Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kýr í rannsóknafjósi á rotmassaundirlagi.
Kýr í rannsóknafjósi á rotmassaundirlagi.
Mynd / www. freewalk.eu
Á faglegum nótum 21. mars 2023

Framtíðarfjósið án legubása?

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Það dylst ekki nokkrum kúabónda, né öðrum sem fylgjast með þróun í mjólkurframleiðslunni í heiminum, að fjós hafa tekið miklum breytingum á liðnum áratugum og sérstaklega síðustu tveimur eftir að legubásafjós hófu raunverulega innreið sína á ný hér á landi um síðustu aldamót.

Þróunin skýrist m.a. af mjaltatækninni, þ.e. aukinni notkun mjaltaþjóna, en ekki síður að við vitum í dag að kýr þakka fyrir bættan aðbúnað með afurðasemi og endingu. Fjós eru nefnilega sambland af því að bændur reyna að búa gripum sínum eins góðar aðstæður og mögulegt er en á sama tíma að stýra gripunum svo það sé hægt að stunda nútímabúskap. Innréttingar í fjósum, en tilgangur þeirra er að stýra gripum bæði við legu og göngu, eru þannig eins konar málamiðlun enda ef ekki væru t.d. innréttingar á legusvæði kúa yrði það mjög fljótt drullugt og kýrnar óhreinar. Vera má að þeim þætti það ekki svo slæmt á þeim tímapunkti en við vitum að óhreinar kýr eru sjúkdómasæknar svo dæmi sé tekið. En hefur hið fullkomna fjós þá verið byggt nú þegar? Er legubásafjósið hið eina sanna? Þessu hefur vísindafólk velt upp mörgum sinnum enda eru til margar aðrar fjósgerðir þar sem kýr eru enn frjálsari en í legubásafjósi s.s. í hálm- eða sandstíufjósi.

En hvaða forsendur gilda um fjós framtíðarinnar? Í raun má draga þær saman í þrjár meginforsendur: fjósin þurfa að vera hagkvæm í byggingu, þau þurfa að stuðla að góðri dýravelferð og vera vinnusparandi. Þessu til viðbótar má nefna kröfuna um samræmi bygginga við umhverfi sitt og landslag, eitthvað sem aukin áhersla er á víða um heim nú um stundir.

Fyrir nokkrum árum stungu nokkrir vísindamenn, víðs vegar að úr heiminum, saman nefjum og fóru yfir þróun fjósgerða og fjósatækni og veltu fyrir sér hvað framtíðin bæri í skauti sér. Niðurstaðan hjá þeim var sú að í framtíðinni yrði lögð enn meiri áhersla, en nú, á dýravelferð og náttúrulegt atferli. Þá yrðu fjós betur hönnuð með tilliti til umhverfismála auk þess að endurvinnsla á alls konar úrgangi frá fjósum myndi koma til. Þegar horft væri til allra þátta töldu skýrsluhöfundar að fjós framtíðarinnar yrðu að líkindum án legubása þar sem kýr geta því gengið og legið algjörlega á eigin forsendum. Svona fjós eru í dag oftast með einhvers konar undirburði úr rotmassa, og þá oftast hálmi, taði, trjákurli eða pappírskurli en einnig eru til fjós eingöngu með sandi og þá eru einnig til sérstök tilraunafjós í dag með gegndræpum gólfum.

Steypan á útleið

Stundum er sagt að eigi að hlúa að dýravelferð nautgripa þá ættu þeir aldrei í raun að komast í snertingu við steinsteypu, en svo er þó raunin í flestum fjósum í heiminum enda ganga gripir oft á rimlum eða steyptum gólfum. Hið harða undirlag gerir það svo að verkum að stundum fá kýr helti vegna þessa og það verður væntanlega áhersla á að búa nautgripum betri aðstöðu í framtíðinni segir m.a. í skýrslunni.

Lausagöngufjós

Þó svo að við á Íslandi skilgreinum legubásafjós sem lausagöngufjós þá er það nafn líklega besta þýðingin á enska heitinu „Free Walk Housing“, en það er einmitt heitið á metnaðarfullu rannsóknaverkefni hjá Evrópusambandinu (sjá: www.freewalk.eu) sem hafði það að markmiði að þróa fjósgerð sem kæmi enn betur til móts við náttúrulegar þarfir kúa en hefðbundin legubásafjós. Þessi fjós bera með sér einkenni hefðbundinna hálmfjósa, þ.e. kýrnar geta hreyft sig frjálsar um stór svæði og með frjálst aðgengi að fóðri og vatni og þegar þær vilja geta þær lagt sig á þægilegt undirlag með æskilegri fjarlægð frá öðrum einstaklingum.

