Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ending kúnna
Á faglegum nótum 14. mars 2024

Ending kúnna

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt.

Ending mjólkurkúnna er eitthvað sem fær stöðugt meira vægi og athygli í nútíma mjólkurframleiðslu.

Guðmundur Jóhannesson.

Það að kýrnar endist vel hefur áhrif á rekstrarafkomu auk þess sem aukin ending minnkar sótspor nautgriparæktarinnar. Allt bendir til þess að það hafi verið ákaflega skynsamleg ákvörðun að taka endingu inn í kynbótamarkmið nautgriparæktarinnar á sínum tíma en eðlilega tekur tíma að sjá áhrifin koma fram.

Einkunn fyrir endingu var fyrst reiknuð hérlendis 2003 og byggði matið á meistaraverkefni Baldurs Helga Benjamínssonar. Notað var svokallað feðralíkan (e. sire model) sem þýddi að einungis nautin fengu einkunn fyrir hversu vel dætur þeirra entust í framleiðslu en til grundvallar var lagður dagafjöldi frá 1. burði til förgunar. Meðal niðurstaðna Baldurs Helga var að ending hefur tengsl við afurðir á þann hátt að því minna sem kýrnar mjólka því minni er endingin. Þetta hefur mest með val bænda að gera, eðlilega farga menn kúm sem lítið mjólka.

Annar þáttur sem í ljós kom að ræður miklu um endingu kúnna er aldur þeirra við 1. burð. Þannig endast kýr sem bera 1. kálfi eldri skemur en þær sem eru yngri við 1. burð og virðist eins mánaðar aldursaukning stytta endingu um 2%. Meðalaldur við 1. burð er nú ríflega 27 mánuðir og því væri hægt að auka endingu kúnna um 6% með því að láta þær bera 24 mánaða. Aðrir þættir sem Baldur Helgi fann að hafa einkum áhrif á endingu eru júgurhreysti, frjósemi og mjaltir auk þess sem ákveðnir þættir í byggingu höfðu áhrif. Eiginleikar eins og júgur- og spenagerð auk þess sem boldýpri kýr og kýr með breiðar malir virðast endast skemur. Þetta er í takti við niðurstöður erlendis frá og sýnir okkur að við eigum ekki að stefna að ræktun mjög stórra kúa en það sýnir sig einnig að stórar kýr mjólka ekki endilega meira en þær sem minni eru auk þess sem þær þurfa meira fóður til viðhalds.

Haustið 2022 var líkanið fyrir endingu endurskoðað og reiknuð ending fyrir 1., 2. og 3. mjaltaskeið. Jafnframt eru nú að hámarki 365 dagar taldir með á hverju mjaltaskeiði og dagarnir einungis færri ef kúnni er fargað á mjaltaskeiðinu sjálfu. Með þessu lagi er þeim kúm sem festa fang fljótt eftir burð ekki refsað og kúm sem halda seint er ekki hampað. Jafnframt var aðferðum breytt þannig að í stað feðralíkans eru nú notuð fjölbreytulíkön þannig að allir gripir fá endingarmat en ekki bara nautin eins og áður. Fyrir eiginleikann endingu er birt mat fyrir 3. mjaltaskeið, þ.e. daga frá 1. burði að lokum 3. mjaltaskeiðs og ending vegur 10% í heildareinkunn eða kynbótamarkmiði stofnsins.

En hvernig skyldi svo endingin hafa þróast? Eru kýrnar að endast betur en áður eða hefur þróunin verið á verri veg? Ef við lítum á erfðaþróun (sjá mynd) þá er hún að þróast á jákvæðan hátt, þ.e. kynbótamat fyrir endingu hefur farið hækkandi. Það þýðir að þau naut sem nú eru í notkun eiga að gefa endingarbetri kýr en eldri naut og við ættum að merkja breytinguna hjá kúnum, þær eiga þá að endast betur en þær gerðu.

Mynd. Erfðaþróun endingar í íslenska kúastofninum.

Ef við skoðum hvernig mál hafa þróast í stofninum í heild kemur í ljós að á undanförnum fimm árum hefur aldur við 1. burð heldur lækkað þó hann sé enn töluvert of hár (sjá töflu). Þannig voru kvígurnar að meðaltali 845 daga gamlar við 1. burð árið 2019 en í fyrra (2023) var þessi tala komin niður í 816 daga sem jafngildir um 27, 2 mánuðum. Meðalaldur kúnna við förgun var árið 2019 1.854 dagar en 2023 var þessi tala komin upp í 1.879 daga. Ending kúnna hefur því á sl. fimm árum aukist um 25 daga og þær bera nú að meðaltali 3,0 sinnum í stað 2,9 sinnum áður á sínu æviskeiði. Á sama tíma hafa afurðir aukist og meðalkýrin mjólkar nú 9,5 kg hvern dag sem hún lifir eða 17.817 kg á sinni ævi. Árið 2019 voru sambærilegar tölur 8,8 kg/dag og 16.349 kg æviafurðir. Þarna kemur tvennt til, kýrnar mjólka meira og þær endast lengur.

Aldur við 1. burð og förgun, meðalfjöldi burða og æviafurðir.

Raunin er því sú að ending mjólkurkúnna fer vaxandi og er það vel. Áfram bendir þó ekkert annað til þess en að sömu þættir ráði endingu kúnna, þ.e. afurðageta, júgurhreysti, frjósemi og byggingareiginleikar.

Þeir þættir sem hafa nokkuð áreiðanlega aukið endingu kúnna eru kynbætur og útbreiðsla mjaltaþjóna en óneitanlega er minna álag á júgur kúa sem mjólkaðar eru oft á sólarhring.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...