Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Fasafóðrun á próteini í byrjun mjaltaskeiðsins hjá mjólkurkúm
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 10. desember 2021

Fasafóðrun á próteini í byrjun mjaltaskeiðsins hjá mjólkurkúm

Höfundur: Baldur Örn Samúelsson

Undirritaður hefur nýlokið meistaranámi í búvísindum við Háskólann í Árósum í Danmörku en lokaverkefnið fjallaði um próteinfóðrun mjólkurkúa í byrjun mjaltaskeiðsins.

Með aukinni áherslu á umhverfismál hefur krafan um bætta nýtingu á aðföngum og minnkun losunar umhverfismengandi efna út í umhverfið aukist. Umframfóðrun á próteini leiðir af sér aukna losun á köfnunarefni út í umhverfið og því mikilvægt að próteinfóðra í hæfilegu magni. Köfnunarefni í náttúrunni getur við ákveðnar aðstæður breyst í hláturgas sem er öflug gróðurhúsalofttegund.

Við burð hefst mjólkurframleiðsla hjá kúm sem eykur gífurlega orku- og próteinþarfir þeirra. Kýrnar ná ekki að innbyrða nægt fóður til að uppfylla næringarþarfirnar og þurfa að reiða sig á fitu- og vöðvaforða eigin líkama til að viðhalda mjólkurframleiðslunni. Þetta ástand reynir á kýrnar og er kallað neikvætt orku- og próteinjafnvægi.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að rannsaka neikvæða orkujafnvægið en nýlegar rannsóknir benda til þess að neikvæða próteinjafnvægið hafi jafnvel meiri neikvæð áhrif á kýrnar en neikvæða orkujafnvægið. Skýringin er talin vera sú að kýrnar eigi auðveldara með að ná sér í orku með því að brjóta niður fituvef frekar en prótein úr vöðvavef. Rannsóknir benda til þess að aukin próteinfóðrun fyrstu vikur mjaltaskeiðsins skili meiri mjólk en auki ekki við efnaskiptasjúkdóma.

Mynd 1. Meðalnyt kúnna í tilrauninni með öryggismörkum.

Í lokaverkefni mínu voru notuð gögn úr tilraun sem var framkvæmd við Háskólann í Reading í Englandi. Tilraunin byggði á þremur tilraunahópum með mismunandi próteinfóðrun en til einföldunar verður í þessari grein einungis rætt um tvo þeirra. Annar hópurinn var viðmiðunahópur og fékk hann sama fóðrið alla tilraunina sem innihélt það próteinmagn sem oftast er notað á dönskum búum (17 g AAT/MJ NEL (amínósýrur frásogaðar í mjógirni á nettóorku fyrir mjólkurframleiðslu)). Hinn hópurinn hafði þrjá fasa yfir tilraunatímann með mismunandi próteinmagni. Fyrsti fasinn, sem hófst fjórum dögum eftir burð, var í fjórar vikur með háum próteinstyrk (20 g AAT/MJ NEL), síðan sex vikna fasi í sama styrk og viðmiðunarhópurinn (17 g AAT/MJ NEL) og svo loks fimm vikna fasi með próteinið í lágum styrk (15 g AAT/MJ NEL).

