Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Frá vinstri eru Karl Jónsson á Lamb Inn Öngulsstöðum, Flora, Carolyne Charrington, Guðmundur J. Guðmundsson í Holtseli, Elisabeth, Guðrún Egilsdóttir, Holtseli, Kristín Kolbeinsdóttir, Silvu, hjónin Friðrik Jónsson, Freyvangi og Inga Eydal.
Frá vinstri eru Karl Jónsson á Lamb Inn Öngulsstöðum, Flora, Carolyne Charrington, Guðmundur J. Guðmundsson í Holtseli, Elisabeth, Guðrún Egilsdóttir, Holtseli, Kristín Kolbeinsdóttir, Silvu, hjónin Friðrik Jónsson, Freyvangi og Inga Eydal.
Mynd / HKr
Líf og starf 12. mars 2020

Tilgangurinn er að Eyjafjarðarsveit verði mataráfangastaður í heimsklassa

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Tilgangurinn er að gera Eyjafjarðar­sveit að mataráfanga­stað í heimsklassa,“ segir Karl Jónsson, sem ásamt Sigríði Róbertsdóttur og Einari Erni Aðalsteinssyni hefur unnið að undirbúningi verkefnis sem ber nafnið Matarstígur Helga magra. Undirbúningsstofnfundur var haldinn í janúar og þar voru þessi þrjú kosin í undirbúningsstjórn. Félagið var formlega stofnað fyrr í vikunni þar sem kosin var verkefnastjórn sem á að koma hlutunum af stað, en ætlunin er að formleg opnun matarstígsins verði á komandi vori.

Ýmislegt er í bígerð þetta fyrsta sumar í starfsemi Matarstígsins, m.a. reglulegir bændamarkaðir. Nafn stígsins á sér tilvísun í söguna en Helgi magri var fyrstur manna til að setjast að í Eyjafirði, nánar tiltekið á Kristnesi,  ásamt konu sinni, Þórunni hyrnu. „Það var María Pálsdóttir Hælisstjórnandi sem átti þessa snilldarhugmynd að nafni matarstígsins og var stokkið á það strax. Skemmtileg mótsögn í nafninu sem hægt er að leika sér með endalaust og svo þessi sterka tenging í söguna.“

Unnið hefur verið að verkefninu síðan 2015, en að því stendur Ferðamálafélag Eyjafjarðar. Félagið fékk 500 þúsund króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra 2017 og var hann að stórum hluta nýttur til kynnisferðar til Skotlands þar sem verkefni af svipuðu tagi og því sem nú er verið að ýta úr vör í Eyjafjarðarsveit voru skoðuð. Fyrir valinu var Mull og Iona Food Trail og var tilgangurinn að fræðast um verkefni eyjarskeggja á eyjunni Mull í Skotlandi en matarstígur sem þar er hefur gengið vel og vakið athygli.

Verði ekki of flókið eða kostnaðarsamt að vera með

„Ferðin til Mull í Skotlandi var áhugaverð og við lærðum margt af henni, m.a. að íbúar aðhyllast nú í meira mæli en áður heimaframleiðslu. Þeir sjá kosti þess að selja afurðir sínar í heimahögum og það hefur orðið hvatning í átt að fullvinnslu afurða og að koma þeim á markað. Margir selja afurðir sínar beint á veitingastaði á svæðinu, þannig hefur orðið hugarfarsbreyting meðal matvælaframleiðenda. Bændur hafa farið úr því að vera „bara“ bændur, í það að sjá sjálfa sig sem framleiðendur að heimsklassa afurðum. Það er innilegur áhugi hjá okkur að styðja við bændur og reyna að búa til flöt fyrir þá að auka verðmæti afurða sinna. Það sem er líka athyglisvert úti á Mull er að veitingaaðilar eru nú skuldbundnir til að taka aðra parta af skepnunum en bara bestu bitana. Þá losna framleiðendur við kjötið í heilu lagi. Þetta opnar aftur á nýsköpun og vöruþróun meðal veitingaaðila sem er afar áhugavert. Þá þótti okkur einnig athyglisvert að þeir lögðu áherslu á að það mætti ekki vera of flókið og kostnaðarsamt að taka þátt og við munum hafa það að leiðarljósi,“ segir Karl.

Víðmynd úr Eyjafjarðarsveit. Fyrir miðri mynd er Hvammur, sem er fyrsta býlið innan við Kjarnaskóg og Akureyri. Mynd / HKr. 

10% af allri mjólkurframleiðslu landsins í Eyjafjarðarsveit

Hann segir að Eyjafjarðarsveit sé gjöfult matvælaframleiðsluhérað og byggi á ríkri landbúnaðarhefð. Vilji er til þess að fjölga ferðamönnum í sveitinni, sem er aðeins úr leið fyrir þá flesta. Það þurfi því að vera eitthvert agn sem dragi þá fram í sveit, eitthvað sem lokki þá til að taka sveig út af Þjóðvegi 1. „Við höfum nú þegar talsvert af ferðamannastöðum sem þekktir eru á landsvísu en að geta innrammað þá í svona verkefni er eitthvað sem gerir ekkert annað en að hjálpa til við að efla ferðaþjónustuna,“ segir Karl.

„Við höfum á svo mörgu að byggja, innan sveitarfélagsins er fjölbreytt framleiðsla af ýmsu tagi,  til að mynda framleiða bændur hér um 10% af allri mjólk sem framleidd er í landinu,“ segir Karl og bætir við að kjötframleiðsla sé einnig fjölbreytt; lamb, svín, naut og hross. Þá er gróðurhús til staðar sem m.a framleiðir paprikur og gúrkur, kartöflur eru ræktaðar í sveitinni og eggjabú er starfandi. Af ýmsu er einnig að taka þegar kemur að náttúruafurðum, ber, jurtir og sveppir auk heimaafurða í úrvali.

