Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Kúabúið Nørupgård í Kolding er með 650 árskýr og tíu starfsmenn.
Kúabúið Nørupgård í Kolding er með 650 árskýr og tíu starfsmenn.
Á faglegum nótum 12. apríl 2024

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2024 - Annar hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Kvægkongres 2024, árlegt og einkar áhugavert fagþing hinnar dönsku nautgriparæktar var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarin ár voru þar flutt ótal erindi sem eiga mörg hver erindi við íslenska bændur og annað fagfólk í nautgriparækt.

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 13 málstofur með tugum erinda. Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var fyrsti hluti umfjöllunar um fagþingið og verður hér haldið áfram með hana og gripið niður í nokkur erindi sem voru flutt í málstofunum um Góðan vinnustað og Dýraheilbrigði og -velferð.

3. Góður vinnustaður

Dönsk kúabú í mjólkurframleiðslu eru þau stærstu að jafnaði í Evrópu og meðalbúið með um 230 árskýr. Fyrir vikið eru búin orðin það stór að flestir bændur eru með starfsmenn í vinnu á búum sínum. Að fara úr því að vera með eingöngu fjölskyldumeðlimi á búunum og yfir í ráðna starfsmenn krefst aðlögunar og oft nýrra vinnubragða hjá flestum.

Eitt af helstu vandamálum kúabúanna er einnig að halda í starfsfólkið, enda er tímafrekt og í raun kostnaðarsamt að kenna nýjum starfsmönnum verk- og vinnulag á kúabúum.

Af þessum sökum er ávallt gefinn gaumur að þessu viðfangsefni á danska fagþinginu og voru í ár alls flutt fimm erindi í þessari málstofu.

Á Nørupgård er stuðst við staðlaða verkferla til að gera vinnuna einsleita og afmarkaða.

Stöðluð vinnubrögð

Reynslan sýnir að ekki er nóg að greiða góð laun, en algeng laun á dönskum kúabúum eru 450-500 þúsund íslenskar krónur fyrir 37 tíma vinnuviku auk húsnæðis en fæði er sjaldnast innifalið. Bústjórar eru oft að fá rúmlega 30.000 danskar krónur auk yfirvinnu, eða um 600.000 íslenskar krónur. Þrátt fyrir að launin séu vel yfir lágmarkslaunum í Danmörku er alltaf þónokkuð um að fólk staldri stutt við og um þetta fjallaði m.a. erindi Michael Lyrhøj Mortensen, mjólkurgæðaráðgjafa hjá SEGES og Simone Marschall sem er bústýra á kúabúinu Nørupgård þar sem eru 650 árskýr og 10 starfsmenn.

Í framsögu þeirra kom m.a. fram að á búinu skipti mestu máli að stunduð séu eins stöðluð vinnubrögð og hægt er, en á búinu er 50 kúa mjaltahringekja frá GEA. Við hverjar mjaltir eru þrír starfsmenn og sá fjórði sér um að koma kúnum að og frá hringekjunni. Hinir sinna öðrum verkum eða eru í fríi, en búið er sérstakt að því leyti að utan fjóss sjá verktakar nánast um alla vinnu. Fyrir vikið fer um 80% vinnutíma starfsmanna búsins í vinnu sem tengist mjöltum. Simone greindi frá því að búið notast við staðlaða verkferla, kallað SOP, sem ná yfir alla helstu vinnu á búinu og niður í minnstu smáatriði eins og hvernig á að sækja kýr til mjalta.

Hver starfsmaður hefur afmarkað verksvið og vegna stöðlunar á vinnubrögðum er lítið um vandamál. Þau sögðu mikilvægt að vera með hvatakerfi á kúabúum af þessari stærð og því eru haldnir töflufundir aðra hverja viku þar sem farið er yfir helstu niðurstöður búsins frá síðasta töflufundi, farið yfir tímamælingar og annað slíkt sem hægt er að styðjast við. Þetta sögðu þau lykilinn að því að gera vinnuna bæði einsleita frá degi til dags og til að afmarka hana. Skilaði það sér í því að bæði er árangur búsins góður og starfsmennirnir ánægðir.

Gervigreind á kúabúum?

Annað áhugavert erindi í þessari málstofu flutti Mads Lorentzen en hann er sérfræðingur í gervigreind. Hann fjallaði m.a. um uppruna gervigreindar og hvernig hún hefur verið að þróast ört allra síðustu árin.

Enn sem komið er, er gervigreind lítið notuð í landbúnaði en Mads spáir því að ekki muni líða á löngu þar til bændur geti notað hana sér til halds og trausts við búskapinn. Sagði hann að bændur ættu ekki að óttast gervigreind og að hún myndi seint eða aldrei taka frá þeim störf en varaði þó við því að fara þurfi vel með þetta nýja og öfluga verkfæri.

