Kornuppskera haustið 2023.
Kornuppskera haustið 2023.
Mynd / Aðsendar
Á faglegum nótum 24. maí 2024

Hvanneyrarbúið rær á ný mið

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson, stjórnarmaður í Hvanneyrarbúinu ehf.

Hvanneyrarbúið ehf. tók við rekstri kúabúsins á Hvanneyri árið 2015. Tilgangur félagsins er að reka á hagkvæman hátt kúabú á Hvanneyri í þágu kennslu og rannsóknastarfs Landbúnaðarháskóla Íslands.

Formaður þess er Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Aðrir stjórnarmenn eru Baldur Helgi Benjamínsson, búfjárerfðafræðingur og bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði og Pétur Diðriksson, bóndi á Helgavatni í Þverárhlíð. Bústjóri er Egill Gunnarsson og fjósameistari er Björn Ingi Ólafsson.

Aukin innvigtun

Árskýr á búinu 2023 voru 76,9 (73,5) sem að meðaltali skiluðu 7.707 (7.389) kg mjólkur og af þeim komu 7.095 ltr til innleggs, mjólkurnýtingin var því 95%. Innlögð mjólk árið 2023 var alls 545.577 (520.152) lítrar með 4,12 fitu og 3,35 próteini, mfm líftölu var 17 (14) og mfm frumutölu 158 (88). Tölur frá fyrra ári eru í sviga. Hlutfall fitu hækkaði aðeins en próteinhlutfall lækkaði. Líftala var nær óbreytt en frumutala hækkaði talsvert. Heilt yfir er staða mjólkurgæða viðunandi en hækkun á frumutölu er áhyggjuefni sem þarf að taka á. Búið lagði inn úrvalsmjólk í 7 mánuði á árinu en forsvarsmenn búsins vilja setja markið mun hærra í þeim efnum. Heildarinnlegg búsins hækkaði dálítið frá fyrra ári, má einkum rekja það til betri gróffóðurgæða auk annarra þátta. Meðalnytin er heldur varla viðunandi ef búið vill og ætlar að vera í fararbroddi á landsvísu. Horfur á árinu 2024 benda til þess að það takist að skila svipuðum afurðum, en margt er þó óráðið enn t.d. gæði fóðurs. Nyt hefur þó verið vel viðunandi og hefur ekki raskast þótt núna séu stöðugar breytingar og tilfæringar vegna rannsóknarstarfsemi.

Sæmilegur rekstur
Fræst upp úr framræsluskurði.

Rekstur félagsins gekk sæmilega á árinu 2023 þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður en verð á áburði og kjarnfóðri hélst hátt, nú eru horfur um heldur lægra verð á þessum liðum. Verðbólga hefur verið nálægt 7–10% allt árið, vaxtakostnaður á lánsfjármagni hefur hækkað verulega í takti við stýrivaxtahækkanir og kjarasamningar hafa hækkað og munu hækka verð á annarri vöru og þjónustu. Reynt var að minnka áburðarkaup án þess að það kæmi niður á uppskeru og fóðurgæðum, var einkum tvennt sem var forsenda þess. Annars vegar kaup á niðurlagningarbúnaði á haugsugu en niðurlagning tryggir að áburðarefni í mykjunni nýtast mun betur til grasvaxtar en með hefðbundinni yfirborðsbreiðslu.

Hins vegar hefur frá árinu 2016 verið borinn umtalsverður skeljasandur í flög sem hækkar sýrustig og plöntunæringarefni nýtast þar með betur (einkum fosfór). Búið þreytti frumraun sína í byggrækt í markverðu magni og mun það vonandi ganga betur næst. Heildartekjur félagsins á árinu voru 117,9 m. kr. (110,9), en gjöld fyrir fjármagnsliði voru 115,2 m. kr. (109,9 m. kr). Hagnaður félagsins á árinu eftir fjármagnsliði var 1,9 m. kr (0,4 m. kr.). Stjórn leggur til að hagnaður félagsins leggist við eigið fé þess.

Áætlun yfirstandandi árs gerir ráð fyrir tekjuafgangi þannig að halda megi áfram að byggja upp eigið fé félagsins, búa í haginn fyrir áframhaldandi endurnýjun á tækjum, búnaði og ræktun, ásamt því að efla fjárhagslegan styrk Hvanneyrarbúsins. Eigið fé félagsins jókst um 3,1 milljón kr. á árinu og nemur það nú 65,5 m. kr.

Kornuppskera haustið 2023

Miklar rigningar og bleyta og kuldi voru í maí og júní og tafðist jarðvinnsla fram eftir sumri þó bygg færi niður 3. maí 2023. Veturinn á undan hafði verið mjög kaldur og heyskapur hófst ekki fyrr en síðustu dagana í júní en rigningar töfðu líka. Eftir að fyrsta slætti lauk tók við mikill þurrkur það sem eftir lifði sumars og varð mun minni uppskera í öðrum slætti og grænfóðri og algjör uppskerubrestur í nýræktum sem var líka vegna þess hve seint var sáð í þær.

