Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ingvar Guðni Ingimundarson, kjúklingabóndi á Vatnsenda, og Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, við undirritun samningsins.
Ingvar Guðni Ingimundarson, kjúklingabóndi á Vatnsenda, og Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, við undirritun samningsins.
Mynd / smh
Líf og starf 30. október 2020

Tvö stór eldishús rísa á næsta ári á Vatnsenda í Flóa

Höfundur: smh

Á Vatnsenda í Flóahreppi hafa orðið kynslóðaskipti, en Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson tóku árið 2015 við kjúklingabúskapnum af Ingimundi Bergmann og Þórunni Kristjánsdóttur sem höfðu byggt upp Kjúklingabúið Vor. Vinna við byggingagrunna að tveimur nýjum 877 fermetra eldishúsum er komin af stað og þau Eydís og Ingvar sömdu nýverið við Reykjagarð um frekara samstarf um kjúklingaeldi.

Ingimundur og Þórunn hófu kjúklingaeldi árið 1978 og er búið því með þeim elstu í greininni. Ingvar segir að foreldrar hans búi enn á Vatnenda og þar hjálpist allir að.  „Það er rétt að krafa um fáa fugla á fermetra hefur haft áhrif á það að við ráðumst í þessa stækkun,“ svarar Ingvar. „Við reiknum með að húsin verði komin í rekstur í vor, en það má segja að þetta hafi verið í undirbúningi með hléum frá 2014. Þegar húsin verða komin í fullan rekstur verður framleiðslan úr þeim um 360 tonn á ári. 

Húsin verða gerð úr steinsteyptum einingum. Veggir og gólf verða steinsteypt en þökin verða gerð úr stálburðarvirki og klædd með steinullar samlokueiningum. 

Húsin verða vel búin hvað varðar allan búnað.“

Þegar hann er spurður hvað verði um það mikla magn af kjúklingaskít sem komi frá slíku búi, segir hann að það sé útbreiddur misskilningur að það komi mikill úrgangur frá kjúklingum. „Staðreyndin er sú að það kemur sáralítill skítur frá kjúklingaeldi ef það er borið saman við framleitt magn afurða. Kjúklingaskítur er hins vegar afskaplega góður áburður og verðmætur þeim sem þurfa áburð á tún. Einnig er gott að nota skítinn til landgræðslu,“ segir Ingvar. 

Eftir undirritun samningsins var farið í skoðunarferð að byggingasvæðinu. Ingimundur Bergmann Garðarsson, Þórunn Kristjánsdóttir, Gréta Sóley Ingvarsdóttir, Eydís Rós Eyglóardóttir, Ingvar Guðni Ingimundarson, Guðmundur Svavarsson, Magnús Huldar Ingþórsson, Ársæll Hafsteinsson og Ingveldur Ýr Jónsdóttir.

Uppbygging í sunnlenskum sveitum

Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, segir að samningurinn gangi út á að ramma enn frekar inn það góða viðskiptasamband sem búið sé að byggja upp á liðnum árum. „Þegar búið verður komið í fulla notkun mun það verða þriðja til fjórða stærsta búið sem framleiðir fyrir okkur, um þriðjungur af stærð Ásmundarstaða sem er stærst. 

Samningurinn felur í sér að Kjúklingabúið Vor elur upp kjúklinga og skilar þeim í formi afurðainnleggs til Reykjagarðs, sem vinnur og markaðssetur afurðirnar undir sínum merkjum. Þýðingin fyrir Reykjagarð er sú að með honum næst framleiðsluaukning án þess að Reykjagarður þurfi sjálfur að fjárfesta í og reka eldishús og búnað. Jafnframt felst í þessu ákveðin áhættudreifing í starfseminni. Stærsti ávinningurinn eru svo auðvitað sá að með þessu skjótum við styrkari stoðum undir búskapinn á Vatnsenda og stuðlum að uppbyggingu í sunnlenskum sveitum.  Afurðaverðið er bundið í samningnum út frá ákveðnum forsendum,“ segir Guðmundur.