Í Eyjafjarðarsveit eru fjölbreyttir möguleikar á gistingu, þar eru veitingastaðir og kaffihús, afþreying er í boði, söfn og einstakar verslanir, hægt að fara í ferðir á snjóþrúgum eða á hundasleða og skella sér í jóga. Saga og menning er við hvert fótmál, fögur náttúra, gönguleiðir og skógarreitir sem hægt er að staldra við auk ýmissa áningarstaða. Þá er sveitarfélagið farið í samstarf við Markaðsstofu Norðurlands um uppbyggingu heilsársferðaþjónustu og mun það hefjast í byrjun mars.

Tækifæri fyrir bændur að fullvinna afurðir

„Það er heilmargt sem Eyjafjarðar­sveit hefur upp á að bjóða og með því að brydda hér upp á þessari nýjung sem fólgin er í Matarstígnum setjum við markið hátt og ætlum okkur að gera sveitina okkar að mataráfangastað á heimsmælikvarða. Við höfum metnað til að varðveita og kynna matvælaframleiðslu og íslenska matarmenningu á svæðinu. Jafnframt viljum við skapa tækifæri fyrir bændur til að fullvinna sínar afurðir í auknum mæli en með því auka vonandi bæði þeir og ferðaþjónustuaðilar tekjur sínar. Við sjáum líka fyrir okkur að verkefnið hvetji til nýsköpunar í matvæla- og veitingaframleiðslu,“ segir Karl.

Hann gerir ráð fyrir að aðilar í veitingarekstri, kaffihús, matvælaframleiðendur, gististaðir, sérverslanir og opin býli taki þátt í verkefninu Matarstígur Helga magra. Einnig þeir sem stunda matartengda afþreyingu, námskeið eða viðburði og eins gætu brugghús verið með. Skilyrði til þátttöku segir Karl að verði fá en skýr og mikilvæg. Þar beri hæst að burðarhráefni rétta eða vara eigi uppruna sinn í Eyjafjarðarsveit og að þau hráefni sem nota eigi í rétti eða vörur og fást í sveitarfélaginu séu sannarlega þaðan. „Þá þurfa þátttakendur auðvitað líka að fylgja lögum og reglugerðum,“ segir Karl.

Karl Jónsson sem sæti á í undir­búningsnefnd Matarstígs Helga magra kynnir verkefnið.

Reglulegir bændamarkaðir í sumar

Formlegur stofnfundur Matarstígs Helga magra var nú í vikunni sem fyrr segir en ætlunin er að hleypa fyrstu viðburðum á vegum verkefnisins af stað nú á komandi vori. „Eitt af því sem við förum af stað með nú í byrjun eru bændamarkaðir en við eigum eftir að ákveða hvort þeir verði vikulegir eða hálfsmánaðarlega. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá sveitarfélaginu um að fá aðstöðu fyrir þá við íþróttamiðstöðina á Hrafnagili,“ segir Karl. Þá verða svonefndir Pop-up viðburðir á vegum einstakra þátttakenda í verk­efninu á dagskrá og eins er unnið að því að setja upp matarhátíð í tengslum við Handverkshátíð sem haldin er árlega við Hrafnagil. Loks nefnir Karl að til standi að taka þátt í viðburðinum LocalFood Festival sem haldin verður næsta haust, í október.

„Þetta er það sem við byrjum á en til framtíðar litið eru uppi hugmyndir um að gera fræðslu hátt undir höfði m.a. með því að efna til námskeiða í vinnslu matvæla og matreiðslu. Við höfum áhuga á að taka matarsóun og umhverfismál upp á okkar arma og eins stefnum við að því að eiga samskipti við erlenda kollega okkar sem eru með svipuð verkefni í gangi,“ segir Karl.

Þátttakendur geti mælt árangur sinn

„Eitt af því sem mikilvægt er í svona verkefni er að þátttakendur geti í raun mælt sinn árangur af því í efnahagslegu tilliti. Það tekur auðvitað tíma fyrir okkur að koma þessu almennilega á koppinn en það er mín trú að ef við verðum í þessu af heilum hug og nýtum okkur þau tækifæri sem leynast þarna, muni þetta hafa jákvæð áhrif á starfsemi matvælaframleiðenda og ferðaþjónustuaðila í Eyjafjarðar­sveit,“ segir Karl.

„Eitt af því sem ferðamenn hafa nefnt hvað mest í tilgangi heimsóknar sinnar til Íslands er að upplifa matarmenningu. Með matarstígsverkefninu vonumst við til að laða hingað fleiri ferðamenn sem koma til að dvelja jafnvel lengur en í einn dag. Það er í anda þeirrar ferðamennsku sem trúlegt er að muni þróast enn frekar, að fólk ferðist sjaldnar en dvelji lengur á hverjum stað fyrir sig.“

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...

Viðburðaríkt ár framundan
Líf og starf 3. apríl 2024

Viðburðaríkt ár framundan

Landbúnaðarsafn Íslands rekur sögu sína til ársins 1940, þegar komið var upp saf...

Vilja sveitir landsins að iðandi spilamennsku á ný
Líf og starf 3. apríl 2024

Vilja sveitir landsins að iðandi spilamennsku á ný

Sveitir landsmanna iðuðu á árum áður af spilamennsku. Nú er unnið að því að glæð...