Mynd 1. Breytingar á tankfrumutölu norsks mjaltaþjónabús þar sem almennt var gott júgurheilbrigði.
Mynd 1. Breytingar á tankfrumutölu norsks mjaltaþjónabús þar sem almennt var gott júgurheilbrigði.
Mynd / Marit Smistad.
Á faglegum nótum 4. júlí 2024

Frumutala á beitartíma

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hækkun á frumutölu stafar oftast af sýkingu í júgri en getur líka komið vegna álags, fóðurbreytinga og fleiri þátta. Þegar kýr fara á beit má alltaf búast við skammtímahækkun á tankfrumutölunni og líklega upplifa flestir kúabændur að frumutalan sé heldur hærri yfir beitartímabilið.

Frumutalan hækkar á sumrin af ýmsum ástæðum og séu margar kýr að geldast upp yfir sumartímann er þetta eðlileg þróun á frumutölunni enda hækkar hún með lækkandi nyt þar sem frumur skiljast út í mjólkina nokkuð óháð mjólkurmagninu. Þar af leiðandi hækkar hlutfallið með minni nyt. Þegar útihitinn eykst getur það einnig haft áhrif til hækkunar á frumutölu kúa, þar sem bakteríur fá betri umhverfisaðstæður til að fjölga sér og valda smitum.

Þar sem kúm er beitt í lotum og þá mögulega hýstar inn á milli eykst einnig smithættan á sumrin af sömu ástæðum og að framan voru nefndar enda er oft heitt og rakt í fjósum sem eru skilyrði sem bakteríur þrífast einkar vel við. Þessu til viðbótar geta flugur og önnur skordýr borið með sér smit auk þess að valda kúnum ónæði sem aftur getur leitt til streitu hjá kúnum og haft þannig hækkandi áhrif á frumutöluna. Erlendis er einnig oft talað mikið um hitastreitu en líklega er það ekki mikið vandamál á Íslandi. Þó má nefna að þegar hitastigið fer yfir 20 gráðurnar getur það haft áhrif á hámjólka kýr sérstaklega og kemur það þá fram sem meira slen, minna át og getur það þar með einnig haft áhrif til hækkunar frumutölu.

Búist við hækkun frumutölunnar

Fjölgun frumna getur einnig átt sér stað án þess að sýkingar komi við sögu og má þar nefna að beit kúa hefur í för með sér meiri hreyfingu og líkamlegt álag á júgrið. Frönsk rannsókn hefur t.a.m. leitt í ljós að kýr sem voru úti á milli mjalta og gengu allt að 10 kílómetra voru með frumutölu sem var 115.000 frumum/ ml hærri að jafnaði en kýr sem voru hafðar í fjósi. Innan tilraunahópsins var frumutalan töluvert hærri hjá kúm sem voru með einhverja sýkingu, eða í kringum 185.000 frumur/ml, en þær sem voru með heilbrigð júgur voru að jafnaði með hækkun á frumutölu sem nam 47.000 frumum/ml. Sem sagt hækkun varð óháð stöðu sýkinga og því beintengd við aukið álag sem fylgir því að vera úti á beit þar sem
kýr þurfa að hreyfa sig mikið. Þá má geta þess að sænsk rannsókn, sem skoðaði áhrif beitar á frumutölu kúa sem hýstar voru í básafjósum, sýndi að frumutalan tvöfaldaðist í hjörðinni fyrsta daginn sem kúnum var hleypt út en í kjölfarið lækkaði frumutalan smám saman fyrstu vikuna á beit en hélst þó nokkuð hærri en frumutala þeirra kúa sem voru ekki á beit. Í sænsku rannsókninni kom einnig í ljós líkt og í þeirri frönsku að kýr sem voru með hækkaða frumutölu, um 140.000 frumur/ml, þegar þeim var sleppt út voru í kjölfarið með mun hærri frumutölu en þær kýr sem voru frumulágar þegar þeim var sleppt á beit.

Hæg aðlögun er lykillinn

Hægfara aðlögun að beitartímabilinu getur dregið úr mestu hættunni á hækkun frumutölunnar og þó svo að það sé alltaf gaman að sjá kýrnar skemmta sér þegar þeim er hleypt út í haga í fyrsta skipti þá hefur þetta ferli mjög streituvaldandi áhrif á þær. Þess vegna er betra að setja þær fyrst út í gerði og svo hægt og rólega stækka við útisvæðið í stað þess að hleypa þeim út með sama hætti og oftast er gert. Frönsk rannsókn sýndi að kýr sem fengu góðan aðlögunartíma, fjóra daga alls, að útiveru og beit fengu minni hækkun á frumutölu en aðrar kýr.

Aðlögunin snýst ekki einungis um útiveruna sem slíka heldur einnig
aðlögun að fóðurskiptunum en hvort tveggja dregur úr streitu hjá kúnum.

Eftirlit með júgurheilbrigði

Þrátt fyrir hæga aðlögun að útiveru og beit má samt gera ráð fyrir einhverri hækkun frumutölunnar yfir beitartímabilið. Mynd 1 sýnir t.a.m. mælingar á tankmjólk norsks mjaltaþjónabús þar sem almennt er gott júgurheilbriði. Til þess að draga úr líkum á svona frumutöluskotum þarf því að fylgjast mjög vel með júgurheilbrigðinu. Auðvitað á að gera það hvort sem er allt árið um kring en sérstaklega ætti að fylgjast vel með ástandinu áður en kúm er hleypt út, svo bregðast megi snöggt við.