Bjartsýni á áframhaldandi vöxt

„Þótt rekstrarumhverfi alifuglabúskapar sé erfitt um þessar mundir vegna heimsfaraldurs COVID og aukins tilkostnaðar af ýmsu tagi erum við bjartsýn á að neysla á íslenskum kjúklingi muni áfram fara vaxandi.  Við finnum fyrir vaxandi velvild í garð íslenskrar framleiðslu og viljum geta svarað kalli markaðarins þegar við komumst út úr núverandi ástandi.  Við teljum því sóknarfæri til staðar í greininni og viljum leiða þá sókn líkt og undanfarin ár.

Miklar kröfur eru gerðar til íslenskra kjúklingabænda með tilliti til sjúkdómavarna, lyfjanotkunar, aðbúnaðar, eftirlits og fleiri þátta.  Hvort sem litið er til búanna sjálfra eða afurðastöðvanna eru þau örsmá í hinum verksmiðjuvædda alifuglaiðnaði sem tíðkast erlendis. Þrátt fyrir það búum við að mörgu leyti við strangari kröfur og höfum ekki möguleika á að nýta okkur dýrar verksmiðjulausnir við búskap og úrvinnslu afurða. Á móti kemur að hægt er að fullyrða að við stöndum nær hinum eiginlega búskap og höfum auga á öllum ferlinum, allt frá bónda til búðar. Þannig eigum við auðveldara með að tryggja gæði og heilnæmi afurðanna á öllum stigum,“ segir Guðmundur. 

Lífland leggur til búnaðinn

Búnaðurinn er í tvö eldishús sem hvort um sig tekur um 14.000 fugla. Lífland er söluaðili búnaðarins en hann kemur frá einum stærsta og virtasta framleiðanda slíks búnaðar í heiminum, Big Dutchman í Þýskalandi sem býður upp á heildarlausnir í hús fyrir allt er viðkemur eldisfuglum, varphænum og svínaeldi. 

Búnaðurinn að Vatnsenda samanstendur af fuglavogum, fóðurkerfi, drykkjarlínum, loftræstikerfi, lýsingu, hitablásurum, iðnaðartölvu og viðvörunarkerfi. Iðnaðartölvan stýrir af mikilli nákvæmni öllum aðgerðum varðandi velferð fuglanna s.s. fóðurgjöf, lýsingu, hitastig, brynningu og loftræstingu í eldishúsunum. 

Sérstakir skynjarar nema koltvísýring, hita- og rakastig ásamt ammoníaksmagni í rauntíma. Þá heldur hún utan um allar mikilvægar upplýsingar er varða áðurnefnd atriði. Einnig kemur með kerfinu sérstakur hugbúnaður, Big Farm Net, sem  gerir notanda kleift að fylgjast með á tölvuskjá hvernig kerfin í húsunum eru að virka og heldur utan um og skráir allar mikilvægar upplýsingar um velferð fuglanna og hvernig þeir dafna. 

Stofnfuglaræktun

Ferill kjúklingaframleiðslunnar á Íslandi, áður en kjúklingurinn kemur í eldishúsin, er fastmótaður og þróaður. Hann gengur undir heitinu stofnfuglaræktun, þar sem kjúklingaafbrigðið Ross 308 er ræktað. Það byrjar hins vegar allt með framleiðslu eggja í Svíþjóð. 

Að sögn Magnúsar Huldars Ingþórssonar, framleiðslustjóra hjá Reykjagarði, er ræktunartegundin notuð um allan heim. „Ross er bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar fyrir Evrópu í Skotlandi. Aviagen er síðan framleiðslufyrirtæki Ross, staðsett í Svíþjóð. 