Þetta væri nefnilega fyrst og fremst verkfæri til að auðvelda okkur tilveruna.

En hvernig getur gervigreind mögulega nýst í landbúnaði? Jú, hann gat sér til um það að sérstaklega væri eftirlit með gripum og tölulegum upplýsingum eitthvað sem gervigreind gæti klárlega séð um og aðstoðað bændur við. Þannig væru þegar í dag til öflugur hugbúnaður sem „fylgist“ með gögnum kúabúa og les af t.d. hreyfiskynjurum á kúm. Þegar gögnin eru svo greind af búnaðinum getur bóndi fengið upplýsingar eða viðvaranir ef eitthvað hefur farið úrskeiðis eða ef eitthvað bendir til þess að svo geti gerst. Gervigreindin getur stórbætt þessa verkferla með því að læra af reynslunni og endurmeta hvernig næst megi ná betri árangri. Þannig getur gervigreind leyst flókin verkefni þar sem margs konar gögn þarf að nýta til að fá sem réttasta mynd af ástandinu. Tók hann t.d. dæmi um afurðagögn frá kúm, upplýsingar frá hreyfiskynjurum, hljóðskynjurum og myndavélum sem má samkeyra inn í gervigreindina og fá þannig enn virkara eftirlit með gripunum en núverandi hugbúnaður ræður hreinlega við. Gervigreindin gæti t.d., betur en starfsfólk búanna, haldið utan um gögn og upplýsingar einstakra gripa og gefið upplýsingar þegar gripirnir víkja út frá sínu hefðbundna daglega mynstri. Með gervigreind í farteskinu gætu bændur því mögulega bætt enn frekar rekstur
sinn og náð betri árangri.

4. Dýraheilbrigði og -velferð

Sem fyrr var málstofan um Dýraheilbrigði og -velferð fyrirferðarmikil enda mikilvægt efni. Alls voru sjö erindi flutt auk þess sem haldinn var vinnufundur bænda og sérfræðinga um klaufsjúkdóma.

Kraftmiklar kvígur

Með betri erindum þessarar málstofu, að mati greinarhöfundar, var erindi Bodil Højlund Nielsen, sem er dýralæknir, og Lars Arne Hjort Nielsen, sem er landsráðunautur hjá SEGES. Þau fóru yfir gögn um kvígur og afdrif þeirra í dönskum fjósum. Þar kom m.a. fram að þegar gögn allra kúabúa landsins eru skoðuð þá kemur í ljós að ekki nema 81,2% fæddra kvíga bera kálfi. Hinum er annaðhvort slátrað (8,8%) eða hafa verið aflífaðar/drepist af einhverjum ástæðum (10,1%). Einkar áhugaverðar tölur en þær byggja á upplýsingum um 268.469 fæddar kvígur í Danmörku.

Fram kom að meðal burðaraldur hjá kvígum í Danmörku eru 24,7 mánuðir, sem er vel yfir því sem er markmið flestra kúabænda, enda miða flestir við að kvígur beri 22-23 mánaða gamlar. Þessir umfram mánuðir, auk affalla á uppeldisskeiðinu, leiðir til aukins kostnaðar búanna. Vegna þessa er skýrsluhaldskerfið sett sérstaklega upp svo bændur geti betur áttað sig á því hvar eitthvað fer úrskeiðis og hvar sækja megi fram með úrbætur sem skili mestum ávinningi á hverju stigi, þ.e. hvernig megi minnka líkur á dauða, á því að slátra þurfi grip eða hvernig draga megi úr uppeldiskostnaði með því að fá kvígurnar til að bera yngri. Hjá Holstein kvígum er miðað við að þær vegi um 400 kíló við 14 mánaða aldur og við sæðingu svo þær verði nógu þroskamiklar við fyrsta burð en fram kom að mælingar á 13.100 kvígum sýni að of margir kúabændur nái þessu ekki fyrr en við 15-16 mánaða aldur. Þarna megi því sækja þónokkuð hagræði svo dæmi sé tekið.

