróun útbreiðslu mjaltaþjónabúa á Norðurlöndunum frá 1998.

Finnska mjólkurframleiðslan á miklu undanhaldi

Líkt og undanfarin ár er danska mjólkurframleiðslan langumsvifamest innan Norður­landanna en dönsku kúabúin framleiddu í fyrra 5,7 milljarða kílóa, eða um 47% allrar mjólkur þessara fimm landa. Danska mjólkurframleiðslan jókst lítillega frá árinu 2020, eða um 0,1%. Næstframleiðslumesta landið er Svíþjóð með 2,8 milljarða innveginna kílóa og þar varð örlítill samdráttur í heildarframleiðslunni frá árinu 2020, eða um 0,3%. Finnland sker sig nokkuð úr varðandi þróun mjólkurframleiðslunnar en þar varð heildarsamdrátturinn 8,9% á þessu tveggja ára tímabili eða um 211 milljónir kílóa.

Meiri samdráttur var þar en öll landsframleiðslan hér á landi!
Noregur er í fjórða sæti yfir heildarframleiðslu Norðurlandanna og jókst framleiðslan þar lítillega frá árinu 2020, eða um 0,9%. Ísland rekur svo lestina með 1,2% framleiddrar mjólkur Norðurlandanna auk þess sem hér varð samdráttur í framleiðslu um 2% frá árinu 2020.

Meðalbúið að leggja inn 723 tonn

Ársframleiðsla norrænu kúabúanna er auðvitað nátengd bústærðinni, en að jafnaði lagði hvert bú inn 723 þúsund kíló á síðasta ári, sem er aukning um 67 þúsund kíló á tveimur árum. Þessi aukning, rúm 30 tonn á ári, hefur verið nokkuð jöfn undanfarinn áratug og samhliða fækkun búa hafa þau sem eftir eru aukið við sig. Rétt eins og undanfarin ár bera dönsku búin höfuð og herðar yfir önnur bú á Norðurlöndunum og raunar í allri Evrópu. Þar var hvert bú að leggja inn að jafnaði 2,4 milljónir kílóa árið 2022 sem er 1,3 milljón kílóum meira en sænsku búin leggja inn að meðaltali og eru þau þó þau næstframleiðslumestu á Norðurlöndum.

Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna, ýmsar tölulegar upplýsingar.

Minnst er framleiðsla hvers kúabús í Noregi, en þar voru lögð inn að jafnaði 214 þúsund kíló frá hverju búi árið 2022. Eins og áður segir þá jókst innvigtun kúabúa Norðurlandanna töluvert á þessu tveggja ára tímabili en minnst aukning varð á Íslandi, eða 5,1%. Mest aukning varð á meðalinnleggi danskra búa og jókst framleiðslan þar um 11% á þessu tveggja ára tímabili.

78 kýr að meðaltali

Undanfarin ár hefur meðalbústærð á Norðurlöndunum aukist jafnt og þétt og virðist á engan hátt vera að hægjast á þeirri þróun. Um síðustu áramót var meðalbúið komið í 78,2 kýr og jókst bústærðin frá árinu 2020 um 8,1%, eða um nærri 6 kýr á hvert bú. Það er mjög svipuð aukning og hefur verið undanfarin ár, u.þ.b. 3 kýr á ári á hvert bú. Breytingin innan Norðurlandanna er þó mjög misjöfn. Þannig fjölgaði kúm í íslenskum fjósum um 3 á tveggja ára tímabili og norsku fjósin stóðu í stað, raunar varð þar örlítil meðaltalsfækkun á þessu tveggja ára tímabili, eða um 0,1 árskú.

Sífellt hærra hlutfall mjólkur kemur frá kúabúum með mjaltaþjóna. Mynd /Lely

Fjósin sem voru stærst fyrir, þ.e. annars vegar Danmörk og hins vegar Svíþjóð, héldu áfram að stækka mest og nú er meðalkúabúið í Danmörku komið í 232 kýr og sænsku búin komin í 109 kýr. Þriðju stærstu búin eru í Finnlandi en þar eru að meðaltali 53 kýr í hverju fjósi og hér á landi 52 kýr.

Sem fyrr segir eru norsku búin langminnst, með tæplega 29 kýr að jafnaði.

Meðalkýrin að skila 9,2 tonnum í afurðastöð

Þegar horft er til afurðasemi kúnna á milli landanna er staðan nokkuð ólík eftir því hvaða land á í hlut, enda hefur þar áhrif bæði kúakynið sem er notað við framleiðsluna og það umhverfi sem kúabúin starfa við. Oftast er það svo að þegar meðalafurðir eru metnar, er oft notast við skráðar skýrsluhaldsafurðir, þ.e. uppgefnar afurðir búa sem taka þátt í skýrsluhaldi.

Þá er ekki tekið tillit til heimanota á mjólk eða mögulegra áfalla vegna sjúkdómameðhöndlunar svo dæmi sé tekið. Í samanburði tæknihóps NMSN er hins vegar notast við upplýsingar um alla innvegna mjólk til afurðastöðvanna í löndunum og svo heildarfjölda skráðra mjólkurkúa í löndunum.