Félag kjúklinga- og eggjabænda á og rekur fyrirtækið Stofnunga  á Hvanneyri sem flytur meðal annars inn eggin frá Aviagen. Eggin koma í flugi til Íslands þar sem þau fara beint í sóttvarnarstöð Stofnunga á Hvanneyri.  Stöðin er undir ströngu eftirliti Matvælastofnunar. Í sóttvarnarstöðinni á Hvanneyri eru eggin klakin.

Þegar egg eru klakin eru ungar kyngreindir.  Það er gert þrátt fyrir það að eggin séu þegar greind í hana og hænulínuegg frá framleiðanda. Þessi greining fer fram af erlendum aðilum þar sem fagþekking á þessu sviði er ekki til hér á landi. Þetta er gert til að tryggja rétt hlutföll kven- og karlfugla í ræktuninni,“ segir Magnús Huldar um fyrstu stig stofnfuglaræktunarinnar.

Dagsgamlir í einangrunarstöðvar

Magnús segir að frá Hvanneyri fari ungarnir dagsgamlir í einangrunarstöðvar þar sem þeir eru í sóttkví í 9 til 12 vikur. Þá sé tekið úr þeim blóðsýni á vegum Matvælastofnunar sem lætur  skima  fyrir algengustu fuglasjúkdómum í Evrópu. „Með þessum hætti hefur Ísland verið varið fyrir alifuglasjúkdómum í áratugi. Úr einangrunarstöðvum fara fuglarnir 20 vikna í varphús. Þessi fugl hefur varp við 24 vikna aldur og er í daglegu tali kallaður stofnfugl eða foreldrafugl. Egg þessara fugla eru klakin í útungunarstöðvum á vegum framleiðenda einu sinni til tvisvar í viku. 

Klak eggja foreldrafuglanna tekur um það bil 21 dag. Dagsgömlum er ungum síðan ekið í sérútbúnum kössum í eldishús. 

Eldishúsin eru aðallega á suðvesturhorni landsins; á Kjalarnesi og á Suðurlandi.  Þá eru kjúklingaeldi starfrækt í Borgarfirði, Grindavík, Hrútafirði og á Dalvík.  Þess má geta að vegalengdir sem ungar eru fluttir hér á landi eru stuttar miðað við önnur lönd. Unginn finnur lítið fyrir flutningum miðað við það sem gerist víða erlendis þar sem um langan veg þarf að fara frá útungun í eldishús.

Lykilatriði í ræktun kjúklinga er aðbúnaður, smitvarnir og umhirða í eldishúsum.  Þegar fuglinn kemur í húsið þarf hitastig að vera um 33 gráður.  Hitastigið er síðan lækkað með aldri fuglsins og er um 20 gráður þegar fuglinn hefur náð 20 daga aldri. Fuglinn þarf að hafa frjálst aðgengi að fóðri og vatni allan ræktunartímann. Samsetning fóðurs skiptir ekki síður máli en aðrir þættir í heildarmyndinni. Fuglinn fær hreint og gott vatn að drekka.  Fyrstu 10–12 dagana er gefið svokallað  byrjunarfóður.  Næstu 18–20 dagana er síðan gefið eldisfóður og svo lokafóður síðustu fimm dagana.  Fóðrið í fuglinn er innflutt ýmist full blandað eða sem hrávara og blandað hjá íslenskum fóðurframleiðendum.  Um lítinn markað er að ræða og veðurfarslega ekki hægt að framleiða hráefni í fuglafóður hér á landi en uppistaðan í því er hveiti, maís og soja. Þéttleiki í eldishúsum er 33 til 39 kíló á fermetra sem er mun rýmra en víða í Evrópu þar sem algengt er að miðað sé við 42 kíló.“

Aðbúnaðurinn tekinn út af Matvælastofnun

Sérstakar reglur gilda um dýravelferð í eldishúsum, þar á meðal er varðar lýsingu. Magnús segir að skylt sé að hafa lýsingu að lágmarki 20 lúx og að ljós séu slökkt á í 6 tíma á sólarhring þar af 4 tíma samfellt. Þetta sé þó breytilegt eftir aldri fuglanna. Öll hús séu úttektar- og eftirlitsskyld af Matvælastofnun.