Taka mjólkursýni

Þegar grunur er um sýkingu þarf að taka mjólkursýni úr þeim kirtli sem grunur er að sé með sýkingu og senda í ræktun svo hægt sé að gera ráðstafanir, ef ástæða er til.

Stundum gerist það þó að ekkert kemur út úr ræktuninni. Í Noregi eru það 20% af sýnunum, sem berast rannsóknastofunni hjá TINE, sem ekki ræktast úr. Það er hátt hlutfall en hvað kann að skýra það?

Sýnin koma að öllum líkindum frá kúm sem hafa sýnilega breytingu á mjólk, hækkaða frumutölu eða með sjáanleg einkenni sýkingar á júgri eða spena. Það vekur því oft furðu að ekki sé hægt að greina sýkingarvaldinn. Skýringin á þessu er að líkindum sú að þegar bakteríurnar eru komnar í júgrið þá ræðst ónæmiskerfi kýrinnar á bakteríurnar meðal annars með því að beina miklu magni af hvítum blóðkornum að júgrinu. Með þessu móti nær kýrin sjálf að losna við margar sýkingar og bakteríurnar einfaldlega deyja og hverfa.

Júgurhreinsun á sér svo stað í talsverðan tíma á eftir og það getur verið allt frá klukkutímum upp í nokkrar vikur, eftir því hversu áhrifaríkt ónæmiskerfi kúnna er og hversu mikinn skaða bakteríurnar hafa valdið.

Skýringarmyndin sem hér er meðfylgjandi, og kemur frá IDF (International Dairy Federation) lýsir þessu vel. Gula svæðið sýnir tímabilið þegar bakteríurnar eru að koma sér fyrir og græna svæðið sýnir tímabilið þegar fjöldi baktería er í hámarki og í kjölfarið snarhækkar frumutalan vegna ónæmisviðbragðs kýrinnar. Bláa svæðið sýnir svo hvað hefur gerst eftir að ónæmiskerfið er í raun að takast á við bakteríurnar. Hér snarlækkar fjöldi bakteríanna og fer niður í það að vera vart greinanlegar. Ef mjólkursýni er sent inn á þessu tímabili gefa mælingar á því eðlilega engar niðurstöður og þar sem sýklalyf hafa aðeins áhrif á bakteríur, en ekki frumutöluna sem slíka, myndi meðferð með sýklalyfjum ekki hafa áhrif. Ónæmiskerfið hefur sem sagt í raun slegið á sýkinguna en frumutalan mælist enn há þrátt fyrir að bakteríurnar séu að mestu á bak og burt.

Skýringarmynd: Bakteríusýkingu (sýnileg eða dulin júgurbólga) í júgri (blá lína) fylgir ónæmissvörun (rauð lína)
frá kúnni. Skýringarmyndin er aðlögun að mynd úr riti IDF nr. 515/22.

Krónísk júgurbólga

Sumar kýr fá langvarandi júgurbólgu sem veldur varanlegum sveiflum í frumufjölda sem er táknað á skýringarmyndinni með rauðu punktalínunni. Þessar kýr geta verið með mjög óstöðugt frumutölumagn í sýnum í langan tíma án þess að júgurbólgubakteríur finnist. Vitað er að hefðbundin sýklalyf hafa ekki áhrif á þessar kýr og þær smita heldur ekki aðrar kýr af júgurbólgu.

Þær hafa þó áhrif til hækkunar á tankfrumumeðaltali búsins og ef þær valda of miklum skaða þar, þarf vissulega að takast á við vandamálið með því að taka þær úr framleiðslu.

Draga andann

Þrátt fyrir framansagt, um að fylgjast þurfi vel með júgurheilbrigðinu og bregðast rétt við eins fljótt og unnt er þá er um að gera að draga aðeins andann og gefa kúnum færi á því að takast sjálfar á við sýkingarnar.

Ónæmiskerfið er í raun ótrúlega öflugt og ræður við stóran hluta af sýkingum án þess að til þurfi að koma lyfjagjöf. Til þess að svo sé þurfa kýrnar að vera í góðu standi og eins og áður segir ekki með streitu af einhverju tagi. Ónæmiskerfið þarf nokkra daga til að
sinna starfi sínu þannig að ef kýrin hefur bara einhverjar breytingar á mjólk og háa frumufjölda en ekki með hita eða sjáanleg slappleikaeinkenni er oft nóg að senda inn spenasýni og meta ástandið í kjölfar greiningarinnar. Þannig geta bændur forðast óþarfa kostnað vegna meðferðar, sýklalyfjanotkunar og mjólkur sem þarf að hella niður.

Greinin byggir á frumheimildunum
„Celletal i beiteperioden“ e. Marit Smistad (Buskap 3/2023) og „Speneprøver uten funn av mastittbakterier“ e. Marit Smistad og Håvard Nørstebø (Buskap 7/2022).

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...