Niðurstöðurnar voru ekki afgerandi en gefa vísbendingar um jákvæð áhrif af meiri próteingjöf í byrjun mjaltaskeiðsins. Mikil próteinfóðrun skilaði marktækt meiri mjólk samanborið við viðmiðunarhópinn í fyrsta fasanum og í öðrum fasanum þegar allar kýrnar fengu sama próteinmagn þá hafði tilraunahópurinn tilhneigingu til að mjólka meira. Í þriðja fasa þar sem tilraunahópurinn fékk fóður með minna prótein en viðmiðunahópurinn mjólkuðu þær samt jafn mikið (þær mjólkuðu tölulega meira en munurinn var ekki tölfræðilega marktækur). Það sást enginn munur á hlutfalli verðefna né fitumagni milli hópa en próteinmagn hafði tilhneigingu til að verða hærra í fyrsta fasa hjá tilraunahópnum sem fékk þá próteinríkt fóður en í hinum fösunum fannst enginn munur á milli meðferða. Það fannst ekki marktækur munur milli hópa á orkuleiðréttri mjólk (OLM) í þessari tilraun og skýringin kannski sú að fjöldi mælinga í uppgjöri hafi verið of fáar. Einn galli á framkvæmd tilraunarinnar var sá að það liðu fjórir til fimm dagar frá burði þangað til að kýrnar fengu tilraunafóðrið en margt bendir til þess að kýrnar þurfi að fá þetta aukna prótein strax eftir burð. Það gæti skýrt af hverju við fengum ekki eins afgerandi niðurstöður og búist var við. Í byrjun mjaltaskeiðsins getur amínósýrusamsetning fóðursins einnig verið mikilvæg. Fóðrið sem tilraunahópurinn fékk var með heldur minna af amínósýrunni lýsíni en viðmiðunarhópurinn. Rannsóknir benda til þess að við niðurbrot á vöðvavef í amínósýrur, til að uppfylla próteinþarfir mjólkurkúnna vanti oft lýsín, sé miðað við amínósýrusamsetningu mjólkur. Íslenska fiskimjölið kemur sterkt hér inn sem góður lýsíngjafi.

Að fóðra kýr með því að gefa mikið prótein fyrsta mánuðinn eftir burð og trappa síðan niður próteinstyrk fóðursins í þrepum bendir til að nýting próteins verði betri. Hægt sé að komast upp með að gefa minna prótein út mjaltaskeiðið með tilheyrandi minni losun á köfnunarefni út í umhverfið. Prótein er oftast dýrara fóðurefni en orka og ætti þessi aðferð að skila meiri mjólk og ódýrari fóðrun en flóknari umönnun fyrir nýbærur. Þær eru einn viðkvæmasti hópurinn í hjörðinni og því mikilvægt að fylgjast vel með þessum gripum.

Mynd 2. Meðal próteinframleiðsla kúnna í tilrauninni með öryggismörkum.

Allar tilraunir með fasafóðrun á próteini hafa verið framkvæmdar með hópaskiptingu og heilfóðrun. Þetta er erfitt í framkvæmd á Íslandi vegna smæðar búa auk þess sem heilfóðrun er ekki algeng fóðrunaraðferð á Íslandi. Hins vegar er mjög algengt að kýr fái kjarnfóður í kjarnfóðurbásum eða mjaltaþjónum og þar er vel hægt að útfæra mismunun á próteinfóðrun með mismunandi kjarnfóðurblöndum. Í nútíma fóðrunarbúnaði er hægt að setja upp sjálfvirkar fóðurtöflur sem opnar góða möguleika á að finna útfærslu fyrir fasafóðrun á próteini. Fasafóðrun kallar á að hafa að lágmarki tvö kjarnfóðursíló, annað undir hápróteinblöndu og hitt undir lágpróteinblöndu. Í miðjupróteinfasanum má gefa báðar tegundir samtímis til að ná réttu próteinmagni. Mikill fjárhagslegur ávinningur er af því að hafa möguleika á að gefa tvær kjarnfóðurtegundir þar sem hægt er að hafa próteinríkari (hátt AAT) og gæðameiri blöndu fyrir nýbærur og hámjólka kýr en ódýra grunnblöndu fyrir kýr komnar lengra fram á mjaltaskeiðið sem í flestum tilvikum er meirihluti hjarðarinnar.

Á tímabilinu um og eftir burð eru kýr einstaklega viðkvæmar. Það er mikið álag á þeim að byrja mjólkurframleiðsluna og jafna sig eftir burðinn. Það þarf því að gera vel við þær á þessum tíma til þess að tryggja að þær fari sem best inn í mjaltaskeiðið, en fóðrun og aðbúnaður er þar lykilatriði. Erlendis er töluvert verið að rannsaka þetta tímabil varðandi próteinþarfirnar til að auka skilninginn á þörfum kúnna á þessu viðkvæma tímabili. Kröfur um betri nýtingu á köfnunarefni vegna umhverfissjónarmiða munu fyrr en síðar einnig aukast töluvert og er því mikilvægt að huga strax að bættri nýtingu á próteini í fóðri.

Baldur Örn Samúelsson
fóðurfræðingur.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...