Skeljungur ehf. (Sprettur áburður) kom til móts við stórgallaðan áburð sem búið keypti af félaginu og bætti það tjón að nokkru leyti. Þrátt fyrir þetta var reksturinn í meginþáttum í samræmi við þær áætlanir sem stjórnendur félagsins lögðu upp með. Munaði um að þrisvar á rekstrarárinu hækkaði verðlagsnefnd búvara lágmarksverð á mjólk og stjórnvöld skipuðu sérstakan ráðuneytisstjórahóp til að greina afkomubrest í landbúnaði. Í kjölfarið var veitt 2,1 milljarði kr. aukalega í stuðningsgreiðslur til landbúnaðar, þeim fjármunum var einkum beint til skuldsettari búa og naut Hvanneyrarbúið ekki mikils af því.

Búið prófar JCB skotbómulyftara sem gengur á rafmagni.
Fjárfestingar og framfaramál
  • LbhÍ lét reisa girðingu á Mið-Fossum til að varna því að sauðfé frá Hesti hefði óheftan aðgang að ræktarlandi þar.
  • Ljós voru endurnýjuð í fjósinu og sá Lbhí um það. Þau eru orkusparandi LED ljós sem bæði er hægt að stilla ljósstyrk (Lux) og ljóshitastig (Kelvin) í. Þau eru keyrð með svokölluðu dalí-kerfi sem þýðir að í forriti í tölvu er hægt að hópa saman ákveðnum lömpum og stilla sjálfstætt á þeim ljósstyrk og ljóshitastig eftir klukku. Ljósgjafinn ehf. á Akureyri sá um að smíða kerfið.
  • LbhÍ keypti brunavarnarkerfi í fjósið frá Nortek ehf., eftir er að setja það upp. Það byggist á notkun svokallaðra línuskynjara sem skynja reyk.
  • Loftpressan hrundi og þurfti að kaupa nýja í skyndi. Gamla var í ábyrgð og var gert við hana á kostnað framleiðanda. Hún verður seld.
  • Ýmis búnaður vegna rannsókna, þar á meðal notaður heilfóðurvagn, flokkunarhlið og íhlutir fyrir þau.
  • Steypt var moðgryfja við fjósið, svo afgangshey og útmokstur er ekki lengur geymt innandyra.
  • Ekki var slegið slöku við í ræktun og fjárfest dyggilega þar eins og síðustu ár en um 30 hektarar voru til endurræktunar. Reyndur var nýr fræsibúnaður við hreinsun framræsluskurða sem reyndist vel og mun spara búinu talsverðar upphæðir í skurðahreinsun ef vel gengur.
Helstu rannsóknarverkefni

Hvanneyrarbúið tók virkan þátt í rannsóknastarfi Landbúnaðarháskólans, þá aðallega við jarðræktarrannsóknir en meira hefur líka verið um verkefni í fjósinu. Áframhald var á beitarrannsóknum mjólkurkúa og er fyrirhugað að halda því áfram. Ekki má heldur gleyma metanbásnum Mumma (C-Lock Greenfeed) sem mældi iðragerjun hjá mjólkurkúnum og núna er verið að skoða sérstaklega metanhamlandi fóðurefni.

Útlit er fyrir að Mummi og fjósið verði uppbókuð í slíkar rannsóknir næstu misseri og ár. Bæði hafa yfirvöld komið með fjármagn í frekari iðragerjunarrannsóknir og Landbúnaðarháskólinn sem hluti af þróunarverkefnum í þá veru. Skólinn og búið eiga í samstarfi við Veðurstofu Íslands og settu upp nýja fullkomna búveðurstöð á Hvanneyri á svokölluðum Ásgarðshól og jarðvegshitamæli í spildu sem nefnist Biafra. Stöðin komst í fullan rekstur á síðasta ári og er nýtt í veðurspár og starfsemi Landbúnaðarháskólans.

Metanbásinn Mummi.

Endurnýjun á aðstöðu

Stjórn leggur áfram áherslu á uppbyggingu á aðstöðu og búnaði Hvanneyrarbúsins til að viðhalda og bæta aðstöðu til rannsókna og tilrauna. Áfram verður sótt um styrki til að fjármagna viðunandi rannsóknaraðstöðu fyrir einstaklingsfóðrunar-, verkunar-, umhverfis-, aðstöðu- og velferðartilraunir tengdri nautgriparækt.

Í þeim efnum er rétt að minnast þess að í sumar verða liðin 20 ár frá því að Hvanneyrarfjósið var tekið í notkun. Landbúnaðarháskólinn hefur verið að efla aðstöðu sína í jarðrækt og rannsóknir á því sviði hafa farið vaxandi. Áfram verður hugað að aukinni sjálfbærni og samstarfsverkefnum við skólann á því sviði. Mikil gleðitíðindi bárust nýlega þegar tekin voru af öll vafamál um uppbyggingu jarðræktarmiðstöðvar á Hvanneyri en það er stórt skref fyrir jarðræktar- rannsóknir, kynbætur nytjajurta og íslenskan landbúnað í heild sinni. Það ber að nýta þann meðbyr til að beina sjónum að mikilvægi þess að fjárfesta í rannsóknum í mjólkurframleiðslu og nautgriparækt.

Þakkir til starfsmanna

Stjórn þakkar starfsmönnum búsins fyrir gott samstarf á árinu, auk Egils og Björns voru Birna Lind Hafdísardóttir og Ingólfur Árni Jakobsson ráðin í sumarstörf og aðrar afleysingar. Pétur Snær Ómarsson var svo aðal dráttarvélaekill búsins um sumarið en með breyttu sniði í verktöku.

Skylt efni: Hvanneyrarbúið

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...