Ýmsar áskoranir

Því fylgja alls konar vandamál að leyfa kúnum að ráða sér algjörlega sjálfar og þar sem hver kýr hefur þetta 12-15 m2 til umráða að meðaltali. Þannig sýna sumar rannsóknir að svona fjós, sem eins og fyrr segir eru oftast með einhvers konar þykkum undirburði, losa oft meira magn af ammoníaki og hláturgasi (nituroxíði) og þetta eru áskoranir sem þarf að takast á við áður en svona fjósgerð myndi kallast sjálfbær. Þá eru oft í svona fjósum alls konar óæskilegar örverur sem tengjast aukinni tíðni á júgurbólgu eða hafa jafnvel borist yfir í hina framleiddu mjólk. Enn fremur er oft þónokkuð flókið að fá nægan undirburð og það á viðráðanlegu verði. Að síðustu má nefna algengt vandamál við fjósgerðir sem þessa en það er að ná að halda rotmassanum við, svo undirlagið haldist passlega þurrt allan innistöðutímann. Þetta á sérstaklega við á kaldari svæðum heimsins þar sem útihitastigið gerir það oft að verkum að illa gengur að ná réttri gerjun rotmassans. Með öðrum orðum þessi fjósgerð, þótt æskileg sé í raun, á nokkuð í land með að verða fyrsti valkostur kúabænda framtíðarinnar.

Gegndræp gólf

Eigi lausagöngufjósin að ná raunverulegri fótfestu í framtíðinni er talið nauðsynlegt að finna annars konar lausn á undirlagi kúa en notkun á rotmassa eða hreinum sandi. Hér er m.a. horft til þróunar hollenskra vísindamanna á sérstöku mjúku gólfi sem hleypir hlandi og öðrum vökva beint í gegn, svo gólfið er alla jafna nokkuð þurrt. Þessi sérstaka gerð af undirlagi er úr samsettu lagi ólíkra efna. Efst er gegndreypandi gúmmídúkur sem skilur að hland og skít, þar undir er svo legudýna sem er nógu mjúk svo kýrnar geti legið þægilega á henni en einnig nógu stíf til þess svo kýrnar sökkvi ekki of mikið niður í gólfið við gang. Þá er gólfið nógu sterkt til þess að sérstakur róbóti, sem hreinsar upp skítinn, geti keyrt vandræðalaust á gólfinu 4-6 sinnum á sólarhring. Undir öllu saman eru svo sérstakar rennur sem safna saman þvaginu og leiða í þar til gerða þvaggeymslu. Þessi gólfgerð er þegar í prófun í fjósum bæði í Hollandi, Slóveníu og Þýskalandi.

Kýr í rannsóknafjósi með hinu gegndræpa gólfi. Mynd: www. freewalk.eu

Fleiri fjósgerðir í þróun

Þróun fjósgerða er alls ekki lokið og er t.d. verið að skoða hvort hægt sé að útbúa fjós þannig að hægt sé að safna saman þeim lofttegundum sem myndast við mjólkurframleiðslu, þar á meðal ammoníaki og metani, og varðveita á einhvern hátt.

Nokkrar mismunandi hugmyndir um svona söfnunarkerfi hafa komið fram og ein tillagan er að setja eins konar tjald ofan við fóðurganginn sem gengir því hlutverki að fanga uppgufaðar lofttegundir og lyktarefni. Þaðan væri þeim svo dælt í gegnum einhvers konar lífsíu, t.d. viðarkurl, þar sem lofttegundirnar myndu bindast á ný. Aðrar hugmyndir ganga út á að gera fjósin algjörlega að lokuðu loftkerfi, þ.e. stjórna frá A-Ö því hvað fer inn og út af lofttegundum.

Vandamálið er þó að metan, sem er líklega mest umtalaða lofttegundin þegar mjólkurframleiðsla ber á góma, er í frekar lágum styrk í fjósum og því er ákveðið vandamál að safna því saman en það eru þó uppi hugmyndir um það hvernig mætti hreinsa metanið það vel að hægt væri að brenna því. Þá myndi það breytast úr því að vera talið neikvætt vegna umhverfisáhrifa yfir í að verða jákvætt vegna þess að nýta mætti það sem orkugjafa.

Hver sem fjósgerð framtíðarinnar verður, þá ætti öllum að vera dagljóst að endastöð er hvergi náð í dag og þróunin er í raun svo hröð að þegar kúabóndi tekur ákvörðun í dag um að fjárfesta í fjósi, þá er það í raun fljótt tæknilega úrelt.

Það fer þó fjarri að það sé ekki vel nýtanlegt, það er bara alltaf eitthvað nýtt að koma fram sem gerir fjós dagsins í dag úrelt á nokkuð stuttum tíma.

Heimild m.a. JDS: Future of housing for dairy cattle. Júní 2020.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...