Þegar þetta er reiknað þannig út kemur í ljós að sem fyrr eru mestar afurðir að finna í Danmörku, þar sem hver kýr er að skila að jafnaði 10.166 kg mjólkur í afurðastöð, þar á eftir koma sænsku kýrnar með 9.289 kg og þá þær finnsku með 8.841 kg. Næstafurðalægstu kýrnar eru í Noregi, en að jafnaði eru lögð inn 7.460 kg þar í landi eftir hverja kú. Íslensku kýrnar eru langlægstar og ekki með nema 5.746 kg að meðaltali og eru ekki nema rétt rúmlega hálfdrættingar á við dönsku kýrnar.

Mjaltaþjónabúum fjölgaði mest á Íslandi

Það virðist vera lítið lát á fjölgun mjaltaþjónabúa á Norðurlöndunum og var fjöldi þeirra kominn í 6.341 í lok síðasta árs og hafði þeim fjölgað um 544 bú, eða um 9,4% á framangreindu tveggja ára tímabili. Það er álíka mikil hlutfallsleg breyting og verið hefur um nokkurt skeið. Þróunin hefur þó verið ólík á milli landanna (sjá bæði mynd og töflu) og fjölgaði búunum mest á Íslandi, eða um 14,3% og þar rétt á eftir kemur Noregur með 13,4%.

Gögnin sýna sem fyrr að þar sem meðalbúastærðin er að jafnaði meiri hefur mjaltaþjónabúum fjölgað hægar. Þetta á sér líklega þær skýringar að mjaltaþjónar hafa hingað til hentað síður fyrir stærri bú. Það kann þó að vera að breytast núna með tilkomu nýrrar og ódýrari útfærslu mjaltaþjóna fyrir stór kúabú. Breytingin felst í því að mjaltaþjónarnir eru settir saman á sérstakt mjaltasvæði og kýrnar reknar til mjalta tvisvar til þrisvar á dag. Mjaltaþjónar þessara kerfa eru einfaldari að uppbyggingu og búnaði og virðist vera töluverður áhugi á þessari lausn nú um stundir meðal kúabænda sem eru með stór bú. Verður áhugavert að fylgjast nánar með þessari þróun á komandi árum.

Í árslok síðasta árs voru mjaltaþjónar á 37,7% kúabúa Norðurlandanna en hæsta hlutfallið var hér á landi, en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 51,7% af kúabúum landsins. Í öðru sæti listans eru sænsku búin með 45,5% og þá koma norsku búin með 42,1%.

Meira en tíu þúsund mjaltaþjónar!

Fjöldi mjaltaþjóna á Norður­löndunum var 10.381 um síðustu áramót, sem er aukning um 12,2% frá árslokum 2020, eða aukning um 1.130 mjaltaþjóna. Fjöldinn skiptist nokkuð bróðurlega á milli landanna utan Íslands og eru flestir mjaltaþjónar í Noregi, eða 28,5% þeirra. Næstflestir eru í Svíþjóð, eða 24,7% og í Danmörku eru 22,6% allra mjaltaþjóna Norðurlandanna. Finnland er þar skammt undan með 21,2% en íslensku fjósin eru eðlilega neðst á þessum lista með einungis 3,0% mjaltaþjónanna á Norðurlöndum.

1,6 mjaltaþjónn að meðaltali

Líkt og hér að framan greinir var 10.381 mjaltaþjónn á 6.341 kúabúi sem gerir að jafnaði 1,6 mjaltaþjóna á hverju búi. Ekki þarf að koma á óvart að dönsku kúabúin eru að jafnaði með flesta mjaltaþjóna, eða 3,4 að meðaltali.

Þar á eftir koma sænsku búin með 2,1 mjaltaþjón að jafnaði og svo þau finnsku með 1,6 mjaltaþjóna að meðaltali. Á Íslandi voru að jafnaði 1,2 mjaltaþjónar á þessum búum í árslok 2022 og 1,1 mjaltaþjónn að meðaltali í Noregi.

Ísland í sérflokki

Undanfarin ár hefur tæknihópur NMSM áætlað hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum og samkvæmt þeim útreikningum þá er nú svo komið að í öllum löndum nema Danmörku er meirihluti framleiddrar mjólkur frá kúabúum með mjaltaþjóna.

Langhæsta hlufallið er á Íslandi, eða 68% og svo er Noregur skammt undan með 63%. Þá er talið að 56% allrar framleiddrar mjólkur í Finnlandi sé frá mjaltaþjónafjósum og 52% í Svíþjóð. Langlægsta hlutfallið er í Danmörku, eða 27%. Vegna umfangs dönsku mjólkur- framleiðslunnar þá heldur hún meðaltali Norðurlandanna vel undir 50% og var þetta hlutfall 42% í árslok 2022 fyrir Norðurlöndin í heild.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...