Þá ræddu þau einnig endingu kúa en meðalending kúa í Danmörku er rétt rúmlega þrjú mjaltaskeið. Þau köfuðu niður í gögnin sem sýna greinilega að þau bú sem hafa kýr sem endast að jafnaði lengur eru með mun betri afkomu. Fram kom að 10% bestu búanna, í samanburði við landsmeðaltalið, eru að framleiða hvert kíló mjólkur töluvert ódýrara en hin búin og munar þar um 5 danska aura á hvert framleitt kíló, eða um 1 íslenskri krónu. Fyrir danskt meðalbú er þetta lægri framleiðslukostnaður sem nemur um 2,8 milljónum íslenskra króna á ári! Til þess að ná að auka endingu kúa sögðu þau fyrst og fremst að bændur eigi að horfa til þess að fá kraftmiklar og stórar kvígur inn í hjörðina og á réttum aldri. Þá þurfi, sem kemur vart á óvart, að vera með öflugar fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart júgurbólgu og klaufsjúkdómum (sem eru að líkindum algengari í Danmörku en hér á landi).

Afdrif danskra kvíga frá fæðingu að fyrsta burði.

Lenging mjaltaskeiðsins

Annað fínt erindi, af mörgum góðum, var frá háskólanum í Árósum og var flutt af Mogens A. Krogh og Vivi M. Thorup en þau starfa bæði á búfjár- og dýralæknasviði háskólans. Þau skoðuðu sérstaklega gögn frá kúabúum þar sem bændurnir hafa markvisst unnið að því að lengja mjaltaskeið kúnna, þ.e. stefna ekki að því að kýrnar beri árlega heldur bíða lengur með að sæða kýrnar en flestir bændur landsins gera. Ýmislegt bendir til þess að þessi leið geti verið skynsöm en líklegt er að þetta hafi í raun fyrst og fremst byrjað vegna þess að kýr héldu ekki við sæðingum framan af mjaltaskeiðinu og seinkuðu sér af þeim sökum.

Að sögn þeirra sem stunda það að lengja mjaltaskeiðið þá geta kostirnir verið margvíslegir s.s. færri burðir á hverju búi sem þýði um leið færri möguleg vandamál. Enn fremur eru þá færri geldneyti í uppeldi og vinnan er almennt minni fyrir vikið á svona búum. Kýr sem eru sæddar síðar á mjaltaskeiðinu halda einnig betur við sæðingunum og þá er auðveldara að gelda kýrnar upp, þar sem nyt þeirra er yfirleitt lægri þegar komið er að geldstöðu en þeirra kúa sem bera árlega svo dæmi sé tekið. Á móti komi að hærra hlutfall kúa er yxna og það getur leitt til slysa og nytlækkunar auk þess sem erfðaframfarir á búunum verða hægari en á öðrum búum. En þessar fullyrðingar allar skoðuðu þau Mogens og Vivi sérstaklega og gerðu samanburð á kúabúum með mismunandi áherslur þegar kom að lengd mjaltaskeiðs kúa.

Í ljós kom, þegar gögn 45 búa voru skoðuð, að ekki var hægt að finna haldbær rök fyrir því að lengja mjaltaskeiðið þegar allt er talið með, þ.e. sé horft til framleiðslustefnu búsins í heild. Kýr af Holstein kyni, með lengra mjaltaskeið, haldi vissulega 8% betur við fyrstu sæðingu en á móti komi önnur atriði eins og hærra hlutfall of holdmikilla kúa í geldstöðu. Þá er heildarframleiðsla mjólkur áþekk þar sem kýr með styttra mjaltaskeið eru með hærri dagsnyt en kýr með lengra mjaltaskeið. Heildaráhrifin á 305 daga framleiðslu er því vart mælanleg. Þá fundust engin merki um færri sjúkdóma á búum með lengra mjaltaskeið né fundust merki um að kýr með lengra mjaltaskeið endist í raun lengur en kýr þar sem mjaltaskeiðið er haft styttra. Þau Mogens og Vivi bentu aftur á móti á það að innan búanna gæti verið ákjósanlegt að velja úr kýr sem hafi langt mjaltaskeið og aðrar ekki, þ.e. vera með breytilega stefnu í þessum málum innan bús. Þau sögðu gögnin benda til þess að gögn um kýr á fyrsta mjaltaskeiði sýni að það geti verið kostur að lengja mjaltaskeið þeirra viljandi en þó ekki þeirra sem eru nytlágar. Bændur ættu að velja nythærri kýr á fyrsta mjaltaskeiði í þann flokk sem skuli haldið síðar. Þá ætti að horfa til afurðasemi eldri kúa og ef þær hafa verið afurðamiklar á síðari hluta mjaltaskeiðs, og byrji það næsta af krafti líka, þá ættu bændur að velta því fyrir sér að lengja mjaltaskeiðið viljandi. Þetta eigi þó einungis við um kýr sem hafa verið heilsuhraustar.

Í næsta tölublaði Bændablaðsins verður lokið við umfjöllun um danska fagþingið. Fyrir áhugasama má benda á að flest erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á vefslóðinni: https://www.kvaegkongres.dk/praesentationer/.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...