Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Útisýningin var opnuð fyrr í sumar en hún er við göngustíg sem kallast Sjávarslóð og liggur frá Sauðfjársetrinu og út í Orrustutanga þar sem safnahúsið stendur.
Útisýningin var opnuð fyrr í sumar en hún er við göngustíg sem kallast Sjávarslóð og liggur frá Sauðfjársetrinu og út í Orrustutanga þar sem safnahúsið stendur.
Líf og starf 16. ágúst 2021

Sauðfjársetrið aflýsir stærsta viðburðinum annað árið í röð

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Starfsemin hefur þrátt fyrir allt gengið ágætlega í sumar og aðsókn að Sauðfjársetrinu sem og einnig veitingasalnum Kaffi Kind verið í góðu lagi,“ segir Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli, framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum.

Vegna sóttvarnatakmarkana er mönnum nú nauðugur sá kostur að aflýsa einum vinsælasta viðburði Sauðfjár­setursins, Íslandsmóti í hrútadómum, og þykir það súrt í brotið.

„Við höfum haldið Íslandsmót í hrútadómum óslitið í 17 ár, en nú gerist það annað árið í röð að við þurfum að blása þá af. Hrútaþuklið hefur verið stærsti viðburðurinn í okkar starfi. Hingað hefur streymt fólk alls staðar að af landinu, bændur og búalið, til að taka þátt eða fylgjast með. Við höfum fengið frá 300 og upp í 500 gesti á hrútaþuklið undanfarin ár. Það er því vissulega mjög leiðinlegt að það hittist þannig á að aflýsa þurfi tvö ár í röð, en við því er auðvitað ekki neitt að gera,“ segir Ester.

Náttúrusmiðja með Arfistanum Ásu Þórisdóttur var haldin á Náttúrubarna­hátíðinni á liðnu sumri.

Kórónuveiran setur mark sitt á starfsemina

Sauðfjársetrið á Ströndum er viðurkennt safn sem sinnir öllum þáttum safnastarfs en það er líka mikilvæg menningarmiðstöð í héraði. „Hér hittast heimamenn og eiga saman góðar stundir á margvíslegum viðburðum,“ segir Ester, sem er Siglfirðingur að uppruna en býr á Kirkjubóli og hefur stýrt Sauðfjársetrinu undanfarin ár. Hún dregur ekki úr því að kórónuveirufaraldur hafi sett mark sitt á starfsemina undanfarin misseri, líkt og á alla ferðaþjónustu og menningarstarf. „Það hafa fallið niður stórir viðburðir sem voru á dagskrá,“ segir hún. „Gestafjöldi í fyrra var til dæmis aðeins rúmlega helmingur af því sem vanalegt er, en á hverju ári koma að jafnaði um 6 þúsund gestir í heimsókn til okkar.“

Tókst að halda Náttúrubarnahátíðina

Ester segir að þrátt fyrir allt hafi sumarið gengið vel og hún er ánægð með aðsókn það sem af er sumri. Gestir á Kaffi Kind, sem rekin er í tengslum við Sauðfjársetrið, hafa einnig verið margir. Hún segir að tekist hafi að halda eina hátíð í sumar, Náttúrubarnahátíð, um miðjan júlí en setrið rekur Náttúrubarnaskóla sem hliðarverkefni við aðra starfsemi.

Sá skóli stendur fyrir hátíðinni og fleiri viðburðum fyrir náttúrubörn á öllum aldri, m.a. dagsnámskeiðum. Markmið Náttúrubarnaskólans er að kenna fólki að veita náttúrunni athygli og að börn upplifi og læri með því að sjá, snerta og gera sjálf.

Listaverkið Njörður eftir Arngrím Sigurðsson er eitt þeirra sem skoða má á einni af sýningum Sauðfjársetursins. Sú sýning er utandyra og hægt að skoða allan sólarhringinn.

Sauðfé og sveitafólk á Ströndum

Nokkrar sýningar eru jafnan á Sauðfjársetrinu. Fastasýningin í ár heitir Sauðfé og sveitafólk á Ströndum og er í aðalsal Sævangs, þar sem setrið er til húsa. Sævangur stendur við Steingrímsfjörð og var áður félagsheimili Tungusveitunga. Ester segir að auk þess hafi tvær nýjar sýningar verið opnaðar á árinu. Annars vegar sýning um förufólk og flakk í gamla sveitasamfélaginu og hins vegar ljósmyndasýning með myndum úr albúmi Rósu Jónídu Benediktsdóttur frá Kirkjubóli.

Sú sýning heitir Svipmyndir úr sveitinni og á henni eru líflegar mannlífsmyndir úr Tungusveit og frá Kirkjubóli, teknar á árabilinu 1930 til 1965.