„Síðustu tímana fyrir tínslu er allt fóður tekið frá fuglinum og hann fær aðeins vatn. Þetta er gert til að undirbúa fuglinn fyrir flutning í sláturhús.  Fuglinn er síðan tíndur við litla birtu og settur í kassa. Markmiðið er að gæta þess að flutningur í sláturhús valdi fuglinum sem minnstu álagi.  Allur fugl er handtíndur hjá íslenskum ræktendum. Vegalengdir í sláturhús eru oftast stuttar hér á landi og er fuglinn ekki lengi frá uppeldisumhverfi sínu. 

Ræktun kjúklingsins stendur yfir í 30 til 45 daga en algengast er að ala hann í 33 til 36 daga en þá hefur hann náð um 2,1 til 2,5 kg lífþyngd.  Þá er honum slátrað undir  eftirliti dýralæknis frá Matvælastofnun.“

Innkallanir munu tilheyra fortíðinni hjá Reykjagarði

Íslenskir neytendur geta, að sögn Magnúsar, verið mun öruggari með gæði vörunnar gagnvart fuglasjúkdómum en neytendur á öðrum mörkuðum. „Matvælastofnun hefur nú viðurkennt svokallaða PCR greiningu fyrir salmonellu hjá rannsóknarstofunni Sýni. Þetta gerir það mögulegt að greina salmonellu í kjötsýni á innan við 24 klukkustundum. Reykjagarður nýtir sér þessa aðferð hjá Holtakjúklingi fyrstur íslenskra kjötframleiðenda. Þetta gerir það að verkum að ekkert kjöt fer á markað frá fyrirtækinu án þess að rannsóknarniðurstöður liggi fyrir. Innkallanir á kjúklingi frá Reykjagarði munu því tilheyra fortíðinni,“ segir Magnús. 

Hann segir að vert sé að minnast einnig á þær framfarir sem hafa orðið í kjúklingarækt á síðustu árum. Fóðurnýting hafi batnað til muna og vaxtarhraði fuglanna aukist um þrjú til fjögur grömm á dag, síðustu sjö til tíu ár. 

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Nú eru síðustu hátíðir sumarsins, eða öllu heldur haustsins, að líta dagsins ljó...

Ullarvika á Suðurlandi
Líf og starf 11. september 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi er nú haldin í þriðja sinn. Að Ullarvikunni standa Feldfj...

Sandlóa
Líf og starf 11. september 2024

Sandlóa

Sandlóa er ein af tveimur lóutegundum sem verpa hér. Stóru frænku hennar, heiðló...

Berjaflóra Íslendinga
Líf og starf 10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Ber eru nú í óðaönn að stinga upp kollinum og alltaf notalegt að fara eins og ei...

Brögðóttur Aðalsteinn
Líf og starf 10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Briddssveitir Infocapital og Hótel Norðurljósa tókust á í höfuðstöðvum Bridgesam...

Sveppir fyrir húð, hár og heilsu
Líf og starf 9. september 2024

Sveppir fyrir húð, hár og heilsu

Nú þykir einhverjum fyrirsögnin sérkennileg, enda ef við hugsum okkur húð- eða h...

Að brúka bekki
Líf og starf 9. september 2024

Að brúka bekki

Nýverið kortlagði Vestmannaeyjabær tvær gönguleiðir þar sem tryggt er að ekki sé...

„Við vorum ekki Akureyringar“
Líf og starf 6. september 2024

„Við vorum ekki Akureyringar“

Rit Sögufélags Eyfirðinga, Súlur, er komið út og færir fjölbreytt efni að venju ...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Frekari fækkun sláturgripa
12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum