Sögulegt hrun í fjárfestingum í orkugeiranum á heimsvísu
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Heimsfaraldur COVID-19 hefur leitt til mesta hruns í fjárfestingum í orkugeiranum í sögunni, bæði hvað varðar fyrirtæki sem nýta jarðefnaeldsneyti sem og endurnýjanlega orkugjafa.
Þetta kom fram á vefsíðu Alþjóðaorkustofnunarinnar (International Energy Agency – IEA) þann 27. maí. Þar segir að búist sé við umtalsverðu hruni í fjárfestingum í öllum geirum orkuiðnaðarins á þessu ári, allt frá kola- og olíuiðnaði til endurnýjanlegra orkuverkefna.
Vekur þetta athygli þegar horft er á umleitanir erlendra orkufyrirtækja fyrir að fá að reisa fjöldann allan af vindorkuverum á Íslandi í skjóli reglna sem innleiddar voru með samþykkt orkupakka 3 á Íslandi. Af fregnum IEA má leiða líkum að því að ef sæstrengur hefði verið kominn í gagnið frá Íslandi til Evrópu þá sætu menn uppi með gríðarlegar fjárfestingar hérlendis án tekna. Slík staða hefði stórskaðað íslensk orkuframleiðslufyrirtæki og þar með íslenska þjóðarbúið.
Sandsteinn sem mettaður er af olíu (Shale oil). Gríðarlega stór svæði, m.a. í Bandaríkjunum og Kanada, eru með slíkum olíuríkum sandsteini. Olíunni er náð úr berginu með því að dæla heitu gasi, lofti eða vökva niður í sandsteinsjarðlögin undir miklum þrýstingi.
Óviðjafnanleg og yfirþyrmandi hnignun
„Þessi óviðjafnanlega hnignun er yfirþyrmandi bæði að umfangi og hversu hratt þetta dynur yfir,“ segir í frétt IEA. Þetta geti hugsanlega haft alvarlegar afleiðingar fyrir orkuöryggi og verkefni við að framleiða hreina orku.
Í byrjun árs 2020 var orkufjárfesting á heimsvísu á réttri braut að mati IEA, eða með um 2% vöxt. Það hefði orðið mesta aukning útgjalda síðastliðin sex ár ef svo hefði haldið áfram. Eftir að COVID-19 kreppan skall á stöðvaðist stór hluti efnahagslífs heimsins á nokkrum mánuðum. Nú er gert ráð fyrir að fjárfesting á heimsvísu muni dragast saman um 20%, eða um tæplega 400 milljarða dollara, samanborið við síðasta ár, samkvæmt skýrslu IEA um fjárfestingar 2020.
Sandsteinsolíu- og gassvæði (Shale oil) í heiminum. Rauðu svæðin eru þau sem talin eru vinnanleg.
Sögulegt hrun í orkufjárfestingu á heimsvísu
„Þetta sögulega hrun í orkufjárfestingu á heimsvísu er mjög mikið áhyggjuefni af mörgum ástæðum,“ sagði dr. Fatih Birol, framkvæmdastjóri IEA.
„Það þýðir glötuð störf og efnahagsleg tækifæri í dag, auk glataðs orkuframboðs sem við gætum vel þurft á að halda þegar efnahagslífið hefur náð sér á strik. Samdráttur í útgjöldum til lykilfyrirtækja í hreinorkutækni, hættir einnig til að grafa undan uppbyggingu sjálfbærari orkukerfa.“
Matið í skýrslunni World Energy Investment 2020 á þróuninni það sem af er ári, er byggt á nýjustu fyrirliggjandi fjárfestingargögnum og tilkynningum stjórnvalda og fyrirtækja um miðjan maí. Einnig mælingum á framvindu einstakra verkefna, viðtölum við leiðandi aðila í iðnaði, fjárfesta og nýjustu greiningum frá öllum 30 aðildarríkjum IEA. Áætlanirnar fyrir árið 2020 reikna síðan út hugsanlegar afleiðingar fyrir eyðslu heilsársins út frá forsendum um tímalengd lokunar og lögun hugsanlegrar endurheimtar.
Útgjöld almennings vegna olíu orðin lægri en raforkuútgjöld
Þá segir í skýrslu WEI að sambland lækkandi eftirspurnar, lægra verðs og hækkunar kostnaðar á tilfellum þar sem ekki er staðið við greiðslu víxla, þýði að orkutekjur sem fara til stjórnvalda og iðnaðar munu lækka um rúman milljarð dollara árið 2020. Olía er stærstur hluti þessarar lækkunar, þar sem útgjöld til neytenda á heimsvísu vegna olíu eru í fyrsta skipti orðin minni en varið er í kaup á rafmagni.
Skapar verulega áhættu fyrir fjárfestingar í orkugeiranum
Fyrirtæki með skertan efnahagsreikning og óvissar horfur í eftirspurn skera niður fjárfestingar á meðan framkvæmdir eru hindraðar vegna lokana og truflana í birgðakeðjum. Til lengri tíma litið mun þetta þýða hærri skuldir eftir kreppuna og skapa varanlega áhættu fyrir fjárfestingu í orkugeiranum. Þetta gæti verið sérstaklega skaðlegt fyrir sum þróunarríki, þar sem fjármögnunarvalkostir fjárfesta eru takmarkaðri. Ný greining í skýrslu þessa árs sýnir fram á að ríkisfyrirtæki standa fyrir rúmlega helmingi orkufjárfestinga í þróunarhagkerfum.