Sérsýningum reglulega skipt út og nýjar settar upp

„Við skiptum sérsýningum reglulega út, en í ár erum við með tvær sýningar í gangi líka. Önnur þeirra heitir Álagablettir og fjallar um slíka bletti, þjóðtrú og þjóðsögur á Ströndum. Ég geri ráð fyrir að sú sýning verði tekin niður næsta vetur, en til stendur í staðinn að gefa út bók um efnið í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem starfrækt er á Hólmavík,“ segir Ester. Sauðfjársetrið og Rannsóknasetrið unnu saman fyrir jólin í fyrra að frumraun beggja í bókaútgáfu þegar gefin var út bókin Strandir 1918, en hún inniheldur greinar um þetta sögulega ár, ferðasögur og dagbækur frá þessum tíma.
Hin sérsýningin var opnuð í fyrra og segir Ester hana henta sérlega vel á Kóvid-tímum. „Hún er nefnilega utandyra, við göngustíg sem kallaður er Sjávarslóð og liggur frá Sauðfjársetrinu og út í Orrustutangann sem safnahúsið stendur á. Þá sýningu er hægt að skoða allan sólarhringinn og allt árið,“ segir hún en fjöldi skilta er við stíginn og einnig listaverk og skúlptúrar eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson.

Undirbúa 20 ára afmælið
Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli, framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum, með dóttur sinni, Dagrúnu Ósk Jónsdóttur yfirnáttúrubarni.

Sauðfjársetrið var stofnað árið 2002 og er undirbúningur fyrir 20 ára afmælið að ári þegar hafinn. Ester segir að m.a. sé ætlunin að opna nýja sýningu, gefa út myndabók, gera hlaðvarpsþætti og heimildamynd, auk þess sem sitthvað fleira verði gert af þessu tilefni. Vinna er þegar hafin við að uppfæra vef setursins, saudfjarsetur.is, „og vonandi verður svo líka hægt að halda alla þá viðburði á næsta ári sem fallið hafa niður undanfarið, fólki veitir ekki af því að hittast og gleðjast saman,“ segir hún.

Sauðfjársetrið er opið daglega yfir sumartímann frá kl. 10 til 18 og yfir veturinn í tengslum við viðburði og heimsóknir hópa. Ester segir að setrið standi fyrir margvíslegum viðburðum, bæði fyrir heimamenn og gesti. Hún nefnir þjóðtrúarkvöld sem jafnan er haldið í september og sviðaveislu í október, auk þess sem safnið taki virkan þátt í margvíslegum viðburðum og hátíðum sem efnt er til í Strandabyggð. Heimafólk kemur saman og spilar félagsvist á safninu og þar eru líka sögustundir yfir veturinn, tónleikar af og til og jafnvel æfð og sýnd leikrit í samvinnu við Leikfélag Hólmavíkur.

Auka framboð á efni á ensku

Meirihluti gesta Sauðfjársetursins eru Íslendingar en sýningartextar eru einnig á ensku og á aðalsýningunni líka á þýsku. Ester segir að safnið taki þátt í verkefni Vinnumálastofnunar „Hefjum störf“ og hafi ráðið til sín þýðanda til 6 mánaða til að auka framboð á efni á ensku.

Þjóðfræðimenntaðir starfsmenn eru í hlutastörfum yfir veturinn og vinna þá að sérverkefnum við skráningu, uppsetningu sýninga, við útgáfu og miðlun. Um þessar mundir er í gangi stórt verkefni sem nefnist Menningararfur í ljósmyndum og snýst um söfnun, skráningu og miðlun gamalla Strandamynda. Helstu bakhjarlar Sauðfjárseturs, sem er sjálfeignastofnun, eru Safnasjóður, Uppbyggingasjóður Vestfjarða og sveitarfélagið Strandabyggð.

Skylt efni: Sauðfjársetrið

Stjörnuspá 22. febrúar - 7. mars
Líf og starf 22. febrúar 2024

Stjörnuspá 22. febrúar - 7. mars

Vatnsberinn tekur nú fyrstu skref í því sem mun hafa afar mikil áhrif á líf hans...

Teista
Líf og starf 21. febrúar 2024

Teista

Teista er meðalstór svartfugl sem finnst víða meðfram ströndinni allt árið um kr...

Stjörnuspá 8. febrúar - 22. febrúar
Líf og starf 20. febrúar 2024

Stjörnuspá 8. febrúar - 22. febrúar

Vatnsberinn er óvenju bjartsýnn á komandi vikur og hefur í kollinum hugmyndir að...

Hvanneyrar-pistlar
Líf og starf 19. febrúar 2024

Hvanneyrar-pistlar

Hvanneyri í Borgarfirði er vel þekktur skólastaður. Að stofni til byggðarhverfi ...

Hrútspungar og heimagerð BBQ-sósa
Líf og starf 16. febrúar 2024

Hrútspungar og heimagerð BBQ-sósa

Einn af meginþáttum þorra er neysla hefðbundinna íslenskra matvæla sem kallast þ...

Mikil ánægja með fjölmenningarráð
Líf og starf 16. febrúar 2024

Mikil ánægja með fjölmenningarráð

Fjölmenningarráð hefur tekið til starfa í Rangárþingi eystra.

Stemning á þorrablótum
Líf og starf 15. febrúar 2024

Stemning á þorrablótum

Nú hefur þorrinn gengið í garð og lyfta landsmenn sér upp á þorrablótum. Þegar þ...

Kúfskelin verður allra dýra elst
Líf og starf 13. febrúar 2024

Kúfskelin verður allra dýra elst

Elsta kúfskel sem fundist hefur við Ísland klaktist árið 1499; um það bil sem Sv...