Þriðjungs samdrætti spáð í fjárfestingum í olíu- og gasiðnaði
Búist er við að fjárfesting á heimsvísu í olíu og gasi muni falla um tæpan þriðjung árið 2020. Nú er þegar þrýst á „shale-iðnaðinn“ (olíusandsteinsvinnsluna í Bandaríkjunum) um að draga úr framleiðslu sinni. Þar hefur traust fjárfesta og aðgengi að fjármagni nær algjörlega þornað upp. Gert er ráð fyrir að fjárfesting í olíusandsteinsvinnslu muni falla um 50% árið 2020 að mati skýrsluhöfunda WEI. Á sama tíma skortir mörg bandarísk olíufyrirtæki nú sárlega fjármagn. Ef fjárfesting helst jafn lítil og nú er þá mun það draga úr framboði á olíu af stærðargráðu sem ekki var gert ráð fyrir fyrr en á árinu 2025, eða um tæplega 9 milljónir tunna á dag. Það skapar greinilega hættu á mörkuðum ef eftirspurn fer svo að snúa aftur á þá braut sem var fyrir kreppuna.
Óttast afturkipp í þróun sjálfbærra orkukerfa
Útgjöld í orkugeiranum stefna í að minnka um 10% árið 2020, sem veldur áhyggjum um að afturkippur verði í þróun öruggari og sjálfbærari raforkukerfa. Fjárfesting í endurnýjanlegri orku hefur samt verið sveigjanlegri í kreppunni en jarðefnaeldsneyti, en útgjöld til sólarorkustöðva á þaki heimila og fyrirtækja hafa orðið fyrir miklum áhrifum af stöðunni. Endanlegar fjárfestingarákvarðanir á fyrsta ársfjórðungi 2020 til nýrra vind- og sólarorkuverkefna féllu niður í það sem var fyrir þremur árum.
Gert er ráð fyrir að 9% samdráttur verði í fjárfestingum í raforkunetum á þessu ári, sem er mikið fall frá árinu 2019. Þá hefur orðið stöðnun í fjárfestingum í mikilvægum þáttum sem áttu að auka sveigjanleika raforkukerfisins. Það er samfara stöðnun í fjárfestingum í orkustöðvum sem nýta metangas sem og fjárfestingum í rafgeymavinnslu sem hafa þurrkast út.
Skýr viðvörunarmerki fyrir raforkuöryggi í framtíðinni
Fatih Birol, framkvæmdastjóri IEA, segir að raforkudreifikerfið hafi verið afar mikilvægt í öllum neyðarviðbrögðum vegna COVID-19.
„Þetta net verður að vera öflugt og áreiðanlegt til að verjast áföllum í framtíðinni. Einnig til að koma til móts við vaxandi hlutdeild vind- og sólarorku. Neikvæð fjárfestingarþróun dagsins í dag eru skýr viðvörunarmerki fyrir raforkuöryggi í framtíðinni,“ sagði Birol.
Bætt orkunýting er önnur meginstoða hreinna orkuflutninga. Þar blasir líka við fjármagnsskortur. Áætluð fjárfesting í aukinni hagkvæmni er talin falla um 10–15% um leið og sala bifreiða og byggingarstarfsemi dregst saman og útgjöld til kaupa á skilvirkari tækjum og búnaði eru afturkölluð.
Heildarhlutdeild orkunotkunar á heimsvísu sem fer í hreina orkutækni – þ.mt endurnýjanlega orku, nýtingu, kjarnorku og kolefnisbindingu, nýtingu og geymslu – hefur verið föst í um það bil þriðjungi á undanförnum árum. Árið 2020 mun það stökkva í átt að 40%, en aðeins vegna þess að jarðefnaeldsneyti tekur svo mikið áfall. Að öllu jöfnu er það langt undir þeim stigum sem þyrfti til að flýta fyrir orkuflutningum.
„Kreppan hefur leitt til minni losunar en af röngum ástæðum. Ef við ætlum að ná varanlegri lækkun á losun um allan heim, þá verðum við að sjá hratt aukningu á fjárfestingu í hreinni orku,“ sagði dr. Birol.
„Viðbrögð stefnumótandi aðila verða mikilvægar – og að hve miklu leyti áhyggjur af orku og sjálfbærni verða samþættar bataáætlunum. Komandi sérskýrsla World Energy Outlook um væntanlega endurheimt IEA mun veita skýrar ráðleggingar um hvernig stjórnvöld geta fljótt skapað störf og hvatt til atvinnustarfsemi með því að byggja upp hreinni og sveigjanlegri orkukerfi sem munu koma löndum þeirra til góða á komandi áratugum.“
Eitt af nýrri fjárfestingarverkefnunum í vatnsorkuverum er Kariba-stíflan í Zambezi-ánni í Simbabve í Afríku. Þurrkar og lækkandi vatnsstaða hafa þó ógnað fjárhagsafkomu þessa mannvirkis. Þetta er á frægðarslóðum dr. David Livingston sem kallaði ána „Hraðbraut Guðs“.
Kolanotkunin eykst hröðum skrefum
COVID-19 kreppan skaðar kolaiðnaðinn vegna minni fjárfestinga í kolaframboði. Þær munu dragast saman um fjórðung á þessu ári. Þrátt fyrir 80% samdrátt í ákvörðunum um uppbyggingu á kolakyntum verksmiðjum síðan 2015, þá heldur kolanotkunin áfram að aukast í heiminum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og tilkynningum voru samþykktar tvöfalt fleiri nýjar kolakyntar verksmiðjur og orkuver á fyrsta ársfjórðungi 2020 en allt árið 2019. Þau eru aðallega í Kína, samkvæmt úttekt IEA.